Þrjár viðurkenningar til þróunar og nýsköpunar

Tekið við viðurkenningum. Ásta, Magne, Emma Sól Einar Karl og Anna Ólöf.

Tekið við viðurkenningum. Ásta, Magne, Emma Sól, Einar Karl og Anna Ólöf.

Þróunar- og nýsköpunarviðurkenning Mosfellsbæjar var afhent í Listasalnum þriðjudaginn 23. maí.
Óskað var sérstaklega eftir hugmyndum eða verkefnum sem styrkja ímynd Mosfellsbæjar sem heilsubæjar.
Alls bárust sjö gildar umsóknir og lagði þróunar- og ferðamálanefnd til við bæjarstjórn að afhentar yrðu þrjár viðurkenningar sem sjá má hér að neðan.
„Öllum umsækjendum er þakkað fyrir þátttökuna og þeir hvattir til að halda áfram að koma á framfæri hugmyndum um eflingu nýrra verkefna í þágu samfélagsins og heilsubæjarins Mosfellsbæjar,“ segir Rúnar Bragi Guðlaugsson, formaður þróunar- og ferðamálanefndar Mosfellsbæjar.

HRINGURINN – Magne Kvam
Fjallahjólastígur um fellin í kringum Mosfellsbæ. Hægt væri að leggja um 40 km hring með því að nýta þá stíga sem fyrir eru með breytingum og bæta við nýjum sérhönnuðum leiðum.
Stígurinn yrði opinn allt árið. Fjallahjóla og hlaupastígur á sumrin. Skíðagöngu- og breiðhjólastígur á veturna. Hringurinn er bæði fjölskylduvænn afþreyingarmöguleiki og áfangastaður fjallahjólreiðarmanna.
Peningastyrkur alls 300 þúsund krónur.

LEIKUR AÐ LÆRA – Kristín Einarsdóttir
Kennsluaðferð þar sem börnum á aldrinum 2 – 10 ára eru kennd öll bókleg fög í gegnum leiki og hreyfingu á skemmtilegan og árangursríkan hátt. Ný hugsun og kennsluaðferð um hvernig hægt er að kenna börnum í gegnum hreyfingu og leiki. Þar sameinast mörg heilsueflandi og lýðheilsu markmið.
Heilsueflandi skóli nýtir góðs af kennsluaðferðinni enda samræmist hann aðalnámskrá leik- og grunnskóla.
Peningastyrkur alls 200 þúsund krónur.

HEILSUDAGBÓKIN MÍN – Anna Ólöf Sveinbjörnsdóttir
Hugmyndin að Heilsudagbókinni er byggð á áralangri viðleitni höfundar til að öðlast betri heilsu og meiri lífsgæði. Heilsudagbókin er heildræn nálgun á bættar lífsvenjur þar sem lögð er áhersla á hreyfingu, mataræði og ekki síst huglæga eða andlega vinnu.
Heilsudagbókin er ódagsett sex vikna dagbók sem hjálpar notandanum að bæta líf sitt með markmiðasetningu, áætlunargerð, verkefnalista og fleiru.
Peningastyrkur alls 200 þúsund krónur.