Fyrsti Mosfellingur ársins 2021

Gunnar Malmquist, Aron Þór og Elín Huld.

Fyrsti Mosfellingur ársins fæddist kl. 00.55 þann 2. janúar. Það er hraustur og flottur drengur sem mældist 50 cm og 3.300 gr.
Foreldrar hans eru handboltamaðurinn Gunnar Malmquist Þórisson og Elín Huld Sigurðardóttir, drengurinn er þeirra fyrsta barn. „Við ákváðum að nota tækifærið og tilkynna nafnið hans í Mosfellingi þar sem þetta er fyrsti en örugglega ekki síðasti titillinn sem hann fær.
Hann heitir Aron Þór Malmquist Gunnarsson, það er í höfðuðið á frændum mínum, landsliðsfyrirliðunum Aroni Einari knattspyrnumanni og Arnóri Þór handknattleiksmanni. Þórsnafnið er líka í höfuðið á pabba mínum og svo er Þór Akureyri uppeldisfélagið mitt.

Fyrsti titillinn kominn í hús
Hann átti ekki að fæðast fyrr en 7. janúar en hefur viljað ná þessum titli, ætli hann eigi svo ekki eftir að verða fyrirliði í framtíðinni,“ segir Gunnar stoltur.
Fjölskyldan flutti nýverið í Mosfellsbæ en Gunnar hefur spilað handbolta með Aftureldingu sl. 6 ár. „Það er algjör draumur að búa hérna, ég sá það strax þegar ég byrjaði að spila hér að þetta væri fullkomið samfélag til að ala upp barn, íþróttalífið er frábært, allir vilja gera allt fyrir alla.
Aron Þór dafnar vel, hann er ákveðinn og lætur í sér heyra þegar hann er svangur en annars er hann vær og góður,“ segir Gunnar.

Simmi Vill Mosfellingur ársins

Mosfellingur ársins 2020 er veitinga- og athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson.
Simmi, eins og hann er alltaf kallaður, er fæddur og uppalinn á Egilsstöðum en hefur búið í Mosfellsbæ frá árinu 2007. „Ég var að leita eftir þessum bæjarbrag og langaði að synir mínir myndu alast upp í svona samfélagi. Ég kann vel við það að þekkja nágranna mína og það fólk sem ég rekst á í búðinni. Það er hluti af því að tilheyra samfélagi að gefa af sér. Ég hef reynt að vera virkur í kringum íþróttastarf strákanna minna og er alltaf opinn fyrir góðum hugmyndum og skemmtilegu samstarfi,“ segir Simmi sem segist alls ekki getað flutt úr bænum núna eftir þessa nafnbót.

Út fjölmiðlum í veitingarekstur
Simmi hefur verið einn af okkar þekktustu fjölmiðlamönnum til margra ára en að undanförnu hefur hann átt mikilli velgengni að fagna í veitingarekstri.
„Ég hef brallað ýmislegt í gegnum tíðina en minn fyrsti sjálfstæði rekstur var þegar ég stofnaði Hamborgarafabrikkuna. Ég hef víðtæka reynslu og þegar ég stóð frammi fyrir því ásamt viðskiptafélaga mínum honum Óla Val að skipuleggja hvað skyldi gera við gamla Arion banka húsið þá kviknaði sú hugmynd að opna hverfisstað í Mosfellsbæ. Úr varð að við opnuðum Barion í lok árs 2019 ásamt því að reka Hlöllabáta í sama húsnæði.

Barion – hverfisstaður Mosfellinga
„Úr varð að við ákváðum að fara alla leið með hugmyndina, ég segi alltaf að þú færð ekki annað tækifæri á fyrstu hughrif. Það er skemmst frá því að segja að viðbrögðin við Barion hafa verið fram út björtustu vonum, þrátt fyrir að standa frammi fyrir stórum rekstraráskorunum vegna COVID-19.
En í svona aðstæðum er einmitt spurning um að fara í var og bíða af sér storminn eða læra að dansa í rigningunni. Við fórum t.d. í gott samstarf við Aftureldingu. Það var fjáröflun fyrir félagið, bæjarbúar fengu aukna þjónustu og við náðum að halda dampi.“ Þá hafa Mömmumatur og Þristamús einnig átt vinsældum að fagna auk þess sem afurðir Barion og Hlöllabáta fást nú í verslunum.

Líf skapar líf
„Við lögðum upp með að skapa stað fyrir alla Mosfellinga, bjóðum upp á fjölbreyttan matseðil á góðu verði, góða þjónustu ásamt því að standa fyrir alls konar viðburðum.
Okkur hefur verið tekið rosalega vel og fyrir það erum við þakklátir. Á árinu opnuðum við einnig Barion Bryggjuna og Mini­garðinn, en þess má geta að höfuðstöðvar fyrirtækisins eru og verða í Mosó.
Simmi hefur að undanförnu vakið mikla athygli á Instagram þar sem hann er duglegur að deila frá sínu daglega lífi.
„Þetta gerðist nú eiginlega óvart og er bara skemmtileg viðbót við lífið. Ég kalla þetta mínar daglegu stuttmyndir,“ segir Simmi og er þakklátur fyrir viðurkenninguna.

