Jákvæðni fleytir manni langt

geirilong_mosfellingur

Geirarður Þórir Long deildarstjóri hjá Húsasmiðjunni er mikill gleðigjafi og jákvæður með eindæmumFjöldi rannsókna hefur sýnt að það að vera jákvæður og bjartsýnn hefur jákvæð áhrif á heilsu, andlega líkamlega og félagslega. Jákvæðni fleytir manni langt og einstaklingar með gott sjálfstraust vita að hugsanir þeirra og viðhorf skiptir máli.
Geiri eins og hann er ávallt kallaður er einstaklega jákvæður maður svo eftir er tekið, hann hefur vakið athygli fyrir uppbyggjandi og skemmtileg skrif á samfélagsmiðlum.

Geirarður er fæddur á Fæðingarheimilinu í Reykjavík 16. desember 1966. Foreldrar hans eru þau Svanhildur Geirarðsdóttir bankastarfsmaður og Guðlaugur Magnús Long byggingameistari.
Geirarður á tvo bræður, þá Kjartan f. 1972 og Bjarka Long f. 1977.

Fór beint í veg fyrir bíl
„Þegar ég var lítill þá bjuggum við fjölskyldan hjá ömmu og afa á Ægisíðunni. Lífið var æðislegt á þessum tíma, stutt í sjóinn og grásleppukarlana. Við afi, nafni minn, vorum miklir mátar og hann gerði allt fyrir mig.
Þegar ég var fimm ára þá var ég að hjóla út í götu og fór beint í veg fyrir bíl. Aumingja afi horfði á þetta gerast út um stofugluggann. Ég flaug af hjólinu og það kostaði viku legu á Borgarspítalanum. Mér skilst að starfsfólkið hafi verið fegið þegar ég útskrifaðist því ég var víst oft ansi óþekkur,“ segir Geiri og hlær.

Árgangurinn mjög samheldinn
„Foreldrar mínir byggðu sér hús í Kópavoginum og þangað fluttum við 1973. Ég gekk í Mela- og Digranesskóla en um 12 ára aldurinn fluttum við í Mosfellssveit.
Ég gekk í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar en fannst lærdómur ekkert sérstaklega skemmtilegur þótt kennararnir hafi verið fínir. Það var þó alltaf gaman í smíði hjá Erlingi smíðakennara. Árin í Gaggó voru engu að síður frábær og árgangurinn minn var mjög samheldinn.“

Dreymdi um að verða bóndi
„Ég var ekki mikið í íþróttum á gagnfræðaskólatímabilinu en stundaði félagsmiðstöðina Svanssjoppu þeim mun meira. Það var ótrúleg þolinmæði sem Svanur sýndi okkur unglingunum og hann á þakkir skilið fyrir það.
Flest sumur á mínum yngri árum fór ég í sveit, hestarnir, sveitavinnan og útiveran áttu vel við mig. Það var nokkuð skondið þegar við krakkarnir vorum að velja okkur vinnustað í starfskynningu í 9. bekk þá valdi ég að fara í sveit, minn draumur var alltaf að verða bóndi.
Ég starfaði svo eitt sumar hjá Hestaleigunni Laxnesi, það var alveg magnað, maður var á hestbaki bróðurpart dagsins allt sumarið.“

Ævintýri í millilandasiglingum
„Eftir útskrift fór ég í Iðnskólann í Reykjavík á málmiðnaðarbraut. Hætti svo þar og réði mig sem messagutta á varðskipið Tý og varð fljótt fullgildur háseti. Eftir tæp tvö ár fór ég að læra allt sem viðkom málmsuðu í vélsmiðjunni Héðni og svo tók við 18 mánaða tímabil á Tý aftur.
Áramótin 1986-87 hætti ég á Tý og réði mig sem viðgerðarmann á flutningaskipinu Selnesi. Níu mánaða ævintýri í millilandasiglingum var fram undan og siglt var á milli hafna í Evrópu og Ameríku. Eftir þetta úthald var ég eitt ár á varðskipinu Ægi.“

Hjólreiðarnar heilla
Eiginkona Geira er Bóel Kristjánsdóttir sérfræðingur hjá Íslandsbanka. Þau fóru að vera saman árið 1986 og giftu sig árið 2006. Börn þeirra eru Svandís Ösp f. 1992 sjúkraþjálfari og Stefán Óli f. 1994 ráðgjafi hjá Byko. Barnabarnið Steinar Leó er fæddur árið 2018.
Ég spyr Geira út í áhugamálin. „Skotveiði, jeppaveiki, skíðin, vélsleðinn og ferðalög með fjölskyldunni er það sem kemur fyrst upp í hugann. Síðustu ár hafa hjólreiðar heillað mig en ég hjóla til og frá vinnu allt árið um kring.”

Gaman að þjónusta sveitunga mína
„Ég fór að læra trésmíði og vann til að byrja með við allrahanda húsbyggingar með tengdaföður mínum en fór síðan í sérsmíði á gluggum og útihurðum hjá Þyn og Búlka.
Árið 2003 hóf ég störf hjá GK gluggum hér í Mosó, fyrirtæki sem þekkt var fyrir gæðaframleiðslu. Árið 2011 fluttu eigendur fyrirtækisins fyrirækið í Þykkvabæinn en ég varð eftir. Þá tók ég að mér vélastjórnun hjá Gluggasmiðjunni í Reykjavík og var þar til ársins 2014.
Ég hætti í smíðinni og fljótlega var mér boðið starf í Húsasmiðjunni í Grafarholti. Þar líður mér vel með frábærum vinnuvinum og skemmtilegum viðskiptavinum. Mosfellingar eru duglegir að versla í Grafarholtinu og mér þykir gaman að þjónusta sveitunga mína.“

Með stórt Aftureldingarhjarta
Geiri eyðir miklum tíma í íþróttamiðstöðinni að Varmá og hefur gert lengi en hann er með stórt Aftureldingarhjarta. Bóel eiginkona hans spilaði knattspyrnu hjá félaginu og þjálfaði í 25 ár og dóttir þeirra hjóna spilaði einnig í boltanum í rúm 20 ár. Geiri fór því að taka þátt í ýmsu sem tengdist veru þeirra hjá félaginu, fjáröflunum, mótum og utanlandsferðum.
Þegar meistaraflokkur kvenna var endurvakinn árið 2006 þá aðstoðaði hann við alla vinnu í kringum flokkinn ásamt öðrum, m.a. að standsetja hús sem erlendu leikmennirnir bjuggu í yfir sumarið. Hann segir sjálfboðaliðastarfið hafa gefið sér einstaklega mikið og tímabilið með meistaraflokksráðinu sé ógleymanlegt. Það sé ekki sjálfgefið að hafa lið í efstu deild í 8 ár.

Mannauður félagsins er einstakur
Árið 2013 fékk Guðjón Helgason þáverandi formaður Aftureldingar Geira til að ganga til liðs við aðalstjórn félagsins. Hann lét tilleiðast og er þar enn, 7 árum síðar. Geiri hefur verið heiðraður fyrir störf sín og hefur fengið brons- og silfurmerki frá Aftureldingu, silfur frá UMSK og silfur frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
„Afturelding er stórt félag og það hefur verið heiður að vinna með öllu þessu frábæra fólki í gegnum tíðina, mannauður félagsins er einstakur.
Vegna stjórnarsetu minnar hef ég reynt að fylgjast vel með starfseminni í öllum deildum félagsins. Ég horfi til að mynda á yfir 100 fótboltaleiki á ári, eins fer ég á leiki og mót hjá öðrum deildum.
Í vetur sem leið var ég beðinn um að koma í varastjórn UMSK sem ég þáði. Það er áhugavert að skoða íþrótta og ungmennastarfið frá þeirri hlið líka.“

Hjálpar vonandi öðrum líka
Ég sný talinu að jákvæðni og fallegum orðum. Geiri hefur vakið athygli fyrir hvatningarorð sem hressa sálina og mörgum finnst gott að lesa. Af hverju skyldi hann taka þann pólinn í hæðina? „Í amstri dagsins getur verið gott að minna sjálfan sig á lífið. Skrif mín hjálpa mér í gegnum daginn og vonandi öðrum í leiðinni,” segir Geiri og brosir er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 14. nóvember 2019
ruth@mosfellingur.is