Heilsueflandi samfélag í Mosfellsbæ

heilsueflandiopna

hvaderBæjarstjórn Mosfellsbæjar tók ákvörðun um að verða Heilsueflandi samfélag á 25 ára afmæli sveitarfélagsins í ágúst 2012. Heilsueflandi samfélag er viðamikið lýðheilsu- og samfélagsverkefni og er markmið þess í stuttu máli að auðvelda fólki að taka heilsusamlegar ákvarðanir og lifa heilbrigðu lífi.
Um er að ræða þróunarverkefni þar sem Mosfellsbær hefur, sem forystusveitarfélag, rutt brautina fyrir önnur samfélög sem taka þátt í verkefninu. Verkefnið tekur á öllum hliðum heilsu, þ.e. líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu og vellíðan. Til að ná utan um þetta viðamikla verkefni var því skipt í fjóra áhersluþætti. Þeir eru: næring, hreyfing og útivist, líðan og geðrækt og lífsgæði. Þessir áhersluþættir eru taldir geta náð yfir þau atriði sem er mikilvægt að velta fyrir sér þegar kemur að heilsu og lífsstíl. Lögð er áhersla á einn þátt á ári. Nú þegar er búið að fara yfir næringu og á síðastliðnu ári hefur áherslan verið á hreyfingu og útivist.
Ávinningurinn af verkefni sem þessu getur m.a. verið sá að tekið er mið af heilsu og heilsueflingu við alla stefnumótun og ákvarðanatöku í samfélaginu („Health in all policies“). Að sparnaður náist vegna minni veikinda og hættu á lífsstílssjúkdómum og heilsuvitund íbúa eykst. Takmarkið er einfaldlega bætt heilsa og betri lífsgæði allra í samfélaginu okkar.

Heilsueflandi verkefni eru víða
Alls kyns heilsueflandi verkefni og viðburðir hafa verið í gangi síðustu ár og má þar m.a. nefna árlega Heilsudaginn okkar, þátttöku í Hreyfivikunni „Move Week“, samstarf við Ferðafélag Íslands, stofnun heilsueflandi skólahóps þvert á skólastig, kynningu á útivistarsvæðum bæjar­ins, Kærleiksvikuna, gjaldfrjálsa fjölskyldutíma í íþróttahúsinu að Varmá, málþing í samvinnu við Umhverfisstofnun, virka þátttöku í Evrópsku samgönguvikunni, dreifingu á fjölnota innkaupapokum á öll heimili í Mosfellsbæ og svo mætti lengi telja.

Heilsuefling fyrir alla aldurshópa
Félag eldri borgara og félagsstarf þeirra hefur ekki látið sitt eftir liggja og tekið virkan þátt í verkefninu. Meðal annars hefur Anna Sigríður Ólafsdóttir doktor í næringarfræði haldið fyrirlestur um næringu eldri borgara. Dansleikfimi var kynnt inn í félagsstarfið árið 2014 sem nýjung í hreyfingu og hefur verið afar vel sótt. Einnig hefur íþróttanefnd Famos boðið upp á opnar æfingar í Hreyfivikunni svo eitthvað sé nefnt. Í samvinnu við félag sjúkraþjálfara voru settir upp bekkir víða í kringum miðbæinn til að hvetja til hreyfingar þeirra sem eiga erfitt með gang.

Hér fyrir neðan má sjá opnu úr nýjasta tölublaði Mosfellings sem er tileinkuð  kynningu á þróunarverkefninu Heilsueflandi samfélag.