Jón Júlíus ráðinn framkvæmda­stjóri Aftureldingar

Dagný Kristinsdóttir formaður og Jón  Júlíus nýr framkvæmdastjóri félagsins

Dagný Kristinsdóttir formaður og Jón Júlíus nýr framkvæmdastjóri félagsins

Jón Júlíus Karlsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Aftureldingar og var hann valinn úr hópi 22 umsækjenda. Jón Júlíus er 29 ára gamall og ólst upp í Grindavík. Hann hefur undanfarin ár starfað sem markaðs- og skrifstofustjóri Golfklúbbsins Odds í Garðabæ.

Jón Júlíus er með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla. Jón Júlíus var mótsstjóri á Evrópumóti kvennalandsliða sem fram fór hjá Golfklúbbnum Oddi sl. sumar en það er stærsta alþjóðlega golfmót sem haldið hefur verið á Íslandi. Hann hefur einnig starfað síðustu misseri sem íþróttafréttamaður á RÚV og áður fréttamaður á Stöð 2.

„Ég er þakklátur fyrir það tækifæri að fá að stýra einu af stærstu íþróttafélögum landsins. Það eru spennandi tímar fram undan hjá Aftureldingu. Mosfellsbær stækkar ört og má gera ráð fyrir að iðkendum hjá félaginu fjölgi samfara því. Ég hlakka til að hefjast handa og um leið kynnast öllu því frábæra fólki sem starfar í kringum Aftureldingu,“ segir Jón Júlíus en hann tekur til starfa hjá félaginu 2. janúar.

Lífið tók óvænta stefnu

folda_mosfellingurinn

Ísfold Kristjánsdóttir greindist með brjóstakrabbamein í mars 2015.

Ísfold leitaði til læknis eftir að hún fann fyrir hnúð í vinstra brjósti. Eftir skoðun var henni tjáð að líklega væri um mjólkurkirtil að ræða. Í mars 2015 greindist hún með brjóstakrabbamein og hefur síðan þá farið í þrjár aðgerðir og er á leið í þá fjórðu.

Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur ræðir hún um æskuna árin í Danmörku, veikindin og líðan sína í dag.

Ísfold Kristjánsdóttir er fædd 18. febrúar 1986. Foreldrar hennar eru þau Ísfold Aðalsteinsdóttir fyrrverandi starfsmaður Reykjalundar og Kristján Hauksson eigandi Glermerkingar en hann lést árið 2000.
Ísfold, eða Folda eins og hún er ávallt kölluð, á þrjár systur, þær Fanneyju fædda 1968, Kristínu fædda 1968 og Hólmfríði fædda 1974.

Ólst upp á Bassastöðum við Hafravatn
„Ég er alin upp í Mosfellsbænum og ólst upp á Bassastöðum sem eru uppi við Hafra­vatn. Á hverjum degi tók ég skólabílinn niður að Varmárskóla og var keyrð aftur heim upp að dyrum. Ég man að krakkarnir öfunduðu mig mikið að þessu,“ segir Folda og brosir.
Ein af mínum uppáhaldsæskuminningum eru útilegurnar á sumrin með fjölskyldunni. Við tjölduðum og fundum okkur svo eitthvað skemmtilegt að gera. Veiddum, tíndum egg, fundum orma, fleyttum kerlingar og svo mætti lengi telja.“

Trúi því að við munum hittast aftur
„Veiðiferðunum okkar pabba gleymi ég aldrei. Við skutluðum mömmu í vinnuna og skelltum okkur svo upp á Hafravatn með veiðistangirnar. Þar gátum við setið klukkutímunum saman. Ég man hvað það var alltaf­ gaman að spjalla við pabba, hann var svo mikill spekingur og hafði sterkar skoðanir á hlutunum.
Pabbi varð bráðkvaddur á heimili okkar í júní árið 2000. Þetta var mjög erfiður tími því ég var mikil pabbastelpa. Það tók mig tvö ár að komast yfir mesta söknuðinn en nú lifi ég með honum. Ég trúi því að við munum hittast aftur seinna.
Erfiðast þykir mér að Þórður og synir okkar fái ekki að kynnast þessum mikla meistara sem hann var.“

Flutti til Danmerkur
„Eftir útskrift úr gaggó fór ég í Borgarholtsskóla en kláraði ekki námið því ég flutti til Danmerkur með fyrrverandi kærasta mínum. Við bjuggum hjá foreldrum hans í Horsens. Árið 2005 hættum við saman og þá ákvað ég að flytja aftur heim til Íslands. Ég fór að vinna á frístundaheimili í Grafarvoginum sem stuðningsfulltrúi og þar starfaði ég í 6 ár.“

Saumaði brúðarkjólinn sjálf
„Ári eftir að ég kom heim kynntist ég manninum mínum, Þórði Birgissyni. Við kynntumst í tvítugsafmælinu mínu en ég og Sandra Rós vinkona mín héldum sameiginlega upp á afmælin okkar.
Við Þórður eignuðumst okkar fyrsta barn, hann Véstein Loga, árið 2009. Þá bjuggum við uppi á Bassastöðum hjá mömmu en árið 2011 fluttum við til Kaupmannahafnar þar sem Þórður fór í nám í tölvunarfræði.
Miðjuprinsinn, Þrándur Ingi, fæddist svo 2012 en þá var ég búin að vera í dönskukúrsum og líkaði vel. Tíminn í fæðingarorlofinu var æðislegur, við bjuggum á Solbakken sem er staðsett við Vesterbro og kynntumst þar mörgu yndislegu fólki sem eru góðir vinir okkar í dag.
Við giftum okkur í júlí 2014 í Ráðhúsinu í Kaupmannahöfn í návist okkar nánustu en þá var ég kasólétt að yngsta prinsinum okkar, Ævari Frey. Ég saumaði brúðarkjólinn sjálf með aðstoð yndislegrar vinkonu minnar, Karenar Óskar, og bjó líka til brúðarvöndinn.“

Hneig niður á gólfið af gleði
„Í mars 2015 tók líf mitt óvænta stefnu því ég greindist með brjóstakrabbamein. Ég var búin að vera með hnúð í brjóstinu í að minnsta kosti ár. Fór til heimilislæknis sem sagði við mig að þetta væri mjög líklega mjólkurkirtill. Hann bað mig að fylgjast vel með hnúðnum og koma aftur ef mér fyndist hann stækka.
Manninum mínum leist ekki á blikuna og bað mig um að fara og láta skoða þetta betur og biðja um að fá að fara í myndatöku. Ég gerði það og þá kom í ljós að þetta var illkynja æxli. Ég fékk algjört sjokk og líf mitt hrundi.
Ég var strax send í myndatöku á lungum og hjarta til að sjá hvort meinið væri búið að dreifa sér. Tveimur dögum seinna fór ég í aðgerð þar sem eitlar voru teknir undir handakrika en áður en ég fór heim fékk ég að vita að engin meinvörp væru komin í lungun og hjartað. Það var mikill léttir, ég hneig niður í gólfið af gleði.
Við fórum heim og skáluðum fyrir góðum fréttum. Mamma var þá komin út til okkar en hún hefur alla tíð verið til staðar fyrir okkur þessi elska.“

Veikindunum tekið af æðruleysi.

Veikindunum tekið af æðruleysi.

Erfiðast var að missa augnhárin
„Innan við viku frá því ég greindist byrjaði strembin lyfjagjöf. Ég fór í átta skipti á þriggja vikna fresti. Dagana fyrir lyfjagjafir þurfti Þórður að sprauta í mig efni til að fyrirbyggja bráðaofnæmi við lyfjagjöfinni en eftir gjafirnar lá ég oftast veik í þrjá daga.
Maðurinn minn sá alveg um strákana okkar og heimilið á meðan ég svaf út í eitt. Hann kvartaði aldrei þessi elska enda er hann þvílíkur eðalklettur.
Ég missti hárið eftir fyrstu gjöfina, Oddný vinkona mín kom út til mín og var hjá mér á þessum tíma. Ég missti ekki einungis hárið heldur öll hár á líkamanum. Verst fannst mér að missa augnhárin en þau eru að koma til baka núna.“

Komu með óvænta gjöf í farteskinu
„Á meðan á lyfjagjöfinni stóð komu yndislegir vinir okkar, Gunnar Ingi og Katrín, í heimsókn og voru með óvænta gjöf í farteskinu.
Fámennur hópur náinna vina var búin að opna styrktarsíðu á Facebook fyrir okkur, við áttum bara ekki til orð.
Á stuttum tíma fór hópurinn úr því að vera 20 manns í 350 þar sem svo margir vildu fá að bætast í hópinn, bæði ættingjar og vinir.
Við verðum öllu þessu fólki ævinlega þakklát, ég veit að ég hefði ekki náð svona góðum og snöggum bata ef þessi síða hefði ekki verið til staðar. Það var svo gott að finna hvað allir voru tilbúnir til að hjálpa, finna sterku straumana, hlýju kveðjurnar og peppin sem við fengum frá fólki úr öllum áttum.“

Margir komu frá Íslandi til að fagna
„Eftir lyfjagjöfina sem stóð yfir í að verða sex mánuði fór ég í brjóstnám. Bæði brjóstin voru tekin þó að krabbameinið hefði aðeins fundist í vinstra brjóstinu og eitlum þar í kring. Hitt brjóstið var tekið til að fyrirbyggja að það gæti komið aftur mein. Ég var í smá tíma að ná mér eftir aðgerðina og nú er loksins hægt að segja að ég sé laus við krabbameinið.
Áður en ég byrjaði í geislameðferðinni fórum við hjónin til Berlínar með góðum vinum. Yndislega tengdamamma mín kom út til okkar til Köben til að passa strákana okkar á meðan.
Við tóku svo 25 skipti í geislunum, sú meðferð gekk vel og ég fékk nánast engar aukaverkanir. Síðustu vikuna í nóvember ákvað ég að halda „Cancer free party“ og komu margir frá Íslandi til að fagna með mér.
Vinkonuhópurinn gaf mér ofboðslega fallegt hálsmen sem gullsmiðurinn Bjarni Bjarkason hannaði fyrir þær. Ég get ekki lýst því með orðum hvað ég er þakklát fyrir vinkonur mínar.“

Ákváðum að eignast ekki fleiri börn
„Í desember fyrir ári síðan fór ég í aðgerð og þá var legið tekið. Við hjónin vorum búin að taka þá ákvörðun að eignast ekki fleiri börn svo þá vildi ég gera allt til að fyrirbyggja að ég fengi krabbamein aftur.
Ég þarf að taka inn Letrozol til að drepa niður öll kvenhormón í líkamanum til að frumurnar nái ekki að fjölga sér. Ég verð á þessum lyfjum næstu 10 árin.“

Ketilbjöllurnar björguðu geðheilsunni
Í byrjun janúar 2016 ákváðu Folda og Þórður að flytja heim til Íslands. Þau leigðu sér íbúð en vinir þeirra og vandamenn sáu til þess að gámurinn með búslóð þeirra kæmist heim.
Þórður starfar í dag hjá Icelandair Hotels sem tæknimaður en Folda er öryrki eftir veikindin. Hún er nú í námi hjá Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum þar sem hún nemur sölu-, markaðs- og rekstrarfræði.
„Líðan mín er með betra móti núna og ég er byrjuð í endurhæfingu. Ég hef verið í hug­rænni atferlismeðferð hjá Krabbameinsfélaginu og svo hef ég verið að æfa með ketilbjöllur hjá Völu og Gauja á Engjaveginum. Þau eru algjört yndi og þessar æfingar hafa gjörsamlega bjargað geðheilsu minni.
Ég hefði ekki getað byrjað endurhæfinguna nema af því að strákarnir fengu pláss í Krikaskóla, ég er svo þakklát fyrir skilningin sem okkur var sýndur þar.“

Tilhlökkun að halda jólin á Íslandi
„Tíminn frá því að við fluttum heim hefur verið yndislegur. Við nutum íslenska sumarsins í botn, fórum í útilegur og í bústaðaferðir og elsti sonurinn byrjaði í fótbolta. Það er mikil tilhlökkun hjá okkur fjölskyldunni að halda upp á jólin á Íslandi.“
Hvað er fram undan? „Í apríl fer ég í aðgerð sem er uppbygging á brjóstum. Þetta er mjög stór aðgerð sem mun taka um 10 klst og ég mun liggja inni í viku eftir aðgerð ef allt gengur vel. Ég er mjög spennt að sjá hvernig til tekst, það verður gaman að fá kvenlegar línur aftur.“

Mosfellingurinn 22. desember 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Öðruvísi jól

heilsumolar_gaua_22des

Við fjölskyldan höfum verið á ferðalagi síðan 1.desember. Í annarri heimsálfu þar sem jólin spila minni og öðruvísi rullu en hjá okkur á Íslandi. Við höfum lítið orðið vör við jólin á flakkinu, einstaka jólaljós og tré, en annars lítið sem ekkert. Jólin verða öðruvísi en venjulega og áramótin sömuleiðis. Við vitum í dag ekki hvað við gerum á þessum stórhátíðardögum. En við vitum að það verða engar rjúpur, ekkert ris a la mande, ekkert jólatré, engin messa í útvarpinu, enginn sítrónufrómas, engir flugeldar – alla vega ekki flugeldar sem við skjótum upp sjálf.

