Íbúar í Mosfellsbæ ánægðastir

Mosfellsbær fær hæstu einkunn.

Mosfellsbær fær hæstu einkunn.

Mosfellsbær er með ánægðustu íbúana og með hæstu einkunn samkvæmt árlegri könnun Capacent Gallup. Könnunin mælir viðhorf íbúa til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins.
Þegar íbúar í Mosfellsbæ eru spurðir hversu ánægðir eða óánægðir þeir séu með Mosfellsbæ sem stað til að búa á eru 97% aðspurðra ánægðir eða mjög ánægðir. Þetta kemur fram í frétta­tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum
Alls eru 86% íbúa í Mosfellsbæ ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar og ánægja með þjónustu í leikskólum bæjarins mælist um 82%. Spurðir um þjónustu Mosfellsbæjar í heild eru 84% mjög eða frekar ánægðir.
Niðurstöður síðustu ára sýna að ánægja íbúa með þjónustuna í Mosfellsbæ hefur aukist jafnt og þétt og er yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum sem spurt er um. Athyglisvert er að þátttakendur í könnuninni sem eru á aldrinum 18-34 ára eru allir ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á. Ætla má að íbúar á þessum aldri séu að jafnaði að nýta þjónustu sveitarfélagsins þegar kemur að leik- og grunnskólum og íþróttaaðstöðu svo eitthvað sé nefnt.

Nýtt hverfi og nýr skóli
Mikil uppbygging á sér nú stað í Mosfellsbæ. Nýtt hverfi í Helgafellslandi rís nú á miklum hraða og samhliða hefur verið ráðist í byggingu skóla í hverfinu. Áætlað er að fyrsti áfangi skólans verði tekinn í notkun haustið 2018. Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er traust og reksturinn góður. Bæjarstjórn samþykkti nýverið að lækka bæði útsvar og fasteignaskatt í sveitarfélaginu.

Stoltur af niðurstöðunni
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segist ánægður með útkomuna. „Það er virkilega gaman að Mosfellingar mælist ánægðustu íbúar landsins. Ég er afar stoltur af niðurstöðunni í heild og sérstaklega varðandi þjónustu við eldri borgara sem við höfum lagt áherslu á að bæta síðustu ár.
Niðurstöður könnunarinnar benda einnig til þess að íbúar Mosfellsbæjar vilji huga að umhverfinu og til dæmis auka flokkun á sorpi. Við munum skoða það mál sérstaklega á næstunni. Mosfellsbær á 30 ára kaupstaðarafmæli á þessu ári. Það má því til gamans nefna að á síðustu 30 árum hefur íbúafjöldi sveitarfélagsins rúmlega tvöfaldast. Miðað við það verkefni hefur okkur gengið vel að bæta þjónustuna ásamt því að viðhalda góðum rekstri.“
Heildarúrtak í könnuninni er yfir 12 þúsund manns, þar af 350 svör úr Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar má finna á www.mos.is.