Hver er Mosfellingur ársins 2019?

mosfellingurársinshomepage

Val á Mosfellingi ársins 2019 stendur nú yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Þetta er í fimmtánda sinn sem valið fer fram á vegum bæjarblaðsins Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins.

Áður hafa þessi hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla­ Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir, Guðni Valur Guðnason, Jón Kalman Stefánsson og Óskar Vídalín Kristjánsson.

Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta tölublaði ársins 2020, fimmtudaginn 9. janúar.

Samvinna

Heilsumolar_Gaua_19des

Ég er ekki pólitískur. Ég veit ekki hvort ég myndi passa inn í neinn flokk þar sem ég er annars vegar á þeirri skoðun að við sem einstaklingar berum mikla ábyrgð á okkur sjálfum og hins vegar á þeirri skoðun að við sem samfélag eigum að hlúa á þeim sem þurfa á því að halda.

Mér finnst þetta eigi að haldast í hendur. Ég vil sjá sterka og sjálfstæða einstaklinga hugsa um heildina, samfélagið. Hegða sér þannig að þeir séu fyrst og fremst að gera hluti sem gagnist öðrum. Ekki bara þeim sjálfum. Svona eins og Hanna Sím hugsar fyrst og fremst um fótboltann í Aftureldingu og kemur hlutum í framkvæmd sem gagnast félaginu og fjöldanum.

Á sama hátt vil ég að samfélagið gefi einstaklingnum frelsi til þess að blómstra og hvetji hann til dáða um leið og það passar upp á okkur öll, sérstaklega þá sem minna mega sín. Ef þessar forsendur eru til staðar eru okkur allar leiðir færar.

Opinn hugur og vitund um að við erum sterkari saman er annað sem mér finnst mikilvægt. Ég elska verkefni, sjálfboðaliða eða launuð, sem ganga út á að tengja fólk og samfélög saman. Búa til eitthvað stærra og sterkara saman en við gætum í sitt hvoru lagi.

Akkúrat núna, í þessari viku eru íþróttafélögin Afturelding og Liverpool F.C. saman í því verkefni að styrkja ungan Mosfelling sem þarf á stuðningi að halda. Félögin eru búin að vinna saman í 10 ár og þrátt fyrir að vera afar ólík í stærð og uppbyggingu þá ná þau vel saman – eða öllu heldur einstaklingarnir sem eiga í samskiptum fyrir hönd félaganna. Eitt af því sem ég er að vinna með núna er að tengja saman aðila í Mosfellsbæ sem vita lítið hver af öðrum, en gætu gert magnaða hluti saman.

Gleðileg jól!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 19. desember 2019

Þurfum stundum að finna upp hjólið

emil_mosfellingurinn

Emil Pétursson húsasmíðameistari hefur fengist við að smíða leikmyndir fyrir sviðsverk og kvikmyndir í þrjá áratugi.

Emil Pétursson og starfsfólk hans á Verkstæðinu ehf. sérhæfa sig í að hanna og smíða leikmyndir fyrir kvikmyndir, leikhús, auglýsingar, sjónvarpsþætti og söfn auk annarra viðburða. Þau taka einnig að sér að gera upp gömul hús, innrétta verslanir og veitingastaði og sjá um smíði á hinum ýmsu skúlptúrum.
Fyrirtækið var stofnað árið 2008 og er í 900 fermetra húsnæði að Völuteigi í Mosfellsbæ. Þar inni er járnsmiðja, trésmíðaverkstæði og málningaraðstaða enda eru verkefnin sem þau útfæra ansi margvísleg.

Emil er fæddur í Reykjavík 18. septem­ber 1968. Foreldrar hans eru þau Guðbjörg Emils­dóttir kennari og Pétur Karl Sigurbjörnsson rafmagnstæknifræðingur.
Emil á tvær systur, Kristínu f. 1971 og Maríu f. 1972.

Póstkortið barst ekki í tæka tíð
„Fyrstu þrjú æviár mín bjó ég á Egilsstöðum þaðan sem pabbi er ættaður en eftir það bjuggum við í Kópavoginum með tveggja og hálfs árs stoppi í Danmörku þar sem foreldrar mínir fóru í nám. Ég var átta ára þegar við fluttum út en foreldrar mínir fluttu á undan mér en ég átti svo að koma í flugi með afa og ömmu og móðursystur minni. Það var búið að senda þeim póstkort um hvenær væri von á okkur.
Þegar við lentum þá fóru þau með mig yfir í aðra flugvél sem átti að fljúga yfir til Billund en sjálf ætluðu þau áfram til Svíþjóðar. Ég var í fylgd flugfreyju og fékk þennan líka fína miða um hálsinn með nafninu mínu á.
Þegar við lentum í Billund þá kom enginn að sækja mig. Ég sat ofan á ferðatöskunni minni með bangsann í fanginu og horfði á fólkið sem var að reyna að hafa upp á foreldrum mínum. Það kom svo í ljós að póstkortið hafði ekki borist til þeirra í tæka tíð og þau höfðu ekki hugmynd um að ég væri á leiðinni en allt bjargaðist þetta nú,“ segir Emil og brosir.

Kristnihald undir jökli
Emil gekk í Digranesskóla og Víghólaskóla en fór síðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti að læra húsasmíði. Þaðan fór hann beint í Meistaraskólann í Hafnarfirði og var orðin húsasmíðameistari 22 ára gamall.
„Í FB kynnist ég góðum vini, Högna Fróðasyni frá Dalsgarði í Mosfellsdal, og hefur vinskapur okkar haldið alla tíð. Við unnum saman á okkar yngri árum, í garðyrkju, uppskipun á salti og við smíðar. Á þessum tíma kynnist ég mörgu fólki í Dalnum og urðu þau kynni m.a. til þess að ég fór að vinna í minni fyrstu bíómynd, Kristnihald undir jökli, fyrir Kvikmyndafélagið Umba sem var virkilega gaman að fá að taka þátt í.“

Smíðuðu leikmyndir fyrir Latabæ
Emil stofnaði ásamt vini sínum fyrirtækið Meistaraverk árið 1995. Þeir félagar voru í því að byggja hús og selja en enduðu oftast í einhverju listrænum verkefnum eins og fyrir bíómyndir og sjónvarpsþætti.
„Einn daginn árið 2001 hringdi Magnús Scheving í mig, hann var eitthvað að vesenast með einhvern sjónvarpsþátt sem hann vildi gera. Vantaði einn stól fyrir brúðu og einn vegg sem við gerðum fyrir hann en veggurinn varð síðan þungamiðjan í öllum þáttunum. Þannig hófst samstarf okkar við Latabæjarævintýrið og við smíðuðum leikmyndir fyrir Latabæ allt til ársins 2006 en þá skildu leiðir okkar félaganna en ég hélt áfram störfum þar til framleiðslu var hætt.“

Fluttu í Mosfellsdalinn
Emil kynntist eiginkonu sinni Ólafíu Bjarnadóttur fjármálastjóra árið 2005. Þau eiga tvær dætur, Emilíu Rán f. 2007 og Rakel Ylfu f. 2009. Fyrir átti Emil synina Pétur Axel f. 1995 og Úlf f. 1996 með fyrrverandi sambýliskonu sinni.
Árið 2006 fluttu Emil og Ólafía saman að Lækjarnesi í Mosfellsdal sem þá var lítill sumarbústaður. Þau fengu leyfi til að byggja hús á landinu og eru nú á lokametrunum við að klára það. Þau segjast ansi heimakær enda sé nóg að gera með hænur, svín, hesta, hunda og ketti.

Starfið er fjölbreytt og skemmtilegt
Þau hjónin stofnuðu fyrirtækið Verkstæðið ehf. árið 2008 og þar starfa þau bæði og eru með átta manns í vinnu.
„Við vorum fyrst til húsa í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku en árið 2015 keyptum við húsnæði í Mosfellsbæ og gerum út þaðan í dag. Við erum orðin nokkuð tæknivædd, við notum laserskurðartæki, 3D skönnum hluti og gerum eftirmyndir með stórum tölvufræsara. Einnig notum við siliconefni til mótagerðar sem við flytjum inn sjálf.
Starfið er vissulega fjölbreytt og skemmtilegt,“ segir Emil „en það getur líka verið erfitt og streituvaldandi enda þurfum við oft að finna upp hjólið og höfum bara stuttan tímaramma til að leysa verkefnin.“

Settum bátinn á hvolf í höfninni
Undanfarin ár hafa mörg verkefna þeirra verið fyrir stórmyndir frá Hollywood og hafa verkefnin oft verið ansi snúin. Þau hafa verið að vinna við myndir eins og Interstellar, The Secret Life of Walter Mitty, Star Wars, Contraband og íslensku myndirnar Djúpið og Málmhaus.
Ég spyr Emil hvað sé eftirminnilegast af þeim verkefnum sem þau hafa tekið að sér?
„Ætli það sé ekki þegar við vorum að vinna í Djúpinu í kvikmynd Baltasars Kormáks. Við sáum um að taka 80 tonna eikarbát og setja hann á hvolf í höfninni í Helguvík. Þetta var mjög óvenjulegt því algengara er að reynt sé að snúa skipum í hina áttina en þetta var skemmtilegt verkefni.“

Ævintýri á Atlantshafi
Þegar Emil er ekki að smíða þá siglir hann um á skútum ásamt félögum sínum en hann hefur stundað kappsiglingar frá árinu 1990 og er margfaldur Íslandsmeistari. Þeir félagar hafa átt fjórar mismunandi skútur, 26, 38 og 42 feta en sigla núna um á 26 feta skútu sem ber nafnið Besta.
Emil hefur siglt þrisvar sinnum yfir Atlantshafið og veit ekkert skemmtilegra. Ég spyr hann hvort hann hafi komist í hann krappann? „Já, við fengum brot aftan á okkur að nóttu til sunnan við Írland. Ég heyrði eitthvað fyrir aftan bátinn og sá svo hvítan vegg hátt fyrir ofan hann. Ég stóð upp og reyndi að loka lúgunni en endaði í fanginu á Úlfi vini mínum og lá þar á meðan brotið gekk yfir. Maður getur alltaf átt von á einhverju í svona ferðum því það eru ekki alltaf jólin,“ segir Emil að lokum.

Mosfellingurinn 5. desember2019
ruth@mosfellingur.is

Veislubókin er þarfaþing veisluhaldarans

veislubókin

Mosfellingurinn Berglind Hreiðarsdóttir sem heldur úti vinsælu vefsíðunni Gotterí.is er að gefa út veglega veisluhandbók nú fyrir jólin. Berglind hefur tekið saman allt það helsta sem þarf að vita þegar haldnar eru veislur.
„Þessi bók er ómissandi handbók fyrir alla þá sem eru að fara að halda veislur. Ég skipti bókinni niður í sex mismundandi kafla, brúðkaup, útskrift, ferming, skírn/nafngjafarathöfn, barnaafmæli og fullorðinsafmæli,“ segir Berglind sem hefur lagt mikinn metnað í þessa fallegu bók.

Gagnlegir gátlistar
Berglind hefur í gegnum tíðina fengið óteljandi spurningar varðandi skipulag og framkvæmd á veislum og fannst tilvalið að setja það saman í eina bók.
„Þetta er miklu meira en bara uppskriftir, þetta er handbók sem leiðir þig í gegnum veisluhaldið frá A-Ö. Bókin er byggð þannig upp að það eru gátlistar fyrir hvern kafla um allt það sem þarf að huga að þegar halda skal veislu. Ég kem með hugmyndir að framsetningu, leiðbeiningar um útreikning á magni veitinga ásamt ýmsum góðum ráðum.
Gátlistarnir eru ýtarlegri, til dæmis er í brúðkaupskaflanum allt frá dagsetningu og veislustjóra að kostnaðaráætlun og margt fleira.“

Fallegar myndir
Bókin er fallega myndskreytt en Berglind tók allar myndirnar sjálf en hún fékk góða hjálp frá vini sínum varðandi myndvinnsluna.
„Þetta er búið að vera rosalega skemmtilegt ferli. Ég skrifaði bókina í sumar og hélt í raun allar þessar veislur sem ég set fram í bókinni hér á pallinum í Laxatungunni. Nágrannarnir fengu að njóta góðs af því og voru duglegir að koma og smakka og gefa góð ráð,“ segir Berglind hlæjandi og vonar að bókin eigi eftir að nýtast Mosfellingum og öðrum landsmönnum vel í veisluhöldum um ókomna tíð.

Gefa út fimm barnabækur fyrir jólin

bokautgafa2

Frænkurnar Ásrún Magnúsdóttir og Eva Rún Þorgeirsdóttir standa í ströngu um þessar mundir en þær skrifuðu báðar barnabækur fyrir þessi jól. Það er Bókabeitan sem gefur bækurnar út og þess má geta að þær eru allar Svansvottaðar. Frænkurnar, sem búsettar eru í Mosfellsbæ, hafa báðar gefið út barnabækur áður en segja það tilviljun að þær hafi báðar ratað inn á þennan vettvang. Blaðamaður Mosfellings, Anna Ólöf, hitti frænkurnar og fór yfir jólaútgáfuna.

Framhald af Korkusögum

Ásrún er að gefa út þrjá bækur en fyrir hefur hún gefið úr bókina Korkusögur. „Ég er sem sagt að gefa út Fleiri Korkusögur sem er sjálfstætt framhald af fyrri bókinni.
Hún fjallar um Korku sem er hress og uppátækjasöm ung stúlka sem framkvæmir það sem henni dettur í hug um leið og henni dettur það í hug. Korka er mikill dýravinur og lendir í ýmsum skemmtilegum ævintýrum ásamt ferfættum félögum,“ segir Ásrún.

Ef jólasveinarnir ættu hunda
„Hinar tvær bækurnar eru Ævintýri Munda Lunda og Hvuttasveinar. Hvuttasveinar eru ljúf ljóðabók þar sem ég ímyndaði mér hvernig hunda jólasveinarnir ættu ef þeir ættu hunda. Ég sótti innblásturinn í Jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum og líkt og sveinarnir þá koma hvuttarnir einn og einn til byggða og telja niður til jóla. Þetta eru Pissa-á-staur, Geltigaur og fleiri skemmtilegir hvuttar. Það er svo vinkona mín Iðunn Arna sem myndskreytir.“

Ævintýri Munda Lunda
„Ævintýri Munda Lunda er lauslega byggð á raunverulegum atburðum en ég var með blindan lunda í minni umsjá í eitt ár. Ég á líka tvo hunda og einn kött og í sögunni ímynda ég mér hvað dýrin gætu verið að gera á meðan ég var ekki heima. Hundarnir vingast við köttinn og kötturinn reynir að veiða lundann og úr verða skemmtilegar smásögur af þessum samskiptum þeirra.
Iðunn Arna sér einnig um myndskreytinguna á Ævintýrum Munda Lunda.

Mundi vinsæll á samfélagsmiðlum
„Mundi bjó hérna í Mosó í mjög góðu yfirlæti, það má eiginlega segja að hann hafi verið samfélagsstjarna en fólk út um allan heim fylgdist með honum. Hann var með yfir 10.000 fylgjendur á Instagram og Facebook.
Ég byrjaði að skrifa þessa bók stuttu áður en hann féll frá og fann fyrir miklum áhuga frá fylgjendum og ákvað þá að gefa bókina út bæði á íslensku og ensku,“ segir Ásrún.

Gefur út tvær ólíkar bækur

Eva Rún er að gefa út tvær ólíkar bækur, annars vegar Stúfur hættir að vera jólasveinn og hins vegar hugleiðslubókina Ró.
Eva Rún hefur áður gefið út jógabókina Auður og gamla tréð og spennusagnaseríu um Lukku og hugmyndavélina.
„Bókin Ró er byggð á reynslu minni af því að kenna börnum jóga, slökun og hugleiðslu. Í kennslunni langaði mig alltaf að kenna út frá svona bók en ég fann aldrei bókina sem ég var að leita að þannig að ég bjó hana bara til,“ segir Eva Rún hlæjandi.

Fjölskyldubókin Ró
„Við Bergrún Íris Sævarsdóttir teiknari unnum bókina Ró saman og köllum hana fjölskyldubók því að í henni eru einfaldar æfingar fyrir bæði krakka og fullorðna um öndun, slökun og hugleiðslu. Þetta er ekkert endilega bók sem lesin er frá a-ö heldur er þetta verkfæri sem nýtist á margan hátt.
Það er eðlilegt að upplifa allan skalann af tilfinningum í lífinu og lestur bókarinnar opnar einmitt á umræðu um tilfinningar og líðan.“

Fallegar vatnslitamyndir
„Bergrún Íris myndskreytir bókina með dásamlegum vatnslitamyndum. Við ákváðum að nota myndefni úr íslenskri náttúru og unnum mikið með samspil mynda og texta. Aftast í bókinni er svo pláss til að teikna og skrifa niður hugleiðingar og líðan. Bókin er einföld, falleg og að sjálfsögðu róandi.“

Bók skrifuð út frá hljómplötu
„Bókin um Stúf er síðan fjörug saga um Stúf sem fær nóg af því að vera jólasveinn. Jólin nálgast og miklar kröfur eru gerðar til hans. Hann ákveður að stinga af til borgarinnar ásamt jólakettinum og finna sér nýtt starf. Þar lendir hann í ýmsum ævintýrum.
Þessi bók er skrifuð út frá hljómplötunni Hurðaskellir og Stúfur staðnir að verki, sem Bjartmar Guðlaugsson og pabbi minn, Þorgeir Ástvaldsson, gerðu árið 1982. Bókin er skrifuð út frá textum á plötunni. Það má því finna fjölmargar tilvísanir í lagatexta í bókinni,“ segir Eva Rún að lokum.

Mosfellsbær eignast neðri hæð íþróttamiðstöðvarinnar Kletts

golfneðri

Fjárhagslega endurskipulagning Golfklúbbs Mosfellsbæjar (GM) er nú í höfn.
Bæjarráð Mosfellsbæjar fól bæjarstjóra og lögmanni Mosfellsbæjar að leiða viðræður við Landsbankann og aðra kröfuhafa og hafa nú náðst samningar sem tryggja hagsmuni þeirra sem iðka golfíþróttina í Mosfellsbæ.
Í stuttu máli er niðurstaðan sú að Landbankinn endurskipar lánasamsetningu GM, m.a. með því að setja stóran hluta krafna sinna á afborgana- og vaxtalaust biðlán til allt að 9 ára, aðrir kröfuhafar gefa eftir hluta af sínum kröfum og Mosfellsbær kaupir neðri hæð íþróttamiðstöðvarinnar Kletts.
Þessi niðurstaða leiðir fram lækkaða skuldastöðu GM, lækkar greiðslubyrði lána og lagar lausafjárstöðu klúbbsins að starfseminni. Með kaupum Mosfellsbæjar á neðri hæðina fyrir 115 m.kr. eignast bærinn hið eiginlega íþróttamannvirki og tryggir að unnt verði að stunda golfíþróttina á vellinum og í golfhermum óháð eignarhaldi á efri hæð hússins. Þá getur Mosfellsbær veitt öðrum aðilum aðgang að húsnæðinu ef þörf krefur.
Næstu skref felast í því að ljúka framkvæmdum á neðri hæðinni og verða afnot GM að húsnæðinu sambærileg og þegar önnur íþróttamannvirki Mosfellsbæjar eru nýtt af íþróttafélögum í bænum.

„Alveg dásamlegar móttökur“

mennirnir á bak við barion: villi, Simmi og óli valur

Mennirnir á bak við Barion: Villi, Simmi og Óli Valur.

„Við áttum ekki von á því að fólk tæki þessu svona vel. Þetta eru alveg dásamlegar móttökur,“ segir Simmi Vill eftir að Barion opnaði um síðustu helgi. „Það kemur á óvart það þakklæti sem maður finnur hjá fólki.
Það eru ýmis smáatriði sem við höfum þurft að fínpússa frá opnun en annars hefur allt gengið mjög vel. Við sendum starfsfólkið okkar t.d. of snemma heim á laugardagskvöldið þannig að við Villi tókum bara uppvaskið sem var hressandi.
Við ætlum að byrja á því að vera með opið til kl. 01:00 um helgar og 23:00 aðra daga. Svo viljum við endilega koma af stað dagskrá með uppákomum og þá er aldrei að vita nema við höfum sveigjanlegri opnunartíma þegar mikið liggur við.
Okkur finnst þessir fermetrar þurfa að geta verið mjög fjölbreyttir og síbreytilegir. Að við getum verið sportbar án þess að vera sportbar, skemmtistaður án þess að vera skemmtistaður og veitingastaður án þessa að vera veitingastaður. Barion þarf að geta verið allt í senn.“

Þróunar- og nýsköpunarviðurkenningar veittar

vidurkenning2

Þróunar- og nýsköpunarviðurkenning Mosfellsbæjar var afhent í Listasalnum á þriðjudaginn.
Menningar- og nýsköpunarnefnd auglýsti eftir hugmynd, vöru eða þjónusta sem talist gæti nýlunda í samfélagi, innan fyrirtækis, vöruþróun eða framþróun á þjónustu eða starfsemi fyrirtækis eða stofnunar í Mosfellsbæ.
Alls bárust þrjár gildar umsóknir og lagði menningar- og nýsköpunarnefnd til við bæjarstjórn að afhentar yrðu tvær viðurkenningar. Þær hlutu Ilmbanki íslenskra jurta og Yndi.

Ilmbanki íslenskra jurta
Ilmbanki íslenskra jurta hófst sem nýsköpunar- og rannsóknarverkefni. Markmið verkefnisins var þróun á vinnsluaðferðum til framleiðslu ilmkjarnaolía úr íslenskum jurtum með sjálfbærni að leiðarljósi og að það raski ekki vistkerfum og tryggi sjálfbæra landnýtingu í sátt við náttúru Íslands og almenning.
Hönnuð verður sýning í kringum rannsóknarverkefnið Ilmbanka íslenskra jurta og sett upp í Álafosskvosinni. Sýningin er hugsuð sem kynning og upplifun á ilmum íslenskrar náttúru þar sem gestir geta þefað af helstu blómum og trjám í íslenskri náttúru ásamt öðru s.s. kindataði, bóluþangi og fleiru skrýtnu og skemmtilegu, ásamt því að fræðast lítillega um hverja tegund.

Sprotafyrirtækið Yndi
Yndi er sprotafyrirtæki sem framleiðir barnafatnað og fylgihluti fyrir börn, í samstarfi við börn. Hönnun fyrirtækisins fer fram í samvinnu við börn, ýmist í sniðagerð, mynsturgerð og/eða hugmyndavinnu.
Stefnt er að opnun netverslunar í byrjun árs 2020 og samhliða verður efnt til teiknisamkeppni meðal barna og ungmenna í Mosfellsbæ. Mun sigurvegarinn fá fatnað með teikningu sinni áprentaðri að launum.

Fjölnota íþróttahúsið að Varmá heitir nú Fellið

fellid

viðurkenningarNýtt fjölnota íþróttahús að Varmá hefur verið tekið í notkun. Húsið er sérútbúið til knattspyrnuiðkunar með gervigrasi á gólfum. Þar eru einnig þrjár hlaupabrautir auk göngubrautar umhverfis völlinn.
Efnt var til nafnasamkeppni fyrir nýja húsið og var hægt að senda inn tillögur á vefsíðu Mosfellsbæjar og skipuð var sérstök nafnanefnd Mosfellsbæjar og Aftureldingar.
Í nefndinni sátu frá Mosfellsbæ þau Bjarki Bjarnason og Anna Sigríður Guðnadóttir en fulltrúi Aftureldingar var Geirarður Þór Long. Starfsmaður nefndarinnar var Sigurður Guðmundsson íþróttafulltrúi Mosfellsbæjar.
Alls sendu 206 bæjarbúar inn tillögur sínar í nafnasamkeppnina og komu fram 135 tillögur að heiti á húsinu.
Nefndin hélt tvo fundi og varð það niðurstaða nefndarinnar að velja nafnið Fellið sem 6 einstaklingar lögðu til. Þeir sem lögðu nafnið til eru Ingibjörg Ívarsdóttir, Hafdís Benediktsdóttir, Magnea Ingimundardóttir, Agnar Davíð Halldórsson, Elín Konráðsdóttir og Rakel Baldursdóttir. Mynd af þeim má sjá hér til hliðar ásamt fulltrúum bæjarins þegar þeim var afhentur þakklætisvottur í vikunni. Á stóru myndinni má sjá hvernig húsið verður merkt að utan.

Fergus og Ferguson

Heilsumolar_Gaua_5des

Við hjónin fórum og hlustuðum á írska frammistöðuráðgjafann Fergus Connolly segja frá reynslu sinni af því að vinna með íþróttaliðum. Hann talaði um mikilvægi þess mannlega í keppnisíþróttum og sagði mannlega þáttinn jafn mikilvægan, ef ekki mikilvægari, og vísindalegar mælingar á frammistöðu leikmanna og liða.

Hann nefndi mörg dæmi máli sínu til stuðnings og vitnaði í heimsþekkta þjálfara á borð við Alex Ferguson sem var öðrum fremri í að velja rétta leikmenn í sitt lið. Þar skipti mannlega hliðin miklu máli. Hvernig leikmennirnir komu fyrir og höguðu lífi sínu þegar þeir voru ekki á æfingu eða að keppa. Vellíðan og góð heilsa voru í lykilhlutverki í fyrirlestri þess írska sem hefur unnið með heimsfrægum íþróttaliðum í Englandi og Bandaríkjunum. Það sem ég hugsaði eftir fyrirlesturinn var, af hverju eru íslensk íþróttalið ekki markvisst að vinna meira með mannlega þáttinn? Einhver eru kannski að því en þau eru fá.

Af hverju eru ekki fleiri íþróttasálfræðingar eða sérfræðingar í mannlegum samskiptum í fastri vinnu hjá íþróttafélögum? Af hverju er hjá sumum félögum, eins og til dæmis græna félaginu í Kópavogi, gert grín að hlutverki þess sem vinnur við mannlega þáttinn þar í hlutastarfi. „Já, eigum við ekki bara að fá félagsfræðinginn til þess að tala við hann?“ er lína sem ég heyrði í útvarpsþætti í sumar, spekingarnir voru þá einmitt að tala niður þetta gríðarlega mikilvæga en vanmetna hlutverk.

Íþróttafólk er ekkert öðruvísi en annað fólk, ef eitthvað er þá býr það við meiri pressu en aðrir, stöðugar kröfur um að standa sig og að sýna engin veikleikamerki. Alex Ferguson gat blásið hárið af mönnum ef honum fannst ástæða til, en fyrst og fremst náði hann árangri með United liðið sitt með því að passa vel upp á leikmenn sína innan vallar og utan. Alveg eins og Klopp í dag.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 5. desember 2019

 

Umhverfisstefna með hliðsjón af heimsmarkmiðum

heimsmarkmidMOS

Mosfellsbær hefur markað umhverfisstefnu með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Mosfellsbær er fyrsta íslenska sveitarfélagið sem setur sér ítarlega umhverfisstefnu með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Markmiðið með vinnunni var að setja fram stefnu um hvernig Mosfellsbær geti þróast á sjálfbæran og framsækinn hátt á næstu árum í samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Umhverfisstefnan hefur nú verið gefin út og birt á heimasíðu sveitarfélagsins.

Ábendingar frá íbúum um áherslur
Umhverfisnefnd leiddi vinnu við mótun stefnunnar og lögð var áhersla á að hafa hana einfalda í framsetningu og þannig sem aðgengilegasta. Leitað var aðstoðar sérfróðra aðila við gerð stefnunnar og haldnir opnir íbúafundir þar sem kallað var eftir tillögum og ábendingum frá íbúum um áherslur í málaflokknum. Loks átti vinna við mótun umhverfisstefnunnar sér stað á milli kjörtímabila sem er fallið til þess að byggja undir sátt og skilning um stefnuna hjá kjörnum fulltrúum.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru grunnur að endurskoðun umhverfisstefnu Mosfellsbæjar. Í hverjum kafla er gerð grein fyrir því hvaða kafla heimsmarkmiðanna er litið til með megináherslu á 11. kafla sem lýtur að sjálfbærni sveitarfélaga, skipulagi þeirra og uppbyggingu. Heimsmarkmiðin verða á næstu misserum lögð til grundvallar við aðra stefnumörkun sveitarfélagsins eins og við endurnýjun aðalskipulags Mosfellsbæjar svo nokkuð sé nefnt.
Í skýrslu Nordregio, norrænnar fræðastofnunar í skipulags- og byggðarmálum er ný umhverfisstefna Mosfellsbæjar tekin sem fyrirmyndardæmi um hvernig sveitarfélög geta innleitt heimsmarkmiðin í sinni starfsemi og þjónustu.

Smelltu hér til að skoða umhverfisstefnu Mosfellsbæjar. 

Bylur í Bæjarleikhúsinu fyrir jólin

bylur_mosfellingur

Leikfélag Mosfellssveitar í samstarfi við tónlistardeild Listaskóla Mosfellsbæjar æfir um þessar mundir nýjan söngleik sem ber heitið Bylur.
Sagan gerist á afskekktu hóteli í ónefndum bæ á Þorláksmessu, en þar sjá nokkrir strandaglópar fram á að þurfa að eyða jólunum saman sökum blindbyls sem herjar á bæinn. Þarna fléttast saman sögur alls konar fólks sem er saman komið á hótelinu í mismunandi erindagjörðum. Leynifundir, jólabjöllur, snjóblásari og steikt slátur í bland við grípandi vetrar- og jólalög í skemmtilegum útsetningum ættu að koma öllum í jólaskapið.

Stöllur og hljómsveit út Listaskólanum
Hljómsveitin er skipuð nemum í Listaskólanum og Kvennakórinn Stöllurnar undir stjórn Heiðu Árnadóttur leika og syngja ásamt félögum í Leikfélagi Mosfellssveitar.
Handritið skrifuðu María Guðmundsdóttir og Sigrún Harðardóttir, leikstjórn er í höndum Sigrúnar og Agnesar Wild, leikmynd hannar Eva Björg Harðardóttir og búninga og leikmyndasmíði er í höndum stærðar hóps sem vinnur bakvið tjöldin. Sýningarstjóri er Kolfinna Rut Schjetne.

Gestasöngvari á hverri sýningu
Á hverri sýningu kemur gestasöngvari og tekur lagið, en meðal söngvara verða GDRN, Guðrún Gunnarsdóttir, Diddú, Bjarni Atlason, Jógvan Hansen og Greta Salóme.
Ekki missa af þessum stórskemmtilega söngleik sem kitlar hláturtaugarnar, frábær skemmtun í skammdeginu.
Sýningar eru: lau. 23/11, fim. 28/11, fim. 5/12, fös. 13/12, fim. 19/12 og fös. 20/12.
Miðapantanir fara fram í síma 566-7788 og í skilaboðum á facebook.com/leikmos.

Jákvæðni fleytir manni langt

geirilong_mosfellingur

Geirarður Þórir Long deildarstjóri hjá Húsasmiðjunni er mikill gleðigjafi og jákvæður með eindæmumFjöldi rannsókna hefur sýnt að það að vera jákvæður og bjartsýnn hefur jákvæð áhrif á heilsu, andlega líkamlega og félagslega. Jákvæðni fleytir manni langt og einstaklingar með gott sjálfstraust vita að hugsanir þeirra og viðhorf skiptir máli.
Geiri eins og hann er ávallt kallaður er einstaklega jákvæður maður svo eftir er tekið, hann hefur vakið athygli fyrir uppbyggjandi og skemmtileg skrif á samfélagsmiðlum.

Geirarður er fæddur á Fæðingarheimilinu í Reykjavík 16. desember 1966. Foreldrar hans eru þau Svanhildur Geirarðsdóttir bankastarfsmaður og Guðlaugur Magnús Long byggingameistari.
Geirarður á tvo bræður, þá Kjartan f. 1972 og Bjarka Long f. 1977.

Fór beint í veg fyrir bíl
„Þegar ég var lítill þá bjuggum við fjölskyldan hjá ömmu og afa á Ægisíðunni. Lífið var æðislegt á þessum tíma, stutt í sjóinn og grásleppukarlana. Við afi, nafni minn, vorum miklir mátar og hann gerði allt fyrir mig.
Þegar ég var fimm ára þá var ég að hjóla út í götu og fór beint í veg fyrir bíl. Aumingja afi horfði á þetta gerast út um stofugluggann. Ég flaug af hjólinu og það kostaði viku legu á Borgarspítalanum. Mér skilst að starfsfólkið hafi verið fegið þegar ég útskrifaðist því ég var víst oft ansi óþekkur,“ segir Geiri og hlær.

Árgangurinn mjög samheldinn
„Foreldrar mínir byggðu sér hús í Kópavoginum og þangað fluttum við 1973. Ég gekk í Mela- og Digranesskóla en um 12 ára aldurinn fluttum við í Mosfellssveit.
Ég gekk í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar en fannst lærdómur ekkert sérstaklega skemmtilegur þótt kennararnir hafi verið fínir. Það var þó alltaf gaman í smíði hjá Erlingi smíðakennara. Árin í Gaggó voru engu að síður frábær og árgangurinn minn var mjög samheldinn.“

Dreymdi um að verða bóndi
„Ég var ekki mikið í íþróttum á gagnfræðaskólatímabilinu en stundaði félagsmiðstöðina Svanssjoppu þeim mun meira. Það var ótrúleg þolinmæði sem Svanur sýndi okkur unglingunum og hann á þakkir skilið fyrir það.
Flest sumur á mínum yngri árum fór ég í sveit, hestarnir, sveitavinnan og útiveran áttu vel við mig. Það var nokkuð skondið þegar við krakkarnir vorum að velja okkur vinnustað í starfskynningu í 9. bekk þá valdi ég að fara í sveit, minn draumur var alltaf að verða bóndi.
Ég starfaði svo eitt sumar hjá Hestaleigunni Laxnesi, það var alveg magnað, maður var á hestbaki bróðurpart dagsins allt sumarið.“

Ævintýri í millilandasiglingum
„Eftir útskrift fór ég í Iðnskólann í Reykjavík á málmiðnaðarbraut. Hætti svo þar og réði mig sem messagutta á varðskipið Tý og varð fljótt fullgildur háseti. Eftir tæp tvö ár fór ég að læra allt sem viðkom málmsuðu í vélsmiðjunni Héðni og svo tók við 18 mánaða tímabil á Tý aftur.
Áramótin 1986-87 hætti ég á Tý og réði mig sem viðgerðarmann á flutningaskipinu Selnesi. Níu mánaða ævintýri í millilandasiglingum var fram undan og siglt var á milli hafna í Evrópu og Ameríku. Eftir þetta úthald var ég eitt ár á varðskipinu Ægi.“

Hjólreiðarnar heilla
Eiginkona Geira er Bóel Kristjánsdóttir sérfræðingur hjá Íslandsbanka. Þau fóru að vera saman árið 1986 og giftu sig árið 2006. Börn þeirra eru Svandís Ösp f. 1992 sjúkraþjálfari og Stefán Óli f. 1994 ráðgjafi hjá Byko. Barnabarnið Steinar Leó er fæddur árið 2018.
Ég spyr Geira út í áhugamálin. „Skotveiði, jeppaveiki, skíðin, vélsleðinn og ferðalög með fjölskyldunni er það sem kemur fyrst upp í hugann. Síðustu ár hafa hjólreiðar heillað mig en ég hjóla til og frá vinnu allt árið um kring.”

Gaman að þjónusta sveitunga mína
„Ég fór að læra trésmíði og vann til að byrja með við allrahanda húsbyggingar með tengdaföður mínum en fór síðan í sérsmíði á gluggum og útihurðum hjá Þyn og Búlka.
Árið 2003 hóf ég störf hjá GK gluggum hér í Mosó, fyrirtæki sem þekkt var fyrir gæðaframleiðslu. Árið 2011 fluttu eigendur fyrirtækisins fyrirækið í Þykkvabæinn en ég varð eftir. Þá tók ég að mér vélastjórnun hjá Gluggasmiðjunni í Reykjavík og var þar til ársins 2014.
Ég hætti í smíðinni og fljótlega var mér boðið starf í Húsasmiðjunni í Grafarholti. Þar líður mér vel með frábærum vinnuvinum og skemmtilegum viðskiptavinum. Mosfellingar eru duglegir að versla í Grafarholtinu og mér þykir gaman að þjónusta sveitunga mína.“

Með stórt Aftureldingarhjarta
Geiri eyðir miklum tíma í íþróttamiðstöðinni að Varmá og hefur gert lengi en hann er með stórt Aftureldingarhjarta. Bóel eiginkona hans spilaði knattspyrnu hjá félaginu og þjálfaði í 25 ár og dóttir þeirra hjóna spilaði einnig í boltanum í rúm 20 ár. Geiri fór því að taka þátt í ýmsu sem tengdist veru þeirra hjá félaginu, fjáröflunum, mótum og utanlandsferðum.
Þegar meistaraflokkur kvenna var endurvakinn árið 2006 þá aðstoðaði hann við alla vinnu í kringum flokkinn ásamt öðrum, m.a. að standsetja hús sem erlendu leikmennirnir bjuggu í yfir sumarið. Hann segir sjálfboðaliðastarfið hafa gefið sér einstaklega mikið og tímabilið með meistaraflokksráðinu sé ógleymanlegt. Það sé ekki sjálfgefið að hafa lið í efstu deild í 8 ár.

Mannauður félagsins er einstakur
Árið 2013 fékk Guðjón Helgason þáverandi formaður Aftureldingar Geira til að ganga til liðs við aðalstjórn félagsins. Hann lét tilleiðast og er þar enn, 7 árum síðar. Geiri hefur verið heiðraður fyrir störf sín og hefur fengið brons- og silfurmerki frá Aftureldingu, silfur frá UMSK og silfur frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
„Afturelding er stórt félag og það hefur verið heiður að vinna með öllu þessu frábæra fólki í gegnum tíðina, mannauður félagsins er einstakur.
Vegna stjórnarsetu minnar hef ég reynt að fylgjast vel með starfseminni í öllum deildum félagsins. Ég horfi til að mynda á yfir 100 fótboltaleiki á ári, eins fer ég á leiki og mót hjá öðrum deildum.
Í vetur sem leið var ég beðinn um að koma í varastjórn UMSK sem ég þáði. Það er áhugavert að skoða íþrótta og ungmennastarfið frá þeirri hlið líka.“

Hjálpar vonandi öðrum líka
Ég sný talinu að jákvæðni og fallegum orðum. Geiri hefur vakið athygli fyrir hvatningarorð sem hressa sálina og mörgum finnst gott að lesa. Af hverju skyldi hann taka þann pólinn í hæðina? „Í amstri dagsins getur verið gott að minna sjálfan sig á lífið. Skrif mín hjálpa mér í gegnum daginn og vonandi öðrum í leiðinni,” segir Geiri og brosir er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 14. nóvember 2019
ruth@mosfellingur.is

Mosfellsbær tekur á móti flóttamönnum

flottamos

Fimmtudaginn 12. september kom ellefu manna kvótaflóttahópur frá Kenía til Mosfellsbæjar. Þetta er í annað skipti sem Mosfellsbær tekur við kvótaflóttafólki en í mars 2018 tók Mosfellsbær á móti tíu einstaklingum.
Vel tókst til við móttöku fyrri hópsins og er það ekki síst því að þakka hversu vel samfélagið tók á móti fólkinu. Félagsmálaráðuneytið leitaði því aftur til Mosfellsbæjar í ár til þess að taka á móti nýjum hópi.

Koma sér inn í íslenskt samfélag
Miðvikudaginn 6. nóvember stóð Mosfellsbær fyrir móttöku til heiðurs hinum nýju íbúum í Listasal bókasafns Mosfellsbæjar.
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra buðu fólkið velkomið og notaði ráðherra tækifærið til að þakka Mosfellsbæ og öðrum sem að verkefninu koma fyrir þeirra góða framlag.
Nú eru rúmar átta vikur liðnar síðan fólkið kom og er það hægt og rólega að koma sér inn í íslenskt samfélag. Börnin eru byrjuð í skóla og tómstundum og hinir fullorðnu komnir í íslenskunám.

Stuðningur mjög mikils virði
Samstarf Mosfellsbæjar, Rauða krossins og félagsmálaráðuneytisins um verkefnið hefur verið mjög gott. „Það er einlæg ósk okkar sem að verkefninu koma að bæjarbúar taki eins vel á móti fólkinu núna og síðast.
Líf fólks í Kenía og á Íslandi er gjörólíkt og það er því margt sem okkar nýju íbúar þurfa að læra og takast á við og stuðningur okkar við þá er því mikils virði,“ segir Hulda Rútsdóttir verkefnisstjóri Mosfellsbæjar við móttöku flóttafólks.
Fólkið kemur frá Úganda og Súdan en dvaldi í flóttamannabúðum í Kenía.

Nýtt fjölnota íþróttahús tekið í notkun

fjolnotavarma

Nýtt fjölnota íþróttahús að Varmá var vígt laugardaginn 9. nóvember við hátíðlega athöfn. Húsið mun valda straumhvörfum í aðstöðu fyrir íþróttaiðkendur í Mosfellsbæ auk þess sem unnt verður að stunda hreyfingu á 250 metra langri göngu- og hlaupabraut á tímum þegar allra veðra er von.
Húsið, sem er um 4.000 m² að grunnfleti auk innfelldrar lágbyggingar, er sérútbúið til knattspyrnuiðkunar. Þar eru einnig þrjár hlaupabrautir auk göngubrautar umhverfis völlinn.

Grunnur að sigrum framtíðarinnar
Haustið 2017 var samþykkt að ráðast í byggingu á fjölnota íþróttahúsi á íþróttasvæðinu við Varmá. Í janúar 2018 hófst vinna við hönnun hússins í samvinnu við Aftureldingu og í kjölfarið var samið við fyrirtækið Alverk um að reisa húsið. Verkið gekk greiðlega og hefur verið á áætlun allan framkvæmdatímann.
„Ég vil óska öllum Mosfellingum innilega til hamingju með nýtt fjölnota íþróttahús,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Hér er byggt til næstu ára og þetta hús mun valda straumhvörfum fyrir íþróttaiðkendur í Mosfellsbæ og er enn einn liður í því að efla umgjörðina og leggja þannig grunn að sigrum framtíðarinnar.“

Yfir 600 í yngri flokkum fótboltans
Æfingar hófust í húsinu í lok október en formlega vígsla fór fram um síðustu helgi.
Arkitekt hússins er Sturla Ásgeirsson hjá Arkþing en verkfræðihönnun var á vegum Verkís, byggingarstjóri er Halldór Bogason hjá Alverk en eftirlit á vegum Mosfellsbæjar var í höndum Þorsteins Sigvaldasonar og Óskars Gísla Sveinssonar.
„Það er sérlega ánægjulegt að sjá húsið verða að veruleika. Fjölgun iðkenda í Aftureldingu hefur verið mikil síðustu misseri,“ segir Birna Kristín Jónsdóttir formaður Aftureldingar. „Í dag eru iðkendur í barna- og unglingastarfi í öllum deildum um 1.550 en flestir í knattspyrnudeild eða rétt rúmlega 600. Ég hlakka gríðarlega til framtíðarinnar, sem er sannarlega björt hér í Mosfellsbæ.“

——

NAFNASAMKEPPNI

Sett hefur verið á laggirnar nafnasamkeppni fyrir nýja húsið. Hægt er að senda inn tillögu á vefsíðu Mosfellsbæjar, www.mos.is, til 25. nóvember. Mun nafnanefnd, sem skipuð er tveimur aðilum úr bæjarstjórn og fulltrúa frá Aftureldingu, kynna vinningstillöguna í næsta tölublaði Mosfellings.
Smelltu hér til að senda inn þína tillögu!