Öðruvísi jól

heilsumolar_gaua_22des

Við fjölskyldan höfum verið á ferðalagi síðan 1.desember. Í annarri heimsálfu þar sem jólin spila minni og öðruvísi rullu en hjá okkur á Íslandi. Við höfum lítið orðið vör við jólin á flakkinu, einstaka jólaljós og tré, en annars lítið sem ekkert. Jólin verða öðruvísi en venjulega og áramótin sömuleiðis. Við vitum í dag ekki hvað við gerum á þessum stórhátíðardögum. En við vitum að það verða engar rjúpur, ekkert ris a la mande, ekkert jólatré, engin messa í útvarpinu, enginn sítrónufrómas, engir flugeldar – alla vega ekki flugeldar sem við skjótum upp sjálf.

Hefðir eru sterkar og toga í mann. Margar hefðir á Íslandi í kringum aðventuna og jólin eru góðar og gefandi. Aðrar minna gefandi.

Ég skrifa þennan pistil á sundlaugarbakka á flugvallarhóteli í Bangkok. Það er 28 stiga hiti. Mér líður stórkostlega. Aðventan hefur verið frábær. Rólegir, ólíkir og lærdómsríkir dagar. Lífið hefur snúist um að borða, sofa og upplifa eitthvað nýtt. Og mikla samveru með konu og tveimur af börnum okkar. Ég hef sjaldan verið svona afslappaður í desember. Jafn sáttur í eigin skinni.

Jólastress eða ekki, við getum kallað það hvað sem er. Ég er klár á því að spennustigið á Íslandi er mjög hátt í desember. Margir að reyna að gera margt. Halda í hefðir og uppfylla kröfur. Umlykjandi er svo auglýsingflóðið og stanslausa áreitið. Kaupmenn að hvetja okkur til að kaupa gjafir, mat, skreytingar, föt, miða á tónleika og allt hitt. Sumir tækla þetta betur en aðrir. Sumir elska atið.

Fyrir mér er í raun bara eitt sem skiptir virkilega máli á þessum tíma. Fólkið mitt. Ég sakna þeirra sem eru ekki með mér yfir hátíðarnar, en er ótrúlega þakklátur fyrir þann mikla tíma sem ég fæ með þeim sem eru með mér.

Njótum ferðalagsins og þeirra sem taka þátt í því með manni.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. desember 2016