Þínar leikreglur

Ef lífið væri leikur, hverjar væru þínar leikreglur? Hvernig myndir þú setja leikreglurnar ef þú fengir að ráða þeim alveg sjálf/ur? Myndir þú vilja hafa allt niðurnjörvað og skýrt eða myndir þú vilja geta hagað seglum eftir vindi?

Ég er ekki að spyrja út í loftið. Það hvernig þú vilt lifa lífinu er lykilatriði þegar kemur að hamingju þinni og heilsu. Og, að einhverju leyti, hamingju og heilsu þeirra sem standa þér næst. Ég spila minn besta leik þegar leikreglurnar eru fáar, einfaldar og mjög skýrar. Einn af þeim sem standa mér næst í fjölskyldunni er svipaður mér á meðan hinir vilja kjósa afslappaðri leikreglur. Hvað er ég að tala um með leikreglum? Grunninn að heilbrigði og hreysti – hreyfingu, svefn og mataræði.

Mér líður best þegar ég hreyfi mig mikið, æfi reglulega, sef mína 7,5 tíma og borða þrjár góðar máltíðar á dag – ekkert þar á milli – og sleppi öllu nammi og draslfæði. Þegar ég held mig innan þessara ramma líður mér best. Líkamlega og andlega. Miklu betur en þegar ég dett í það mynstur að „leyfa mér“ hitt og þetta. Ég skil hina hliðina.

Að sumir fúnkeri betur þegar rammarnir eru lausari og frelsið til að leyfa sér er til staðar. Sumum líður miklu betur þannig. En ég held að þeir eigi erfiðara með að skilja okkur sem þrífumst best á einföldu og skýru leikreglunum. Þeir halda að við séum að missa af lífshamingjunni með því að „neita okkur“ um það sem er utan rammanna okkar.

En það er ekki þannig. Þvert á móti. Og með því að vera í sífellu að reyna að hjálpa okkur að slaka á, fá okkur nú eina kökusneið, einn bjór, einn súkku­laðimola, er í raun verið að reyna að draga okkur út úr þeim leik sem okkur líður best í. Lifum heil!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 14. janúar 2021

Rótarý styrkir reiðnámskeið fyrir fatlaða

Þorkell og Elísabet afhenda styrkinn fyrir hönd Rótarýklúbbs Mosfellssveitar.

Rótarýklúbbur Mosfellssveitar styrkti á dögunum reiðnámskeið fyrir fatlaða sem hestamannafélagið Hörður býður upp á.
Styrkur frá Rótarýklúbbi Mosfellssveitar fyrir járningar á skólahrossin nam 180 þúsund krónum og styrkur frá Verkefnasjóði Rótarý á Íslandi fyrir fóðri nam 180 þúsund krónum.
Fræðslunefnd fatlaðra í Hestamannafélaginu Herði hefur séð um rekstur á reiðskóla fyrir fatlaða og fólk með þroskahömlun frá árinu 2010, en Hörður er fyrsta hestamannafélagið sem hefur boðið upp á slík námskeið. Þetta starf var upphaflega frumkvöðlastarf tveggja kvenna í Mosfellsbæ nokkrum árum áður.
Í reiðskólanum er boðið upp á námskeið fyrir fatlaða einstaklinga og fólk með þroskahömlun á öllum aldri. Mjög góð aðstaða er fyrir fatlaða hjá hestamannafélaginu, góð aðkoma í reiðhöll, lyfta og sérútbúnir hnakkar með bakstuðningi. Ekki má gleyma fallegu og einstöku útivistarsvæði.
Fræðslunefndin hefur staðið straum af öllum rekstrarkostnaði við 5-6 hross á ári þ.m.t. skeifur, undirburð og fóðrun. Án sjálfboðaliða og styrktaraðila væri ekki hægt að halda úti þessum námskeiðum á vegum Harðar. Á myndinni má sjá Þorkel Magnússon formann verkefnanefndar Rótarýklúbbsins og Elísabetu S. Ólafsdóttur forseta ásamt þátttakendum á námskeiði og aðstoðarfólki.

N1 opnar rafhleðslustöð í Háholti

N1 hefur opnað 50 kW hraðhleðslustöð við þjónustustöð sína í Háholti í Mosfellsbæ.
Hægt er að greiða fyrir rafmagnið með N1 korti og lyklum, auk annarra hefðbundinna greiðslumáta. Ekkert mínútugjald er greitt fyrir hleðsluna, aðeins fast gjald og er verðið 45 kr á kW. Stöðin kemur í staðinn fyrir hraðhleðslustöð frá ON.

Kolefnissporin minnka
„N1 heldur áfram forystuhlutverki sínu á þessu sviði og við viljum sem fyrr vera leiðandi í sölu orkugjafa á Íslandi.
Með þessum nýju orkugjöfum minnkum við kolefnissporin og þetta fellur afskaplega vel við markmið númer 13 í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum,“ segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1.

Þægilegt aðgengi fyrir alla
„Fjöldi N1 korthafa er yfir 70.000 og viljum við geta veitt okkar viðskiptavinum þægilegt aðgengi við greiðslu á rafmagni á rafbíla ásamt því sem við viljum veita viðskiptavinum okkar sem ekki eru korthafar skilyrðislaust aðgengi.
Viðskiptavinir okkar geta greitt fyrir rafmagnið með greiðslukortum. Þannig geta allir hlaðið bílana hjá N1 ólíkt því sem gerist hjá öðrum sem bjóða upp á rafhleðslu. Við viljum þjónusta viðskiptavini óháð því hvaða orkugjafa þeir velja fyrir bílana sína.“

Þorrablóti Aftureldingar aflýst

Þorrablót Aftureldingar, sem haldið er í íþróttahúsinu að Varmá, er ein helsta fjáröflun félagsins ár hvert.

