Endurbætur á Varmárskóla komnar í útboð

varmarskoli_mosfellingur

varmá_yfirlitÍ sumar eru fyrirhugaðar verulegar endurbætur á húsnæði Varmárskóla.
Umhverfissvið Mosfellsbæjar hefur óskað eftir tilboðum í viðhaldsframkvæmdir við húsnæði yngri deildar skólans. Verkefnið felur í sér endurnýjun á hluta þakefna, glugga auk múrviðgerða og málunar. Lögð verður áhersla á að vinna verkið þannig að lágmarks rask verði á skólahaldi og að því verði að mestu lokið fyrir skólasetningu í haust og að fullu lokið 1. september.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.
Helstu verkþættir felast í endurnýjun bárujárns og glugga, múr­viðgerðum og málun veggja á suðurbyggingu. Í vesturhluta skólans verður skipt um bárujárn á hluta af þekju ásamt gluggum ofan við þekjuna.
Þetta útboð er fyrsti hluti af þriggja ára áætlun um endurnýjun á ytra byrði skólans og er unnið á grunni úttektar sem umhverfis­svið Mosfellsbæjar gerði.
Heildarumfang þessara framkvæmda nemur um 200 m. kr. á næstu þrem árum.

Heildstæð úttekt á Varmárskóla
Til viðbótar stendur nú yfir ítarleg greiningarvinna á húsnæði Varmárskóla, en verkfræðistofan Efla hefur á síðustu misserum unnið fyrir Mosfellsbæ að úttektum á áhrifum raka á húsnæðið ásamt því að mæla loftgæðin í skólanum.
Fyrirtækið hefur framkvæmt þrjár aðskildar úttektir á þessum atriðum á síðustu þremur árum í náinni samvinnu við starfsmenn Varmárskóla og umhverfissviðs Mosfellsbæjar en í ljósi þess að fram komu nýjar ábendingar frá skólasamfélaginu var Eflu falið að vinna heildstæða úttekt á Varmárskóla. Hófst sú vinna 15. apríl síðastliðinn og er gert ráð fyrir að henni verði að fullu lokið í maí.

Taka hlutverk sitt alvarlega
„Mosfellsbær tekur hlutverk sitt á sviði skólamála mjög alvarlega og gefur enga afslætti á því sviði frekar en öðrum,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Starfsmenn og stjórnendur Varmárskóla hafa sinnt góðu starfi og við leitumst við að styðja þá í þeirra mikilvægu störfum fyrir nemendur skólans.
Fram hefur komið í samskiptum Mosfellsbæjar og Eflu að fyrirtækið telji að viðbrögð Varmárskóla og umhverfissviðs Mosfellsbæjar hafi verið í samræmi við tilefni þeirra mála sem komið hafa upp á hverjum tíma, en Efla er einn reynslumesti aðilinn á sviði rakaskemmda hér á landi.“

Bærinn tekur vel á móti ábendingum
„Varðandi umræðuna sem verið hefur um skólamálin á breiðum grunni að undanförnu þá vil ég ítreka að bæjaryfirvöld taka vel á móti öllum ábendingum um umbætur á sviði skólamála og við leggjum áherslu á að vinna úr þeim eins hratt og mögulegt er. Þetta á líka við um ábendingar sem fram hafa komið um Varmárskóla. Varmárskóli stendur sig vel á mörgum sviðum en áfram er þar verk að vinna.
Skólastarf er í eðli sínu þannig að það þarf að vera í stöðugri þróun. Mikilvægt er að skólasamfélagið, sem heild, vinni saman að lausn þeirra verkefna enda segir máltækið að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn.
Starfsemi Varmárskóla er samvinnuverkefni kennara, foreldra og bæjaryfirvalda. Vilji íbúar fá tíðari upplýsingar og koma meira að stefnumótuninni í skólanum þá göngum við í það verkefni, eins og önnur, með gleði í hjarta,“ segir Haraldur.

Dýralæknirinn kominn í nýtt húsnæði

totadyralaeknir

Dýralæknirinn Mosfellsbæ flutti í nýtt húsnæði fyrir skemmstu og er nú til húsa í Urðarholti 2 þar sem Mosfellsbakarí var eitt sinni til húsa.
Þórunn Þórarinsdóttir dýralæknir er eigandi stofunnar sem hefur verið starfrækt í Mosfellsbæ síðan 2003 en auk Tótu eins og hún er alltaf kölluð starfa þrír dýralæknar auk annars starfsfólks á stofunni.

Fullbúinn dýraspítali
„Við erum rosalega ánægð að vera komin í þetta framtíðarhúsnæði, það var löngu orðið tímabært að stækka, þar sem húsnæðið sem við vorum í var orðið of lítið.
Hér getum við boðið upp á alla þjónustu sem dýrin þurfa frá fæðingu til dánardags. Við erum hér með röntgentæki, sónartæki, blóðrannsóknartæki, fullbúna skurðstofu og fleira. Við erum líka með frábæra aðstöðu fyrir tannhreinsum og tanntöku dýra, ásamt allri annarri þjónustu sem dýrin þurfa,“ segir Tóta sem segir Mosfellinga ánægða með nýja dýraspítalann.

Glæsileg verslun
„Hér erum við líka með glæsilega verslun þar sem við leggjum áherslu á að vera með gæðavöru.
Við erum með mikið úrval af gæludýrafóðri frá til dæmis Royal Canin og Hills. Ég vanda valið á vörum í verslunina og verð með allt sem dýraeigandinn þarf á að halda.
Opnunartíminn hjá okkur er frá kl. 6-18 allar virka daga, auk neyðarþjónustu fyrir alvarleg tilfelli,“ segir Tóta að lokum og tekur vel á móti Mosfellingum og þeirra dýrum, stórum sem smáum.

