Ólga á Reykjalundi

reykjalundurolga

Mikil reiði og vanlíðan er meðal starfsfólks Reykjalundar í kjölfar þess að stjórn SÍBS, sem á Reykjalund, sagði Birgi Gunnarssyni forstjóra og Magnúsi Ólasyni, framkvæmdastjóra lækninga, upp störfum með skömmu millibili. Birgir gegndi stöðu forstjóra í þrettán ár og Magnús starfaði á Reykjalundi í 34 ár.
Magnúsi var sagt upp störfum 9. október, aðeins nokkrum vikum áður en hann átti að fara á eftirlaun. Í viðtali við RÚV sagði hann uppsögnina hafa komið sér mjög á óvart og viðurkenndi að hann hefði séð starfslokin öðruvísi fyrir sér.
Daginn eftir voru sjúklingar í endurhæfingu sendir heim þar sem starfsfólk treysti sér ekki til að sinna þeim án framkvæmdastjóra lækninga. Starfsmennirnir lýstu yfir vantrausti á stjórn Reykjalundar og skoruðu á heilbrigðisráðherra að grípa inn í stöðuna.

Birgir frábær og Magnús kominn á aldur
Að minnsta kosti fjórir læknar á Reykjalundi hafa sagt upp störfum síðustu daga og fram hefur komið í fréttum að fleiri íhugi stöðu sína. Tólf læknar starfa að jafnaði á stofnuninni.
Stjórn SÍBS hefur sagt að ekkert saknæmt hafi átt sér stað í störfum fyrrverandi forstjóra. Starfslokasamningur var gerður við hann sem trúnaður ríkir um. Sveinn Guðmundsson, formaður SÍBS, sagði Birgi hafa verið frábæran stjórnanda. Magnúsi hefði verið sagt upp sökum aldurs.
Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir hefur nú verið ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi. Herdís Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri endurhæfingarsviðs stofnunarinnar, hefur verið ráðin forstjóri tímabundið en til stendur að auglýsa stöðuna. Herdís var áður forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Hún sagðist í samtali við RÚV búast við að nýr forstjóri taki við 1. febrúar á næsta ári.