Formlega hefur verið ákveðið að hætta við Þorrablót Aftureldingar sem halda átti þann 23. janúar 2021 vegna samkomutakmarkana. Eftir miklar vangaveltur um útfærslur, m.a. rafrænt blót, var hins vegar ákveðið að stefna á risadansleik á vormánuðum svo framarlega sem aðstæður í samfélginu bjóði upp á það. „Við fórum yfir stöðuna nú í byrjun desember þar sem þessar ákvarðanir voru teknar. Við héldum í vonina fram að því að við gætum haldið okkar striki og var búið að ráða bæði hljómsveit og veislustjóra. En í ljósi aðstæðna þá tökum við ekki neina sénsa og vonum að fólk sýni því skilning,“ segir forseti þorrablótsnefndar, Rúnar Bragi Guðlaugsson.

Rapparinn ferrARI með sína fyrstu plötu

Ari Jakobsson, 16 ára drengur úr Mosfellsbæ, var að gefa út á Spotify sína fyrstu plötu. Platan nefnist ÖRVÆNTING og inniheldur sjö lög.
Ari sem kallar sig ferrARI býr til alla tónlistina og textana sjálfur auk þess að taka upp og hljóðblanda plötuna. „Þetta er hipp hopp, rapp plata, sem ég er rosalega ánægður með.
Ég bý til alla taktana, sem textana, tek upp, tappa og mixa allt sjálfur. Þetta var skemmtilegt ferli og mikil reynsla,“ segir Ari.

Sjö lög sem segja eina sögu
„Það eru sjö lög á plötunni sem í heild sinni segja eina sögu eða eins og það kallast concept-plata. Saga er um strák sem er bálskotinn í stelpu en í raun klúðrar málunum með því að reyna of mikið þannig að þetta þróast í hálfgerða örvæntingu hjá honum.
Það þarf eiginlega að hlusta á plötuna frá byrjun til enda til að skilja söguna. Það er skrítið að vera að gefa út sína fyrstu plötu í þessu skrítna ástandi en ég hef helst notað samfélagsmiðla til að koma mér á framfæri, það kemur vonandi að því að maður geti farið að spila fyrir fólk.“

Mikil tónlist á heimilinu
Það má segja að Ari sé sjálfmenntaður í tónlist en segist hafa fengið mikið og fjölbreytt tónlistarlegt uppeldi en pabbi Ara er bassaleikarinn Jakob Smári Magnússon. „Pabbi er tónlistamaður og þar af leiðandi hef ég alist upp við tónlist allt mitt líf. Það er varla til sú tónlistarstefna sem ekki hefur verið spiluð á heimilinu.
Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á hvers­lags tónlist og langaði að prófa að gera mína eigin og prófa þetta ferli. Ég hef ekki farið í hefðbundið tónlistarnám, það hentar mér betur að læra bara sjálfur og læra það sem mig langar að læra.“

Frábær aðstaða í Bólinu
Ari tók upp alla plötuna í kjallara Bólsins þar sem ungir tónlistamenn í Mosfellsbæ hafa aðstöðu til að sinna tónlistinni.
„Það að hafa tækifæri á að nýta aðstöðuna í Bólinu er alveg brilljant. Ég tók upp alla plötuna þarna, það er ómetanlegt fyrir okkur krakkana í Mosó sem erum í tónlist að hafa kjallarann, þarna er frábær hljómsveitaaðstaða og stúdíó,“ segir Ari að lokum og hvetur alla til að hlusta á plötuna ÖRVÆNTING á Spotify.

Kyndill opnar netsölu á flugeldum

Félagar úr Kyndli eftir vel heppnaða flugeldasölu í fyrra.

Björgunarsveitin Kyndill hefur haft í nógu að snúast á liðnu ári. Strax í janúar geisaði vonskuveður um landið allt og bárust sveitinni 20 útköll vegna þess, bæði óveðursaðstoð og lokanir á heiðum. Einnig var mannskapur sendur vestur á Flateyri þar sem snjóflóð féll í byggð.
Í maí varð bruni í fjarskiptaherbergi í húsnæði Kyndils. Staðbundinn eldur en mikið reyktjón. Kyndill var lamaður í rúman mánuð. Sem betur fer er lítið um útköll á þessum árstíma. Húsið var reykþrifið og tekið í gegn. Allnokkur búnaður skemmdist í brunanum og er enn verið að byggja hann upp.

Allar fjáraflanir fallið niður
Vegna Covid-19 hefur verið sett takmörkun á æfingar og vinnukvöld allt síðasta ár og á tímabili lá öll starfsemi okkar niðri nema að fámennir hópar voru sendir í útköll, þar sem gæta þurfti ítrustu sóttvarna.
Allar helstu fjáraflanir Kyndils féllu niður þetta árið þar á meðal Tindahlaupið og salan á Neyðarkallinum en henni hefur verið frestað fram í febrúar 2021.