Heilsuhvetjandi vinnustaðir

gaui2maí

Ég er að prufukeyra fjarverkefni með góðu fólki. Verkefnið byggir á því sem við erum að læra hjónin á rannsóknarferð okkar um heiminn, við erum að heimsækja staði sem hafa verið þekktir fyrir langlífi og góða heilsu.

Í síðustu viku vorum við í prufuverkefninu að skoða daglega hreyfingu, hvernig hægt væri að auka hana og koma betur inn í lífið. Öll samfélög þar sem langlífi er þekkt eiga það sameiginlegt að fólk hreyfir sig reglulega yfir daginn. Dagleg hreyfing snýst ekki um að mæta æfingar tvisvar til þrisvar í viku og sitja svo á rassinum eða liggja upp í sófa/rúmi restina af sólarhringnum. Það er ekki nóg ef við viljum byggja upp og viðhalda góðri heilsu.

Við þurfum að koma reglulegri hreyfingu inn í daginn okkar og þá skipta vinnustaðir miklu máli. Ég hef unnið með og heimsótt tugi vinnustaða undanfarin ár og það er mikill munur á viðhorfi atvinnurekenda og stjórnenda fyrirtækja varðandi heilsu starfsmanna. Sumir vinnustaðir eru beinlínis heilsuletjandi á meðan aðrir hafa áttað sig á mikilvægi þess fyrir vinnustaðinn og samfélagið allt að hvetja fólk til þess að hreyfa sig og hlúa að eigin heilsu.

Mér þótti virkilega vænt um að lesa þessar línur frá einni sem tekur þátt í prufuverkefninu áðurnefnda. Það skín sterkt í gegn hvað hún er ánægð með sinn vinnustað og þá hvatningu sem hún fær til þess að hreyfa sig í tengslum við vinnuna. Það skilar sér í þráðbeint til baka til vinnustaðarins. Meiri vinnugæði, betri starfsandi, færri veikindadagar og fjarvistir svo fátt sé nefnt.
„Ég er svo heppin að ég get fengið borgað aukalega fyrir að koma mér á vistvænan máta til vinnu og svo má ég stunda líkamsrækt á vinnutíma. Með því að hjóla í vinnuna er ég bæði að stytta vinnuvikuna og fá meira útborgað … það er klassi.“

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 2. maí 2019

Þjálfarar Liverpool mjög ánægðir með umgjörðina

Hanna Símonardóttir í heimsókn hjá Liverpool akademíunni.

Hanna Símonardóttir í heimsókn hjá Liverpool akademíunni.

Liverpool-skólinn verður haldinn í samstarfi við Aftureldingu í níunda sinn nú í júnímánuði.
Skólinn hefur stækkað og dafnað og nú koma 16 þjálfarar frá Liverpool til þess að sýna íslenskum fótbolltasnillingum hvernig þjálfunin fer fram hjá þessu fornfræga félagi.
Gera má ráð fyrir að iðkendur í ár verði rúmlega 350 talsins, en skólinn er haldin hér í Mosfellsbæ og á Akureyri í samvinnu við Þór. Undanfarin ár hefur verið uppselt í skólann í Mosfellsbæ.

Hugmyndin kvikaði á Barbados
Hanna Símonardóttir, einn af virkustu sjálfboðaliðum Aftureldingar, segir að hugmyndin hafi kviknað eftir samtal við Guðjón Svanson. Drengirnir hans höfðu farið í Liverpool-skóla á Barbados þegar fjölskyldan var í heimsreisu.
„Skömmu seinna er ég á leiðinni á leik í Liverpool og Gaui fékk þjálfarana sem hann hafði kynnst á Barbados til þess að hitta mig, en sá þjálfari var kominn í fullt starf hjá Liverpool Academy.
Í stuttu máli þá samþykkti hann að skólinn kæmi til prufu einu sinni. Níu árum seinna er hann ennþá í fullum gangi,“ segir Hanna sem er mjög stolt af Liverpool-skólanum í Mosfellsbæ.

Frábær ávinningur fyrir alla
„Skólinn er lítill á þeirra mælikvarða en þeir eru ánægðir með hvernig þetta gengur og hvernig við gerum hlutina. Þriggja ára reynslutíma lauk og við fengum langtímasamning. Þjálfarar Liverpool, iðkendur og foreldrar eru ánægð með okkur.
Að geta gefið íslenskum krökkum tækifæri á því að sækja æfingar hjá knattspyrnuskóla frá jafn sögufrægu, virtu félagi og Liverpool er frábær ávinningur fyrir Aftureldingu og Mosfellsbæ. Við eigum frábærara þjálfara en öll fjölbreytni er frábær og að krakkarnir fái að kynnast hugarfari erlendra þjálfara er ómetanlegt.“

Með Liverpool í blóðinu
Sjálf er Hanna líklega ein af hörðustu stuðningmönnum Liverpool á Íslandi og fer reglulega á leiki liðsins á Anfield. Hún segir fáa trúa sér þegar hún útskýrir að á tíma hafi hún ekki fylgst mikið með liðinu, enda hafi mikið verið að gera í barnauppeldi og lífinu.
„Það var elsti sonur minn sem reddaði þessu þegar hann kom heim úr skólanum einn daginn og gólaði úr forstofunni að Liverpool væri besta liðið og hann héldi með þeim. Þá datt ég aftur í gírinn og hef vart misst úr leik síðan,“ segir þessi kraftmikla kona að lokum.

Henti mér út í djúpu laugina

gdrn

Tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir eða GDRN eins og hún kýs að kalla sig hlaut fern verðlaun þegar Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í Hörpu nýlega. Þar var hún valin söngkona ársins í flokki popp-, rokk-, raf- og hiphopptónlistar, plata hennar „Hvað ef“ var valin poppplata ársins og hún átti lag og tónlistarmyndband ársins.
Í þakkarræðu sinni hvatti Guðrún Ýr ungar stelpur til þess að láta sig dreyma risastórt, því þetta væri mögulegt.

Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir er fædd 8. janúar 1996. Foreldrar hennar eru þau Kristín María Ingimarsdóttir grafískur hönnuður og kennari í Borgarholtsskóla og Jóhannes Eyfjörð Eiríksson öryggisstjóri hjá Origo.
Guðrún Ýr á tvo bræður, Matthías Eyfjörð f. 2002 og Andra Eyfjörð f. 2004.

Sveit í bæ fílingur
„Ég er fædd í Reykjavík en flutti í Mosfellsbæ þegar ég var fjögurra ára. Það var frábært að alast hér upp því þetta var smá sveit í bæ fílingur og mikið frelsi. Það var gaman að banka upp á hjá jafnöldrum mínum og fara svo saman út að leika.
Ég var fimm ára þegar ég byrjaði að læra á fiðlu í Tónlistarskóla Mosfellsbæjar. Þegar kennarinn minn flutti til Írlands þá færði ég mig yfir í Suzukitónlistarskólann í Reykjavík. Ég hætti í fiðlunáminu 17 ára og ákvað stuttu eftir það að hefja söngnám í Tónlistarskólanum í Mosfellsbæ og þar var ég í nokkur ár. Ég færði mig svo yfir í Tónlistarskóla FÍH og fór að læra jazz-söng og seinna á píanó og ég er enn við nám þar í dag.
Ég æfði líka knattspyrnu í mörg ár hjá Aftureldingu og dreymdi um að verða fótboltastjarna en þurfti því miður að hætta vegna hnémeiðsla.“

Ætlaði að verða læknir
„Mér fannst alltaf gaman í skóla en ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Uppáhaldsfögin mín voru myndmennt og textíl. Gelgjan var nú svolítið í hámarki síðustu árin í gaggó,“ segir Guðrún Ýr og brosir.
„Ég fór í Menntaskólann í Reykjavík á náttúrufræðibraut því ég ætlaði mér að verða læknir. Ég fann samt fljótt út að þetta var ekki leiðin sem hentaði mér, ég kláraði stúdentinn og fór svo af fullum krafti í tónlist.“

GDRN
Guðrún Ýr segist hafa hent sér út í djúpu laugina þegar hún fór að búa til sína eigin tónlist. Það gerir hún undir nafninu GDRN sem stendur fyrir Guðrún án sérhljóða.
Hún gaf út sína fyrstu tónlist árið 2017 en það var ekki fyrr en hún gaf út lagið „Lætur mig“ sumarið 2018 sem boltinn fór almennilega að rúlla. Hún gaf síðan út plötuna „Hvað ef“ í ágúst 2018 og vakti hún gríðarlega athygli. Platan var valin plata ársins á Grapevine Music Awards og hlaut einnig Kraumsverðlaunin. Platan var líka tilnefnd á Nordic Music Prize í Noregi en í sama flokki var söngkonan Robyn tilnefnd sem gerði garðinn frægan árið 2010 með laginu sínu „Dancing on my own“ sem náði vinsældum á heimsvísu.
Á milli lagasmíða kemur Guðrún Ýr fram á tónleikum.

Með ótrúlegt tóneyra
„Það þýðir ekkert annað en að vera kræfur í þessum bransa, ég er alveg óhrædd við að spyrja hvort ég megi syngja með þeim sem mig langar að syngja með og fæ alltaf góð viðbrögð. Það er gott að vera kona í tónlistarbransanum á Íslandi og ég finn fyrir miklum stuðningi frá öðrum tónlistar­konum. Ég vil vera innblástur fyrir ungar stúlkur sem eru að taka sín fyrstu skref.“
Guðrún Ýr vinnur einnig með upptökustjórateyminu ra:tio sem samanstendur af þeim Bjarka Sigurðarsyni og Teiti Helga Skúlasyni en þau hafa þekkst síðan í MR. Þeir félagar segja hana tónlistarlegan suðupott sem sé með óvenjulega rödd og komi með óvænt áhrif inn í poppið. Hún sé einlægur karakter, föst á sínu og með ótrúlegt tóneyra.

Þetta var draumi líkast
Fjölbreytni og fagmennska var í fyrirrúmi á glæsilegri verðlaunahátíð tónlistargeirans þegar Íslensku tónlistarverðlaunin voru afhent í Silfurbergi í Hörpu.
Plata Guðrúnar „Hvað ef“ var valin poppplata ársins, lagið „Lætur mig“ sem hún syngur með Flóna var valið popplag ársins. Guðrún Ýr var valin söngkona ársins í flokki popp-, rokk-, raf- og hiphopptónlistar og hún fékk einnig verðlaun fyrir tónlistarmyndband ársins.
Hún segir verðlaunin hafi komið sér reglulega á óvart.
„Ég var búin að gera mér vonir um að vinna titilinn söngkona ársins en fékk svo þrenn verðlaun til viðbótar, þetta var bara draumi líkast. Það er svo gaman að fá svona viðurkenningu sérstaklega þegar maður hefur lagt svona mikla vinnu í hlutina, það er bara æðislegt.“

Kemur fram á þjóðhátíð í Eyjum
Guðrún Ýr er ein af þeim sem kemur fram á þjóðhátíð í Eyjum í ár og segist hún full eftirvæntingar. Hún fór fyrst á þjóðhátíð í fyrra og segir þau kynni hafi verið ansi köld og blaut því veðrið var ekki upp á sitt besta.
„Ég hef nú oftast verið á unglingalandsmótum um þessa helgi að keppa í fótbolta og frjálsum eða að ferðast með fjölskyldunni um landið. Það var því mikið upplifelsi að prófa eitthvað nýtt og fara á þjóðhátíð, þetta var svona fyrsta skrallhelgin.
Það verður örugglega enn skemmtilegra núna þar sem maður fær að taka þátt í dagskránni á stóra sviðinu og ég hlakka mikið til,“ segir Guðrún Ýr að lokum er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 4. apríl 2019
Myndir og texti: Ruth Örnólfs

