Hafist handa við Helgafellsskóla

Tilvonandi nemendur ásamt bæjarfulltrúum.

Tilvonandi nemendur ásamt bæjarfulltrúum.

helgafellsskoliFyrsta skóflustunga að nýjum leik- og grunnskóla í Helgafellshverfi í Mosfellsbæ var tekin í dag, miðvikudaginn 7. desember.
Skóflustunguna tóku væntanlegir nemendur skólans sem stunda nú nám í Brúarlandi. Sá skóli er undanfari stofnunar Helgafellsskóla og er rekinn sem útibú frá Varmárskóla. Nemendunum til halds og trausts voru bæjarfulltrúar í Mosfellsbæ.

Helgafellshverfi byggist upp á miklum hraða
Bygging skólans verður stærsta einstaka framkvæmd sveitarfélagsins á næstu misserum. Heildarstærð hússins verður um 7.300 fm og áætlaður byggingarkostnaður um 3.500 milljónir. Skólinn verður byggður í fjórum áföngum og áætlanir gera ráð fyrir að fyrsti áfangi verði tekinn í notkun haustið 2018.
Uppbyggingarhraði mun að einhverju leyti taka mið af uppbyggingu hverfisins. En gefin hafa verið út um 400 byggingarleyfi í Helgafellslandi það sem af er ári. Hverfið byggist því upp á miklum hraða um þessar mundir.

Fullbyggður skóli mun hýsa rúmlega 700 börn
Í forsögn verkefnisins er meðal annars hlustað á raddir barna um hvað einkennir góðan skóla. Fullbyggður mun skólinn hýsa um 600 börn á grunnskólaaldri og um 110 börn á leikskólaaldri. Auk þess verður hann vinnustaður um 130 starfsmanna. Hönnuðir eru Yrki Arkitektar og um jarðvinnu sér Karina ehf.

Skólar eru kjarni samfélagsins
„Það er stór stund í hverju bæjarfélagi þegar tekin er fyrsta skóflu­stunga að nýrri skólabyggingu,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Skólar eru kjarni samfélagsins og í kringum þá er fjölbreytt og síbreytilegt mannlíf.
Mosfellsbær leggur áherslu á að hlúa vel að skólastarfi og að hér þrífist framsækið og jákvætt námsumhverfi fyrir börn og starfsfólk. Það er mikilvægt fyrir uppbyggingu í Helgafellshverfi að hafin sé framkvæmd leik- og grunnskóla á svæðinu.“