Flugeldasalan helsta tekjulindin
Vegna aðstæðna og fjöldatakmarkana mun björgunarsveitin bjóða upp á netsölu í fyrsta skipti: www.flugeldar.kyndillmos.is.
Netsalan mun hefjast 20. desember en auk þess verða báðir sölustaðir okkar opnir 28.-31. desember.
Sala á flugeldum hefur um árabil verið helsta tekjulind Kyndils og gerir hún sveitinni kleift að halda úti öflugu starfi allt árið um kring. Starfið er sjálfboðastarf og að baki hvers verkefnis liggja margar klukkustundir af vinnu sem að félagarnir hafa gefið af sér.
Mosfellingar eru hvattir til að vera tímanlega í innkaupum þetta árið og styrkja björgunarsveitina Kyndil með flugeldakaupum. Netverslunin opnaði 20. desember og verða vörurnar afhentar á milli hátíðanna.

Stærsta verkefnið mitt hingað til

Anna Guðrún Auðunsdóttir viðskiptafræðingur á fjármálasviði Landspítalans greindist með krabbamein í maga árið 2019.

Líf Önnu Guðrúnar Auðunsdóttur tók sannarlega óvænta stefnu vorið 2019 er hún fékk þau tíðindi að hún hefði greinst með krabbamein í maga. Fjórum mánuðum síðar fór Anna í átta klukkustunda aðgerð þar sem magi hennar var fjarlægður og nýrri leið til meltingar var komið á. Hún hefur nú þurft að aðlagast nýjum raunveruleika.
Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur ræðir hún um æskuna, árin fyrir vestan, veikindin og hversu mikilvægt það sé að vera jákvæður þegar alvarleg áföll dynja yfir.

Anna er fædd í Reykjavík 26. desember 1970. Foreldrar hennar eru þau Sigurbjörg Guðmundsdóttir fyrrv. skrifstofumaður og Auðunn H. Ágústsson skipaverkfræðingur. Anna á einn bróður, Ágúst Jóhann f. 1974.

Léku saman í útileikjum
„Foreldrar mínir fluttu til Kaupmannahafnar og þar bjó ég fyrsta árið mitt eða á meðan faðir minn kláraði þar nám. Við fluttum síðan heim og ég er lengst af alin upp í Seljahverfinu í Breiðholti. Þetta var mjög góður staður til að alast upp á, ungt hverfi og mörg börn sem voru saman úti í alls konar leikjum.“

Gleymdi að setja filmu í vélina
Anna gekk í Fellaskóla, Ölduselsskóla og Seljaskóla og henni gekk vel í námi. Hún var mikill lestarhestur og tungumál lágu vel fyrir henni. Við útskrift úr grunnskóla fékk hún safn af verkum H.C Andersen í verðlaun fyrir góðan árangur í dönsku.
„Mér er minnisstætt að þegar ég var í 9. bekk þá var Eiríkur Hauksson söngvari kennari við skólann. Þetta var á sama tíma og lagið Gaggó Vest kom út og Eiríkur var fenginn til að skemmta á árshátíð skólans. Ég var dugleg að taka myndir um kvöldið en áttaði mig svo á að það var engin filma í vélinni, það olli mikilli sorg,“ segir Anna og brosir er hún rifjar upp æskuminningarnar.

Kynntust á Ísafirði
„Eftir skólaskyldu fór ég í Menntaskólann í Reykjavík og útskrifast þaðan 1990. Þaðan fór ég beint í Kennaraháskólann og útskrifaðist 1993. Ég tók síðan ákvörðun um að ráða mig í kennslu út á landi og varð Ísafjörður fyrir valinu, þar kenndi ég við grunnskólann í þrjú ár.“
Anna kynntist eiginmanni sínum, Friðriki Má Gunnarssyni, á Ísafirði en hann starfar sem kerfisfræðingur hjá Össuri. Þau eiga tvö börn, Valdísi Björgu f. 1996 sem útskrifaðist úr ferðamálafræði frá HÍ og er nú að læra að verða heilsunuddari og Bjarka Má f. 1998 en hann er nemi í tölvunarfræði við HR.

Þar sem borgin og sveitin mætast
„Við bjuggum á Ísafirði þegar snjóflóðin féllu í Tungudal, á Súðavík og Flateyri. Þegar ég vaknaði við fréttirnar af flóðinu á Flateyri fannst mér tími til kominn að skipta um umhverfi. Ekki að ég hafi verið hrædd heldur langaði mig í fjarlægð frá atburðunum.
Við fluttum til Noregs 1997 og þar líkaði okkur vel að vera. Fyrsta árið kenndi ég íslenskum börnum íslensku og fór svo í barneignarfrí. Haustið 1999 fluttum við aftur heim því okkur langaði til að vera nær fjölskyldum okkar.
Við fluttum í Grafarvoginn og þaðan í Mosfellsbæinn og áttuðum okkur fljótt á hvað þetta er frábær staður til að ala upp börn. Kannski má segja að það henti vel að sameina Ísfirðinginn og borgarbarnið hér, þar sem borgin og sveitin mætast,“ segir Anna og hlær.
„Ég hóf störf hjá Tryggingamiðstöðinni og starfaði þar í mismunandi störfum. Ég fór í fjarnám og útskrifaðist úr viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri 2007.“

