Nýtt fjölnota íþróttahús tekið í notkun

fjolnotavarma

Nýtt fjölnota íþróttahús að Varmá var vígt laugardaginn 9. nóvember við hátíðlega athöfn. Húsið mun valda straumhvörfum í aðstöðu fyrir íþróttaiðkendur í Mosfellsbæ auk þess sem unnt verður að stunda hreyfingu á 250 metra langri göngu- og hlaupabraut á tímum þegar allra veðra er von.
Húsið, sem er um 4.000 m² að grunnfleti auk innfelldrar lágbyggingar, er sérútbúið til knattspyrnuiðkunar. Þar eru einnig þrjár hlaupabrautir auk göngubrautar umhverfis völlinn.

Grunnur að sigrum framtíðarinnar
Haustið 2017 var samþykkt að ráðast í byggingu á fjölnota íþróttahúsi á íþróttasvæðinu við Varmá. Í janúar 2018 hófst vinna við hönnun hússins í samvinnu við Aftureldingu og í kjölfarið var samið við fyrirtækið Alverk um að reisa húsið. Verkið gekk greiðlega og hefur verið á áætlun allan framkvæmdatímann.
„Ég vil óska öllum Mosfellingum innilega til hamingju með nýtt fjölnota íþróttahús,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Hér er byggt til næstu ára og þetta hús mun valda straumhvörfum fyrir íþróttaiðkendur í Mosfellsbæ og er enn einn liður í því að efla umgjörðina og leggja þannig grunn að sigrum framtíðarinnar.“

Yfir 600 í yngri flokkum fótboltans
Æfingar hófust í húsinu í lok október en formlega vígsla fór fram um síðustu helgi.
Arkitekt hússins er Sturla Ásgeirsson hjá Arkþing en verkfræðihönnun var á vegum Verkís, byggingarstjóri er Halldór Bogason hjá Alverk en eftirlit á vegum Mosfellsbæjar var í höndum Þorsteins Sigvaldasonar og Óskars Gísla Sveinssonar.
„Það er sérlega ánægjulegt að sjá húsið verða að veruleika. Fjölgun iðkenda í Aftureldingu hefur verið mikil síðustu misseri,“ segir Birna Kristín Jónsdóttir formaður Aftureldingar. „Í dag eru iðkendur í barna- og unglingastarfi í öllum deildum um 1.550 en flestir í knattspyrnudeild eða rétt rúmlega 600. Ég hlakka gríðarlega til framtíðarinnar, sem er sannarlega björt hér í Mosfellsbæ.“

——

NAFNASAMKEPPNI

Sett hefur verið á laggirnar nafnasamkeppni fyrir nýja húsið. Hægt er að senda inn tillögu á vefsíðu Mosfellsbæjar, www.mos.is, til 25. nóvember. Mun nafnanefnd, sem skipuð er tveimur aðilum úr bæjarstjórn og fulltrúa frá Aftureldingu, kynna vinningstillöguna í næsta tölublaði Mosfellings.
Smelltu hér til að senda inn þína tillögu!