Að gefa af sér gerir sálinni gott

huldamargret

Hulda Margrét Rútsdóttir verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ segir að með auknum fjölda ferðamanna sé hætt við að óhöppum fjölgi og því mikilvægt að geta brugðist skjótt við.

Hulda tók á móti mér í húsakynnum Rauða Krossins í Þverholti. Námskeiði í ensku fyrir hælisleitendur var að ljúka og eftir að þeir höfðu kvatt settumst við niður og byrjuðum að spjalla. Ég tók strax eftir því hvað Hulda hefur einstaka nærveru, hún er hlý, brosmild og gefandi.
Rauði krossinn í Mosfellsbæ sinnir ýmsum verkefnum í nærsamfélaginu ásamt því að taka þátt í verkefnum á landsvísu. Kjalarnes og Kjós tilheyra líka starfssvæði deildarinnar svo svæðið er býsna víðfemt.

Hulda Margrét er fædd í Kaupmannahöfn 24. nóvember 1976. Foreldrar hennar eru þau Guðrún Edda Guðmundsdóttir og Finnbogi Rútur Hálfdánarson en þau eru bæði lyfjafræðingar. Hulda á tvö yngri systkini, Guðrúnu fædda 1981 og Guðmund Sigurð fæddan1985.
Foreldrar Huldu fluttu frá Danmörku til Reykjavíkur þegar Hulda var á fyrsta ári. Þau byggðu sér svo hús í Mosfellsbæ og fluttu þangað þegar hún var á sjötta ári.
„Ég lék mér mikið úti þegar ég var barn. Á sumrin var ég nær öll kvöld úti á auða svæði eins og við kölluðum leiksvæðið á milli Bergholts og Barrholts. Þar voru spiluð heilu fótboltamótin með krökkunum úr hverfinu.“

Frábært að alast upp í Mosó
„Það var frábært að alast hérna upp. Ég gekk í Varmárskóla eins og öll börn í Mosfellsbæ í þá daga. Ég lærði á píanó og söng í barnakórnum í nokkur ár en íþróttirnar áttu hug minn allan og ég hætti í tónlistinni og æfði fót- og handbolta af kappi allan grunnskólann.
Ég útskrifast úr Menntaskólanum við Sund 1996. Námið lá vel fyrir mér og þetta var skemmtilegur tími. Ég var enn á kafi í fótboltanum og æfði af krafti öll menntaskólaárin.“

Lærði að standa á eigin fótum
„Að loknu stúdentsprófi ákvað ég að taka mér árs frí og hugsa málið hvað ég vildi læra. Ég flutti til Brussel til að gerast au-pair og læra frönsku. Það var mikil og góð lífsreynsla og ég lærði að standa á eigin fótum. Stuttu eftir að ég flutti út kynntist ég manninum mínum, Allani Richardson.
Eftir tæpa árs dvöl í Brussel ákvað ég að fara í háskólanám til Amsterdam. Ég valdi alþjóðasamskipti með þróunarlandafræði sem aukagrein og útskrifaðist með meistarapróf árið 2003.
Það var ekki auðvelt að fá vinnu tengda náminu í Hollandi, ég vann sem aðstoðarmaður bókara þar til við fluttum heim til Íslands í ágúst 2004.“

Gaman að taka þátt í uppbyggingunni
Við komuna til Íslands hóf Hulda störf sem upplýsingafulltrúi á Gljúfrasteini, heimili Halldórs Laxness, sem búið var að breyta í safn. „Ég vann á Gljúfrasteini í tæp tólf ár. Það var lærdómsríkur tími og virkilega gaman að fá að taka þátt í uppbyggingu á safninu alveg frá upphafi en það opnaði haustið 2004. Verkefnin voru fjölbreytt, allt frá því að taka á móti gestum, skrifa greinar og skipuleggja viðburði og svo fór maður í snjómokstur ef svo bar undir,“ segir Hulda kímin.

