Fjör að Varmá

Fjölskyldutímar Mosfellsbæjar hófu göngu sína haustið 2015 og eru því á sjöunda starfsári. Markmið Mosfellsbæjar með tímunum er að sinna hlutverki sínu sem lýðheilsusamfélag og eru tímarnir frábær viðbót við mörg önnur lýðheilsuverkefni bæjarins.
Hjónin Þorbjörg Sólbjartsdóttir íþróttafræðingur og Árni Freyr Einarsson tóku að sér að sjá um tímana fyrsta starfsárið en þar sem tímarnir nutu mikilla vinsælda strax fyrsta starfsárið var þörf á að bæta við fleiri leiðbeinendum og bættust þá hjónin Íris Dögg og Ólafur Snorri Rafnsson íþróttakennari í hópinn. Mosfellingur tók Ólaf Snorra tali um starfið.
„Markmið tímans er að búa til aðstæður þar sem fjölskyldan, mamma, pabbi, afi, amma, börn og unglingar geta komið saman og leikið sér í íþróttum af öllu tagi, bolta­íþróttum, spaðaíþróttum og fimleikum svo eitthvað sé nefnt.
Fjölskyldurnar eiga dýrmæta og skemmti­lega samverustund saman í íþróttasalnum og allir njóta sín.“

Almenn ánægja og ásókn mikil
„Aðókn í tímann hefur verið vonum framar og eru Mosfellingar greinilega ánægðir með þennan möguleika að koma í íþróttahúsið og eiga þar góðar stundir. Tímarnir hafa vakið athygli út fyrir okkar bæjarmörk og hafa önnur sveitarfélög spurst fyrir um verkefnið, einnig var var fjallað um það í málgagni UMFÍ á dögunum.
Stemningin er alltaf góð í tímunum og mikil gleði allsráðandi. Jólasveinar hafa komið í heimsókn fyrir jólin og í kringum hrekkjavöku hefur verið hrekkjavökuþema og gestir komið í búningum. Þegar við förum í sumarfrí þá höfum við grillað pylsur eftir tímann og einu sinni var hoppukastali í lokatímanum.
Uppbrotsdagar falla í góðan jarðveg hjá gestum fjölskyldutímans. Fyrsta veturinn fengu gestir fjölskyldutímans skíðapassa í Skálafelli einn sunnudag og voru margir sem nýttu sér það og skíðuðu saman.
Eins er frítt í Varmárlaugina eftir tímann og þar eru stundum heitir sunnudagar í lauginni. Þá er hitastig sundlaugarinnar hækkað örlítið og þá gefst gestum sá möguleiki að slaka vel á í lauginni eftir tímann.

Oft fyrsta skref í ástundun á skipulögðu íþróttastarfi
„Við erum virkilega ánægð með þessar viðtökur og það er greinilega grundvöllur fyrir tíma sem þessa. Fleiri heimsóknir í Varmá eru líka góð auglýsing fyrir Aftureldingu þar sem margir sjá auglýsingar hjá deildum Aftureldingar og þar af leiðandi getur þetta verið fyrsta skref í ástundun á skipulögðu íþróttastarfi þegar áhugi vaknar að prófa íþróttir hjá Aftureldingu í framhaldinu.
Meðan ánægjan með fjölskyldutímann meðal bæjarbúa er svona mikil og aðsóknin góð í tímana höldum við ótrauð áfram á þessari braut og höldum áfram að hafa gaman saman á sunnudagsmorgnum að Varmá,“ sagði Ólafur Snorri að lokum.

KYNNING