Hefðir eru sterkar og toga í mann. Margar hefðir á Íslandi í kringum aðventuna og jólin eru góðar og gefandi. Aðrar minna gefandi.

Ég skrifa þennan pistil á sundlaugarbakka á flugvallarhóteli í Bangkok. Það er 28 stiga hiti. Mér líður stórkostlega. Aðventan hefur verið frábær. Rólegir, ólíkir og lærdómsríkir dagar. Lífið hefur snúist um að borða, sofa og upplifa eitthvað nýtt. Og mikla samveru með konu og tveimur af börnum okkar. Ég hef sjaldan verið svona afslappaður í desember. Jafn sáttur í eigin skinni.

Jólastress eða ekki, við getum kallað það hvað sem er. Ég er klár á því að spennustigið á Íslandi er mjög hátt í desember. Margir að reyna að gera margt. Halda í hefðir og uppfylla kröfur. Umlykjandi er svo auglýsingflóðið og stanslausa áreitið. Kaupmenn að hvetja okkur til að kaupa gjafir, mat, skreytingar, föt, miða á tónleika og allt hitt. Sumir tækla þetta betur en aðrir. Sumir elska atið.

Fyrir mér er í raun bara eitt sem skiptir virkilega máli á þessum tíma. Fólkið mitt. Ég sakna þeirra sem eru ekki með mér yfir hátíðarnar, en er ótrúlega þakklátur fyrir þann mikla tíma sem ég fæ með þeim sem eru með mér.

Njótum ferðalagsins og þeirra sem taka þátt í því með manni.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. desember 2016

Bæjarbúar geta kosið Mosfelling ársins

mosfellingurarsinsaheimasidu

Val á Mosfellingi ársins 2016 stendur yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Allir Mosfellingar koma til greina í valinu og er öllum frjálst að senda inn tilnefningar hér að neðan. Þetta er í tólfta sinn sem valið fer fram á vegum Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins.

Áður hafa hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir og Sigrún Þ. Geirsdóttir.

Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði næsta árs, fimmtudaginn 12. janúar.

 

Hef jákvæðnina að leiðarljósi

mosfellingurinnolofs

Skólar ehf. var stofnað árið 2000 og hóf rekstur ári síðar. Í dag rekur fyrirtækið fimm heilsuleikskóla þar sem mikil áhersla er lögð á heilsueflandi skólastarf undir einkunnarorðunum „heilbrigð sál í hraustum líkama“.
Framkvæmda- og fagstjóri fyrirtækisins er Ólöf Kristín Sívertsen en hún er einnig verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ sem snýst í hnotskurn um það að gera holla valið auðvelt og aðgengilegt.

Ólöf Kristín er fædd í Reykjavík 5. september 1970. Foreldrar hennar eru þau María Hauksdóttir, starfsmaður í Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Bjarni Kristinn Sívertsen, tæknifræðingur. Ólöf á tvær systur, þær Ragnheiði fædda 1966 og Guðrúnu Ingu fædda 1976.

Söng í kórum og upplifði ýmis ævintýri
„Ég er alin upp í Vesturbænum, maður var endalaust úti að leika sér í hinum ýmsu leikjum eins og brennó, teygjó, einni krónu og hollí hú. Ég er ekki viss um að krakkar í dag kunni þessa leiki en mér finnst jákvætt að í vinaliðaverkefninu sem er m.a. í Lágafellsskóla er verið að kenna börnunum ýmsa útileiki.
Ég hef haft gaman af söng og tónlist alveg frá því ég var smástelpa. Ég söng í kórum og upplifði ýmis ævintýri en ég held að hápunkturinn hafi verið þegar við sungum inn á plötu með leikaranum Bessa Bjarnasyni.“

Flutti til Eyja eftir stúdentspróf
„Eins og flestir Vesturbæingar fór ég í Melaskóla og svo í Hagaskóla. Þaðan lá leiðin í Verzlunarskóla Íslands en ég útskrifast þaðan árið 1990. Mér þótti alltaf gaman í skóla, gekk vel námslega og eignaðist marga góða vini.
Að loknu stúdentsprófi flutti ég til Vestmannaeyja og bjó þar í tvö ár. Vann þar m.a. á leikskólanum Kirkjugerði og það var þar sem ég ákvað endanlega að ég ætlaði að verða kennari.“

Að sjá landið með augum ferðamanns
„Ég fór í Kennaraháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1995, vann á leikskóla í eitt ár og fór síðan í ferðabransann. Þar vann ég við að skipuleggja hvataferðir, ráðstefnur og fundi, aðallega fyrir útlendinga á Íslandi. Þetta var afskaplega skemmtilegur tími.
Ég náði mér líka í leiðsögumannaréttindi og upplifði hversu mikil forrréttindi það eru að sjá landið með augum ferðamannsins.“

Vil hjálpa börnum að líða betur
„Það var lán mitt í lífinu að kynnast manninum mínum, Sævari Kristinssyni rekstrarráðgjafa en við höfum verið saman í fjórtán ár. Ég eignaðist líka tvo fóstursyni, þá Halldór Inga fæddan 1989 og Gísla fæddan 1980. Við Sævar fluttum í Mosfellsbæ árið 2004.
Eftir sjö ár í ferðabransanum fór ég að kenna í Hagaskóla. Það var virkilega gaman að kenna með mörgum af gömlu kennurunum sínum. Þar áttaði ég mig á því að ég vildi geta gert enn meira til að hjálpa börnum til að líða betur og því ákvað ég að skrá mig í meistaranám í lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík og útskrifaðist árið 2007.“