20 ár liðin frá mesta afreki í sögu Aftureldingar

Jói og bjarki áttu stóran þátt í velgengni aftureldingar í kringum aldamótin

Jóhann Guðjónsson og Bjarki Sigurðsson áttu stóran þátt í velgengni Aftureldingar í kringum aldamótin

Í vor eru 20 ár liðin frá því að karlalið Aftureldingar í handknattleik sópaði að sér öllum sigurlaunum sem voru í boði í íslenskum handknattleik. Afturelding var bikarmeistari í febrúar, deildarmeistari mánuði síðar og undir lok apríl lyftu Aftureldingarmenn Íslandsmeistarabikarnum í fyrsta og jafnframt eina skipti til þessa.
Afturelding lagði FH-inga með þremur vinningum gegn einum í úrslitarimmunni. Bjarki Sigurðsson, fyrirliði, tók við Íslandsmeistarabikarnum í Kaplakrika sunnudagskvöldið 25. apríl við ærandi fögnuð sennilega um eitt þúsund Mosfellinga sem flykktust á leikinn til að styðja lið sitt með ráðum og dáð.
„Ég man alltaf eftir ferðinni heim í Mosó eftir leikinn. Við fengum lögreglufylgd inn í bæinn og á móti okkur tók gríðarlegur fjöldi fólks við Hlégarð þegar við mættum með bikarinn. Þetta var einstök stund sem verður ævinlega ofarlega í minningunni,“ sagði Bjarki þegar hann spjallaði við tíðindamann á dögunum.
Lokaleikinn í rimmunni vann Afturelding 25:23, þar sem Bjarki var markahæstur með níu mörk. „Ég held að þetta sé eitt mesta ef ekki mesta afrek nokkurs liðs Aftureldingar í sögu félagsins,“ sagði Jóhann Guðjónsson sem var formaður handknattleiksdeildar Aftureldingar frá 1991 til 2003.

„Þetta vannst ekki fyrir tilviljun“
Jóhann var vakinn og sofinn yfir deildinni árum saman en með honum og samverkmönnum hans var lyft grettistaki í handknattleiknum í Mosfellsbæ á tíunda áratug síðustu aldar. „Þetta vannst ekki fyrir tilviljun. Aðdragandinn var langur og margt hafði verið gert á árunum á undan til að byggja upp liðið allt frá því að við fórum upp í efstu deild vorið 1993 með Guðmundur Guðmundsson núverandi landsliðsþjálfara sem þjálfara Aftureldingar,“ sagði Jóhann og benti á fyrsti stóri titilinn hafi unnist 1997 þegar Afturelding varð deildarmeistari í efstu deild karla. „Við unnum markvisst að því að ná þessu takmarki að verða Íslandsmeistarar en þessa tilteknu leiktíð féllu öll púslin saman.“
Fæðing gullliðsins 1999 var ekki auðveld því þótt Afturelding hafi á árunum á undan verið með eitt besta handknattleikslið landsins þá kvarnaðist úr hópnum eftir hvert tímabil. Leikmenn réru á önnur mið, ekki síst fóru þeir til Evrópu. Til dæmis yfirgáfu átta sterkir leikmenn frá Aftureldingu eftir tímabilið vorið 1998. Ýmist lögðu þeir skóna á hilluna góðu eða gengu til liðs við félagslið í Evrópu eða þá til annarra liða á Íslandi.

Margfaldir meistarar myndaðir að Varmá.

Margfaldir meistarar myndaðir að Varmá.

Litháarnir reyndust happafengur
„Satt best að segja var útlitið ekki bjart um sumarið 1998 þegar við voru byrjaðir að æfa. Sárafáir leikmenn voru á æfingum og ekki margt sem benti til þess að við yrðum með samkeppnishæft lið. Vissulega var talsvert af ungum og efnilegum strákum í hópnum en fleiri reynda leikmenn vantaði,“ sagði Bjarki. Jóhann tekur undir það og segist vel muna efti að hafa fengið samtal frá Skúla Gunnsteinssyni þjálfara þegar leið á sumarið þar sem Skúli hafði þungar áhyggjur af því að eiga ekki í lið um haustið ef fram héldi sem horfði. Skúli var þá á öðru ári sem þjálfari Aftureldingar. „Ég sagði Skúla að hafa ekki nokkrar áhyggjur. Við í stjórninni skyldum sjá um að fá leikmenn. Hann ætti bara að þjálfa,“ sagði Jóhann.
„Það fór að rofa til þegar leið fram á sumarið. Hafsteinn Hafsteinsson kom til okkar og síðan Litháarnir Gintaras Savukynas og Gintas Galkauskas. Þeir reyndust okkur sannkallaður happafengur. Savukynas var leikstjórnandi og við náðum alveg einstaklega vel saman. Það var eins hugur okkar væri einn og hinn sami. Sennilega var það lykillinn að sóknarleik okkar allt tímabilið,“ sagði Bjarki. „Alexei Trúfan og Galkauskas bundu síðan saman vörnina en að baki henni stóð landsliðsmarkvörðurinn Bergsveinn Bergsveinsson vaktina.
Þegar út í mótið var komið þá voru við með hörkugott lið en hópurinn var ekki breiður og við máttum alls ekki við miklum áföllum. Sem betur fer komumst við áfallalítið í gegnum veturinn en það var hætt við að það hefði verið á brattann að sækja ef margir hefðu meiðst alvarlega,“ sagði Bjarki.
Afturelding vann 16 af 22 leikjum sínum í deildinni, gerði tvö jafntefli og tapaði fjórum viðureignum. Stjarnan varð í öðru sæti fjórum stigum á eftir. ÍBV hafnaði í þriðja sæti 10 stigum frá Aftureldingu. Bjarki varð markakóngur deildarinnar með 169 mörk, skoraði 14 mörkum meira en stórskyttan Sigurður Valur Sveinsson sem lék þennan vetur með HK.

