UMFUS lætur gott af sér leiða

umfus2

UMFUS ákvað á dögunum að halda kóte­lettu-styrktarkvöld fyrir sína menn í ungmennafélaginu Ungir sveinar. Um 40 karlar í karlaþrekinu voru saman komnir þann 1. apríl þar sem fólk gæddi sér á smjörsteiktum kótelettum með öllu tilheyrandi í golfskálanum í Mosfellsbæ.
Ákveðið var að ágóðinn rynni í gott málefni og varð fyrir valinu ung fjölskylda í Litlakrika. Ísfold Kristjánsdóttir, Þórður Birgisson og synir þeirra þrír eru nýflutt heim frá Danmörku en Ísfold hefur barist við krabbamein að undanförnu.

Kemur sér vel í baráttunni
Það er því von UMFUS-manna að ágóðinn komi sér vel í komandi baráttu en alls söfnuðust 310.000 kr. á kvöldinu. Þeir vilja koma sérstökum þökkum til Kjötbúðarinnar, Ölgerðarinnar og Golfklúbbs Mosfellsbæjar fyrir þeirra framlag. Öll innkoma rann því beint í málefnið.
Elías Níelsson er þjálfari hópsins og skoraði á formennina að standa fyrir kótelettukvöldi sem síðar var breytt í styrktarkvöld og hópurinn lét gott af sér leiða.
Á myndinni má sjá formennina Guðleif Kristinn Stefánsson og Gísla Pál Davíðsson afhenda fjölskyldunni styrkinn. Fyrir framan ungu hjónin standa synirnir þrír, Vésteinn, Ævar og Þrándur.