„Gott að koma heim og hlaða batteríin“

Jökull með splunkunýjan og sérsmíðaðan gítar eftir gítarsmiðinn Peter Turner. Mynd/Raggi Óla

Undanfarin tvö ár hafa verið viðburðarík hjá strákunum í mosfellsku hljómsveitinni Kaleo. Blaðamaður Mosfellings hitti Jökul Júlíusson, söngvara hljómsveitarinnar, sem staddur er hér á landi í fríi yfir hátíðarnar.
„Það er rosalega gott að koma heim og hlaða batteríin. En ég er líka búinn að nota tímann vel í að semja ný lög og texta. Ég fer ekki aftur út fyrr en eftir þorrablótið, sem er frábært því ég var mjög svekktur að geta ekki komið í fyrra.“

Ferðast um í tveimur rútum
„Þetta er lengsta fríið sem við höfum fengið síðan við fórum út fyrir tveimur árum en við höfum verið á fullu síðan. Við fórum til London í febrúar 2015 til að taka upp nýtt efni fyrir erlendan markað.
Í kjölfarið fluttum við til Texas í Bandaríkjunum þar sem við fengum hús í útjaðri Austin. Þar bjuggum við þangað til í apríl 2016 en þá fluttum við til Nashville. Við erum nú minnst þar því við erum alltaf á ferðinni. Við ferðumst um á tveimur lúxusrútum. Ég er með eina rútu og strákarnir með aðra og við erum alltaf með sirka 10 manna „crew“ með okkur.“

Eru búnir að spila í 48 fylkjum
Kaleo gaf út hljómplötuna A/B í júní en hún hefur nú þegar hlotið gull í Bandaríkjunum og platínu í Kanada. „Við vorum að koma úr fimm mánaða túr um Bandaríkin og Evrópu þar sem við erum að fylgja eftir útgáfu plötunnar. Við höfum svo til spilað upp á hvern einasta dag.
Svo gengur þetta líka mikið út á að komast að hjá útvarpsstöðvunum, hitta fólk og byggja upp tengslanet. Þetta er svo svakalega stór markaður. Þetta er alveg þrotlaus vinna, við erum búnir að spila í 48 fylkjum í Bandaríkjunum á þessum tveimur árum. Við eigum Alaska og Havaí eftir, en við spilum á Havaí í apríl,“ segir Jökull.

Um 200 manns koma að hljómsveitinni
Hljómsveitin hefur verið tilnefnd til ýmissa viðurkenninga en Billboard útnefndi Kaleo sem bestu nýju rokkhljómsveit ársins 2016. Árið 2017 er orðið fullbókað hjá Kaleo og bókanir farnar að berast fyrir árið 2018.
„Umboðsskrifstofan og plötufyrirtækið sjá um öll þessi mál fyrir okkur, þetta er orðið rosalegt batterí. Ég myndi ætla að það séu yfir 200 manns sem koma að hljómsveitinni á einhvern hátt á hverjum degi.“

Vill sjá aðstöðu fyrir unga listamenn
„Það vekur athygli að við komum frá 9 þúsund manna bæ á Íslandi. Og að við séum búnir að vera saman í hljómsveit síðan í Gaggó. Við höfðum æfingaaðstöðu í gamla Selinu sem bærinn bauð upp á, æfðum þar þegar við vildum, meðal annars fyrir Músíktilraunir.
Ég myndi vilja sjá að boðið væri upp á svona aðsöðu fyrir unga listamenn í Mosfellsbæ í dag. Við eigum svo mikið af hæfileikaríkum ungmennum sem þarf að halda vel utan um. Það er mér mjög mikilvægt því ég man hvað þetta gerði mikið fyrir mig. Það er allt annað að spila inni í herbergi eða syngja og spila í míkrafón og magnara,“ segir Jökull að lokum.