Forseti Íslands verndari verkefnisins
„Að námi loknu verkstýrði ég Forvarnadeginum sem þá var haldinn í annað skiptið í öllum 9. bekkjum á Íslandi. Forseti Íslands er verndari verkefnisins og var virkilega gaman að sjá hversu virkan þátt Ólafur Ragnar Grímsson tók í verkefninu enda var málefnið honum hugleikið.
Í byrjun árs 2008 hóf ég störf hjá HR en stuttu seinna uppgötvaði ég að ég var orðin ólétt. Það var okkur Sævari mikið gleðiefni og þarna datt ég í þann stærsta lukkupott sem ég hafði nokkurn tímann lent í, því ég varð ekki bara ólétt heldur varð ég ólétt að tvíburum. Strákarnir okkar, Kristinn Þór og Ólafur Haukur, eru 8 ára gamlir í dag.“

Heilbrigð sál í hraustum líkama
„Árið 2010 fór ég að vinna sem deildarstjóri á einum af heilsuleikskólum Skóla ehf. og hef starfað hjá félaginu síðan. Skólar ehf. reka fimm heilsuleikskóla í jafnmörgum sveitarfélögum og frá 2011 hef ég verið fagstjóri yfir öllum þeim skólum og tók auk þess nýverið við stöðu framkvæmdastjóra sem ég gegni samhliða starfi fagstjóra. Einkunnarorð okkar eru heilbrigð sál í hraustum líkama.“

Snýst um að gera holla valið auðvelt
Ólöf tók þátt í stofnun heilsuklasans Heilsuvinjar árið 2011 og var meðal þeirra frumkvöðla hjá Heilsuvin sem ýttu verkefninu Heilsueflandi samfélag úr vör í samvinnu við Embætti landlæknis og sveitarfélagið Mosfellsbæ. „Ég hef verið verkefnisstjóri þessa metnaðarfulla og spennandi verkefnis hér í bæjarfélaginu sem snýst í hnotskurn um það að gera holla valið auðvelt og aðgengilegt og gera fólki þannig kleift að taka heilsusamlegar ákvarðanir og lifa heilbrigðu lífi.
Áhersluþættir verkefnisins snúa allir að áhrifaþáttum heilsu og eru þeir næring og mataræði, hreyfing og útivist, líðan og geðrækt og svo í lokin bætum við ýmsum varnarþáttum við og hnýtum þetta allt saman í áhersluþætti sem við köllum lífsgæði.
Við höfum unnið að ýmsum verkefnum eins og næringarráðgjöf til veitingastaða og verslana í bænum, komið að hreyfiverkefninu „Væntumþykja í verki“ fyrir eldri borgara, stofnað heilsueflandi skólahóp þvert á skólastigin og átt í góðu samstarfi við Ferðafélag Íslands ásamt ýmsu fleiru.“

Tilnefnd til Samfélagsverðlauna
„Ég er afskaplega stolt af því að Mosfellsbær skuli vera fyrsta sveitarfélagið sem fer í þá markvissu vinnu að byggja upp Heilsueflandi samfélag. Búa þannig til fyrirmynd sem önnur sveitarfélög geta og hafa nýtt sér en nú þegar hafa átta önnur sveitarfélög ákveðið að hefja þessa vegferð að vellíðan íbúa sinna sem er mikið fagnaðarefni.
Hápunkturinn á mínum ferli til þessa er tilnefning til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins fyrr á þessu ári. Þar var ég tilnefnd í flokknum „Frá kynslóð til kynslóðar“ fyrir mikið og faglegt starf við eflingu lýðheilsu í skólakerfinu og samfélaginu öllu.
Það er meðal annars á svona augnablikum sem hlutirnir öðlast skýran tilgang og hjarta manns fyllist af auðmýkt, gleði, stolti og þakklæti.“

Hlakkar til að njóta framtíðarinnar
„Þegar ég lít yfir lífshlaup mitt get ég svo sannarlega glaðst og verið þakklát fyrir svo óendanlega margt. Auðvitað hef ég upplifað hæðir og lægðir eins og allir aðrir en ég hef reynt að temja mér að hafa jákvæðnina að leiðarljósi í lífinu og horfa á lausnirnar og tækifærin frekar en hindranirnar.
Maður er einhvern veginn betur við stjórnvölinn í sínu eigin lífi þegar maður velur sér viðhorf og ákveður að bregðast á meðvitaðan hátt við þeim áskorunum sem lagðar eru fyrir mann á lífsleiðinni.
Ég er ótrúlega spennt yfir því hvað framtíðin ber í skauti sér, hlakka til að njóta hennar með þeim sem ég elska og hlakka til að takast á við enn fleiri spennandi og krefjandi verkefni til að efla heilsu og vellíðan landans,“ segir Ólöf Kristín og brosir sínu fallega brosi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 1. desember 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Áætlað að opna ungbarnadeildir á Hlíð og Huldubergi

leikskolafrett

Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem nú liggur fyrir bæjarstjórn er gert ráð fyrir talsverðu fjármagni til að auka þjónustu við börn á aldrinum 1 til 2 ára.

Ungbarnadeildir á Hlíð og Huldubergi
Verið er að leggja til að boðið verði upp á fjölbreytt form á vistun fyrir ung börn og að þjónustan verði þríþætt.
Það er í fyrsta lagi pláss hjá dagforeldrum bæjarins. Í öðru lagi hefur Mosfellsbær gert samninga við einkarekinn ungbarnaleik­skóla um að 10 pláss verði frátekin fyrir börn frá Mosfellsbæ og fleiri samningar eru í skoðun. Í þriðja lagi verði starfræktar tvær ungbarnadeildir á leikskólum bæjarins þar sem tekið verður inn eftir innritunarreglum leikskóla Mosfellsbæjar. Önnur deildin verður á Huldubergi og hin á Hlíð. Þær taki samtals á móti 28 börnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Samræming á gjaldtöku
Auk þessa er gert ráð fyrir breytingum á aldri barna þegar kemur að úthlutun í leikskóla. Sá aldur yrði færður frá 24 mánaða niður í 18 mánaða, tekið inn eftir innritunarreglum leikskóla. Einnig er lagt til að öll gjöld verði samræmd á þann hátt að fram að 18 mánaða aldri barns greiði foreldrar sama gjald fyrir ungbarnaþjónustu, óháð þjónustuformi, en eftir það almennt leikskólagjald.
Lagt er til að verkefnið verði þróunarverkefni til eins árs. Staða verkefnis verður metin annan hvern mánuð og í heild sinni við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018. Viðbótarkostnaður við þessa þjónustubreytingu er áætlaður um 40 milljónir króna.

Útfærsla sem felur í sér val
„Ánægjulegt er að geta svarað kalli foreldra um hærra þjónustustig við yngstu íbúana,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þetta tímabil er viðkvæmt hjá flestum fjölskyldum og mikilvægt að hlúa vel að því. Ég er sérlega ánægður með að útfærslan feli í sér sveigjanleika, fjölbreytni og ekki síst valfrelsi.“

Undirbúningur hafinn fyrir næsta tímabil

Frá undirritun leikmannasamninga í herbúðum Aftureldingar. Wentzel Steinarr, Sigurður Hrannar og Magnús Már ásamt Ásbirni Jónssyni formanni meistaraflokksráðs og Úlfi Arnari Jökulssyni þjálfara. Mynd/RaggiÓla

Frá undirritun leikmannasamninga í herbúðum Aftureldingar. Wentzel Steinarr, Sigurður Hrannar og Magnús Már ásamt Ásbirni Jónssyni formanni meistaraflokksráðs og Úlfi Arnari Jökulssyni þjálfara. Mynd/RaggiÓla

Meistaraflokkur karla í knattspyrnu hefur hafið undirbúning fyrir næsta keppnistímabil. Í sumar var liðið einungis tveimur stigum frá því að tryggja sæti í Inkasso-deildinni að ári eftir harða toppbaráttu allt tímabilið.
Liðið hefur verið byggt upp að langmestu leyti af heimamönnum, bæði ungum sem og reyndari leikmönnum. Það er því gleðiefni að tveir af reyndari máttarstólpum liðsins hafa skrifað undir áframhaldandi samning við félagið.
Fyrirliðinn Wentzel Steinarr R. Kamban og Magnús Már Einarsson eru staðráðnir í að taka baráttuna áfram með liðinu næsta sumar.
Við sama tilefni gekk nýr markvörður frá samningi við Aftureldingu. Hinn 23 ára gamli Sigurður Hrannar Björnsson kemur til liðsins frá Víkingi en hann var á láni hjá Fram á síðustu leiktíð. Það er mikill fengur fyrir félagið að fá Sigurð en hann mun einnig koma að markmannsþjálfun yngri markvarða félagsins.

Stolt

heilsumolar_gaua_1des

Fimm ára guttinn minn fór á sitt fyrsta fótboltamót um síðustu helgi. Stoltur af því að klæðast rauðu Aftureldingartreyjunni. Það eru 14 ár síðan elsti guttinn minn fór í fyrsta skipti í búning Aftureldingar og hann var jafn glaður og sá fimm ára um síðustu helgi. Strákarnir mínir fjórir hafa æft fótbolta, handbolta, frjálsar, karate og taekwondo hjá félaginu okkar og eins og margir foreldrar í Mosfellsbænum eigum við skápa og skúffur af alls konar æfinga- og keppnisbúningum merktum Aftureldingu.

Ég er Fylkismaður í grunninn, ólst upp í Árbænum og hef sterkar tengingar við gamla hverfisfélagið. Árbærinn var til að byrja með blanda af fólki sem kom úr öðrum hverfum Reykjavíkur. Þarna voru KR-ingar, Framarar, Valsarar og Þróttarar. Menn héldu lengi í gömlu félögin, sendu krakkana sína á æfingar til þeirra. Fylkir verður 50 ára á næsta ári. Ungt félag með marga stolta félagsmenn. Þeir sem eru stoltastir af Fylki í dag eru akkúrat þeir sem áður höfðu sterkustu taugarnar til gömlu félaganna.

UMFA er 107 ára, stofnað 1909. Samt er eins og Afturelding sé yngri en Fylkir. Mosfellsbærinn er enn stútfullur af Stjörnumönnum, ÍR-ingum, KR-ingum og fulltrúum annarra félaga. Menn sem hafa búið í Mosó í áratugi eru enn að tengja sig við gamla félagið sitt. Fara frekar á leiki með því, eru jafnvel að senda krakkana sína á æfingar til þess.

Nú breytum við þessu. Strax. Þjöppum okkur saman um félagið OKKAR og styðjum það í blíðu og stríðu í öllum íþróttagreinum. Hættum að hugsa hvað Afturelding getur gert fyrir mig og mína og förum að hugsa: „Hvað get ég gert fyrir Aftureldingu?“ Hverfisfélagið okkar með allar sínar deildir er byggt upp af sjálfboðaliðum og styrktaraðilum. Án þín verður engin Afturelding. Ekkert hverfisfélag. Verum stolt af rauðu treyjunni, af merkinu, laginu, félaginu okkar. Stöndum upp fyrir U-M-F-A!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 1. desember 2016

Komu færandi hendi í Reykjadal

kjosarkonur

Kvenfélagskonur úr Kjósinni komu færandi hendi í Reykjadal um síðustu helgi. Þá afhentu þær glænýja þvottavél að gjöf sem hefur bráðvantað á staðinn.
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra rekur sumar- og helgardvalarstað í Reykjadal fyrir fötluð börn og ungmenni. Árlega dveljast þar um 250 börn á aldrinum 8-21 árs.
Konurnar í Kvenfélagi Kjósarhrepps hafa dáðst af starfinu sem fram fer í Reykjadal og ákvaðu því að styrkja starfsemina að þessu sinni.

Hjartastuðtæki til Kjósarhrepps
Á haustdögum færðu þær einnig Kjósarhreppi tvö hjartastuðtæki en lengi hefur staðið til að eiga slík tæki í sveitinni. Kjósarhreppur mun mun festa kaup á þriðja tækinu og ákveða í framhaldinu staðsetningu tækjanna í samvinnu við fagaðila.
Í kvenfélagi Kjósarhrepps eru 18 öflugar konur sem með krafti sínum hafa stutt við verðug verkefni í samfélaginu. Þær halda árlegt þorrablót, selja kaffi á Kátt í Kjós og á jólamarkaði, standa fyrir kosningakaffi og ýmsum viðburðum sem falla til.
Síðasta árið hefur kvenfélagið gefið á aðra milljón til ýmissa góðra málefna og vilja þær koma á framfæri sérstökum þökkum til allra þeirra sem hafa stutt við félagið.

Undirbúningur fyrir Þorrablótið í fullum gangi

thorrablot2017

Undirbúningur fyrir Þorrablót Aftureldingar 2017 stendur nú sem hæst en blótið verður sem fyrr haldið í Íþróttahúsinu að Varmá, laugardaginn 21. janúar.
Þetta er í tíunda sinn sem blótið er haldið með þessu sniði en í fyrra voru um 700 manns á blótinu og komust færri að en vildu.
„Stór hluti nefndarinnar hefur verið sá sami frá upphafi. Það hafa orðið einhverjar breytingar en það er svo gaman að standa í þessu að það vill engin hætta. Það hefur skapast ákveðin hefð fyrir góðri verkaskiptingu en mitt aðalhlutverk er að sjá til þess að miðasala og borðapantanir gangi vel,“ segir Anna Ólöf.

Breytingar á fyrirkomulagi
Búið er að ráða veislustjóra og hljómsveit, en einhverjar nýjungar verða á dagskránni í tilefni 10 ára afmælis sem verða kynntar síðar. Breytingar verða á miðasölu en ekki mun fara fram forsala á blótið sjálft en þó verður hægt að kaupa miða á ballið í forsölu.
„Nú í ár mun miðasala fara fram um leið og borðapantanirnar og einungis verður hægt að taka frá borð gegn keyptum miða. Í fyrra var uppselt og mikil aðsókn. Nú gildir bara fyrstir koma fyrstir fá. Nánari upplýsingar um hvar og hvenær miðasala mun fara fram verður vel auglýst síðar.
Nú er um að gera fyrir fólk að fara að undirbúa sig og sína hópa en við búumst við að það verði fljótt uppselt.“

Er bjartsýn á framtíðina

larabjork_mosfellingurinn

Lára Björk Bender starfsmaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur greindist með MS sjúkdóminn árið 2012. 

MS sjúkdómurinn er langvinnur sjúkdómur sem einkennist af endurtekinni bólgu í miðtaugakerfinu. Orsökin er óþekkt, en bólgan er talin vera vegna truflunar í ónæmiskerfinu. Sjúkdómurinn er ólæknandi en til eru lyf sem geta tafið framgang og eins eru í boði einkennatengdar meðferðir sem hafa jákvæð áhrif á líðan.

Lára Björk Bender sem er 24 ára greindist með sjúkdóminn árið 2012. Lára segir greininguna vissulega hafa verið mikið áfall en henni hafi verið létt að vissu leyti.

Lára Björk er fædd í Reykjavík 30. ágúst 1992. Foreldrar hennar eru þau Linda H. Hammer viðskiptafræðingur og Haraldur Þór Grétarsson Bender sjálfstæður atvinnurekandi í ferðaþjónustu. Lára á eina systur, Helgu Þóru, fædda 1988.

Grýtti hrísgrjónum í gestina
„Ég er alin upp í Mosfellsbænum og á margar góðar æskuminningar. Ég ferðaðist mikið um landið með fjölskyldu minni og kynntist því vel. Við fórum í útilegur eða fjalla- og sleðaferðir.
Mér er minnisstætt eitt sinn er við vorum að pakka niður fyrir útilegu þá var ég beðin um að taka með mér fín föt ef við skyldum fara út að borða. Ég var nýbúin að vera með gubbupest og var kannski ekki alveg upp á mitt besta. Ferðinni var heitið í Hrísey en þangað fórum við gjarnan á sumrin. Grunlausar tókum við systurnar fínu kjólana okkar eins og okkur var sagt að gera. Í Hrísey var svo komið við í kirkjunni því mamma og pabbi ákváðu skyndilega að gifta sig og við systur vorum brúðarmeyjarnar.
Eftir athöfnina áttum við að kasta hrísgrjónum yfir mömmu og pabba þegar þau gengu út en ég var eitthvað utan við mig út af veikindunum og grýtti grjónunum í gestina í staðinn.“

Átti erfitt vegna eineltis
„Ég gekk í Varmárskóla og átti erfitt vegna eineltis á tímabili en mér gekk vel námslega séð. Ég stundaði einnig píanónám við Listaskóla Mosfellsbæjar, söng í skólakórnum og æfði badminton í rúm 10 ár.
Unnusta mínum, Aroni Braga Baldurssyni, kynntist ég í Gaggó Mos. Aron starfar hjá Raftækjalagernum en hann er menntaður fjölmiðlatæknir og starfar einnig sem kvikmyndatökumaður.“

Útskrifuðust frá sama skóla
„Eftir útskrift hóf ég nám í Borgarholtsskóla þaðan sem ég útskrifaðist af viðskipta­- og hagfræðibraut. Ég hef alltaf átt auðvelt með að læra og fékk viðurkenningar í ensku, frönsku, viðskiptum og hagfræði þegar ég útskrifaðist. Ég hélt útskriftarræðu fyrir hönd stúdenta en við Aron útskrifuðumst bæði á sama tíma og frá sama skóla.
Ég hélt einnig áfram í tónlistarnámi, á rhythmísku píanói og í einsöng.“

Hægri hlið andlitsins lak niður
„Einn daginn árið 2010 lamaðist ég í andlitinu. Ég var í skólanum og allt í einu fann ég hvernig hægri hlið andlitsins lak hægt og rólega niður. Ég gat ekki brosað og átti erfitt með að halda auganu opnu og fann líka fyrir dofaeinkennum í fæti. Ég fór til læknis og var greind með Bell´s Palsy eða andlitstaugalömun. Lömunin gekk svo til baka.
Í lok árs 2011 lenti ég í árekstri. Ég fékk sjóntaugabólgu sem olli því að ég var rúm­liggjandi með stöðugan svima og brenglaða­ sjón. Einkennin gengu yfir á þremur vikum.“

Allt hringsnerist í kringum mig
„Í byrjun árs 2012 eða á sama tíma og við Aron vorum að flytja saman í okkar eigin íbúð veikist ég aftur. Ég fékk versta höfuðverk sem ég hef upplifað og vaknaði með náladofa í hendi. Ég bjóst við að ég hefði legið eitthvað einkennilega en svo var ekki.
Ég gekk völt og allt hringsnerist í kringum mig. Ég reyndi allt til að koma blóðflæðinu af stað en ekkert gekk. Ég skellti mér líka í bað til að slaka á vöðvunum en það gekk ekki heldur.
Ég var á leið í fermingu hjá frænda mínum og þegar ég kom þangað tóku allir eftir því að eitthvað var ekki í lagi. Dofinn í líkamanum færðist yfir á maga, bak og höfuð vinstra megin og ég var hætt að finna fyrir snertingu og geta framkvæmt ákveðnar hreyfingar. Farið var með mig á bráðamóttökuna þar sem ég gekkst undir alls kyns rannsóknir. Eftir þær var mér tjáð að sérfræðingur myndi bóka viðtalstíma þar sem farið yrði yfir niðurstöðurnar.“

Greiningin veitti mér ákveðna ró
„Í viðtalstíma hjá lækninum fékk ég staðfestingu á að ég væri með MS sjúkdóminn. Ég var búin að ímynda mér allt það versta áður en ég fór í viðtalstímann en greiningin veitt mér ákveðna ró. Mér var tjáð að það besta sem ég gæti gert væri að hreyfa mig reglulega og passa vel upp á mataræðið.
Systir mín dró mig með sér í nokkra tíma í polefitness og ég fann að í þeirri íþrótt var allt sem ég þurfti á að halda, þ.e.a. s. blanda af styrk, þoli og liðleika. Með þessum æfingum get ég haldið sjúkdómseinkennunum niðri. Ég byrjaði að æfa á fullu hjá Eríal Pole í Reykjavík þar sem ég æfi enn og kenni.
Ég er einnig í fullorðinsfimleikum hjá Aftureldingu.“

Bjartsýn á framtíðina
„Ég hef tekið sjúkdómnum sem áskorun, á að sjálfsögðu mína slæmu daga og hef fundið fyrir einkennum. Með aðstoð minna nánustu og þá sérstaklega Arons hefur mér tekist að sættast betur við veikindin.
Í dag líður mér einstaklega vel, er í fullu starfi hjá Orkuveitu Reykjavíkur ásamt því að starfa sem bílstjóri í kvikmyndaverkefnum á vegum True North, Pegasus og Sagafilm. Ég er bara bjartsýn á framtíðina,“ segir Lára Björk að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 10. nóvember 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

Þolinmæði kennara á þrotum

kennarar

Kennarar í Mosfellsbæ afhentu í vikunni bæjarstjóra ályktun frá öllum grunnskólakennurum bæjarins.
Þar lýsa þeir yfir óánægju sinni með ákvörðun kjararáðs um launahækkanir, nú þegar samningar grunnskólakennara eru lausir. Úrskurður kjararáðs sé kornið sem fylli mælinn og ríki og sveit­ar­fé­lög geti ekki leng­ur vikið sér und­an ábyrgð.
Hljóðið í kennurum er þungt og segjast þeir ekki hafa þolinmæði lengur gagnvart samn­ingaviðræðum við sveit­ar­fé­lög­in. Það sé óháð því hvort kjararáð dragi úrskurð sinn til baka.

Sinna ábyrgðarmiklu starfi
Fram kemur í ályktuninni að kennarar telji sig sinna jafn ábyrgðarmiklu starfi og alþingismenn. Auk þess er grunnskólakennurum skylt að vera með fimm ára háskólanám að baki. Kominn sé tími til að laun grunnskólakennara verði jöfn launum framhaldsskólakennara og annarra háskólamenntaðra stétta.

Fara fram á aðgerðir tafarlaust
„Það er gjörsamlega ólíðandi að finna fyrir þeirri þrúgandi tilfinningu að við getum ekki lifað af launum okkar.“
Kennarar spyrja hvort það geti samrýmst skólastefnu Mosfellsbæjar að bjóða grunnskólakennurum lausa samninga, engar viðræður, lág laun og mikið vinnuálag. „Við höfum fengið nóg og förum fram á aðgerðir tafarlaust af hálfu sveitarfélagsins Mosfellsbæjar til að koma í veg fyrir flótta grunnskólakennara í önnur störf. Skólastarf í Mosfellsbæ er í húfi.“
Að baki ályktuninni standa kennarar í Lágafellsskóla, Krikaskóla og Varmárskóla en tveir af stærstu skólum landsins eru í Mosfellsbæ.
Þá hafa kennarar rætt sín á milli um að taka þátt í hópuppsögnum á verkalýðsdaginn 1. maí.

Þjónusta bætt og skattar lækkaðir

mosfjarhags

Fjárhagsáætlun fyrir árin 2017-2020 var tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn síðastliðinn miðvikudag.
Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur næsta árs verði 201 m.kr. Áætlað er að framkvæmdir að frádregnum tekjum af gatnagerðargjöldum nemi 746 millj. kr. og að íbúum fjölgi um 3,4% milli ára. Þá er gert ráð fyrir að tekjur nemi 9.542 millj. kr., gjöld fyrir fjármagnsliði nemi 8.331 millj. kr. og fjármagnsliðir 653 m.kr.
Gert er ráð fyrir að skuldir sem hlutfall af tekjum muni lækka og að skuldaviðmið skv. sveitastjórnarlögum verði 106% í árslok 2017 sem er töluvert fyrir neðan hið lögbundna 150% mark skv. sveitarstjórnarlögum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Átak í viðhaldi Varmárskóla
Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging Helgafellsskóla en gert er ráð fyrir að um 500 m.kr. fari í það verkefni á árinu 2017 og að fyrsti áfangi skólans verði tekinn í notkun haustið 2018.
Einnig verður auknu fjármagni varið í viðhald eldri húsa. Þar má nefna að sérstakt átak verður gert í viðhaldi Varmárskóla verði áætlunin samþykkt.

Aukin þjónusta við barnafjölskyldur
Stefnt er að því að veita verulegum fjármunum til að auka þjónustu við börn 1-2ja ára m.a. með því að stofnaðar verði sérstakar ungbarnadeildir við leikskóla bæjarins.
Auk þessa er gert ráð fyrir því að tónlistar­kennsla Listaskólans inni í grunnskólunum verði efld til að fleiri nemendur eigi þess kost að stunda tónlistarnám.
Lagt er til að grunnur frístundaávísunarinnar hækki um 5 þúsund krónur og að stofnun Ungmennahúss verði veitt brautargengi í samstarfi við Framhaldsskóla Mosfellsbæjar.

Fasteignagjöld lækki
Lagt er til að álagningarhlutföll fasteignagjalda lækki til að koma til móts við þá auknu eignarmyndun sem átt hefur sér stað hjá íbúum með hækkun fasteignamats. Almennt er ekki gert ráð fyrir gjaldskrárhækkunum, t.a.m verða leikskólagjöld óbreytt annað árið í röð.
Áætlunin verður nú unnin áfram og lögð fram í fagnefndum bæjarins. Seinni umræða fer fram miðvikudaginn 7. desember.

Grunn- og velferðarþjónusta ofarlega
„Hugmyndir um aukna þjónustu við yngstu börnin hefur verið okkur ofarlega í huga í nokkurn tíma og ánægjulegt að geta sett fram áætlun um að setja þær hugmyndir í framkvæmd,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þar verður um nokkrar leiðir að ræða og lögð áhersla á valfrelsi. Þessi fjárhags­áætlun ber þess merki að hagur sveitarfélaga er að einhverju leyti að vænkast eftir mörg erfið ár að undanförnu. Ánægjulegt er að gert er ráð fyrir mörgum nýjum verkefnum í þessari áætlun sem ekki hefur verið svigrúm fyrir að undanförnu.
Ég legg þó áherslu á að helsta verkefni fjárhagsáætlunar 2017 er að gera enn betur í grunn- og velferðarþjónustu bæjarins. Því til stuðnings má nefna að rúmlega 80% af heildarútgjöldum Mosfellsbæjar er varið í rekstur skólastofnana, íþrótta- og tómstundamál og félagsþjónustu.“

Kvöld- og næturvakt Heilsugæslunnar færist í Kópavog

heilsugaeslan

Frá og með 1. febrúar 2017 mun Læknavaktin á Smáratorgi sinna allri vaktþjónustu í Mosfellsumdæmi eins og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.
Samkvæmt upplýsingum frá Heilsugæslunni er breytingin liður í að samræma vaktþjónustu heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu. Íbúar í Mosfellsbæ, Kjalarnesi og Kjósarhreppi hafa eins og aðrir á höfuðborgarsvæðinu haft aðgang að vaktþjónustu Læknavaktarinnar en að auki hafa læknar á heilsugæslustöðinni í Mosfellsbæ verið með vaktþjónustu fyrir íbúa svæðisins utan dagvinnutíma og um helgar.

Ekki gert ráð fyrir vaktþjónustu
Í nýrri kröfulýsingu velferðarráðuneytisins fyrir rekstur heilsugæsluþjónustu, sem tekur gildi um áramótin, er ekki gert ráð fyrir að rekin sé vaktþjónusta heimilislækna á næturnar. Vaktþjónusta Læknavaktarinnar er opin á kvöldin og um helgar.
Samkvæmt kröfulýsingunni og nýju greiðslukerfi heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, sem einnig tekur gildi um áramótin, standa heilsugæslustöðvar framvegis straum af kostnaði við kvöld- og helgarþjónustu fyrir skjólstæðinga sína. Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Læknavaktina ehf. um að taka rekstur þessarar þjónustu yfir á öllu svæðinu.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur í framhaldinu tilkynnt læknum á heilsugæslustöðinni í Mosfellsbæ að vaktþjónusta á vegum heilsugæslustöðvarinnar um nætur og helgar muni falla niður.

Læknarnir ekki sáttir
„Við fengum að vita þetta fyrir viku síðan en lögunum var breytt á mánudeginum eftir kosningar“, segir Þórdís Oddsdóttir yfirlæknir á Heilsugæslunni. „Það er póli­tík í þessu öllu og auðvitað snýst þetta um krónur og aura. Þá getur maður líka spurt sig hvers virði er eitt mannslíf? Við erum auðvitað langt frá því að vera sátt við þessar breytingar og ekkert samráð hefur verið haft við okkur læknana.
Heimilislækningar snúast í grunninn um samfellda þjónustu og að geta fylgt sjúklingnum eftir, það er það mikilvægasta.“
Sjálf mun Þórdís láta af störfum næsta vor en tekur þó fram að það tengist ekki beint breytingu á vaktþjónustunni. Um áramót mun Gríma Huld Blængsdóttir taka við stöðu yfirlæknis. „Ég hef áhyggjur af starfsfólkinu hér á Heilsugæslunni og hef sterkan grun um að fólk sé að hugsa sér til hreyfings.“

——
Almennur þjónustutími á Heilsugæslunni í Mosfellsbæ er frá 8 til 16 virka daga og verður boðið upp á síðdegisvakt milli kl. 16 og 18 virka daga.

Öldur

oldur

Fyrir nokkrum vikum velti ég því fyrir mér hvort ég væri inni í bandarískri bíómynd þar sem allt gengi upp hjá söguhetjunum. Lífið var þannig að mér næstum fannst það of gott. Einkennileg tilfinning því auðvitað getur lífið ekki verið of gott. Síðan byrjuðu áskoranir af ýmsu tagi að detta inn á mitt borð, of margar fyrir minn smekk þótt engin þeirra væri háalvarleg. Ég datt í þann gír að vorkenna sjálfum mér, fannst ekki að ég ætti skilið að þurfa að kljást við allar þessar áskoranir.

Ég náði mér fljótlega upp úr þessum gír, fyrst og fremst með því að bera saman mínar aðstæður og áskoranir við þeirra sem virkilega eru að kljást við erfiðar aðstæður. Fór svo að hugsa þetta í kjölinn og komst að því, hugsanlega ekki fyrstur manna, að lífið er ekkert annað en endalausar bylgjur eða öldur. Stundum er maður á öldutoppnum, sér yfir hafið, nýtur þess að vera til. Stundum er maður í öldudal og þarf að hafa sig allan við til þess að halda sér á floti.

Mér fannst gott að sjá þetta svona myndrænt fyrir mér. Gat tengt þetta við sjósundið sem ég stunda reglulega með góðu fólki. Það er geggjað að synda í spegilsléttum sjónum í sól og blíðu, svamla áhyggjulaus um og njóta fegurðarinnar. En það er sömuleiðis magnað að fara í sjóinn í brjáluðu veðri. Tilfinningin er allt öðruvísi. Maður þarf að passa sig betur, hafa meira fyrir hlutunum. Hugsa öðruvísi. Stilla orkuna rétt. Ef maður berst sem óður maður á móti straumnum, klárar maður sig fljótt. Það sigrar enginn náttúruöflin. Ef maður hins vegar andar rólega, syndir með öldunum og velur réttu leiðirnar fær maður aukinn kraft og orku. Skilaboðin, það er alltaf leið og öldurnar lægir alltaf aftur, sama hvað þær eru kraftmiklar. Njótum lífsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 10. nóvember2016