Kosningabaráttan að hefjast af fullum krafti

Efstu fimm á lista Vinstri grænna: Bryndís, Bjartur, Bjarki, Kolbrún Ýr og Garðar.

Framboðslisti VG var samþykktur á almennum félagsfundi þann 12. mars.
Bjarki Bjarnason, rithöfundur og forseti bæjarstjórnar, leiðir listann. Í öðru sæti er Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir flugumferðarstjóri, í þriðja sæti er Bjartur Steingrímsson fangavörður og Bryndís Brynjarsdóttir kennari er í fjórða sæti. Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra og Bjarki Bjarnason oddviti listans ávörpuðu fundinn eftir einróma samþykkt listans. Kosningabaráttan er að hefjast af krafti og Kolbrún Oddgeirsdóttir formaður félagsins er bjartsýn á árangurinn.
Vinstri græn setja félagslegt jafnrétti, samfélagslega ábyrgð og umhverfismál á oddinn.


Bjarki Bjarnason

Þakklátur trausti til að leiða listann
Bjarki Bjarnason rithöfundur og forseti bæjarstjórnar leiðir lista vinstri-grænna í komandi kosningum.
Hann kveðst vera þakklátur fyrir það traust sem honum sé sýnt og segir: „Á framboðslistanum er fólk úr ýmsum stéttum samfélagsins, einstaklingar sem hafa svipaða lífssýn þar sem jöfnuður, samfélagsleg ábyrgð og umhverfismál eru sett á oddinn.
Það er mikill hugur í hópnum, málefnavinnan stendur yfir og verður kynnt í stefnuskrá okkar. Þar verður fjallað um fjölmarga málaflokka, ekki síst umhverfismál, þau hafa aldrei skipt meira máli en á okkar dögum.“
Listann skipa 22 einstaklingar, í samræmi við fjölgun bæjarfulltrúa úr 9 í 11 en kosið verður til sveitarstjórnarkosninga laugardaginn 14. maí.
„Vorið verður ekki einungis grænt – heldur vinstri grænt,“ segir Bjarki.


Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir

Viljum byggja upp gott og heilbrigt samfélag
Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir skipar 2. sæti á lista vinstri grænna. Hún ólst upp í Mosfellsbæ og starfar sem flugumferðarstjóri, auk þess hefur hún síðustu ár sinnt nefndarstörfum fyrir Mosfellsbæ og formennsku í félagi VG hér í bænum.
„Ég hlakka til starfsins með þessum fjölbreytta hópi fólks sem prýðir listann og tel að góður jarðvegur sé meðal Mosfellinga fyrir það sem við berjumst fyrir.
Með öðrum bæjarbúum viljum við byggja upp gott og heilbrigt samfélag með lýðheilsu, umhverfisvernd og félagslegt réttlæti að leiðarljósi,“ segir Kolbrún.


Framboðslisti Vinstri grænna 2022

1. Bjarki Bjarnason  Rithöfundur
2. Kolbrún Ýr Oddgeirsdóttir  Flugumferðarstjóri
3. Bjartur Steingrímsson  Fangavörður
4. Bryndís Brynjarsdóttir  Grunnskólakennari
5. Garðar Hreinsson  Iðnaðarmaður
6. Una Hildardóttir  Varaþingmaður og formaður LUF
7. Hlynur Þráinn Sigurjónsson  Yfirlandvörður Vatnajökulþjóðgarðs
8. Auður Sveinsdóttir  Landslagsarkitekt
9. Ásdís Aðalbjörg Arnalds  Félagsfræðingur
10. Sæmundur Karl Aðalbjörnsson  Iðnaðarmaður
11. Stefanía R. Ragnarsdóttir  Fræðslufulltrúi hjá Vatnajökulsþjóðgarði og listakona
12. Hulda Jónasdóttir  Skrifstofumaður
13. Þórir Guðlaugsson  Varðstjóri
14. Ari Trausti Guðmundsson  Jarðfræðingur og fyrrv. þingmaður
15. Harpa Fönn Sigurjónsdóttir  Lögfræðingur, tónlistarkona og umhverfissinni
16. Örvar Þór Guðmundsson  Atvinnubílstjóri
17. Valgarð Már Jakobsson  Framhaldsskólakennari
18. Oddgeir Þór Árnason  Fyrrerandi garðyrkjustjóri
19. Jóhanna B. Magnúsdótti  Garðyrkjufræðingur
20. Ólafur Jóhann Gunnarsson  Vélfræðingur
21. Elísabet Kristjánsdóttir  Kennari
22. Gísli Snorrason  Verkamaður