Stóð upp úr sófanum eftir fertugt
„Í gegnum tíðina hef ég haft mjög gaman af ferðalögum, handavinnu og eins hef ég lesið töluvert. Síðustu ár hef ég svo fallið fyrir hreyfingu og útivist og ég segi stundum að ég hafi staðið upp úr sófanum um fertugt.
Ég byrjaði að hlaupa og áttaði mig á að ég er með mikið keppnisskap. Eftir nokkur 10 km og hálfmaraþonhlaup langaði mig í eitthvað stærra og árið 2016 kláraði ég Laugavegshlaupið sem er 55 km utanvegahlaup og var óendanlega stolt af því,“ segir Anna og brosir.
„Í nokkur ár hef ég hlaupið með hlaupahópi í Mosó sem kallar sig morgunfuglana og þar hef ég eignast góðar vinkonur. Haustið 2016 kom upp sú hugmynd að skella sér í Landvættina og það varð úr. Ég mæli sannarlega með þessu fyrir þá sem langar að gera eitthvað sem er bæði ótrúlega skemmtilegt og krefjandi.
Í kjölfarið fór ég svo að prófa sjósund í Nauthólsvík og í dag finnst mér sundið eitt það besta sem ég geri fyrir líkamlega og andlega vellíðan.“

Maður metur hlutina á annan hátt
„Lengi vel upplifði ég að ég væri nánast fædd undir heillastjörnu, ég hafði sloppið við öll áföll og grínaðist oft með það að við hjónin værum hálfgerðar risaeðlur. Við værum enn gift, foreldrar okkar beggja líka og allir voru heilsuhraustir. Sú staða breyttist árið 2017 er mágur minn tók sitt eigið líf og við tók erfitt tímabil. Við slíka lífsreynslu vakna alls konar spurningar og maður fer að meta hlutina á annan hátt.“

Upplifði að ég hefði ekki annan kost
„Haustið 2017 sagði ég skilið við Tryggingamiðstöðina eftir 18 ár. Ég ákvað sjálf að hætta við erfiðar aðstæður þar sem ég upplifði að ég hefði ekki annan kost. Það tók á andlega og ég þurfti að vinna mikið í sjálfri mér í kjölfarið.
Ég fékk að reyna á eigin skinni að það er ekki auðvelt að skipta um starfsvettvang með næstum fimmtuga kennitölu og ég var atvinnulaus í nokkra mánuði. Ég er mikil prinsipp-manneskja og tilhugsunin um að sækja um atvinnuleysisbætur fannst mér í raun óhugsandi. Eftir á að hyggja er ég í raun þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri til þroska og myndi ekki breyta ákvörðuninni þó ég gæti.
Fyrir tveimur árum hóf ég störf á fjármálasviði Landspítalans, þar starfa ég við tekjubókhald. Ég fór líka í MPM-nám í verkefnastjórnun við HR.“

Greind með krabbamein í maga
„Vorið 2019 fékk ég stærsta verkefnið í lífi mínu hingað til þegar ég var greind með krabbamein í maga. Ég hafði verið með óþægindi í meltingunni en hafði ekki haft miklar áhyggjur því mér fannst það algengt í kringum mig. Haustið áður var ég samt búin að fara til heimilislæknisins sem fann ekkert sérstakt að hjá mér.
Ég fór síðan að finna fyrir því að þegar ég borðaði varð ég mjög fljótt södd og átti erfitt með að ropa. Þetta truflaði mig ekki alvarlega nema í þau skipti sem ég ætlaði að gera vel við mig í mat og drykk, þá gat ég lítið borðað og leið verulega illa.“

Gaf sér góðan tíma til að útskýra málið
Smátt og smátt minnkaði magaplássið hjá Önnu og þegar hún leitaði aftur til læknisins þá voru allar máltíðir orðnar óeðlilega litlar. Hún var send í magaspeglun og þar kom í ljós æxli á mótum maga og vélinda sem átti upptök sín í magaveggnum.
„Mig langar að hrósa Sigurjóni meltingasérfræðingi sérstaklega fyrir það hvernig hann færði mér þessar erfiðu fréttir. Hann gaf sér góðan tíma til að útskýra málið og fullvissaði sig svo um að ég meðtæki tvo punkta, að þetta væri alvarlegt en það væri læknanlegt. Ég vil meina að þarna hafi hann hjálpað mér að stilla á mér höfuðið fyrir framhaldið.
Ég veit að ég hafði enga stjórn á aðstæðum en ég gat stjórnað mínum eigin viðbrögðum. Ég leit alltaf á þetta sem tímabundið verkefni og varð aldrei verulega hrædd. Auðvitað er alltaf hætta á að greinast aftur síðar en ég er fljót að stoppa slíkar hugsanir. Það er svo tilgangslaust að eyða orku í að hafa áhyggjur af því sem gæti gerst.“