Mark Bergsveins vendipunkturinn í bikarleiknum
Rimma Aftureldingar og FH um Íslandsmeistaratitilinn var ekki eina einvígi liðanna á þessu tímabilið því lið félaganna léku einnig til úrslita í bikarkeppninni í Laugardalshöll laugardaginn 13. febrúar. Með frábærum síðari hálfleik vann Aftureldingarliðið úrslitaleikinn með fimm marka mun, 26:21.
„Mark Bergsveins markavarðar okkar yfir endilangan völlinn í jafnri stöðu í síðari hálfleik var vendi­punktur í úrslitaleiknum að mínu mati. Markið slökkti alveg á FH-liðinu,“ sagði Bjarki. Og Jóhann rifjar upp frá sama leik að séra Pálmi Matthíasson prestur hafi komið að máli við sig í hálfleik en þá var Aftureldingarliðið undir og sagt að það blési ekki byrlega fyrir Aftureldingarliðið. „Ég sagði Pálma að það hentaði okkur betur að vera undir og þess vegna litist mér vel á stöðuna. Hvort Pálmi fylgdi okkur eða FH að málum veit ég ekki en við snerum taflinu við í síðari hálfleik og unnum sannfærandi sigur.“

Bjarki var sóttur til Drammen
Að margra mati var koma Bjarka til Aftureldingar sumarið 1998 einn stærsti þátturinn í að Afturelding náði þessum einstaka árangri á fyrri hluta ársins 1999. Bjarki hafði farið á kostum með Drammen veturinn 1997-98 og hélt uppteknum hætti leiktíðina 1998-99 með Aftureldingu og var besti leikmaður Íslandsmótsins.
„Ég var í sambandi við Bjarka allan veturinn sem hann var hjá Drammen enda kynnst honum vel árin sem hann var hjá okkur fyrir Noregsdvölina. Þegar kom fram í ársbyrjun 1998 heyrði ég á Bjarka að hann var ekki sáttur í Drammen þótt honum gengi vel inni á leikvellinum.
Þegar komið var undir vor var ég á leið í bæinn á fimmtudegi eftir að hafa verið í snjósleðaferð. Þá hringdi ég í Einar Pál Kjærnested sem þá var framkvæmdastjóri handknattleiksdeildarinnar og sagði honum að við tveir værum á leið til Drammen morguninn eftir. Ég væri á leið niður í Kringlu á söluskrifstofu Flugleiða að kaupa tvo flugmiða fyrir okkur. Við fórum út morguninn eftir, sömdum við Bjarka á laugardeginum og héldum svo heim til Íslands.
Bjarki flutti heim í Mosfellsbæ með fjölskylduna um sumarið og hefur verið þar síðan eins og fleiri leikmenn sem léku með okkur á þessum árum,“ sagði Jóhann og bætti við:
„Ekki löngu eftir að við sömdum við Bjarka hafði Alfreð Gíslason samband við mig en hann var þá að taka við þjálfun Magdeburg í Þýskalandi. Hann vildi fá Bjarka til sín. Ég sagði við Alfreð að það væri ekkert mál ef félag hans vildi greiða Aftureldingu 10 milljónir króna fyrir. Ekkert varð af kaupunum.“

umfa110vefbordi20 ára afmæli Gullliðsins fagnað
Jóhann og Bjarki segjast minnast þessa árs með gleði í huga. Aðeins góðar minningar standi eftir nú 20 árum síðar. Til stendur að hópurinn komi saman í vor eða í byrjun sumars að sögn Bjarka til að halda upp á áfangann. Góðar vonir standi til þess að svo að segja allir mæti, m.a. Litháarnir tveir, Gintaras Savukynas og Gintas Galkauskas sem búa ekki lengur hér á landi.
„Þessi ár voru skemmtileg, ekki síst meistaratímabilið. Áhuginn var gríðarlegur í bænum, fullt hús á öllum leikjum og við vorum með trausta stuðningsmannasveit sem lét mikið að sér kveða,“ segir Jóhann og bætir við.
„Þess utan voru við afar trausta bakhjarla að deildinni sem voru Bjarni Ásgeir Jónsson og fyrirtæki hans Holtakjúklingur og Örn Kjærnested sem átti Álftárós á þessum árum. Þeir voru burðarásar í fjárhagsstuðningi við deildina. Án þeirra framlaga hefði þetta ekki verið hægt. Fleiri fyrirtæki í bænum komu að og segja má að allir hafi lagst á árar með okkur á þessum árum enda var árangurinn samkvæmt því,“ sagði Jóhann Guðjónsson.

————————————-
Eftirtaldir voru í Íslandsmeistaraliði Aftureldingar: Ásmundur Einarsson, Bergsveinn Bergsveinsson, Jóhannes Lange og Sölvi Már Margeirsson voru markverðir. Aðrir voru Alexei Trúfan, Bjarki Sigurðsson, Einar Gunnar Sigurðsson, Gintaras Savukynas, Gintas Galkauskas, Hafsteinn Hafsteinsson, Haukur Sigurvinsson, Hilmar Stefánsson, Jón Andri Finnsson, Magnús Már Þórðarson, Maxime Trúfan, Níels Einar Reynisson og Sigurður Sveinsson.
Þjálfari var Skúli Gunnsteinsson og aðstoðarþjálfari mágur hans, Siggeir Magnússon. Óskar Jón Helgason var sjúkraþjálfari og Matthías Árni Guðmundsson var liðsstjóri.

