Afgangur af rekstri bæjarins áætlaður um 350 milljónir

fjarhagsaætlunmos

kakamosFjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 og næstu þrjú ár þar á eftir var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 30. október.
Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að tekjur verði 13.380 m.kr., gjöld án fjármagnsliða 12.402 m.kr., fjármagnsliðir 628 m.kr. og að rekstrarafgangur verði 350 m.kr. Fyrirhugað er að framkvæma fyrir 2.970 m.kr. sem að mestu rennur til skóla-, gatna- og veitumannvirkja. Gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um rúmlega 5% milli ára, en þeir eru nú um 12.000. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Leikskólagjöld lækki um 5%
Áætlunin gerir ráð fyrir að framlegð verði 10,6% og að veltufé frá rekstri verði jákvætt um 1.277 m.kr. eða tæplega 10%. Skuldaviðmið skv. sveitarstjórnarlögum verði 79% í árslok.
Gert er ráð fyrir hóflegri hækkun gjaldskráa til samræmis við stefnumörkun lífskjarasamninganna en að leikskólagjöld lækki um 5%, auk þess sem álagningarprósentur fasteignagjalda lækka.
Áfram verður aukning á nýjum plássum á leikskólum fyrir 12–18 mánaða börn og er gert ráð fyrir að fjölga um 25 pláss á árinu 2020.
Á sviði fjölskyldumála eru lagðir til auknir fjármunir í málefni fatlaðs fólks, meðal annars með stofnun heimilis fyrir geðfatlaða.
Á sviði menningarmála er lagt til að framlag í lista- og menningarsjóð hækki um 14% auk þess sem stefnumörkun um starfsemi Hlégarðs ljúki og auknum fjármunum verði varið í endurbætur hússins.

Kraftur einkennir samfélagið
„Það er okkur Mosfellingum sem fyrr fagnaðarefni að rekstur og starfsemi Mosfellsbæjar er í miklum blóma og kraftur einkennir samfélagið okkar sem er í örum vexti,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þjónusta við íbúa og viðskiptavini eflist stig af stigi, Helgafellsskóli er í byggingu og nýtt fjölnota íþróttahús var tekið í notkun um síðustu helgi. Allt er þetta gert til að mæta þörfum íbúa núna og til framtíðar, byggja upp gott samfélag og auka lífsgæði og velferð íbúa.“
Síðari umræða um fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2020 fer fram miðvikudaginn 27. nóvember.