Þróunar- og nýsköpunarviðurkenningar veittar

vidurkenning2

Þróunar- og nýsköpunarviðurkenning Mosfellsbæjar var afhent í Listasalnum á þriðjudaginn.
Menningar- og nýsköpunarnefnd auglýsti eftir hugmynd, vöru eða þjónusta sem talist gæti nýlunda í samfélagi, innan fyrirtækis, vöruþróun eða framþróun á þjónustu eða starfsemi fyrirtækis eða stofnunar í Mosfellsbæ.
Alls bárust þrjár gildar umsóknir og lagði menningar- og nýsköpunarnefnd til við bæjarstjórn að afhentar yrðu tvær viðurkenningar. Þær hlutu Ilmbanki íslenskra jurta og Yndi.

Ilmbanki íslenskra jurta
Ilmbanki íslenskra jurta hófst sem nýsköpunar- og rannsóknarverkefni. Markmið verkefnisins var þróun á vinnsluaðferðum til framleiðslu ilmkjarnaolía úr íslenskum jurtum með sjálfbærni að leiðarljósi og að það raski ekki vistkerfum og tryggi sjálfbæra landnýtingu í sátt við náttúru Íslands og almenning.
Hönnuð verður sýning í kringum rannsóknarverkefnið Ilmbanka íslenskra jurta og sett upp í Álafosskvosinni. Sýningin er hugsuð sem kynning og upplifun á ilmum íslenskrar náttúru þar sem gestir geta þefað af helstu blómum og trjám í íslenskri náttúru ásamt öðru s.s. kindataði, bóluþangi og fleiru skrýtnu og skemmtilegu, ásamt því að fræðast lítillega um hverja tegund.

Sprotafyrirtækið Yndi
Yndi er sprotafyrirtæki sem framleiðir barnafatnað og fylgihluti fyrir börn, í samstarfi við börn. Hönnun fyrirtækisins fer fram í samvinnu við börn, ýmist í sniðagerð, mynsturgerð og/eða hugmyndavinnu.
Stefnt er að opnun netverslunar í byrjun árs 2020 og samhliða verður efnt til teiknisamkeppni meðal barna og ungmenna í Mosfellsbæ. Mun sigurvegarinn fá fatnað með teikningu sinni áprentaðri að launum.