Reyndi að halda einhverri virkni
„Í framhaldi af greiningunni fór ég í jáeindaskanna sem sýndi sem betur fer enga dreifingu meinsins. Ég hitti síðan krabbameinslækni sem ákvað framhaldið á meðferðinni. Ég byrjaði á átta vikna þungri lyfjameðferð sem kallast FLOT4. Ég þoldi hana ágætlega þó að hún hafi ekki verið auðveld. Sem betur fer eru komin svo góð stuðningslyf sem minnka mikið aukaverkanir af krabbameinslyfjunum sjálfum. Ég slapp því að mestu við ógleði, sem ég hafði kviðið mikið fyrir.
Ég tók frí frá vinnu og námi á meðan á meðferðinni stóð, ég reyndi samt að halda einhverri virkni, fara í göngutúra og hitta fólk.“

Passaði slönguna eins og gull
„Dagarnir voru misjafnir, stundum var ég eldhress og aðra daga hafði ég enga orku.
Ég missti hárið og fannst það ekki erfitt, hafði ekki þörf fyrir að fá mér hárkollu. Ég fékk mér samt tattú á augabrúnirnar svo ég yrði ekki alveg sviplaus,” segir Anna og brosir.
Ég lenti í ævintýri á þessu tímabili, ég fékk eitt lyf í æð með lyfjadælu sem ég tók með mér heim. Í eitt skiptið náði kötturinn minn Viggó að bíta í sundur slönguna með lyfinu og það sprautaðist yfir mig alla. Ég held að ég hafi aldrei verið eins snögg að stökkva á fætur eins og þarna, ég hringdi á spítalann til að spyrja hvað ég ætti að gera. Sem betur fer var þetta lyf ekki hættulegt við snertingu og ég gat fengið nýjan skammt daginn eftir. Ég passaði slönguna eins og gull eftir þetta.“

Maginn fjarlægður
„Í september var komið að öðrum fasa í meðferðinni þegar skurðlæknirinn minn fjarlægði magann, neðsta hluta vélindans og alla eitla við magann, auk þess að tengja saman vélinda og smáþarma. Þetta var átta klukkustunda aðgerð.
Ég var óheppin eftir aðgerðina því ég fékk lungnabólgu með miklum fleiðruvökva sem þurfti að tappa af með drenum. Ég lá því inni í þrjár vikur í staðinn fyrir eina. Ég var mjög veik, alveg kraftlaus og missti mikinn vöðvamassa þar sem ég var rúmliggjandi og á lítilli næringu. Endurhæfingin snerist til að byrja með bara um að standa upp úr rúminu og ganga nokkra metra með göngugrind og súrefniskút.“

Aðlagast nýjum raunveruleika
„Mér finnst alveg magnað að hægt sé að búa til nýja meltingu sem virkar eftir svona aðgerð og hvernig líkaminn getur aðlagast nýjum raunveruleika. Ég byrjaði á næringu í æð fyrstu dagana, svo fljótandi fæði og fór síðan að prófa mig áfram með fasta fæðu tveimur vikum eftir aðgerð. Í dag get ég borðað flest en hef minna pláss og ef ég borða of mikið fæ ég verki, auk þess þoli ég ekki hvað sem er.
Í kjölfar veikindanna hef ég misst rúmlega 20 kg og geri grín að því að ég hef verið að reyna að losa mig við þau í 25 ár og loksins tókst það. Ég mæli samt ekki með þessar aðferð,“ segir Anna og brosir.
„Í nóvember þegar ég var búin að jafna mig þokkalega eftir aðgerðina hófst svo önnur umferð af átta vikna lyfjameðferð en henni lauk í janúar. Hún gekk vel en ég var þreyttari en í fyrri umferðinni, bæði líkamlega og andlega.“

Þarna fer fram magnað starf
„Í gegnum meðferðina og eftir að henni lauk hef ég nýtt mér þjónustuna hjá Ljósinu sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Þar fer fram magnað starf og starfsfólkið er dásamlegt. Ég mæli með fyrir alla sem greinast með krabbamein að leita til Ljóssins sem fyrst því endurhæfingin hefst í raun strax við greiningu.
Ég hef oft hugsað í gegnum þetta ferli hversu mikla sérstöðu krabbamein hefur í huga fólks. Ég upplifði að allir í kringum mig höfðu áhyggjur og vildu fylgjast með og ég kann virkilega að meta það. Ég fékk mitt verkefni sem var vissulega erfitt á meðan á því stóð og ég sit eftir með ákveðnar afleiðingar sem ég þarf að læra að lifa með. En þegar ég lít í kringum mig er samt svo mikið af fólki sem er að ganga í gengum miklu erfiðari veikindi en fær ekki sömu athygli af því það er ekki með krabbamein.“

Með jákvæðni að leiðarljósi
„Í dag er ég laus við krabbameinið og er óendanlega þakklát fyrir hversu vel þetta hefur gengið. Með jákvæðni að leiðarljósi gengur allt betur. Ég verð í eftirliti í einhver ár en annars lít ég svo á að þessu verkefni sé lokið.
Mér líður vel, er komin í fulla vinnu og í MPM-námið sem ég stefni á að útskrifast úr næsta vor, svo hver dagur er upp á við.
Mig langar að lokum að fá að óska öllum Mosfellingum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Ég vona að nýja árið færi okkur öllum birtu, yl og fleiri samverustundir,“ segir Anna er við kveðjumst.

