Stærsta innanhússsamkoma ársins

þorró2017

Þorrablót Aftureldingar fer fram laugardaginn 21. janúar. Að vanda fer blótið fram í íþróttahúsinu að Varmá og opnar húsið kl. 19. Miðasala og borðaúthlutun verður föstudaginn 13. janúar á Hvíta Riddaranum og hefst kl. 18.
„Þetta er í tíunda sinn sem blótið er haldið í þessari mynd og það er svo til sama fólkið hefur verið í þorrablótsnefnd öll þessi ár,“ segir Rúnar Bragi forseti þorrablótsnefndar.
„Undanfarin ár hefur verið uppselt og færri komist að en viljað. Mikil stemning hefur myndast við borðaúthlutunina en þetta verður í fyrsta skipti sem miðasala hefst á sama tíma. Einungis verður hægt að taka frá sæti gegn keyptum miða.
Líkt og í fyrra verðum við bæði með langborð og hringborð. Hringborðin eru seld sem svokölluð VIP-borð en þau eru aðeins seld í heilu lagi og þeim fylgja fljótandi veigar og einhver forréttindi.“

Borðaskreytingar í hádeginu
Dagskráin er veigamikil og fjölbreytt en að þessu sinni mun Logi Bergmann sjá um veislustjórnina, Raggi Bjarna mun troða upp og hljómsveitin Made in sveitin mun leika fyrir dansleik með Hreim, Stef­aníu­ Svavars og Eyþór Inga í fararbroddi.
„Það mun verða mikið um dýrðir, Tríóið Kókos mun taka vel á móti gestunum og Geiri í Kjötbúðinni sér um veitingarnar en að vanda munu allir finna eitthvað við sitt hæfi. Auk hefðbundins þorramatar mun Geiri bjóða upp á lambalæri og með því.
Borðaskreytingar eru stór hluti af blótshaldinu hjá mörgum hópum og vitum við til þess að undirbúningur er víða hafinn. Við erum alltaf með óháða dómnefnd, en vinningsborðið fær bæði farand- og eignarbikar. Skreytingarnar fara fram á blótsdegi kl. 12-13:30,“ segir Rúnar Bragi.
Allar upplýsingar um blótið má finna á Facebook síðunni Þorrablót Aftureldingar.