Texti: Ívar Ben – Mynd: Raggi Óla

Sigurvegarar í Stóru upplestrarkeppninni

Halla Katrín, Alex Máni og  Aron Valur taka við verðlaunum

Halla Katrín, Alex Máni og Aron Valur taka við verðlaunum fyrir framúrskarandi lestur. 

Úrslit Stóru upplestrarkeppninnar fóru fram á dögunum en keppnin stendur á milli nemenda í 7. bekk Varmárskóla og Lágafellsskóla en skólarnir hafa mæst alls 17 sinnum. Alex Máni Hrannarsson 7. IRÍ fór með sigur af hólmi og í öðru sæti lenti Aron Valur Gunnlaugsson 7. JLS en þeir eru báðir í Lágafellsskóla. Í þriðja sæti hafnaði Halla Katrín W. Ólafsdóttir 7. IÓ í Varmárskóla.

Samningum um rekstur Hamra sagt upp

Bæjaryfirvöld skora á ráðherra að tryggja rekstrargrundvöll.

Bæjaryfirvöld skora á ráðherra að tryggja rekstrargrundvöll.

Sunnudaginn 31. mars sagði Mosfellsbær upp samningum um rekstur hjúkrunarheimilisins Hamra til samræmis við uppsagnarákvæði samninganna.
Bæjarstjóra var veitt heimild til uppsagnar á aukafundi bæjarráðs Mosfellsbæjar þann 29. mars. Byggir uppsögnin á vanefndum og/eða ófullnægjandi greiðslum enda standa þær ekki undir raunverulegum kostnaði við veitingu þeirrar þjónustu sem ríkið gerir kröfu um og ber ábyrgð á að veitt sé.
„Eins og staðan er núna er ekki rekstrargrundvöllur fyrir heimilinu,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri. „Til að auka á rekstrarvandann er fallinn úr gildi rammasamningur Félags forstöðumanna fyrirtækja í velferðarþjónustu og ráðuneytisins. Þá ákvað ráðuneytið að fella úr gildi svokallað RAI-mat, sem er ákvörðunargrunnur fyrir umönnunarþyngd sem og smæðarálag, sem kemur sér illa fyrir reksturinn á Hömrum.“
Haraldur segir að stjórn Hamra hafi tilkynnt bæjarfélaginu að heimilið sé ekki rekstrarhæft nema til komi frekari fjármunir.
Heimilið var vígt í júní 2013 og nú eru þar 33 rými en samið hefur verið um að stækka heimilið og að þar verði 74 rými. Haraldur segir að stækkunin muni laga rekstrargrundvöllinn en því miður séu nokkur ár þangað til að hún verði að veruleika.

Framlög duga ekki
„Mosfellsbær tók að sér með samningunum að annast verkefni sem ríkið ber lögum samkvæmt ábyrgð á að sé veitt. Það er miður að sú staða sé nú komin upp að Mosfellsbæ sé nauðugur sá einn kostur að rifta samningum við heilbrigðisráðuneytið um rekstur Hamra.
Við höfum um langt skeið haldið því að ráðuneytinu að framlög þess til starfseminnar duga ekki til að standa undir þeim kostnaði sem starfsemin kallar á til að unnt sé að mæta þeim kröfum sem ríkið sjálft gerir til þeirrar þjónustu sem inna þarf að hendi á hjúkrunarheimilinu Hömrum.
Ráðuneytið hefur ítrekað verið upplýst um afstöðu bæjarins og við kallað eftir viðbrögðum þess. Ráðuneytið var samhliða upplýst um áform okkar um að segja upp samningum ef viðunandi lausn fengist ekki á næstu dögum.
Nú liggur fyrir að samningnum hefur verið sagt upp og að óbreyttu tekur ráðuneytið innan skamms yfir þær skyldur sem leiða af starfsemi hjúkrunarheimilisins Hamra.“ sagði Haraldur Sverrisson.

N1 bílaþjónustan verðlaunuð af Michelin

Starfsmenn á Langatanga ásamt Hermanni  Elí Hreinssyni, vörustjóra hjólbarða hjá  N1 og Rune Stolz, viðskiptastjóra Michelin

Starfsmenn á Langatanga ásamt Hermanni Elí Hreinssyni, vörustjóra hjólbarða hjá N1 og Rune Stolz, viðskiptastjóra Michelin

N1 bílaþjónustuverkstæðið að Langatanga var nýverið sérstaklega verðlaunað af hinu alþjóðlega Michelin hjólabarðafyrirtæki.
N1 Langatanga er „Michelin Quality Dealer of the Year“ hjá Michelin á Íslandi fyrir árið 2018 og afhenti Rune Stolz, viðskiptastjóri Michelin, Úlfari Pálssyni sölustjóra að Langatanga verðlaunin.

Reglulegar hulduheimsóknir
„Þetta er gríðarlega mikil viðurkenning þar sem þeir verðlauna okkur sérstaklega fyrir framúrskarandi fagmennsku við sölu og meðhöndlun Michelin dekkjanna.
Michelin heldur úti hulduheimsóknum með reglulegu millibili þar sem fagmennska, meðhöndlun hjólbarða og upplifun viðskiptavina er könnuð og það var þeirra niðurstaða að okkur bæri að verðlauna,“ segir Úlfar Pálsson, sölustjóri N1 að Langatanga í Mosfellsbæ.

