Ein inn, ein út

Ég hlustaði á viðtal við Jóhann Inga Gunnarsson um síðustu helgi. Fékk ábendingu frá nokkrum góðum Mosfellingum um að ég þyrfti að gera það. Og það var rétt. Hann sagði frá sínum bakgrunni, sem er stórmerkilegur, og hvernig hann nálgast sín viðfangsefni og verkefni sem sálfræðingur. Eða öllu heldur sem breytingastjóri.

Ég ákvað í morgun að framkvæma eitt af því sem Jóhann Ingi talaði um. Eins og hann sagði, þá vitum við flest hvað við þurfum að gera til þess að okkur líði sem best, en af einhverjum ástæðum framkvæmum við það ekki allt. Við erum samansafn af venjum og því betri venjum sem við komum inn í lífið, því betra höfum við það.

Ég bætti nýrri venju inn hjá mér í morgun, tengdi hana við aðra góða venju sem ég hef nú stundað í 43 daga í röð. Jóhann segir að það geti tekið nokkra mánuði að koma nýrri venju inn í lífið, en aðrir vilja meina að það geti tekið styttri tíma, jafnvel bara 21 dag. Aðalatriðið er að sinna nýrri venju vel, þá fer hún að toga sterkt í mann og verður sjálfsagður hluti af deginum.

Iðjuþjálfarnir á Reykjalundi kenna að maður eigi að tengja eina venju við aðra til þess að auka líkurnar á því að hún festi sig í sessi. Ég er einmitt að því núna og byrjunin lofar mjög góðu. Eins og Jóhann Ingi ráðlagði er líka gott að losa sig við eina slæma venju í einu. Ég er líka að því, veit að það verður erfiðara en að bæta góðri venju inn.

Hér þurfa bræðurnir agi og viljastyrkur að koma sterkir inn. Slæmir ávanar eru af einhverjum völdum öflugri en góðir vanar. En mér skal takast þetta! Hvet svo alla til að hlusta á Jóhann Inga í hlaðvarpi Snorra Björns.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 19. nóvember 2020