Súkkulaðibombur Sólu Ragnars

Sólveig Ragnarsdóttir hefur lengi haft mikla ástríðu fyrir bakstri og kökuskreytingum. Hún hefur um árabil gert mikil listaverk í alls kyns kökubakstri, bæði fyrir sjálfa sig og vini og vandamenn.
„Þegar fyrsta Covid-bylgjan skall á og starfshlutfallið minnkaði hjá mér þá lét ég loks verða að því að búa til Instagram-síðuna Sóla Ragnars Cakes þar sem ég deili ástríðu minni fyrir kökum og fallegum kökuskreytingum. Þetta hefur verið svona mitt dund í þessum aðstæðum að gera fallegar kökur fyrir vini og ættingja,“ segir Sólveig.

Hefur vart undan eftirspurn
„Það var svo núna í nóvember að ég rakst á þessa skemmtilegu hugmynd að heitum súkkulaðibombum. Þegar ég sá þetta þá hugsaði ég með mér að þarna væru töfrar jólanna í einni kúlu og prófaði að gera eina bombu til að sjá. Það heppnaðist svona líka vel og ég setti á myndband Instagram-síðuna mína en það deildist óvart á Facebook-síðuna mína í leiðinni.
Þá fór ég strax að fá fyrirspurnir frá vinum og ættingjum hvort hægt væri að kaupa súkkulaðibombur af mér. Það er skemmst frá því að segja að ég hef vart undan, ætli ég sé ekki búin að gera hátt í 300 bombur í heildina.“

Tvær stærðir af bombum
Súkkulaðibomburnar koma í tveimur stærðum, sú minni passar í einn bolla en sú stærri í tvo bolla. Þær eru gerðar úr hágæða belgísku súkkulaði. „Skelin sjálf er gerð úr eðalsúkkulaði og inn í skelina er sett kakó og sykurpúðar.
Athöfnin er þannig að þú setur súkkulaðibombuna í bolla og hellir sjóðandi mjólk yfir og þá gerast töfrarnir. Bomban opnast og sykurpúðarnir þjóta upp, svo er bara að hræra vel og njóta súkkulaðibollans,“ segir Sólveig brosandi.
Hægt er að hafa samband við Sólveigu í gegnum Instagram-síðuna hennar ef fólk hefur áhuga.

Halla Karen hlýtur Gulrótina 2020

Ólöf Kristín og Halla Karen með lýðheilsuviðurkenningu Mosfellsbæjar.

Í vikunni var lýðheilsuviðurkenningin Mosfellsbæjar, Gulrótin afhent í fjórða skipti. Að þessu sinni kom hún í hlut Höllu Karenar Kristjánsdóttur.
Gulrótin er lýðheilsuviðurkenning sem ætlað er að hampa einstaklingi, hópi, fyrirtæki eða stofnun fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu íbúa Mosfellsbæjar.
Það var Ólöf Kristín Sívertsen verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ sem færði Höllu Karen viðurkenninguna sem í ár var listaverk frá Ásgarðsmönnum úr Álafosskvos.
Gulrótin afhent í fjórða skipti
Það eru Heilsuvin og Mosfellsbær sem standa að baki viðurkenningunni sem felur í sér þakklæti fyrir frumkvæði og störf í anda lýðheilsu og á jafnframt að vera hvatning til allra á þessum vettvangi í bæjarfélaginu. Í ár er það Halla Karen íþróttafræðingur sem hlýtur viðurkenninguna fyrir að stuðla að aukinni hreyfingu og gleði meðal bæjarbúa til áratuga.

Hrífur fólk með jákvæðni og hvatningu
Í rökstuðningi segir að Halla Karen hafi verið í fremstu röð og í raun óþreytandi við að hvetja bæjarbúa til hreyfingar og heilbrigðari lífsstíls í áratugi. Hún starfræki m.a. hlaupahóp í bænum og hafi einnig gert frábæra hluti varðandi hreyfingu eldri Mosfellinga síðustu ár.
Halla Karen fái fólk ekki eingöngu til að hreyfa sig heldur stuðli hún jafnframt að félagslegri og andlegri vellíðan með uppbyggjandi fróðleik, núvitund, skemmtilegum spakmælum um heilsu og endalausri hvatningu. Með jákvæðni sinni og lífsgleði hrífi hún fólk með sér til hreyfingar og bætts lífsstíls og sé mikil og góð fyrirmynd fyrir alla bæjarbúa.

Út með þig!

Ég er búinn að velta því fyrir mér síðustu daga hvað ég myndi ráðlegga fólki að gera til að halda haus og heilsu í covid, ef ég mætti bara nefna eitthvað eitt.

Samvera, upphífingar, lestur, tónlistarhlustun og fleira komu upp í hugann. En ég fann svarið þegar ég í síðustu viku labbaði út á pósthús. Þetta var rétt fyrir hádegi. Maður lifandi, það var svo gott að fara út í birtuna og súrefnið. Það var reyndar ekki heiðskírt en samt nokkuð bjart og einhverjir sólargeislar náðu í gegn. Á þessum dimmustu mánuðum ársins ættum við öll að leggja niður vinnu í tvo klukkutíma og fara öll út í sólina. Við þurfum á birtunni að halda. Sólarljósið bætir svefn, minnkar stress, styrkir bein, stuðlar að kjörþyngd, styrkir ónæmiskerfið, minnkar líkur á þunglyndi og lengir lífið.