Strangar gæðakröfur frá Michelin
N1 var með eina af hæstu einkunn verkstæða á Norður­löndunum í úttekt Michelin en verðlaunin eru veitt til tveggja ára í senn. Þess má geta að öll verkstæði N1 eru með Michelin Quality Dealer vottun. Meðal þeirra ströngu gæðakrafa sem Michelin setur er hvernig hjólbarðar eru geymdir, meðhöndlaðir, settir á og hvernig gert er við þá, hvernig upplýsingagjöf til viðskiptavina fer fram, hvernig tekið er á móti viðskiptavinum og öryggi þeirra er háttað.
Horft er til þjálfunar og endurmenntunar starfsmanna, aðbúnaðs á verkstæðum, tækjabúnaðar og hvernig brugðist er við ábendingum viðskiptavina.

Flæði

gauisörf

Flæði er eftirsóknarvert ástand. Lykilatriði þegar kemur að vellíðan og hamingju. Flæði er þegar maður er að gera eitthvað sem manni finnst svo áhugavert, spennandi, gefandi eða skemmtilegt að maður gleymir öllu öðru. Spáir ekki í hvað klukkunni líður, hvað eigi að vera í matinn í kvöld eða hvað maður sé að fara að gera á morgun eða hinn. Það eina sem skiptir máli er það sem maður er að gera akkúrat núna.

Flæði er einstaklingsbundið. Það sem einn upplifir sem flæði getur öðrum fundist drepleiðinlegt. Það er eðlilegt, þótt við mannfólkið eigum margt sameiginlegt og séum félagsverur þá erum við um leið ólík. Brennum fyrir ólíkum hlutum. Vinnan okkar ætti að vera þannig að hún gæfi okkur kost á því að vera í flæði. Að við séum að sinna verkefnum sem okkur þykja áhugaverð og gefandi. Við höfum örugglega öll verið í vinnu þar sem tíminn virtist ekki líða. Stóð bara kyrr. Það er ekki flæði.

Því oftar sem við erum í flæði, því betur líður okkur. Best er að flæðislínur innan fjölskyldna séu að hluta sameiginlegar eða skarist á einhvern hátt þannig að einstaklingar innan þeirra upplifi gleði og hamingju við að gera hluti saman.
Lykilatriði er að velta þessu fyrir sér. Pæla í sjálfum sér og þeim sem standa manni næst. Hvað gefur okkur mest? Hvenær flýgur tíminn án þess að við tökum eftir því? Hvenær er ég svo niðursokkinn að ég tek ekki eftir neinu öðru?

Ég upplifði sjálfur magnað flæði í sjónum í síðustu viku. Á brimbretti, með fólkið mitt í kringum mig. Hvort ég náði öldu eða ekki skipti ekki máli. Það sem skipti máli var að vera úti í elementunum. Öldur, rigning, áskoranir, frelsi, samvera. Tíminn flaug, ekkert annað skipti máli eða komst að í þessa tvo klukkutíma. Mögnuð upplifun. Flæði.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 4. apríl 2019

Hollvinir gefa hjartaómtæki

Stjórn Hollvinasamtakanna: Bryndís Haraldsdóttir nýkjörinn formaður, Örn Kjærnested, Haukur Leósson, Sólrún Björnsdóttir, Jón Á. Ágústsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Birgir Gunnarsson forstjóri Reykjalundar.

Stjórn Hollvinasamtakanna: Bryndís Haraldsdóttir nýkjörinn formaður, Örn Kjærnested, Haukur Leósson, Sólrún Björnsdóttir, Jón Á. Ágústsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Birgir Gunnarsson forstjóri Reykjalundar.

Hollvinasamtök Reykjalundar gáfu á dögunum endurhæfingarmiðstöðinni á Reykjalundi hjartaómtæki af fullkomnustu gerð að verðmæti 8,3 milljóna. Aðalfundur samtakanna fór fram um síðustu helgi og var tækið formlega afhent auk þess sem kosið var nýtt fólk í stjórn Hollvinasamtakanna.
Hollvinasamtökin voru stofnuð í lok árs 2013 og hafa gefið Reykjalundi gjafir fyrir rúmlega 60 milljónir.
Í dag eru 364 félagar skráðir í samtökin en hægt er að ganga til liðs við þau á heimasíðu Reykjalundar og leggja þannig stærstu endurhæfingarmiðstöð á Íslandi lið.

Nauðsynlegt fyrir alla að huga vel að fótunum

eyrunlinda

Mosfellingurinn Eyrún Linda Gunnarsdóttir löggiltur fótaaðgerðafræðingur útskrifaðist með hæstu einkunn frá Keili í janúar. Í kjölfarið opnaði hún fótaaðgerðastofuna Heilir fætur í verslunarkjarnanum í Hvera­fold í Grafarvogi.
„Samkvæmt Félagi íslenskra fótaaðgerðafræðinga eru helstu störf fótaaðgerðafræðinga fyrst og fremst að viðhalda og upplýsa almenning um heilbrigði fóta. Þeir greina og meðhöndla algeng fótavandamál eins og sveppasýkingar, vörtur, líkþorn, inngrónar táneglur og siggmyndun. Einnig bjóða þeir upp á sérsmíðuð innlegg og hlífðarmeðferðir sem ætlað er að létta á hinum ýmsu svæðum fótanna og þannig draga úr verkjum eða meinamyndunum,“ segir Eyrún Linda.

