GDRN gerir styrktarsamning við Aftureldingu

Mynd/RaggiÓla

Mosfellska söngkonan GDRN og meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu hafa gert með sér þriggja ára samning. Söngkonan verður styrktaraðili stelpnanna og mun prýða æfingafatnað liðsins.

Sjálf sleit Guðrún Ýr hér barnskónum og lék með yngri flokkum félagsins og sýnir hér í verki hollustu sína við félagið. Hún á nokkra meistaraflokksleiki með Aftureldingu áður en hún lenti í slæmum meiðslum og lagði skóna á hilluna. Þegar einar dyr lokast, opnast aðrar og Guðrún Ýr hefur náð langt í tónlistinni og gefur til baka með þessum tímamóta samningi. Um leið verður Afturelding eitt af fyrstu liðunum á Íslandi til að flagga stórum styrktaraðila á æfingasetti liðsins en það þekkist nánast eingöngu í stórum deildum erlendis.

Hugmyndin að samstarfinu kemur í kjölfar samnings Aftureldingar við hljómsveitina Kaleo. „Við erum óendanlega þakklát okkar frábæra tónlistarfóki sem er tilbúið að vinna með okkur. Við þökkum GDRN kærlega fyrir stuðninginn og hlökkum til samstarfsins,“ segir Sigurbjartur Sigurjónsson formaður meistaraflokksráðs. Afturelding leikur í Bestu deild kvenna í sumar.