Gangan styrkir lungu og hjarta, minnkar líkur á hjartasjúkdómum, lækkar blóðþrýsting, styrkir liði og bein og eykur jafnvægi. Svo nokkur atriði séu nefnd. Dagleg ganga í dagsbirtunni er það sem ég myndi fyrirskipa fólki, ungum sem öldnum, að gera ef ég væri alvaldur. Það myndi gerbreyta öllu ef allir gerðu þetta. Álag á heilbrigðiskerfið myndi stórminnka, almenn heilushreysti myndi aukast, geðheilbrigði batna og almenn hamingja taka stórt skref upp á við.

Það sem myndi líka gerast í daglega göngutúrnum í kringum hádaginn er að við myndum hitta fleiri í eigin persónu, ekki bara í gegnum netið. Þessir hittingar eru samþykktir af Rögnvaldi og félögum af því að þeir taka stuttan tíma og snúast um bros og tvær til þrjár jákvæðar setningar, ekki knús og hópamyndum fyrir framan búðarglugga (hverjum datt það gigg eiginlega í hug?).Ég hitti einmitt eina ljónspræka þegar ég rölti á Pósthúsið, eldri konu í fantaformi sem brosti hringinn í birtunni og smitaði jákvætt út frá sér með því einu að vera til.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. desember 2020

Hver er Mosfellingur ársins 2020?

mosfellingurársinshomepage Val á Mosfellingi ársins 2020 stendur nú yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Öllum er frjálst að senda inn tilnefningar í gegnum heimasíðu blaðsins www.mosfellingur.is. Þetta er í sextánda sinn sem valið fer fram á vegum bæjarblaðsins Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins. Áður hafa þessi hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla­ Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir, Guðni Valur Guðnason, Jón Kalman Stefánsson, Óskar Vídalín Kristjánsson og Hilmar Elísson. Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði ársins 2021, fimmtudaginn 14. janúar. 

Ásgarður styrkir Fjölskylduhjálp

Starfsmenn Ásgarðs handverkstæðis langaði að styrkja fátæk börn á þessum erfiðu tímum.
Þar sem Ásgarður átti enga peninga til að gefa ákváðu þeir að gera það sem þeir eru bestir í, að handsmíða 140 tréleikföng. Það gerðu þeir og komu leikföngunum til Fjölskylduhjálpar sem svo úthlutar þeim til þeirra barna sem þarfnast góðra og vandaðra leikfanga.
Gjöf Ásgarðsmanna er að verðmæti 576.000 krónur og vonast starfsmenn Ásgarðs til að fleiri geri slíkt hið sama. Á myndinni má sjá starfsmann Ásgarðs pakka leikföngunum í kassa.
Starfsmenn Ásgarðs vilja koma á framfæri sérstökum jólakveðjum til allra og minna á markaðinn sinn laugardaginn 5. desember.

Verkefnið Karlar í skúrum formlega stofnað

Finnur, Ólafur, Jón og Jónas ganga frá pappírum í Litluhlíð 7a.

Í byrjun þessa mánaðar var verkefnið Karlar í skúrum í Mosfellsbæ formlega stofnað sem félagsskapur með samþykkt laga fyrir félagið og kosningu stjórnar og eru stofnmeðlimir um 30 talsins.
Í stjórnina voru eftirtaldir kosnir: Jón Guðmundsson formaður, Jónas Sigurðsson ritari, Ólafur Guðmundsson gjaldkeri, Finnur Guðmundsson meðstjórnandi og Gústaf Guðmundsson meðstjórnandi.

Vettvangur fyrir handverk og samveru
Verkefnið Karlar í skúrum sækir fyrirmynd sína til Ástralíu og Írlands og hefur Rauði kross Íslands haft frumkvæði að stofnun slíkrar starfsemi hér á landi. Tilgangur starfsins er að auka lífsgæði félagsmanna, einkum eldri karlmanna, í gegnum handverk og samveru og vinna þannig gegn félagslegri einangrun og neikvæðum afleiðingum hennar og skapa karlmönnum vettvang til að hittast á þeirra eigin forsendum.
Undirbúningur þessa verkefnis hófst í febrúar sl. er nokkrir karlar hittust að frumkvæði Rauðakrossins og kosin var stjórn til undirbúnings starfsins. Kórónuveiran hefur seinkað öllu starfi en hægt var að halda nokkra fundi til undirbúnings á þeim tíma þegar veiran hafði hægt um sig hér á landi.

Framkvæmdir hafnar í Litluhlíð
Fyrsta verkefnið var að finna húsnæði til starfsins og tókst að fá húsnæði með tilstyrk Mosfellsbæjar. Húsnæðið er að Litluhlíð 7a, Skálatúni og eru þegar hafnar framkvæmdir við breytingu á húsnæðinu.
Næsta stóra verkefnið er að afla tækja fyrir starfið í Skúrnum með því að leita eftir styrkjum hjá einstaklingum og fyrirtækjum í bænum. Um leið og aðstæður í þjóðfélaginu breytast munu kaffi­spjallsfundirnir verða teknir upp að nýju í Skúrnum. Einnig hefur verið stofnuð Facebook-síðan „Karlar í skúrum Mosfellsbæ“.

— Þeir sem vilja komast í samband við karlana eða styrkja tækjakaup fyrir skúrinn geta haft samband við Jón í síma 893-6202 eða Jónas í síma 666-1040.