Allir gildir fyrir fótaaðgerð
„Ég tel að fótaumhirða sé mjög mikilvæg, sér í lagi hjá fólki með sykursýki, taugasjúkdóma, gikt, húðsjúkdóma, íþróttameiðsli eða sem einfaldlega á erfitt með að sinna fótunum sjálft. Svo eru auðvitað allir velkomnir sem vilja gera vel við sig.
Hægt er að fjárfesta í gjafabréfi á stofunni sem er að margra mati mjög sniðug gjöf fyrir þá sem eiga allt. Opið er á stofunni frá 9 á morgnana til 16 á daginn eða eftir samkomulagi og hægt er að bóka utan opnunartíma.“

Við eigum bara eitt sett af fótum
„Full meðferð í fótaaðgerð felur í sér fótabað, klipptar neglur og þynningu ef þess þarf ásamt snyrtingu niður með hliðum nagla. Einnig er sigg minnkað, líkþorn fjarlægð séu þau til staðar og fótanudd með góðu fótakremi í lokin.
Allir eru gildir fyrir fótaaðgerð hvort sem um er að ræða börn, unglinga, ungt fólk eða eldra. Við erum bara með eitt sett af fótum sem þarf að huga vel að,“ segir Eyrún Lind að lokum en hægt er að nálgast allar upplýsingar um stofuna á facebook síðunni Heilir fætur – fótaaðgerðastofa.

Vallarhúsið að Varmá fær yfirhalningu

vallarhusid_mosfellingur

Undanfarnar vikur hafa heilmiklar framkvæmdir átt sér stað í Vallarhúsinu að Varmá. Nokkrir vaskir sjálfboðaliðar úr röðum Aftureldingar hafa unnið að því hörðum höndum að taka húsnæðið í gegn sem hefur undanfarin ár þjónað sem félagsheimili Aftureldingar.
Þann 2. febrúar sl. var Aftureldingu úthlutað 1.000.000 kr. úr Samfélagssjóði Kaupfélag Kjalnesþings. Þeir fjármunir hafa verið nýttir til að endurnýja húsakostinn. „Þetta er mikil búbót fyrir félagið að geta endurnýjað þess aðstöðu, borð, stóla, eldhús og annað nytsamlegt. Öll vinna var unnin í sjálfboðavinnu. Við fengum svo frábæra viðbót frá bænum og gátum því skipt um gólfefni líka. Við nýttum tækifærið til að mála og breyta okkur til hagræðingar,“ segir Hanna Björk Halldórsdóttir íþróttafulltrúi Aftureldingar.
„Við hlökkum ákaflega til að klára vinnuna í vikunni og geta boðið iðkendum okkar og forráðamönnum upp á huggulegt húsnæði sem nýta má í félagsstarfið okkar.”

Framkvæmdir hafnar við Súluhöfða

Á næstunni munu 19 ný  hús bætast við Súluhöfða.

Á næstunni munu 19 ný hús bætast við Súluhöfða í Mosfellsbæ.

Hafnar eru framkvæmdir við gatnagerð við Súluhöfða 32–57. Um er að ræða nýja íbúðagötu milli núverandi neðsta botnlanga götunnar og golfvallarins við Leirvoginn. Gamli golfskálinn mun víkja á næstunni auk æfingaaðstöðu.
Samhliða gatnagerð er unnið að endurnýjun þrýstilagnar frá skólpstöðinni í Leirvogi. Reisa á 19 einbýlishús í þessari viðbót við Súluhöfðann.

Forréttindi að vinna með börnum

Svava Ýr er skólastjóri íþróttaskóla barnanna.

Svava Ýr er skólastjóri Íþróttaskóla barnanna.

Íþróttaskóli barnanna hefur verið starfræktur að Varmá síðan árið 1992 og er það Svava Ýr Baldvinsdóttir sem stýrir skólanum og hefur gert frá upphafi.
Svava Ýr er íþróttakennari að mennt, hún hefur þjálfað handbolta hjá Aftureldingu um árabil og starfað sem einn af öflugustu sjálfboðaliðum félagsins til margra ára. Íþróttaskólinn fer fram á laugardagsmorgnum og er ætlaður 3, 4 og 5 ára börnum en námskeiðin standa yfir í 12 vikur bæði að hausti og vori.
Frá upphafi hefur verið mikil ásókn í skólann og oft hafa færri komist að en viljað.

Skemmtileg og heilbrigð samvera
„Ég hef stýrt íþróttaskólanum í 27 ár og hef alltaf jafn gaman af því. Með mér á þessu tímabili hefur starfað fjöldinn allur af frábæru, metnaðarfullu og skemmtilegu fólki. Ég hef ekki töluna á þeim fjölda barna sem hefur sótt skólann en það er gaman að segja frá því að það er ekki óalgengt að fólk sem var í íþróttaskólanum sem krakkar er að koma með sín börn, sem hlýtur að vera hrós,“ segir Svava hlæjandi.
Íþróttaskólinn hefur það að markmiði að efla bæði hreyfi- og félagsþroska, kynna reglur íþróttahússins og stuðla að skemmtilegri og heilbrigðari samveru á milli barna og foreldra.
„Tímarnir eru mjög fjölbreyttir og kynni ég markvisst allar þær íþróttagreinar sem Afturelding býður upp á. Börnin öðlast góðan grunn fyrir áframhaldandi íþróttaiðkun og ég legg mikla áherslu á að kenna jákvæð samskipti, samvinnu og held góðum aga.
Svo legg ég auðvitað áherslu á að foreldrar taki vikan þátt og leiki sér með börnunum í tímunum.“

Forvarnargildi hreyfingar er mikið
„Uppbygging tímana er alltaf sú sama, upphitun, aðalþáttur og slökun. Ég fer inn á margt og reyni að tengja almenna fræðslu inn í leikinn bæði hvað varðar líkamann, almenn samskipti og tillitssemi og aga svo eitthvað sé nefnt. Það eru allir sammála um að forvarnargildi hreyfingar er mikið og ég er stolt af íþróttaskólanum og því starfi sem þar fer fram.
Íþróttaskólinn er öllum opinn og þar ríkir alltaf gleði og kærleikur,“ segir Svava Ýr að lokum og tekur fram hversu gefandi og mikil forréttindi það séu að fá að vinna með börnunum og foreldrum þeirra.