Úthald og einbeiting er allt sem þarf

Björk Erlingsdóttir var komin yfir fertugt þegar hún fékk áhuga á mótorkrossi. Áhugi hennar kviknaði eftir að hafa horft á mótorkrosskeppni út á landi þar sem spennan náði hámarki.
Björk keypti sér hjól, fór að stunda æfingar og hefur varla sleppt keppni síðan hún byrjaði að hjóla. Hún hefur átt velgengi að fagna síðustu ár en síðastliðið sumar náði hún að halda Íslandsmeistaratitli sínum sem hún landaði árið 2020. Hún segir að gott úthald, einbeiting og sjálfstraust sé allt sem þarf til að geta stundað þessa erfiðu íþrótt.

Björk fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði 9. nóvember 1966. Foreldrar hennar eru þau Ólöf Jóna Guðmundsdóttir fyrrv. sölumaður og Erling Ólafsson múrari en hann lést árið 2006.
Björk á þrjú systkini, Guðrún Rut f. 1963, Örn f. 1964 og Margréti f. 1968, d. 1970.

Gott að fá pönnsur hjá ömmu
„Ég ólst upp á nokkrum stöðum á mínum yngri árum en þó lengst af í Hlíðunum og í Breiðholti. Í Hlíðunum bjó ég til 7 ára aldurs, amma og afi bjuggu í Bogahlíðinni og það var alltaf gott að koma við hjá þeim og fá pönnukökur. Við krakkarnir í hverfinu lékum okkur mest úti við og vorum dugleg í prakkarastrikunum, teika bíla og skauta fram af bílskúrsþökum.
Ég á líka góðar minningar frá tjaldútilegunum með fjölskyldunni, það var brunað út úr bænum um helgar og alltaf var veiðistöngin með í för.
Ég gekk í Hlíðaskóla og á bæði góðar og slæmar minningar þaðan, í uppáhaldi voru kennslustundirnar með Ármanni Kr. Einarssyni rithöfundi en svo fékk ég löðrung frá öðrum kennara sem ég gleymi seint en ég er ofvirk og hef alltaf átt erfitt með að sitja kyrr.“

Sló strákunum við
„Í Breiðholti var gott að búa, ég átti góðar vinkonur í Kötlu­fellinu og við lékum okkur mikið saman. Ég gekk í Fellaskóla og þetta voru góð ár og kennararnir frábærir. Félagsmiðstöðin okkar hét Fellahellir og var stútfull af krökkum alla daga, þar keppti ég í minni fyrstu maraþondanskeppni.
Ég var frekar mikil strákastelpa, stundaði fótbolta og keppti í borðtennis. Ég valdi mér smíðar í stað handavinnu og varð hæst yfir bekkinn, sló strákunum við sem mér fannst ekki leiðinlegt,“ segir Björk og hlær.
„Með skólanum starfaði ég í Kron, í Fellahelli og við barnapössun.“

Því meira að gera því betra
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég á íþróttabraut í Fjölbraut í Breiðholti því ég ætlaði að verða íþróttakennari en það nám tók U-beygju því ég ákvað að skella mér til Bandaríkjanna sem au pair. Þar var ég í tvö ár og þetta var virkilega góð lífsreynsla.
Ég hef nánast allt mitt líf starfað við afgreiðslu og í sölugeiranum. Byrjaði ung að vinna í verslun, var hjá Ikea, Allra best í Suðurveri og svo hjá Vífilfelli, Ísam, Lýsi og Egilsson.
Í dag starfa ég hjá Beiersdorf og hef gert í fjölda ára, ég fer á milli apóteka og verslana og sinni alls konar verkefnum, sé um sölu og framsetningu. Þetta á mjög vel við mig, því meira að gera því betra.“

Alsæl með ákvörðunina
Eiginmaður Bjarkar er Sverrir Jónsson iðnrekstrar- og vörustjórnunarfræðingur en hann starfar sem innkaupastjóri hjá Sorpu. Þau eiga tvö börn, Margréti Mjöll f. 1992 og Óliver Örn f. 1998.
„Við fluttum í Mosfellsbæ árið 2001 og bjuggum hér í nokkur ár en færðum okkur svo yfir í fæðingarbæ minn, Hafnarfjörð. Við fluttum svo aftur hingað árið 2017 og erum alsæl með að hafa tekið þá ákvörðun, hér er svo gott að vera.“

Keppti í Járnkonunni
Björk byrjaði í mótorkrossi 2006 en áhugi hennar kviknaði eftir að hún mætti til að horfa á bróður sinn og börn hans keppa í mótorkrosskeppni í Ólafsvík. Hún segir adrenalínið hafi farið á fullt bara við að horfa á keppnina. Hún fékk að prófa hjólið hjá bróður sínum og gjörsamlega heillaðist.
Hún keypti sér hjól og hellti sér strax út í Endurokeppni sem er þolakstur sem stendur yfir í 6 klst. Keppti þar í tvímenningi með annarri konu og tókst þeim að komast á verðlaunapall. Björk hefur einnig tekið þátt í Járnkonunni, lenti þar í 3. sæti en þá keppir keppandi einn í 6 klst og sú sigrar sem fer flesta hringi.

Alls konar aðstæður geta komið upp
„Þessi íþrótt krefst þess að maður æfi stíft, hafi gott úthald, einbeitingu og það reynir á tækni og snerpu bæði þegar maður er að æfa og keppa,“ segir Björk einbeitt á svip. „Það tekur tíma að finna getu til að stýra þessum hjólum og finna til öryggis. Það þarf líka að hafa sjálfstraust til að geta stokkið á pöllunum og keyra í alls konar aðstæðum sem geta komið upp. Með árunum finnur maður sinn flöt á þessu öllu saman.
Ég er með mikið keppnisskap og hef þurft að keppa við mikið af ungum hraðskreiðum stúlkum. Þær eru mér hvatning til að gera enn betur en ég reyni nú samt að fara ekki fram úr mér.“

Keppti í Bandaríkjunum
Björk, eða Brjálaða Bína eins og hún er ávallt kölluð, hefur nánast ekki misst úr keppni síðan hún byrjaði að æfa og síðustu ár hafa verið henni sérstaklega góð. Hún varð Íslandsmeistari í kvennaflokki árið 2020 og náði að halda titlinum í keppninni sl. sumar.
Hún hefur einnig keppt í mótorkrossi í Bandaríkjunum en sú keppni er sú stærsta í heimi. Þar keppa 1.400 konur frá ýmsum löndum og í hinum ýmsum flokkum. Björk náði 3. og 5. sæti í tveimur flokkum.

Virk í félagsstarfi
Björk situr í stjórn MSÍ, Mótorhjóla- og vélsleðasambandi Íslands og hefur verið virk í félagsstarfi sem snýr að félaginu. Hún setur oft upp „Bínu-búllu“ sjoppu fyrir keppnir sem er fjáröflun fyrir félagið. Sverrir eiginmaður hennar stendur þétt við hlið konu sinnar en hann hefur einnig verið virkur í hinum ýmsu störfum fyrir félagið.
„Yfir vetrartímann æfi ég í Crossfit Reykjavík en auðvitað tek ég í hjólið ef ég kemst í að hjóla á ís eða sandi. Þegar snjóa leysir þá byrja ég að æfa mig í brautum og tek þá langar æfingar.“

Fátt sem toppar þetta tvennt
„Mótorkrossið er ekki ódýr íþrótt og ég er heppin að vera búin að hafa mína sömu styrktaraðila í gegnum árin sem hafa gert mér það fært að stunda þetta með þeim hætti sem ég hef gert og kann ég þeim bestu þakkir fyrir en þetta eru Arctic Trucks, Púkinn, Merkistofan og Crossfit Reykjavík.
Það er ekki áhættulaust að vera á þessum hjólum og ég hef meiðst en sem betur fer ekki oft. Það sem tosar mest í mig í þessu öllu saman er spennan og félagsskapurinn, það er fátt sem toppar það kombó,“ segir Björk og brosir.