Hlín hlýtur þróunar- og nýsköpunarviðurkenningu Mosfellsbæjar

Handhafi þróunar- og nýsköpunarviðurkenningar Mosfellsbæjar er Hlín Ólafsdóttir, grafískur hönnuður og kennari í Krikaskóla og Verzlunarskóla Íslands.
Sólveig Franklínsdóttir, formaður menningar- og nýsköpunarnefndar, og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri afhentu viðurkenninguna í Listasal Mosfellsbæjar nýlega en viðurkenningin er veitt á tveggja ára fresti.
Hugmyndin sem verðlaunuð er lýtur að nýtingu rýmis í Kjarna sem svokallaðs sköpunarrýmis og miðar að skapandi og áhugadrifnum íbúum Mosfellsbæjar sem eru að vinna að nýsköpun og/eða annars konar handverki.
Grunnhugmyndin er byggð á hugmyndafræði FabLab þar sem tækni og módelgerð er í forgrunni en þó einfaldari og með meiri áherslu á samfélagslegt gildi og nýtingu á ólíkri þekkingu og hæfni.
Á næstunni má gera ráð fyrir því að hugmyndin verði þróuð enn frekar sem myndi fela í sér kostnaðarmat, könnun á áhuga mögulegra samstarfsaðila og heimsækja aðrar sköpunarsmiðjur.