Styrkur minn efldist til muna

Anna Olsen formaður Karatedeildar Aftureldingar hvetur alla til þess að læra sjálfsvörn.

Alþjóðlega karatesambandið viðurkennir fjóra mismunandi karatestíla í keppni, Shito Ryu, Goju Ryu, Shotokan og Wado Ryu. Þrír af þessum stílum eru iðkaðir á Íslandi og er Shito Ryu stíllinn kenndur hjá Karatedeild Aftureldingar. Þrátt fyrir mismunandi áherslur og stíla er karateiðkun alltaf skipt í þrjá hluta, kata, kihon, kumite.
Karate hentar iðkendum á öllum aldri og er í senn bardagaíþrótt, líkamsrækt, sjálfsvörn og lífsstíll. Anna Olsen var 48 ára gömul er hún fór á sína fyrstu karate­æfingu. Í dag er hún komin með svarta beltið, dómararéttindi og svo kennir hún bæði byrjendum og framhaldshópum. Hún segir karate íþróttina gefa sér mikið en hún eyðir fimm dögum vikunnar í íþróttahúsinu að Varmá.

Anna fæddist í heimahúsi í Vesturbæ Reykjavíkur 15. desember 1964. Foreldrar hennar eru þau Anna Jóhannesdóttir og Karl Hinrik Olsen en þau eru bæði látin.
Anna á þrjú alsystkini, Hinrik f. 1952, Sigurbjörg f. 1954, Jóhannes f. 1958 d. 1980. Þrjú hálfsystkini, Ágústa f. 1943, Valdimar f. 1948 og Soffía f. 1954 og einn fósturbróður, Anton f. 1961.

Setti spritt á sárin
„Ég er alin upp á Meistaravöllum í Reykjavík. Á flestum heimilum í kring voru 3-4 börn svo það var ávallt líf og fjör og nóg af leikfélögum. Við lékum okkur oftast úti og það skipti ekki máli hvort þú varst 8 ára eða 15 ára, allir léku saman.
Óbyggða svæðið sem síðar var byggður Flyðrugrandi var heillandi staður. Þar var starfandi starfsvöllur á sumrin og margir fallegir hlutir búnir til. Margir kofarnir voru smíðaðir og því fylgdi óhjákvæmilega að stígið var á naglaspítur, maður var orðin ansi lunkinn við að kippa nöglunum úr og setja spritt á sárin.”

Mamma sat uppi við alla nóttina
„Ferðalögin með fjölskyldunni eru ofarlega í huga frá æskuárunum. Farið var á rauðu Volkswagen bjöllunni, öllu pakkað á toppinn, okkur systkinunum troðið aftur í og svo var ekið af stað. Foreldrar mínir reyktu bæði og það var reykt í bílnum eins og tíðkaðist í denn. Það fór illa í mig og ég varð oft bílveik, yfirleitt var ég búin að æla áður en Ártúnsbrekkunni var náð.
Það var farið víða um land og hvíta tjaldinu tjaldað. Mamma var mjög hrædd við pöddur og hún sat oftast uppi við alla nóttina með kveikt á vasaljósinu til að fylgjast með hvort það væru einhverjar köngulær inn í tjaldinu,” segir Anna og brosir.”

Vorum heppin með kennara
„Melaskóli og Hagaskóli voru mínir skólar. Melaskóli þessi stóri skóli, man hvað manni fannst maður orðin stór þegar maður byrjaði þar. Við vorum heppin með kennara, Ástríði Guðmundsdóttur en hún kenndi okkur allan barnaskólann. Hún var dugleg að fara með okkur á skauta á Melavöllinn, æfingar hjá Sinfóníuhljómsveitinni í Háskólabíói og í fjöruferðir.
Hagaskóli var gagnfræðaskólinn, lauk þar 9. bekk sem þá var efsta stigið. Haldin voru regluleg skólaböll og aðrar skemmtanir sem voru vel sóttar.”

Tóku þátt í húsverkum og heyskap
Anna var 15 ára að klára Hagaskóla þegar hún kynntist manni sínum, Árna Jóhannessyni. Hann var úr sveit svo sumarið eftir gagnfræðaskóla lá leiðin í Húnavatnssýsluna. Þar brettu þau upp ermar og tóku þátt í sauðburði, húsverkum og heyskap.
„Eftir dásamlegan tíma í sveitinni hafði ég hugsað mér að fara í fatasaum í Iðnskólann í Reykjavík, ég sótti um en komst ekki inn. Ég fór því að vinna á saumastofunni í Karnabæ, taldi það koma sér vel, en þar fann ég út að mig langaði bara alls ekki að vinna við þetta. Það varð því ekkert af framhaldsskólagöngu hjá mér.”

Fjölbreyttur og farsæll ferill
„Árið 1983 keyptum við Árni okkar fyrstu íbúð, það sama ár var ég ráðin til starfa hjá Landsbankanum. Ég átti þar fjölbreyttan og farsælan feril í 37 ár og fór í gegnum ýmiskonar nám. Störfin í bankanum voru töluvert öðruvísi þá miðað við sem þekkist í dag, margt fólk á hverri vinnustöð og mörg handtökin. Það var mikil breyting þegar tölvuvæðingin hóf innreið sína, ég tók þátt í að innleiða og kenna á gjaldkerakerfin sem tekin voru upp ásamt því að fara á milli fyrirtækja og kenna á netbankann þegar hann kom.
Að vera starfsmaður í bankanum þegar hann var ríkisbanki, einkabanki og svo aftur ríkisbanki var töluverð reynsla og fylgdu því miklar breytingar. Að fá að þróast í starfi frá því að vera almennur starfsmaður að selja tékkhefti í að vera staðgengill útibússtjóra með þeirri ábyrgð sem því fylgdi var líka mikil reynsla.
Ég er lánsöm að hafa kynnst góðu fólki í gegnum tíðina hjá bankanum. Nú hafa tímarnir breyst, ég missti vinnuna s.l. haust og er því Landsbankahjartað mitt svolítið brotið en ég er hokin af reynslu.”

Dundum okkur saman í garðinum
Anna og Árni slitu samvistum árið 2019. Þau eiga saman dótturina, Valdísi Ósk f. 2000.
„Við mæðgur erum duglegar að dunda okkur saman í garðinum og gróðurhúsinu og svo förum við í gönguferðir með hundinn. Erum svo lánsamar að búa á dásamlegum stað þar sem stutt er í náttúruna. Við höfum einnig verið duglegar að ferðast um landið.”

Ég gjörsamlega heillaðist
„Árið 2011 byrjaði Valdís Ósk mín að æfa karate og ég hafði gaman af að fylgjast með úr fjarlægð. Mér leið vel með að vita að hún gæti varið sig ef eitthvað kæmi upp á, ég myndi gjarnan vilja sjá fleiri feta þennan veg. Fljótt fór ég að vera með puttana í ýmis­konar málum, fór í stjórn félagsins og hef verið formaður frá 2015.
Það varð svo úr að ég fór að mæta á fullorðins æfingar, orðin 48 ára gömul,” segir Anna og brosir. Æfingarnar voru skemmtilegar og það ríkti mikil virðing milli æfingafélaganna. Ég gjörsamlega heillaðist og hef nú mætt að jafnaði þrisvar sinnum í viku á æfingar frá því að ég byrjaði. Ég vissi ekki alveg hvort þetta myndi ganga hjá mér því ég hef átt við bakvandamál að stríða en styrkur minn hefur eflst til muna.
Nú er ég komin með svarta beltið 2. Dan og með dómararéttindi í Kata, hver veit nema ég reyni við 3. Dan eftir 3 ár. Undanfarin ár hef ég einnig verið að kenna bæði byrjendum og framhaldshópum sem gefur mér mikið, ég er því í íþróttahúsinu fimm daga vikunnar, bæði við æfingar og kennslu.
Það er svo gaman að taka á móti krökkunum á haustin og sjá hvað þau hafa þroskast í sumarfríinu og svo auðvitað að bjóða nýja iðkendur velkomna,” segir Anna að lokum er við kveðjumst.