Hef jákvæðnina að leiðarljósi

mosfellingurinnolofs

Skólar ehf. var stofnað árið 2000 og hóf rekstur ári síðar. Í dag rekur fyrirtækið fimm heilsuleikskóla þar sem mikil áhersla er lögð á heilsueflandi skólastarf undir einkunnarorðunum „heilbrigð sál í hraustum líkama“.
Framkvæmda- og fagstjóri fyrirtækisins er Ólöf Kristín Sívertsen en hún er einnig verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ sem snýst í hnotskurn um það að gera holla valið auðvelt og aðgengilegt.

Ólöf Kristín er fædd í Reykjavík 5. september 1970. Foreldrar hennar eru þau María Hauksdóttir, starfsmaður í Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og Bjarni Kristinn Sívertsen, tæknifræðingur. Ólöf á tvær systur, þær Ragnheiði fædda 1966 og Guðrúnu Ingu fædda 1976.

Söng í kórum og upplifði ýmis ævintýri
„Ég er alin upp í Vesturbænum, maður var endalaust úti að leika sér í hinum ýmsu leikjum eins og brennó, teygjó, einni krónu og hollí hú. Ég er ekki viss um að krakkar í dag kunni þessa leiki en mér finnst jákvætt að í vinaliðaverkefninu sem er m.a. í Lágafellsskóla er verið að kenna börnunum ýmsa útileiki.
Ég hef haft gaman af söng og tónlist alveg frá því ég var smástelpa. Ég söng í kórum og upplifði ýmis ævintýri en ég held að hápunkturinn hafi verið þegar við sungum inn á plötu með leikaranum Bessa Bjarnasyni.“

Flutti til Eyja eftir stúdentspróf
„Eins og flestir Vesturbæingar fór ég í Melaskóla og svo í Hagaskóla. Þaðan lá leiðin í Verzlunarskóla Íslands en ég útskrifast þaðan árið 1990. Mér þótti alltaf gaman í skóla, gekk vel námslega og eignaðist marga góða vini.
Að loknu stúdentsprófi flutti ég til Vestmannaeyja og bjó þar í tvö ár. Vann þar m.a. á leikskólanum Kirkjugerði og það var þar sem ég ákvað endanlega að ég ætlaði að verða kennari.“

Að sjá landið með augum ferðamanns
„Ég fór í Kennaraháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1995, vann á leikskóla í eitt ár og fór síðan í ferðabransann. Þar vann ég við að skipuleggja hvataferðir, ráðstefnur og fundi, aðallega fyrir útlendinga á Íslandi. Þetta var afskaplega skemmtilegur tími.
Ég náði mér líka í leiðsögumannaréttindi og upplifði hversu mikil forrréttindi það eru að sjá landið með augum ferðamannsins.“

Vil hjálpa börnum að líða betur
„Það var lán mitt í lífinu að kynnast manninum mínum, Sævari Kristinssyni rekstrarráðgjafa en við höfum verið saman í fjórtán ár. Ég eignaðist líka tvo fóstursyni, þá Halldór Inga fæddan 1989 og Gísla fæddan 1980. Við Sævar fluttum í Mosfellsbæ árið 2004.
Eftir sjö ár í ferðabransanum fór ég að kenna í Hagaskóla. Það var virkilega gaman að kenna með mörgum af gömlu kennurunum sínum. Þar áttaði ég mig á því að ég vildi geta gert enn meira til að hjálpa börnum til að líða betur og því ákvað ég að skrá mig í meistaranám í lýðheilsufræðum við Háskólann í Reykjavík og útskrifaðist árið 2007.“

Forseti Íslands verndari verkefnisins
„Að námi loknu verkstýrði ég Forvarnadeginum sem þá var haldinn í annað skiptið í öllum 9. bekkjum á Íslandi. Forseti Íslands er verndari verkefnisins og var virkilega gaman að sjá hversu virkan þátt Ólafur Ragnar Grímsson tók í verkefninu enda var málefnið honum hugleikið.
Í byrjun árs 2008 hóf ég störf hjá HR en stuttu seinna uppgötvaði ég að ég var orðin ólétt. Það var okkur Sævari mikið gleðiefni og þarna datt ég í þann stærsta lukkupott sem ég hafði nokkurn tímann lent í, því ég varð ekki bara ólétt heldur varð ég ólétt að tvíburum. Strákarnir okkar, Kristinn Þór og Ólafur Haukur, eru 8 ára gamlir í dag.“

