Góð samskipti læknis og sjúklings eru lykilatriði

hallafroda

Lýtalæknar takast á við afleiðingar slysa og sjúkdóma. Þeir hjálpa fólki vegna útlitslýta hvort sem þau eru meðfædd eða áunnin og geta einnig aðstoðað við að draga úr ótímabærum öldrunareinkennum.
Halla Fróðadóttir er ein af þeim sem starfar sem lýtalæknir. Hún ákvað ung að aldri að leggja læknavísindin fyrir sig en veit ekki hvaðan sú köllun kom. Halla opnaði nýverið sína eigin læknastofu í Klíníkinni Ármúla þar sem hún framkvæmir bæði lýta- og fegrunaraðgerðir en hún sinnir einnig störfum á lýta- og brunadeild Landspítalans.

Halla fæddist í Dalsgarði í Mosfellsdal 9. febrúar 1973. Foreldrar hennar eru þau Steinunn Björk Guðmundsdóttir ritari og Fróði Jóhannsson garðyrkjubóndi en þau eru bæði látin.
Systkini Höllu eru: Högni fæddur 1969, járningameistari og tamningamaður í Þýskalandi, Ragna fædd 1970, textíl- og fatahönnuður og Birta fædd 1980, arkitekt.

Foreldrar mínir voru bóhemar
„Ég fæddist heima í Dalsgarði og ólst þar upp. Ég tilheyri einni af þessum stóru fjölskyldum sem hafa búið í Mosfellsbæ frá miðri síðustu öld. Dalsgarðsfjölskylduna þekkja margir, hún hefur þótt sérstök og fer sínar eigin leiðir. Stór hluti fjölskyldunnar býr í Dalnum og er gott samband manna á milli.
Foreldrar mínir voru bóhemar og settust hér að 1969. Þau héldu listrænt heimili og það var mikið um tónlist. Þau voru skapandi og litríkir einstaklingar og mjög hvetjandi sama hvað við systkinin tókum okkur fyrir hendur. Þau létust bæði árið 2012 langt fyrir aldur fram og við söknum þeirra mikið.
Í Dalsgarði hefur verið rekin gróðrarstöð frá árinu 1950, fyrst af afa mínum Jóhanni, svo tók Fróði faðir minn við. Nú rekur Gísli, föðurbróðir minn stöðina.“

Bjuggum til leynifélag
„Þegar ég var að alast upp var mikið af krökkum á sama aldri og ég í Dalnum og oft var mikið stuð. Við spiluðum fótbolta, vorum upp í fjalli og bjuggum til leynifélag. Það var frábært að alast hér upp með öllu því frelsi sem því fylgdi, svo við tölum ekki um nálægðina við náttúruna.
Ég gekk í Varmárskóla og var bekk á undan alla mína skólagöngu. Ég var stundum ofvirk, talaði mikið og var oft í miklu stuði. Mamma heyrði eitt sinn útundan sér að einn kennarinn hefði sagt: „Hún er óskaplega músíkölsk hún Halla en mikið er hún óhamin.“ Ég var nú samt ekki til mikilla vandræða,“ segir Halla með afsökunartón og brosir.

Dansaði í Gleðibanka myndbandinu
„Ég mátti aldrei missa af neinu og varð að vera með í öllu. Ég spilaði á fiðlu, æfði handbolta, fór á skíði, var í hestaklúbbnum og gott ef ég var ekki að vinna á Western Fried líka.
Ég fór mikinn í freestyle dansi og keppti mörg ár í röð í Tónabæ með vinkonum mínum. Hápunktur ferilsins var þegar hópurinn var fenginn til að dansa í Gleðibanka myndbandinu.
Ég var mjög sjálfstæð á mínum yngri árum, kannski einum of. Ég held að ég hafi jafnvel fengið of mikið frelsi, mig skorti stundum aga og aðhald.
Frá Gaggó Mos fór ég í Menntaskólann við Hamrahlíð og útskrifaðist vorið 1992. Ég naut mín vel í MH og þar eignaðist ég margar af mínum bestu vinkonum í dag.“

Giftu sig í fallegum lundi
Halla var aðeins 14 ára þegar hún kynntist manninum sínum, Hákoni Péturssyni. Hann er smiður og rekur sitt eigið fyrirtæki. „Ég greip hann glóðvolgan þegar hann flutti í Dalinn,“ segir Halla og glottir. „Við giftum okkur í fallegum lundi í Laxárnesi í Mosfellsdal árið 2000. Við eigum þrjá stráka, Mána fæddan 2002, Bjart fæddan 2004 og Fróða fæddan 2012.
Við fjölskyldan búum á æskuheimili mínu og erum sjö í heimili og svo erum við líka með landnámshænur, hesta, hund og kött. Bróðursonur minn býr hér hjá okkur núna og svo erum við með au pair frá Nepal en hann hefur verið hjá okkur síðan 2014.
Við erum mikið sveitafólk og viljum hvergi annars staðar vera. Við erum mikið úti í náttúrunni og erum dugleg að ferðast. Svo erum við í skot- og stangveiði sem er að verða nýja fjölskyldusportið.“

Með óstöðvandi útþrá og ferðaveiki
„Eftir menntaskóla tók ég mér árs leyfi frá námi og fór til Ameríku. Ég lærði ensku og tók nokkur fög í háskóla í Kaliforníu til að undirbúa mig undir nám í læknisfræði. Ég ætlaði mér alltaf að verða læknir, veit svo sem ekki hvaðan sú köllun kom en þetta stendur víst í stjörnukortinu mínu.
Ég útskrifast frá læknadeild HÍ 2001. Ég tók mér ársfrí frá náminu veturinn 1997-1998 þegar við Hákon skelltum okkur í heimsreisu sem tók átta mánuði. Það var ekki aftur snúið, við höfum verið með óstöðvandi útþrá og ferðaveiki síðan.“

Fluttu til Svíþjóðar
„Vorið 2003 fluttum við til Svíþjóðar þar sem ég fór í sérnám í lýtalækningum. Árin í Svíþjóð voru frábær og þarna var virkilega gott að búa. Ég verð nú samt að viðurkenna að mér þótti Svíarnir vera stundum óttalega ferkantaðir og ég saknaði stundum óreiðunnar á Íslandi. Við fluttum aftur heim til Íslands sumarið 2010.“
Sérhæfð í uppbyggingu brjósta
Halla starfar á lýta- og brunadeild Landspítalans við almennar lýtalækningar ásamt því að starfa á sinni eigin læknastofu. „Það eru mjög mismunandi ástæður þess að einstaklingar leita til lýtalækna. Við sjáum um ýmiss konar aðgerðir, vegna alvarlegra brunasára, gerum aðgerðir á lýtum, meðferð á sortuæxlum og öðrum húðkrabbameinum. Ég hef sérhæft mig í uppbyggingu brjósta eftir krabbamein.
Ég opnaði nýverið mína eigin stofu þar sem ég geri allar almennar fegrunaraðgerðir sem og minni lýtaaðgerðir. Ég legg mikið upp úr góðum samskiptum við mína sjúklinga. Væntingar sjúklinga í lýtalækningum eru oft miklar og stundum þarf að draga úr þeim.
Í langflestum tilvikum gengur allt vel en það geta komið upp fylgikvillar sem getur verið erfitt fyrir sjúklinga að takast á við og er því nauðsynlegt að fylgja þeim vel eftir og hjálpa þeim að takast á við þau vandamál sem síðar geta komið upp.“

Fæ mikla hugarró við lestur
Ég er núna að vinna í því að huga betur að sjálfri mér, hreyfa mig meira og svo er ég líka að reyna að temja mér hugleiðslu. Ég les mikið og fæ mikla hugarró við lestur.
Ég nýt þess líka að hitta fjölskyldu mína og vini. Uppáhaldskonurnar í lífi mínu eru systur mínar Ragna og Birta, þær eru mér ótrúlega mikilvægar og við erum mjög nánar.“

Mosfellingurinn 20. apríl 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs