Ráðin nýr lögmaður Mosfellsbæjar

Þóra M. Hjaltested hefur verið ráðin sem lögmaður Mosfellsbæjar. Þóra lauk embættisprófi frá Háskóla Íslands árið 1999 og hlaut réttindi sem héraðsdómslögmaður árið 2003. Þóra hefur frá árinu 2012 starfað sem sérfræðingur í lögfræðiráðgjöf Arion banka. Áður starfaði Þóra sem skrifstofustjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu og var þar staðgengill ráðuneytisstjóra. Þóra kemur til starfa þann 1. apríl næstkomandi.

Sérfræðiþekking á sviði velferðartækni

Hjúki er nýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í sölu, uppsetningu og þjónustu á skolsetum og öðrum hjálpartækjum innan sem utan heilbrigðisgeirans.
Fyrirtækið var stofnað árið 2018 af Hannesi Þór Sigurðssyni, Einari Vigni Sigurðssyni og Kristjáni Zophoníassyni, með það að leiðarljósi að veita persónulega ráðgjöf og sérfræðiþekkingu á sviði velferðartækni.

Lausnir í velferðartækni
„Við flytjum meðal annars inn klósettsetur með innbyggðum öflugum þvotti og þurrki sem gera salernisferðir auðveldari fyrir þá sem þurfa að öllu jöfnu aðstoð við það,“ segir Hannes einn eiganda Hjúka.
„Við komum og setjum setuna upp fyrir okkar viðskiptavini en með henni fylgir notendavæn fjarstýring þar sem hægt er að stjórna setunni með einum hnappi.“ Skolseturnar eru þróaðar með notkun í öldrunarþjónustu að leiðarljósi og hafa verið mikið notaðar á Norðurlöndunum. Seturnar eru með sætishita og stillanlegri hitastýringu á vatni og þurrki.

Betra hreinlæti eftir salernisferð
„Við fundum strax að eftirspurnin eftirþessu hjálpartæki var til staðar og hefur þetta gjörbreytt lífi margra að geta verið sjálfbjarga með sínar salernisferðir. Það eru ekki bara aldraðir sem nota setuna, það eru margir sem þurfa aðstoð við þetta bæði eftir aðgerðir og slys.“
Þeir sem vilja kynna sér betur skolsetuna er bent á að hafa samband við Hannes í síma 888 0072 eða á heimasíðu fyrirtækisins www.hjuki.is.

Styrkur í sóttkví

Ég er ekki í sóttkví og býst ekkert sérstaklega við því að þurfa fara í sóttkví, er ekki búinn að vera á einu af skilgreindu svæðunum. En kannski kemur að því að ég smitist og þurfi að fara í sóttkví. Ef svo, þá mun ég taka því af sömu yfirvegun og ég reikna að langflestir aðrir geri. Eins og Víðir Reynis sagði í einu viðtalinu: „Taktu bara þátt í þessu. Þetta eru fjórtán dagar. Það er bara þinn skammtur til samfélagsins í dag.“ Hitti þar naglann á höfuðið. Við erum í þessu saman. Öll.

En hvað gerir maður í sóttkví fyrir utan að lúslesa í rauntíma ferskar fréttir á fótbolti.net og horfa á Netflix? Jú, maður nýtir tímann til þess að styrkja sig. Líkamlega og andlega. Andlega með því til dæmis með því að hugleiða, velta fyrir sér tilgangi lífsins og hvernig maður geti látið gott af sér leiða – gert samfélagið betra.

Með líkamsræktina þá gilda engar afsakanir. Það er ekki hægt að kvarta yfir tímaleysi í sóttkví. Það er hugsanlega hægt að reyna að fela sig á bak við þá afsökun að maður komist ekki í tæki, lóð eða ketilbjöllur, en sú afsökun er ekki tekin gild. Maður hefur enn eigin líkama, hann er ekki frekar en hugurinn tekinn frá manni í sóttkví, og getur notað hann til þess að styrkja sig og efla.

Ég mæli með eftirfarandi sóttkvístyrktaræfingum: Hnébeygjum, afturstigi, réttstöðulyftu á öðrum fæti, kálfalyftum, armbeygjum, upphífingum eða róðri í böndum – hér er líka hægt að nota handklæði, lak eða annað sem er hægt að festa í hurð, planka og hliðarplanka. 30 sek af hverri æfingu, allt framkvæmt rólega og yfirvegað, hver æfing á eftir annarri. Þrjár umferðir. Alla daga. Hita upp áður og teygja á eftir. Skothelt styrktarprógram sem skilar þér sterkari úr sóttkvínni.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. mars 2020

Bættur tölvukostur í grunnskólunum Mosfellsbæjar

Tölvukostur í grunnskólum Mosfellsbæjar hefur verið stórbættur fyrir bæði nemendur og kennara.
Á síðustu tveimur árum hefur starfsumhverfi skóla verið stórbætt þegar kemur að upplýsinga- og tæknimálum. Nettengingar hafa verið endurnýjaðar í öllum leik- og grunnskólum og stjórnendur, kennarar og annað fagfólk fengið fartölvur til notkunar í sínum störfum. Þrír kerfisstjórar hafa nú umsjón með öllum leik- og grunnskólum og sérstök teymi starfa innan hvers skóla sem hafa það hlutverk að þróa nýja kennsluhætti og miðla þeim áfram.

Nýta tækni í námi og kennslu
Í vor og haust verður lögð áhersla á þróun kennsluhátta, eins og kynningu og fræðslu í notkun Google-umhverfis, spjaldtölvunotkun og hvernig megi nýta tækni almennt í námi og kennslu á sem fjölbreyttastan hátt.
Keyptar hafa verið spjaldtölvur sem eru ætlaðar nemendum í 1. – 6. bekk til afnota og nemendur í 7. – 10. bekk fá „Chromebooks“ tölvur til afnota.
Samhliða endurskoðun á skólastefnu Mosfellsbæjar er unnið að stefnumótun í upplýsingatækni skólanna til næstu ára. Nýr og bættur tækjakostur gefur óþrjótandi möguleika á þróun kennslu í takt við megin­áherslur aðalnámskrár grunnskóla.
Upplýsinga- og tæknimál eru mikilvæg í nútímaþjóðfélagi og er stefna Mosfellsbæjar að skólar bæjarins séu í fremstu röð hvað þau varðar.

Huldumenn með útgáfutónleika

Það hafa aldrei verið læti í Birgi Haraldssyni söngvara, nema þegar hann syngur. Þá heyra það allir. Hann hefur verið verkstjóri hjá Ístex í hartnær 30 ár en um helgar breytist þessi annars hægláti maður í öskrandi tröll. Það þekkja allir Bigga Gildru, manninn með gullbarkann og faxið síða.

Splunkuný plata spiluð í heild sinni
Biggi hóf feril sinn með hljómsveitinni Gildrunni árið 1986 og var fljótt landsþekktur fyrir háa rödd sem þeyttist yfir tónsviðið án fyrirhafnar. Þegar Gildran sendi síðan frá sér Vorkvöld í Reykjavík skaust hann ásamt félögum sínum upp á rokkstjörnuhimininn.
Gildran starfaði í hartnær 30 ár með hléum og muna flestir Mosfellingar eftir „Fló og fjör“ þar sem hljómsveitin fyllti Álafosskvosina ár eftir ár en einnig urðu þeir félagar þekktir fyrir að leika tónlist CCR á veitingastaðnum Álafoss föt bezt sem trymbill hljómsveitarinnar Karl Tómasson rak.
Nú snýr Birgir aftur í Hlégarð með splunkunýja plötu sem hann vann með félögum sínum í hljómsveitinni Huldumönnum. Hann og Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari sömdu lögin en flestir textarnir eru eftir Mosfellingana Þóri Kristinsson og Bjarka Bjarnason.

Blanda saman rokki og kór
„Þetta verður frábært kvöld“ segir Birgir. „Við munum flytja lögin af plötunni okkar „Þúsund ára ríkið“, sérstakur gestur er Rokkkór Íslands undir stjórn Matthíasar V. Baldurssonar. Það er yndislegt að blanda saman rock and roll og kórtónlist þannig að úr verður eldheit upplifun. Svo fljóta örugglega með nokkrir Gildru­smellir og kannski Creedence-syrpa.“
Eflaust hafa margir hug á því að sjá Bigga aftur með Huldumönnum 6. mars en tónleikarnir hefjast kl. 21 og miðasala er á Tix.is.

Hestamennskan er lífsstíll

Rúnar Þór Guðbrandsson framkvæmdastjóri Trostan framleiðir hestavörur undir vörumerkinu Hrímnir.

Árið 2003 stofnuðu hjónin Rúnar Þór og Hulda Sóllilja fyrirtæki utan um framleiðslu á hnakknum Hrímni. Fyrirtækið hefur vaxið hratt undanfarin ár og í dag reka þau öfluga vefverslun ásamt því að vera með 100 endursöluaðila á vörum sínum í 20 löndum.
Hjónin segja það forréttindi að geta sameinað störf sín og áhugamál en líf þeirra hefur snúist meira og minna um hestamennsku undanfarna áratugi.

Rúnar Þór er fæddur í Reykjavík 8. maí 1972. Foreldrar hans eru þau Egilína S. Guðgeirsdóttir starfsmaður Fasteignasölu Mosfellsbæjar og Guðbrandur E. Þorkelsson heimilislæknir. Uppeldisfaðir er Eyjólfur Árni Rafnsson formaður Samtaka atvinnulífsins.
Rúnar Þór á sex systkini, Rafn, Reyni Inga og Róbert sammæðra og Snorra, Rannveigu og Sigríði Stellu samfeðra.

Alltaf vel tekið á móti manni
„Ég er alinn upp í Vík í Mýrdal og þar var gott að slíta barnsskónum. Að alast upp í litlu þorpi umkringdur ættingjum og stórbrotinni náttúru var frábært. Móðir mín var ung að árum þegar hún átti mig og við bjuggum hjá ömmu og afa fyrstu árin. Það voru algjör forréttindi og mótaði mig mjög mikið.
Þorpið var öðruvísi en það er í dag, maður þekkti alla og allar dyr voru opnar en nú er bærinn fullur af ferðamönnum.
Amma var dugleg að fara með mig í heimsóknir til ættingja og þegar maður fór svo sjálfur að þvælast um þá kíkti maður við hjá þessu frábæra fólki enda alltaf tekið vel á móti manni.“

Las af mælunum með afa
„Minningarnar úr æsku eru margar, eftir­minnileg eru leikskólaárin í Suður-­Vík, einu elsta húsi Víkur með dvalarheimili aldraðra á efri hæðinni, oft var kíkt í heimsókn og mikið spjallað.
Ég gleymi aldrei fyrstu launuðu vinnunni, þá var ég innan við 10 ára og var í því að skera melgresi. Dýrmætustu minning­arnar eru líklega ferðirnar með afa sem keyrði um sveitirnar til að lesa af rafmagnsmælum en hann starfaði hjá Rarik. Alls staðar var okkur vel tekið og víða var boðið inn í kaffi, þarna kynntist maður fjölmörgu áhugaverðu fólki.
Allar ferðirnar sem maður fékk að sitja í með vörubílstjórum eða Þorbergi ruslakalli voru eftirminnilegar en hann var í draumastarfinu að mínu mati á þeim tíma og svo auðvitað reglulegar heimsóknir til mömmu og pabba í vinnuna.“

Fluttu til Bandaríkjanna
Rúnar hóf skólagönguna í Víkurskóla en fjölskyldan flutti svo til Reykjavíkur og þá sótti hann nám í Hólabrekkuskóla í tvö ár. Þau fluttu í Mosfellsbæinn og þá lá leiðin í Varmárskóla og svo tók Rúnar einn vetur í Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar.
„Fjölskyldan flutti til Bandaríkjanna og þar bjuggum við í 3 ár, þar gekk ég í Junior High School. Árin þarna úti voru frábær og maður stundaði íþróttir af krafti.
Þegar ég flutti heim fór ég í Fjölbrautarskólann við Ármúla og má segja að þar hafi áhugi minn á félagsstöfum kviknað.“

Kynntust í Skagafirðinum
Á fyrstu önn Rúnars í skólanum 1989 var farið í afdrifaríkt skólaferðalag, í stóðréttir í Skagafjörð. Þar kynntist hann eiginkonu sinni, Huldu Sóllilju Aradóttur. Hún á ættir að rekja í Mosfellssveitina en afi hennar er Guðmundur frá Miðdal. Hún fetaði síðar í fótspor ömmu sinnar og afa og lærði leirlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands.
Rúnar og Hulda giftu sig í Lágafellskirkju 1999. Þau eiga saman synina Andra Dag f. 1997, Aron Mána f. 2003 og Egil Ara f. 2008.

Búðarferðin varð að ævistarfi
„Daginn sem ég lauk við síðasta prófið í framhaldsskóla kom ég við í hestabúð í Ármúlanum til að kaupa mér skeifur. Mig vantaði vinnu og spurðist fyrir um starf í leiðinni, sem ég fékk. Ég hef verið í hestavörubransanum nánast samfleytt síðan þá.
Þegar ég var 24 ára ákvað ég og konan mín að fara út í eigin rekstur og opnuðum við ásamt félaga okkar hestabúðina Reiðlist í Skeifunni en 3 árum síðar sameinuðust við tveimur öðrum í eina stóra verslun.
Í rekstrinum féll það í minn hlut að vinna að markaðsmálum og varð það til þess að við hjónin ásamt 4 ára syni okkar fluttum til Providence í Rhode Island fylki í Bandaríkjunum. Þar hóf ég nám við Johnson & Wales University og útskrifaðist með háskólagráðu í markaðsfræðum. Árin okkar þarna úti voru frábær og við eignuðumst góðar minningar og vini.“

Stofnuðu fyrirtæki
„Við fluttum heim 2003, en þá var ég ráðinn sem umdæmisstjóri VÍS á höfuðborgarsvæðinu. Árin hjá VÍS voru lærdómsrík, þar sem ég tók þátt í miklum breytingum hjá félaginu og starfaði síðasta árið sem deildarstjóri einstaklingsviðskipta ásamt því að ljúka MBA námi við Háskólann í Reykjavík.
Á meðan ég var í námi í Bandaríkjunum stofnuðum við hjónin fyrirtæki utan um framleiðslu á hnakknum Hrímni en aðsetur fyrirtækisins hefur ávallt verið í Mosfellsbæ. Fyrstu árin rákum við þetta með öðrum störfum, en haustið 2009 ákváðum við að gefa fyrirtækinu fulla athygli ásamt því að byggja okkur hús í Leirvogstungu.“

Allir geta notið góðs af
„Fyrirtækið hefur vaxið hratt síðustu ár en 2013 fluttum við dreifingarmiðstöð okkar frá Íslandi til Frankfurt í Þýskalandi. Í dag rekum við öfluga vefverslun, www.hrimnir.shop, fyrir bæði smásölu og heildverslunina ásamt því að vera með um 100 endursöluaðila á vörum okkar í 20 löndum. Árið 2015 hófum við framleiðslu á reið- og útivistarfatnaði og framleiðum nú rúmlega 200 vörur undir okkar vörumerkjum.
Fyrir ári hófum við einnig framleiðslu á vönduðu kennsluefni sem við höfum aðgengilegt á síðunni okkar. Þar sem viðskiptavinir okkar eru fyrst og fremst eigendur íslenskra hesta sem búa um allan heim þá lítum við á þetta sem gott samfélagsverkefni þar sem allir geta notið góðs af óháð staðsetningu.“

Snýst allt um hestamennskuna
„Það eru forréttindi að geta sameinað störf okkar og áhugamál, hestamennskan er lífsstíll og það snýst allt meira og minna um það hjá okkur. Við erum með litla hrossarækt og erum með hesthús á félagssvæði Harðar að Varmárbökkum. Við erum svo lánsöm að synir okkar deila áhugamálinu með okkur og við ferðumst mikið á hestum á sumrin.
Auk hestamennskunnar hef ég mikinn áhuga á fluguveiði og Laxá í Aðaldal er í miklu uppáhaldi. Félagsmálin hafa líka átt stóran þátt á undanförnum áratugum og er það gríðarlega gefandi. Sem stendur starfa ég með frábæru fólki í stjórn Hestamannafélagsins Harðar og í stjórn Íbúasamtaka Leirvogstungu svo maður getur ekki kvartað yfir því að hafa ekki nóg að gera,“ segir Rúnar brosandi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 20. febrúar 2020
ruth@mosfellingur.is

 

Lífið er núna

Gaui er í útlegð. Þannig er það nú bara. Hann var sendur úr landi til að klára að skrifa bókina okkar um Blue Zone ferðalagið, á meðan held ég hlutunum gangandi hér heima. Það er heiður að taka við heilsu­molunum meðan á útlegð stendur. Ég hugsaði með mér að ég væri nú búin að vera með þessum „heilsuGaua“ í meira en 25 ár og hlyti að hafa lært eitthvað.

Ég byrjaði á að skrifa um heilsu. Eðlilega, þetta er heilsuhorn. Endaði í 5.000 orða pistli, svo ekki hef ég lært að vera stuttorð af Gaua. Þá fór ég að skrifa um tilgang, enda kenndu Blue Zone svæðin okkur að tilgangur er einn stærsti pósturinn í langlífi og vellíðan. Aftur, alltof langt. Svo nú bretti ég upp ermar og kem með stuttu útgáfuna af lífsreglunum. Höfum þetta í karlkyni. Af því bara.

Sinntu því sem gerir þig glaðan og lætur þér líða vel. Vertu góð manneskja, góður vinur og vertu samkvæmur sjálfum þér. Hlustaðu á aðra, við getum alltaf lært eitthvað nýtt, en hlustaðu þó mest á eigið hjarta. Þegar þú hefur tekið ákvörðun, stattu þá með henni, en mundu að þú ert ekki minni maður af því að hugsa málin aftur og skipta um skoðun. Hrósaðu öðrum og taktu eftir því sem vel er gert. Lífið verður skemmtilegra þannig. Vertu góður við sjálfan þig og aðra. Ef þú hefur gert eitthvað rangt, segðu þá fyrirgefðu og taktu ábyrgð. Taktu eftir litlu hlutunum, fuglunum, fallegu útsýni, hlýju brosi, góðu kaffi og öllu sem við tökum sem sjálfsögðu. Það eru þeir sem skipta máli og gera lífið svo gott.

Passaðu heilsuna, hún skiptir öllu. Klisjurnar „lífið er núna“ og „eitt líf – njóttu þess“ eru sannar. Þú nýtur lífsins með því að fara vel með þig, gera það sem lætur þér líða vel, ekki öðru hverju, heldur út lífið. Það sem þú ákveður í dag hefur áhrif á framtíðina. Leyfðu þér að dreyma og mundu að þú getur allt sem þú vilt. Þetta gat ég, stutt og laggott.

Heilsumolar Völu
Mosfellingur 20. febrúar 2020

90% bæjarbúa lesa Mosfelling

Gallup stóð fyrir lestrarmælingu í Mosfellsbæ í desember og voru 714 íbúar Mosfellsbæjar, 18 ára og eldri, í úrtaki.
Bæjarblaðið Mosfellingur kemur ákaflega vel út úr könnuninni og mælist með 89,3% lestur meðal bæjarbúa. Mest fer lesturinn upp í 96% hjá íbúum 55 ára og eldri. Þetta er í fyrsta sinn sem lestur er mældur á bæjarblaði í Mosfellsbæ svo vitað sé. Mosfellingur hefur verið gefinn út frá árinu 2002 og ávallt dreift frítt í öll hús.

Hilmar Gunnarsson, ritstjóri Mosfellings.

Pappírinn ekki á útleið
„Þetta eru virkilega ánægjulegar niðurstöður og gaman að sjá þetta svona svart á hvítu, segir Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings. „Þessar tölur eru í raun ótrúlegar og hvetja okkur til að halda áfram á sömu braut. Það eru jú viðbrögð Mosfellinga og væntumþykja um blaðið sem heldur okkur gangandi. Þetta segir okkur það að pappírinn er ekki á útleið, síður en svo. Fólk vill fá fréttir úr sínu nærsamfélagi og ég held að það hafi gaman af smá sveitastemningu.
Að blaðinu kemur frábær hópur en margir halda að við séum öll í fullri vinnu hjá blaðinu. Öll höfum við þó sinnt blaðinu meðfram okkar vinnu og stöðugildin afskaplega lág. Við segjum stundum að blaðið sé gefið út af hugsjón, enda höfum við öll áhuga á því sem er að gerast í bæjarlífinu.“

Jákvæðar og skemmtilegar fréttir
Hvaða þýðingu hefur svona góð niðurstaða? „Aðallega viðurkenning á okkar störfum og sýnir að Mosfellingar kunni að meta þessa þjónusta. Auðvitað sjá líka auglýsendur að þeirra boðskapur skilar sér best hjá okkur. Á sama tíma eru stórir prentmiðlar t.d. Morgunblaðið með 26% lestur og Fréttablaðið 45% á höfuðborgarsvæðinu.
Við munum halda áfram okkar striki og upplýsa bæjarbúa á jákvæðan og skemmtilegan hátt um það sem gerist í Mosó.
Fjölmiðlafrumvarpið mun ekki styðja við okkar útgáfu því gefa þarf út blað vikulega til að hljóta náð mennta- og menningarmálaráðherra. Við viljum frekar gefa sjaldnar út og hafa flottara og efnismeira blað.
Á meðan auglýsendur sjá hag sinn í því að auglýsa í blaðinu og bæjarbúar taka blaðinu svona vel þá höldum við ótrauð áfram.“

 


Öll tölublöð Mosfellings frá upphafi eru nú aðgengileg á timarit.is en það er Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem rekur vefinn. Um 300 blöð frá síðastliðnum 17 árum eru aðgengileg á stafrænu formi á vefnum.

Viðtökurnar langt umfram væntingar

Heilsuhjónin Halla Karen Kristjánsdóttir og Elías Níelsson.

Ný 940 m2 viðbygging við World Class í Mosfellsbæ var tekin í notkun laugardaginn 11. janúar. Líkamsræktarstöðin var fyrst opnuð í Lágafellslaug í lok árs 2007 en nú hefur hún tvöfaldast að stærð.
Boðið er nú upp á stærri tækjasal, infra­red heitan sal, hjólasal með ic7 hjólum, fjölnota sal, tvo nýja búningsklefa, infrared gufu, þurrgufu og auðvitað aðgang að Lágafellslaug.
Hjónin Halla Karen Kristjánsdóttir og Elías Níelsson hafa hvatt Mosfellinga til hreyfingar í fjölda ára og starfa bæði hjá World Class.

Þrír æfingasalir í stað eins
„Þetta fer mjög vel af stað og Mosfellingar hafa tekið stækkuninni gríðarlega vel. Það er troðfullt í alla tíma og viðtökurnar langt umfram væntingar. Þrír nýir salir hafa verið teknir í notkun sem gerir það að verkum að hægt er að bjóða upp á þrjá ólíka líkamstæktartíma í stað eins áður. Einn salurinn er fjölnota, annar infrared heitur og sá þriðji sér hjólasalur. Þá mun tækjasalurinn á neðri hæðinni einnig stækka og eru ný tæki á leiðinni.
Auk þess er komin ný búningsaðstaða og ný gufuaðstaða.“

Í takt við stækkandi heilsusamfélag
Halla Karen bætir við að sundlaugin og sú frábæra aðstaða sé mjög stór partur af þessu líka og hafi mikið aðdráttarafl. „Sigurður Guðmundsson hjá Mosfellsbæ á heiður skilið fyrir að koma þessu á laggirnar með World Class. Þetta er algjörlega í anda heilsueflandi samfélags og í takt við stækkandi bæjarfélag. Mosfellingar eru almennt mjög duglegir að hreyfa sig og þessi bætta aðstaða á bara eftir að hjálpa ennþá frekar til.
Við erum með fullt af nýjum kennurum í World Class og ótrúlega mikið af tímum. Aðstaðan hér fyrir var orðin barn síns tíma og nú sér maður það vel, alveg svart og hvítt.
Hingað kemur líka fólk úr nágrenni Mosfellsbæjar og svo er gaman að geta þess að eldri borgararnir eru farnir að mæta nánast daglega.“
Það er greinilegt að engu hefur verið til sparað við stækkun stöðvarinnar í Mosfellsbæ og viðtökur Mosfellinga frábærar.
„Auðvitað eru alltaf smá hnökrar í byrjun en við kippum því í lag,“ segir Halla Karen sem hlakkar til að sjá bæjarbúa vera duglega að hreyfa sig um ókomna tíð.

Fyrsti Mosfellingur ársins

Þann 7. janúar kl. 23:31 fæddist fyrsti Mosfellingur ársins 2020. Það var stúlka sem mældist 3.820 gr og 51 cm.
Foreldrar hennar eru þau Þuríður Ósk Sveinsdóttir og Ölvir Styrr Sveinsson. Stúlkan fæddist á Landsspítalanum og var tekin með keisara.
„Hún átti að fæðast 5. janúar en ég ætlaði mér eiginlega að eiga hana 4. janúar sem er afmælisdagur pabba hennar, en það tókst ekki, hún vildi eiga sinn eigin afmælisdag,“ segir Þuríður Ósk.
Stúlkan er annað barn foreldra sinna en fyrir eiga þau soninn Daníel Mána sem er 14 mánaða. Fjölskyldan er nýflutt í Mosfellsbæ og líkar vel. „Við fluttum hingað í lok október, markmiðið var að ná að halda upp á eins árs afmæli Daníels Mána 6. nóvember og það tókst,“ segir Ölvir Styrr. Mosfellingur óskar fjölskyldunni til hamingju með stúlkuna.

Raddir barnanna fá alltaf að hljóma

Þrúður Hjelm skólastjóri Krikaskóla segir sérstöðu skólans liggja í tækifærunum til leiks og náms.

Krikaskóli var stofnaður árið 2008 og var fyrst til húsa í Helgafellslandi en árið 2010 flutti skólinn í nýtt húsnæði að Sunnukrika. Nemendur eru um 200 talsins á aldrinum 2 – 9 ára og um 60 manns starfa við skólann.
Þrúður Hjelm skólastjóri hefur unnið að stofnun og uppbyggingu skólans frá upphafi. Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á skólamálum og segist vera þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að starfa við eitt af sínum áhugamálum.

Þrúður er fædd í Reykjavík 18. maí 1965. Foreldrar hennar eru þau Guðný Guðmundsdóttir fyrrverandi starfsmaður Landspítalans og Heiðberg Hjelm fyrrverandi bílstjóri og vélamaður. Þrúður á eina systur, Aðalheiði f. 1969.

Sat undir ilmandi brauðinu
„Fyrstu tvö árin mín bjó ég fyrir austan fjall en svo fluttum við fjölskyldan í Laugarneshverfið í Reykjavík og þar ólst ég upp.
Æskuminningarnar eru ansi margar, ég man alltaf þegar Alla systir fæddist og ég fékk að sjá hana í gegnum lítinn glugga á hurðinni á fæðingardeildinni. Heimsóknirnar til langömmu og afa á Hringbraut voru dásamlegar enda var gott að koma þangað. Maður mætti oft í ullarsokkum því gólfið hjá þeim var alltaf svo stífbónað og þá var sko hægt að renna sér,“ segir Þrúður og brosir.
„Ég man líka eftir ferðunum á leið austur, áður en lagt var af stað var farið í AB bakaríið og keypt rúgbrauð til að færa afa og ömmu, svo sat maður undir heitu og ilmandi brauðinu alla leiðina.“

Morgunsöngur á hverjum degi
„Ég gekk í Laugarnesskóla frá 1.-8. bekk, þar var gott að vera og skólabragurinn í föstum skorðum. Morgunsöngur á hverjum degi og fjölbreyttur kennarahópur. Herdís Sveinsdóttir var lengst af umsjónarkennarinn minn og það fannst mér ákaflega gott. Hún var einstakur kennari og náði vel til okkar í bekknum.
Við fjölskyldan fluttum svo í Álftamýrina þegar ég var 14 ára og ég kláraði tvo síðustu veturna mína í grunnskóla þar. Skipulagið var ólíkt því sem ég hafði áður vanist en ég var ánægð og eignaðist þarna vini til lífstíðar.“

Menntaskólaárin mótuðu mig
Þrúður fór í Menntaskólann við Hamrahlíð eins og meginþorri krakka úr hennar hverfi. Þar átti hún frábær ár sem hún segir hafa mótað sig mikið. Hún útskrifaðist árið 1999 úr leikskólakennarafræðum og árið 2004 úr sérkennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands. Hún lauk Certified Project Management Associate frá Endurmenntun Háskóla Íslands 2007 og er nú í námi við Háskólann á Bifröst í stjórnun og forystu með áherslu á mannauðsmál og útskrifast í vor með mastersgráðu.

Fundum hér húsnæði við hæfi
Eiginmaður Þrúðar er Guðjón Heiðar Ólafsson bílamálari. Börn þeirra eru Eva Dögg f.1983, Ólafur f. 1989 og Óskar Þór f. 1993. Þau eiga eitt barnabarn, Þráin Berg f. 2007.
Handavinna er eitt af því sem hefur fylgt Þrúði og hefur hún sinnt henni eftir því sem tími hefur gefist til, eins hefur hún lesið mikið alveg frá því hún var barn.
„Við fluttum í Mosfellsbæ árið 1999 því hér fundum við húsnæði við hæfi og eins vorum við búin að kynna okkur skólamálin vel. Varmárskóli tók vel á móti drengjunum okkar og sinnti þeirra þörfum eins og kostur var.
Sérkennslumálin voru í afskaplega góðum farvegi og almennt voru kennarar og stjórnendur skólans tilbúnir til samstarfs varðandi flókin viðfangsefni í samvinnu við okkur foreldrana, það var ekki sjálfgefið og fyrir það erum við þakklát.“

Hefur unnið að uppbyggingu skólans
Þrúður hefur alltaf haft mikinn áhuga á skólamálum og hefur því verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa við eitt af sínum áhugamálum.
„Ég sótti um starf skólastjóra Krikaskóla árið 2008 og hef unnið að stofnun og uppbyggingu þess skóla síðan. Skólinn er þróunar- og tilraunaskóli sem hefur verið brautryðjandi í ýmsum málum, bæði stórum og smáum. Samþætting leikskóla, grunnskóla og frístundar í eina heildstæða skólaeiningu er ekkert smá mál og því hefur það verkefni átt hug minn allan síðustu ár.“

Tækifæri til leiks og náms
„Sérstaða Krikaskóla liggur í nokkrum þáttum, útinám sem kemur til vegna staðsetningar, stutt er til fjalla, fjöru og í skóginn, einstaklingsmiðað nám og lýðræðislegt skólastarf með áherslu á raddir barna. Það eru mikil forréttindi að hafa tækifæri til leiks og náms í slíkum aðstæðum fyrir alla aldurshópa skólans.
Ég hef setið í stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun frá 2013 og verið formaður þeirra samtaka frá 2015. Samstarf við innlenda og erlenda aðila hefur einnig verið mér hjartans mál. Ég hef því staðið fyrir því samstarfi bæði persónulega og með skólanum mínum sem hefur verið ákaflega gjöfult.“

Falleg orð á blaði verða að veruleika
Þrúður fékk í lok síðasta árs afhenta Jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar fyrir kynjasamsetningu. „Ég hef verið heppin að vinna með frábæru fagfólki innan skólans sem utan sem hefur verið mikil gæfa. Foreldrar barnanna í skólanum hafa einnig verið mikill auður og stuðningur í uppbyggingu skólastarfsins.
Ég tel að hagsmunir okkar fari saman, starfsfólks skólanna, foreldra, barna og samfélagsins alls. Það er stundum látið hljóma í umræðunni að svo sé ekki en ég er því alveg ósammála. Gott skólasamfélag er alltaf styrkur fyrir okkur öll.
Í skólanum er stór faghópur sem vinnur í þverfaglegum teymum þar sem heildin verður sterkari en hver einstaklingur. Við höfum verið lánsöm með þennan hóp sem hefur verið sterk heild, bæði í leik- og grunnskólastarfi. Það er ótrúlega merkilegt að taka þátt í slíku uppbyggingarstarfi og sjá það sem einu sinni voru falleg orð á blaði verða að veruleika og raungerast í lífi barna og fjölskyldna.“

Svör þeirra og lífsviðhorf eru svo tær
„Raddir barnanna hafa alltaf fengið að hljóma í Krikaskóla og ég hef stundum sagt ef þú ert í vafa spurðu þá börnin. Svör þeirra og lífsviðhorf eru svo tær og samtöl við þau eru alltaf gagnleg. Ekki aðeins til að brosa að heldur ekki síður til að hlusta vel og læra af þeim,“ segir Þrúður brosandi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 30. janúar 2020
ruth@mosfellingur.is

 

Mosfellsbær á verðlaunapalli í könnun Gallup á þjónustu sveitarfélaga

Gallup kannar árlega þjónustu sveitarfélaga og mælir þannig viðhorf íbúa til þjónustu í 20 stærstu sveitarfélögum landsins.
Að venju er Mosfellsbær í efstu sætum og yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum utan eins þar sem sveitarfélagið er jafnt öðrum sveitafélögum.
Á árinu 2019 var Mosfellsbær í þriðja sæti þegar lagt er mat á sveitarfélagið sem stað til að búa á og reyndust 92% aðspurðra frekar eða mjög ánægðir. Meðaleinkunnin hækkar úr 4,4 í 4,5 á milli ára hjá Mosfellsbæ sem staðsetur bæinn á meðal þriggja hæstu sveitarfélaganna sem öll eru með sömu einkunn.

Mosfellsbær í fremstu röð meðal sveitafélaga
Mosfellsbær er yfir landsmeðaltali í ellefu málaflokkum af tólf en jafnt í einum málaflokki sem er þjónusta grunnskóla. Í lok árs 2019 voru þannig 83% mjög eða frekar ánægð með aðstöðu til íþróttaiðkunar en ári áður voru 77% íbúa þeirrar skoðunar sem er tölfræðilega marktæk aukning milli ára.
Það sama gildir um afstöðuna til þjónustu við eldri borgara þar sem 59% eru mjög eða frekar ánægðir með þjónustuna. Einnig vex ánægja með menningarmál, þjónustu við fatlaða og Mosfellsbæ sem stað til að búa á. Það dregur hins vegar úr ánægju milli ára á sviði leikskóla, sorphirðu, skipulagsmála, þjónustu og úrlausnar erinda sem er hvatning fyrir starfsmenn Mosfellsbæjar til að gera betur.

Ánægjuleg tíðindi
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segir að könnun Gallup sé hluti af þeim gögnum sem nýtt eru til þess að vinna að umbótum í starfsemi Mosfellsbæjar og nú taki við kynning á niðurstöðum könnunarinnar í nefndum bæjarins.
„Enn sem fyrr raðar Mosfellsbær sér á verðlaunapall þegar kemur að mati íbúa á Mosfellsbæ sem stað til að búa á. Það er dýrmætt fyrir okkur sem störfum fyrir Mosfellinga að finna að þeir eru ánægðir með þjónustuna og könnunin veitir okkur grunnupplýsingar sem við getum nýtt til þess að standa okkur enn betur.
Ánægja eykst í nokkrum málaflokkum, það er síðra að hún dali örlítið á öðrum stöðum, en höfum í huga að við erum yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum nema hvað þjónustu grunnskóla varðar þar sem við erum í landsmeðaltalinu.
Síðastliðin þrjú ár hefur íbúum í Mosfellsbæ fjölgað um 1.000 manns á hverju ári. Við höfum lagt áherslu á að vöxtur sveitarfélagsins hafi jákvæð áhrif á þjónustu og þjónustustig og það virðist hafa tekist í öllum meginatriðum, en við munum halda vöku okkar og gera góðan bæ enn betri.“

Heildarúrtak í könnuninni er 10.845 manns, þar af 341 svar úr Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar má finna á slóðinni mos.is/gallup2019.

Kraftur kolvetnanna

Kolvetnin hafa átt undir högg að sækja undanfarið. Það hefur verið sótt að þeim úr ýmsum áttum og mataræði á borð við Primal, Paleo og Ketó hafa farið sigurför um heimsbyggðina. Ég stökk á Primal-vagninn á sínum tíma. Mér leið ágætlega á því, þannig séð, en vantaði samt einhverja orku yfir daginn. Ég daðraði við Paleo-mataræðið en komst aldrei almennilega inn í það. Kannski af því að mér líður einfaldlega best þegar ég fæ kolvetnin mín.

Ég hef undanfarið verið að stúdera bæði langlífismataræði og keppnismataræði. Langlífismataræðið byggir á mörgum rannsóknum úr ýmsum geirum. Þær sýna að þau samfélög þar sem fólk lifir lengst – og heldur heilsunni lengi – eiga það sameiginlegt að fólk borðar mikið plöntufæði. Kolvetni fyrst og fremst. Úr nærumhverfi yfirleitt. Það sem hægt er að rækta á staðnum. Þeir langlífu borða yfirleitt ekki mikið af dýraafurðum, fá mest af próteinum sínum úr jurtaríkinu og fituna sömuleiðis. Ólívuolíu til dæmis.

Ef margar rannsóknir á langlífi og góðri heilsu sýna að kolvetni úr grænmeti, ávöxtum og öðrum plöntum hafi jákvæð áhrif á langtíma heilsu okkar, er þá ekki ástæða til að staldra aðeins við og velta fyrir sér hvort ekki sé ástæða til þess að sýna kolvetnunum virðingu og vinsemd og gefa þeim góðan sess í daglegu mataræði okkar? Við hjónin erum þessa dagana á kafi í Spartan Race þjálfaranámskeiði – það snýst um allt sem kemur að undirbúningi og þátttöku í þessum dásamlegu utanvegarhindrunarhlaupum. Næring er þar mikilvægur hluti.

Á námskeiðinu er útskýrt vel af hverju íþróttamenn verða að fá nóg af góðum kolvetnum til þess að komast í gegnum erfiðar keppnir á borð við Spartan Race. Prótein og fita eru ekki nóg. Sem sagt, kolvetnin eru okkur nauðsynleg bæði sem orka fyrir mikla hreyfingu og sem lykill að langlífi og góðri heilsu. Þau lengi lifi!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 30. janúar 2020

Rýmri opnun í Bókasafninu

Á nýju ári hefur verið tekið upp á þeirri nýbreytni í Bókasafni Mosfellsbæjar að opna dyrnar upp á gátt – án þjónustu – kl. 9 á morgnana virka daga.
Hefðbundinn afgreiðslutími með þjónustu er svo frá kl. 12-18 mánudaga og þriðjudaga, kl. 10-18 miðvikudaga, kl. 12-18 fimmtudaga og föstudaga og kl. 12-16 á laugardögum allt árið.

Nú þegar nýta margir námsmenn sér aðstöðu safnsins til lestrar á morgnana. Með rýmri opnun geta árrisulir gestir kíkt í bækur, tímarit og dagblöð, fengið sér kaffibolla, komist í tölvur, tekið að láni bækur í sjálfsafgreiðslu og skilað. Í safninu er ein sjálfsafgreiðsluvél og einnig leitartölva þar sem gestir geta flett upp safnkosti.

Á morgnana er oft líf og fjör í safninu, þó svo ekki sé boðið upp á hefðbundna afgreiðslu. Leik- og grunnskólahópar koma í heimsókn, leshópur eldri borgara hittist og fleira mætti nefna.
Með því að opna dyrnar kl. 9 er komið til móts við þá safngesti sem kjósa að sinna erindum fyrir hádegi, eða eru í vinnu eftir hádegi – eða bara þá sem eru á ferðinni í Kjarna af einhverjum ástæðum.
Fyrirkomulag af þessu tagi, opnun án þjónustu, þekkist víða annars staðar á Norðurlöndum og eins hefur það reynst vel í Bókasafni Kópavogs og Amtsbókasafninu á Akureyri.

Blakið á svo mikið inni

Sigurbjörn Grétar Eggertsson ráðgjafi og formaður Blaksambandsins segir mörg verkefni fram undan til að efla íþróttina.

Blaksamband Íslands var stofnað árið 1972 og á næsta áratug þróaðist blakið umtalsvert nær þeirri mynd sem við þekkjum í dag. Í kjölfar stofnunar sambandsins var landslið sett á laggirnar og voru fyrstu landsleikirnir spilaðir árið 1974, við Norðmenn.
Mosfellingurinn Sigurbjörn Grétar Eggertsson tók við formennsku Blaksambandsins sl. vor. Hann ásamt fjölda kraftmikilla einstaklinga eru að kortleggja stöðuna til að sinna þeim fjölda verkefna sem fram undan eru til að efla íþróttina og ná sem bestum árangri.

Sigurbjörn Grétar eða Grétar eins og hann er ávallt kallaður er fæddur í Reykjavík 19. september 1967. Foreldrar hans eru þau Sigurlaug Þorleifsdóttir sjúkraliði og Eggert Karlsson bifvélavirki.
Grétar á tvö systkini, Þorleif Karl f.1965 og Sesselju Kristínu f.1968.

Fljótur að aðlagast nýjum heimkynnum
„Fyrstu árin bjó ég á Eyrarbakka en fjölskylda mín fluttist síðan á Hjallholt á Vatnsnesi þar sem foreldar mínir tóku við búi afa míns. Ég fór í heimavist í Laugarbakkaskóla í Miðfirði og hugsa með hlýjum hug til þeirra ára.
Þegar ég var 10 ára fluttum við inn á Hvammstanga og ég var töluvert fljótur að aðlagast nýjum heimkynnum. Ég gekk í grunnskólann og uppáhaldsfögin mín voru íslenska, tungumál og saga. Ég var mikið í íþróttum og æfði margar íþróttagreinar, fótbolta, körfubolta, frjálsar íþróttir og hlaup. Ég var líka í leikhússtarfinu svo það var alltaf nóg að gera.
13 ára var ég farinn að taka að mér þjálfun yngri barna í fótbolta og svo starfaði ég í málningarvinnu hjá Erni Guðjónssyni.“

Fjölskyldan: Grétar, Thelma Dögg, Daníela, Guðrún.

Hafði aldrei farið til útlanda
Grétar var 15 ára þegar hann var valinn af Lionshreyfingunni á Íslandi til að fara utan í mánuð á þeirra vegum. Hann átti að búa með 90 öðrum unglingum frá 30 löndum í tvær vikur og vera síðan hjá fjölskyldu eftir það. Hann gat valið úr mörgum löndum og valdi Ítalíu.
„Sveitastrákurinn ég hafði aldrei farið til útlanda og hvað þá í flugvél svo það reyndi á að fara einn. Þessi ferð mótaði mig mikið og var gott veganesti út í lífið. Ég kynntist ungmennum frá ólíkum menningarheimum og fékk innsýn í þeirra líf sem var gaman.“

Langaði að prófa eitthvað nýtt
Árið 1983 hóf Grétar nám við Menntaskólann á Egilsstöðum en skólafélagar hans héldu í aðrar áttir. „Ég valdi þennan skóla því mig langaði að prófa eitthvað nýtt, ég hafði til dæmis aldrei komið til Egilsstaða. Tíminn á heimavistinni var mjög skemmtilegur, ég tók þátt í flestum liðum í íþróttum, uppsetningum á leikritum og var um tíma formaður nemendafélagsins. Samhliða náminu starfaði ég á Vonarlandi, þjónustumiðstöð fyrir þroskahamlaða.
Eftir tveggja ára dvöl fyrir austan fór ég að æfa knattspyrnu með Hetti.“

Gefandi að vera innan um börnin
„Ein jólin þegar ég kom heim í frí þá var ég svo heppinn að fá vinnu á leikskólanum. Það þótti alveg nýtt að karlmaður tæki að sér starf þar en það var mjög gefandi að vera innan um börnin.
Eftir útskrift úr ME hélt ég á heimaslóðir og fór að vinna aftur við að mála ásamt því að vera í boltanum. Ég fékk síðan símtal þar sem mér var boðin íþróttakennarastaða í Laugarbakkaskóla sem ég þáði. Þaðan fór ég á Skagaströnd og kenndi þar fjóra daga í viku sem þýddi að þá voru langar helgar fram undan. Við félagarnir vorum því duglegir að fara til Reykjavíkur til að skemmta okkur. Í einni slíkri ferð hitti ég Guðrúnu Elvu Sveinsdóttur hárgreiðslumeistara. Guðrún er frá Egilsstöðum og við vissum hvort af öðru þar. Við eigum saman tvær dætur, Thelmu Dögg f.1997 og Daníelu f. 2002.“

Fluttu til Egilsstaða
„Ég flutti suður og hóf störf hjá Lækjarási, dagvistun fyrir þroskahamlaða. Síðan fór ég yfir til Hrafnistu og fór að huga að öldruðum ásamt því að þjálfa yngri flokka í knattspyrnu. Ég hef lært mikið á því að vinna með börnum, þroskahömluðum og öldruðum.
Árið 1993 fengum við Guðrún boð um að flytjast til Egilsstaða sem við þáðum. Ég fór að spila með Hetti og Guðrún sinnti hárgreiðslustörfunum. Við fluttum svo aftur suður og keyptum okkur íbúð í Árbænum og síðar í Grafarvogi. Ég starfaði við sölu og þjónustu hjá Málningu, Harðviðarvali og TVG Zimsen en frá árinu 2000 hef ég starfað sem ráðgjafi hjá Motus.
Ég skellti mér í fjarnám í viðskiptafræði og lauk því námi árið 2005 frá Háskólanum á Akureyri.“

Heppinn að fá að taka þátt í þessu
„Við fjölskyldan fluttum í Mosfellsbæ árið 2002 og hér líkar okkur vel að vera. Guðrún fór að taka þátt í blakinu hjá Aftureldingu og Thelma dóttir okkar líka. Ég hélt mig við fótboltann og spilaði með Umfus í dágóðan tíma.
Fljótlega fór ég svo að sinna yngri flokka starfinu í blakdeildinni. Þá var búið að ákveða að setja á fót meistaraflokk kvenna til að keppa í efstu deild. Ég var svo heppinn að fá að taka þátt í þessu verkefni ásamt fleirum.
Ég var í stjórn meistaraflokksins í um fimm ár og þetta var áhugaverður og krefjandi tími. Blakið var á þessum tíma að ná góðum árangri og hefur verið ein af sterkum stoðum Aftureldingar. Í gegnum árin hafa margir góðir einstaklingar unnið frábært starf í deildinni en það er óhætt að segja að Guðrún Kristín formaður deildarinnar hafi borið hitann og þungann af þessu frá upphafi og gert það með glæsibrag.“

Við eigum eftir að gera svo margt
Grétar ákvað að hætta í stjórn blakdeildar Aftureldingar vorið 2018 en um haustið var haft samband við hann og hann spurður að því hvort hann væri tilbúinn til að bjóða sig fram til formanns Blaksambands Íslands. Hann tók sér góðan umhugsunarfrest, sló til og var kosinn formaður á ársþingi BLÍ þann 30. mars 2019 til tveggja ára.
„Það eru mörg verkefni og áskoranir fram undan því blakið á svo mikið inni en það er einmitt meginástæða þess að ég tók þetta starf að mér. Við höfum verið að kortleggja núverandi stöðu og eigum eftir að gera margt til að efla íþróttina, keppnis­lega, útbreiðslulega og ekki síst kynna hana mun betur fyrir fólki.
Í hreyfingunni er fjöldi kraftmikilla einstaklinga sem eru tilbúnir að lyfta blakinu hærra og ná meiri árangri svo það eru bara spennandi tímar fram undan,“ segir Grétar brosandi er við kveðjumst.

Mosfellingurinn 9. janúar 2020
ruth@mosfellingur.is