Fjögur börn á sjö árum
„Eftir komuna til landsins bjuggum við hjá foreldrum mínum en keyptum okkur svo íbúð í Leirutanga þar sem við búum enn. Eiginmaður minn Allan, sem er menntaður hljóðmaður, fór að vinna sem frístundaleiðbeinandi og skólaliði en hann starfar í dag á Skálatúni.
Ég var rétt tæplega þrítug þegar frumburðurinn, Guðrún Aisha, fæddist 2006. Hin þrjú fylgdu svo í kjölfarið. Anna Malia 2008, Aron Rútur 2011 og Rakel Elaisa 2013. Elstu þrjú spila fótbolta með Aftureldingu og sú yngsta hefur verið í íþróttaskólanum.
Áhugamálin okkar eru að njóta lífsins með fjölskyldu og vinum og okkur finnst gaman að ferðast innanlands og utan. Draumurinn er að komast á æskuslóðir eiginmannsins til Aruba í Karíbahafinu og aldrei að vita nema það verði að veruleika.“

Tryggir virðingu fyrir mannlegu lífi
Í lok febrúar á síðasta ári breytti Hulda um starfsvettvang og starfar nú sem verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ í 60% starfi auk þess sem hún starfar við þýðingar á sjónvarpsefni. Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á samskiptum og mannúðarmálum.
„Rauði krossinn á Íslandi er hluti af stærstu mannúðar- og hjálparsamtökum heims og reynir að vernda líf og heilsu berskjaldaðra hópa og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi. Hreyfingin er borin uppi af sjálfboðaliðum.
Rauði krossinn í Mosfellsbæ sinnir ýmsum verkefnum í nærsamfélaginu ásamt því að taka þátt í verkefnum á landsvísu.“

Skiptifatamarkaður fyrir börn
„Ég held ég geti fullyrt að við hér í Mosó séum eina Rauðakrossdeildin á landinu sem er með skiptifatamarkað fyrir börn. Fólk getur komið með föt sem börnin eru vaxin upp úr og valið ný í staðinn. Skiptifatamarkaðurinn er opinn þegar starfsemi er í húsinu. Að skiptast á fötum í stað þess að kaupa alltaf ný snýst um meira en bara sparnað því það er líka umhverfisvænt.
Rauði krossinn nýtir allan textíl. Jafnvel götóttir sokkar, gamlar tuskur og ónýtar gardínur fara ekki til spillis heldur nýtast í efnisendurvinnslu og er tekið við því í Sorpu.“

Útbúa fatapakka til fátækra barna
„Prjónahópurinn, Föt sem framlag, hittist hér og prjónar og saumar. Hópurinn útbýr svo fatapakka sem fer til fátækra barna í Hvíta-Rússlandi.
Sjálfboðaliðar Rauða krossins sjá um heimanámsaðstoð fyrir krakka í 1. til 10. bekk. Heimsóknavinir heimsækja fólk vikulega og hlutverk þeirra er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju. Hundavinir eru líka alltaf vinsælir.
Í fyrra byrjuðum við með gönguhóp og sjálfboðaliði frá okkur stýrir göngunni. Það eru allir velkomnir með og gengið er á rólegum hraða. Þetta er upplögð leið til þess að kynnast nýju fólki.“

Höfum öll eitthvað að gefa
„Undanfarna mánuði höfum við opnað fjöldahjálparstöð í Mosfellsbæ vegna slysa eða óhappa sem hafa orðið í nágrenni við okkur. Með auknum fjölda ferðamanna er hætt við að óhöppum fjölgi og því mikilvægt að geta brugðist skjótt við.
Rauði krossinn heldur fjölda námskeiða á ári hverju eins og í skyndihjálp, neyðarvörnum og ýmsu öðru.
Það er auðvelt að gerast sjálfboðaliði, það er hægt að skrá sig á heimasíðunni eða hafa samband í tölvupósti eða síma. Það mikilvægasta sem við eigum er tími og að gefa af sér gerir sálinni gott. Við höfum öll eitthvað að gefa. Mosfellingar eru öflugir þegar þeir standa saman og geta áorkað miklu. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs við þá.“

Mosfellingurinn 2. febrúar 2017
Myndir og texti: Ruth Örnólfs