Heilbrigð sál í hraustum líkama
„Árið 2010 fór ég að vinna sem deildarstjóri á einum af heilsuleikskólum Skóla ehf. og hef starfað hjá félaginu síðan. Skólar ehf. reka fimm heilsuleikskóla í jafnmörgum sveitarfélögum og frá 2011 hef ég verið fagstjóri yfir öllum þeim skólum og tók auk þess nýverið við stöðu framkvæmdastjóra sem ég gegni samhliða starfi fagstjóra. Einkunnarorð okkar eru heilbrigð sál í hraustum líkama.“

Snýst um að gera holla valið auðvelt
Ólöf tók þátt í stofnun heilsuklasans Heilsuvinjar árið 2011 og var meðal þeirra frumkvöðla hjá Heilsuvin sem ýttu verkefninu Heilsueflandi samfélag úr vör í samvinnu við Embætti landlæknis og sveitarfélagið Mosfellsbæ. „Ég hef verið verkefnisstjóri þessa metnaðarfulla og spennandi verkefnis hér í bæjarfélaginu sem snýst í hnotskurn um það að gera holla valið auðvelt og aðgengilegt og gera fólki þannig kleift að taka heilsusamlegar ákvarðanir og lifa heilbrigðu lífi.
Áhersluþættir verkefnisins snúa allir að áhrifaþáttum heilsu og eru þeir næring og mataræði, hreyfing og útivist, líðan og geðrækt og svo í lokin bætum við ýmsum varnarþáttum við og hnýtum þetta allt saman í áhersluþætti sem við köllum lífsgæði.
Við höfum unnið að ýmsum verkefnum eins og næringarráðgjöf til veitingastaða og verslana í bænum, komið að hreyfiverkefninu „Væntumþykja í verki“ fyrir eldri borgara, stofnað heilsueflandi skólahóp þvert á skólastigin og átt í góðu samstarfi við Ferðafélag Íslands ásamt ýmsu fleiru.“

Tilnefnd til Samfélagsverðlauna
„Ég er afskaplega stolt af því að Mosfellsbær skuli vera fyrsta sveitarfélagið sem fer í þá markvissu vinnu að byggja upp Heilsueflandi samfélag. Búa þannig til fyrirmynd sem önnur sveitarfélög geta og hafa nýtt sér en nú þegar hafa átta önnur sveitarfélög ákveðið að hefja þessa vegferð að vellíðan íbúa sinna sem er mikið fagnaðarefni.
Hápunkturinn á mínum ferli til þessa er tilnefning til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins fyrr á þessu ári. Þar var ég tilnefnd í flokknum „Frá kynslóð til kynslóðar“ fyrir mikið og faglegt starf við eflingu lýðheilsu í skólakerfinu og samfélaginu öllu.
Það er meðal annars á svona augnablikum sem hlutirnir öðlast skýran tilgang og hjarta manns fyllist af auðmýkt, gleði, stolti og þakklæti.“

Hlakkar til að njóta framtíðarinnar
„Þegar ég lít yfir lífshlaup mitt get ég svo sannarlega glaðst og verið þakklát fyrir svo óendanlega margt. Auðvitað hef ég upplifað hæðir og lægðir eins og allir aðrir en ég hef reynt að temja mér að hafa jákvæðnina að leiðarljósi í lífinu og horfa á lausnirnar og tækifærin frekar en hindranirnar.
Maður er einhvern veginn betur við stjórnvölinn í sínu eigin lífi þegar maður velur sér viðhorf og ákveður að bregðast á meðvitaðan hátt við þeim áskorunum sem lagðar eru fyrir mann á lífsleiðinni.
Ég er ótrúlega spennt yfir því hvað framtíðin ber í skauti sér, hlakka til að njóta hennar með þeim sem ég elska og hlakka til að takast á við enn fleiri spennandi og krefjandi verkefni til að efla heilsu og vellíðan landans,“ segir Ólöf Kristín og brosir sínu fallega brosi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 1. desember 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs