Hilmar Stefánsson sækist eftir 6. sæti

Hilmar Stefánsson býður sig fram í 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fer 5. febrúar 2022. Hilmar starfar sem framkvæmdastjóri MHG Verslunar.

„Ég flutti í Mosfellsbæinn 1998 til að spila handbolta með Aftureldingu. Upphaflega átti það að vera eitt ár en hér líður mér vel og árin orðin 23. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bæjarmálunum og því sem fram fer í sveitarfélaginu. Ég sat í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar árin 2012-2014 og í menningarmálanefnd 2006-2010. Þá var ég formaður Viljans, félags ungra sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ 2006-2009.

Síðast en ekki síst er ég formaður Fálkanna sem er virðulegur lífsstílsklúbbur hér í bæ og brýni raust mína með Karlakór Kjalnesinga. Ég óska eftir stuðningi í 6. sætið og hlakka til að takast á við þær áskoranir sem við Mosfellingar stöndum frammi fyrir á komandi árum.

Ragnar Bjarni gefur kost á sér í 4. sæti

Ragnar Bjarni Zoëga Hreiðarsson gefur kost á sér í 4. sætið í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ þann 5. febrúar næstkomandi.

„Ástæðan fyrir ákvörðun minni er að mér hefur fundist vanta að rödd unga fólksins heyrist í málum bæjarins þegar horft er til framtíðar. Ég vil leggja mitt af mörkum til að gera Mosfellsbæ að enn betri bæ en eins og allir vita er best að búa í Mosfellsbæ. Með framboði mínu vil ég einnig hvetja ungt fólk til ábyrgðar í bæjarmálum og láta rödd unga fólksins heyrast.“

Efnt til hugmyndasamkeppni um miðbæjargarð

Tölvugerð skissa af miðbæjarsvæðinu.

Mosfellsbær hefur ákveðið að efna til hugmyndasamkeppni um miðbæjargarð við Bjarkarholt. Gerður verður samningur við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs um að halda utan um undirbúning og framkvæmd hugmyndasamkeppninnar.
Í deiliskipulagi fyrir miðbæ Mosfellsbæjar er gert ráð fyrir miðbæjargarði við Bjarkarholt. Svæðið er um hálfur hektari að stærð og tillaga um garðinn byggist meðal annars á áliti rýnihópa íbúa sem lögðu áherslu á græna ásýnd miðbæjarins.
Skipuð verður fimm manna dómnefnd þar sem verða tveir fulltrúar bæjarstjórnar, skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar auk tveggja fagaðila sem Miðstöð hönnunar og arkitektúrs tilnefnir. Helstu tímasetningar eru þannig að verkefnalýsing og kynningarefni verði tilbúið til auglýsingar 6. janúar 2022, samkeppnin verði auglýst opinberlega og kynningarfundur haldinn 10. janúar 2022, skilafrestur tillagna verði til miðnættis 21. mars 2022. Að þessu loknu taki við vinna dómnefndar og niðurstaða samkeppninnar verði kynnt sumardaginn fyrsta sem verður 21. apríl 2022

Lunga nýja miðbæjarins
„Ég bind miklar vonir við þessa hugmyndasamkeppni og sé fyrir mér að miðbæjargarðurinn geti orðið eins konar lunga nýja miðbæjarins þar sem íbúar geti notið fallegs umhverfis, gróðurs, veitinga og stundað einfaldari íþróttir með börnum, vinum og fjölskyldu,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Miðbæjargarðurinn hefur alltaf verið hugsaður sem miðja svæðisins og mikilvægt er að nýta tækifærið til að þróa miðbæinn okkar saman sem stað þar sem við komum saman, njótum lífsins og sinnum heilsueflingu,“ segir Haraldur.

Hef alltaf haft gaman af því að skapa

Halldóra Sif Guðlaugsdóttir framleiðir kvenföt, töskur og fylgihluti úr hágæðaefnum.

Halldóra Sif Guðlaugsdóttir fatahönnuður og klæðskeri er hönnuðurinn á bak við fata- og fylgihlutamerkið Sif Benedicta.
Á dögunum opnaði hún verslun og vinnustofu ásamt tveimur öðrum hönnuðum í fallegu húsi við Laugaveg en þar má finna kvenföt og fylgihluti sem unnin eru úr hágæðaefnum. Hún segir móttökurnar hafa gengið vonum framar og er ánægð með að hafa getað opnað fyrir jólahátíðina.

Halldóra Sif fæddist í Reykjavík 25. september 1987. Foreldrar hennar eru þau Ásta Björk Benediktsdóttir kennari og Guðlaugur Pálsson eigandi Orku ehf. Halldóra á einn bróður, Pál Helga f. 1994.

Fékk að endurraða í skápana
„Ég ólst upp í Kópavogi til 9 ára aldurs og gekk í Snælandsskóla. Við krakkarnir í hverfinu lékum okkur mikið úti við í hinum ýmsu leikjum. Þegar ég var 5 ára þá kynntist ég Ingibjörgu Helgu, við höfum verið góðar vinkonur allar götur síðan.
Ég var mikið hjá ömmum mínum og öfum á mínum yngri árum þar sem foreldrar mínir voru sjálfstætt starfandi og stóðu vaktina saman. Mér leið alltaf vel hjá þeim því þau voru svo góð við mig og þolinmóð. Ég var uppátækjasöm og fékk að bralla ýmislegt, búa til eitthvað úr einhverju gömlu, breyta fötum, búa til skart og eins hafði ég gaman af því að endurraða í skápana.“

Forréttindi að alast upp á Íslandi
„Þegar ég var 7 ára þá keyptu föðurafi minn og amma gamlan sveitabæ austur í Landeyjum og síðar byggðu þau sér sumarbústað þar. Ég hef verið mikið fyrir austan með fjölskyldu minni, þarna erum við með hesta og njótum þess að ríða út.
Mér fannst alltaf gaman að vera í sveitinni innan um dýrin og leika úti allan daginn. Það bjuggu börn þarna í kring og eins komu mörg börn í heimsókn svo maður hafði alltaf einhvern til að leika við.
Það eru svo mikil forréttindi að alast upp á Íslandi, svo mikið frelsi og stutt í náttúruna alls staðar.“

Vorum í leynifélagi
„Árið 1996 fluttum við fjölskyldan í Mosfellsbæ sem þá var nú meiri sveit en bær. Þar tók æskuvinkona mín áðurnefnda úr Kópavoginum á móti mér en hún hafði flutt í Mosó nokkrum árum á undan mér. Ingibjörg kynnti mig fyrir Írisi, Valdísi, Sunnu og Rakel og þar datt ég í lukkupottinn því við náðum strax allar vel saman og höldum hópinn enn í dag.
Við vinkonurnar gerðum allt saman, æfðum fótbolta með Aftureldingu, lærðum saman, fórum á hestbak, æfðum dans, vorum í leynifélagi og svo vorum við klappstýrur. Ég svíf bara þegar ég hugsa um þessar æskuminningar, þær eru svo dásamlegar,“ segir Halldóra og skellir upp úr.
„Mér gekk ágætlega í skólanum, gekk í Varmárskóla og síðan í Gaggó Mos. Áhuginn á náminu minnkaði nú aðeins á unglingsárunum einfaldlega því það var svo margt í gangi. Yfir sumartímann vann ég í sjoppu foreldra minna í Háholtinu.“

Flutti til Danmerkur
„Við vinkonurnar fórum síðan allar í Verzló. Fyrir mig voru það rosaleg viðbrigði því ég átti hreinlega erfitt með að einbeita mér. Ég íhugaði að hætta en skipti svo um braut en var samt ekki viss hvað ég vildi gera. Ég var byrjuð með manninum mínum þarna, Kristni Péturssyni en hann er tveimur árum eldri en ég. Hann kláraði sitt framhaldsskólanám í Menntaskólanum við Sund og flutti svo til Danmerkur til að fara í framhaldsnám í verkfræði.
Ég ákvað að klára námið í Verzló og flutti svo til Kristins og fór í nám í Álaborgarháskóla í rekstrarhagfræði. Ég hætti eftir mánuð því danskan var mér erfið og aftur var einbeitingin að hrjá mig. Ég fór því að vinna við að temja hesta sem ég hafði verið að gera áður með skólagöngunni.
Við Kristinn eigum þrjú börn, Guðlaug Benjamin f. 2012, Ástu Maríu f. 2018 og Guðleifu Klöru f. 2019.“

Fann nám við hæfi
„Ég vissi ekkert á tímabili hvað mig langaði til að læra en skráði mig svo á sauma- og sníðanámskeið sem mér fannst virkilega skemmtilegt. Þetta varð til þess að ég sótti um í klæðskeranám og komst inn Textilhandværkerskolen. Þetta var í fyrsta sinn í 10 ár sem ég elskaði að læra, ég var alltaf mætt fyrst í skólann og fór seinust. Ég var bara ekki að trúa því að ég væri búin að finna nám sem ég vildi vinna við í framtíðinni.
Ég var á seinni árum greind með mikinn athyglisbrest sem útskýrir margt eins og til dæmis hvernig mér leið á minni skólagöngu. Það er alveg ljóst að verklegt nám hentar mér mun betur en bóklegt.
Við Kristinn fluttum svo heim til Íslands og ég hóf nám í Listaháskóla Íslands í fatahönnun.“

Fékk reynslu frá hönnuði í London
Eftir útskrift úr Listaháskólanum fór Halldóra að starfa sem aðstoðarhönnuður hjá Hildi Yeoman fatahönnuði og líkaði vel. Það blundaði samt í henni að prófa að starfa hjá einhverjum af sínum uppáhalds hönnuðum erlendis til að fá reynslu þannig að hún sótti um á nokkrum stöðum. Hún fékk síðan starf sem lærlingur í WRTW-deildinni hjá tískuhúsi Alexander McQueen í London og flutti þar með út. Þar tók hún meðal annars þátt í hönnunarferlinu á vor-og sumarlínunni 2017.

Eigið vörumerki, Sif Benedicta
Eftir að Halldóra Sif flutti heim frá London fór hún að hanna og þróa sitt eigið vörumerki, Sif Benedicta. Hún sérhæfir sig í lúxus leðurhandtöskum, plexítöskum og skarti, þá helst eyrnalokkum, hálsmenum, hárspennum og silkislæðum.
„Ég byrjaði á því að gera handtöskur og fylgihluti en svo kom fyrsta fatalínan mín út á Hönnunarmars í vor en framleiðsla úr þeirri línu er að koma út núna fyrir jólin. Ég eyði miklum tíma í að hanna góð snið, finna óvæntar litasamsetningar og prentmynstur og svo stílisera ég fötin á mismunandi vegu, þetta eru aðallega jakkaföt, skyrtur og kjólar fyrir konur.“

Opnuðu verslun við Laugaveg
Halldóra Sif var að opna, ásamt tveimur öðrum hönnuðum, verslun og vinnustofu í afar fallegu húsi við Laugaveg 16 í Reykjavík sem heitir Apotek Atelier. Þar má finna töskur, kvenföt og fylgihluti úr hágæðaefnum.
„Undirbúningurinn að opnuninni hefur staðið yfir á þriðja mánuð, við hönnuðum saman allt hér að innan, gerðum framleiðsluna klára og komum með nýjar vörur,“ segir Halldóra Sif um leið og hún sýnir mér verslunina.
„Móttökurnar hafa verið vonum framar, nú er aðventan gengin í garð og jólin á næsta leiti, við erum afskaplega ánægð með að hafa náð að opna fyrir jól. Það verður gaman að taka á móti þeim sem eru á röltinu um bæinn,“ segir Halldóra Sif og brosir um leið og hún kveður mig í dyrunum.

„Landsbyggðarkaupfélag“ á Múlalundi

Á Múlalundi er eina ritfangaverslunin í Mosfellsbæ. Reyndar er verslunin ekki einungis ritfangaverslun heldur eins konar „landsbyggðarkaupfélag“ sem selur alls konar. Í versluninni fást ritföng, bækur, ljósritunarpappír, púsl, jólavörur, ljósaseríur úti og inni, límbönd, prjónar, kaffi og kex svo eitthvað sé nefnt. Nú er tími til að setja upp ljósaseríur úti sem inni, á Múlalundi fást flestar gerðir af Led ljósaseríum.

„Við erum alltaf að heyra af Mosfellingum sem ekki vita af búðinni. Margir halda að hér séu bara seldar möppur og plöst til fyrirtækja og átta sig ekki á hinu fjölbreytta vöruúrvali og lága verði sem hér er,“ segir Björn Heimir verslunarstjóri. „Vefverslunin okkar www.mulalundur.is er alltaf að eflast. Við höfum opið milli 8 og 16 á daginn en lokað um helgar. Það eru allir velkomnir á Múlalund.“

Júlíana sækist eftir 5. sæti

Júlíana Guðmundsdóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í prófkjöri flokksins sem fram fer 5. febrúar 2022. „Ég hef mikinn áhuga og metnað til þess að starfa fyrir sveitarfélagið og kynnast því góða starfi sem hefur átt sér stað í Mosfellsbæ og enn fremur tel ég að menntun mín og reynsla af atvinnulífinu muni nýtast vel í þeirri uppbyggingu sem fram undan er.

„Við hjónin erum nýflutt í Mosfellsbæ og þegar við vorum að ákveða að kaupa fasteign þá var þetta eina sveitarfélagið sem kom til greina og var það m.a. vegna nálægðarinnar við náttúruna og dóttur okkar sem einnig er nýflutt í bæinn. Ég er menntaður lögfræðingur með héraðsdómslögmannsréttindi og starfa í dag sem lögfræðingur fyrir fimm stéttarfélög. Ég er gift Sigurði Árna Reynissyni og saman eigum við tvö börn og eitt barnabarn.“

Kári Sigurðsson gefur kost á sér í 4.-6. sæti

Kári Sigurðsson býður sig fram í 4.-6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fer í janúar. Kári 30 ára gamall og uppalinn Mosfellingur frá blautu barnsbeini. Kári hefur starfað í félagsmiðstöðinni Bólinu og sem flokksstjóri og launafulltrúi í vinnuskóla Mosfellsbæjar á sínum yngri árum.

Unnusta Kára heitir Ásta Ólafsdóttir þjónustu og sölustjóri hjá Nova og eiga þau einn son. Kári starfar sem viðskiptastjóri. „Ég hef áhuga á því að nýta krafta mína til að styrkja innviði bæjarins hvort sem það eru skipulagsmál eða einföldun ferla.“

Undirbúningur Orkugarðs í Reykjahverfi hafinn

Veitur eiga lóð við Reyki, efst í Reykjahverfi.

Nýting á heitu vatni á Íslandi á sér sterka sögulega skírskotun til Reykjahverfis og þar er ennfremur upphaf nýtingar á heitu vatni á Íslandi en Stefán B. Jónsson bóndi á Reykjum leiddi fyrstur manna heitt vatn inn í íbúðarhús á Íslandi árið 1908.
Í því ljósi hafa vaknað hugmyndir um að reistur verði Orkugarður í Reykjahverfi á lóð í eigu Veitna ohf. Í viðræðum við Veitur hefur komið fram að mikill áhugi sé á hugmyndinni og hefur fyrirtækið lýst því yfir að það sé reiðubúið til þess að undirrita viljayfirlýsingu um verkefnið og setja fjármuni til uppbyggingar og frágangs árin 2023-2024.
Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur nú heimilað gerð viljayfirlýsingar milli Mosfellsbæjar og Veitna ohf. um Orkugarð í Reykjahverfi og falið skipulagsnefnd það verkefni að útfæra hugmyndina nánar og undirbúa deiliskipulag fyrir Orkugarð.

Þóra Björg býður sig fram í 5. sæti

Þóra Björg Ingimundardóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í 5. sæti á lista í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem verður haldið 5. febrúar. Þóra Björg er viðskiptafræðingur og hefur sinnt ýmsum félagsstörfum innan stúdentafélaga bæði í menntaskóla og háskóla.

„Ég hef búið í Mosfellsbæ allt mitt líf og vil því leggja mitt af mörkum til að rækta þetta fallega og fjölbreytta bæjarfélag sem við búum í. Mosfellsbær fer ört stækkandi sem skapar nýjar áskoranir sem þarf að leysa ásamt nýjum tækifærum til að skara fram úr, hvort sem um er að ræða menntamál, menningarmál eða aðra málaflokka,“ segir Þóra.

Arna Hagalíns gefur kost á sér í 2. sæti

Arna Hagalíns býður sig fram í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Arna er með B.Ed frá Kennaraháskóla Íslands og MBA-gráðu með áherslu á mannauðsstjórnun frá háskólanum í Aberdeen í Skotlandi. Arna starfar sem rekstrar- og fjármálastjóri hjá E. Gunnarsson ehf. auk þess að þjálfa fólk í að auka eigið sjálfstraust hjá Dale Carnegie.

„Ég brenn fyrir mannlegu málunum, skóla-, íþrótta- og tómstundamálum. Er metnaðargjörn, jákvæð og lausnamiðuð og er þeirrar skoðunar að góður árangur sé afrakstur góðrar samvinnu. Á kjörtímabilinu hef ég starfað sem varabæjarfulltrúi, aðalmaður í fræðslunefnd, varamaður í menningar- og nýsköpunarnefnd og fulltrúi í Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis. „Ég veit að reynsla mín, þekking og menntun getur komið að gagni og óska ég eftir stuðningi til að halda áfram að efla og styrkja okkar framsækna samfélag.“

Hjörtur býður sig fram í 4. sæti

Hjörtur Örn Arnarson gefur kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðismanna sem fer fram 5. febrúar 2022. Hjörtur er landfræðingur frá Háskóla Íslands og með framhaldsmenntun í kortagerð og landmælingum frá Danmörku. Hann er giftur Klöru Gísladóttur kennara í Helgafellsskóla og eiga þau saman 3 börn. Hjörtur hefur starfað í verkfræðigeiranum í hátt í 20 ár og komið að skipulagsmálum, landmælingum og kortagerð. Hjörtur hefur tekið þátt í starfi Aftureldingar í gegnum tíðina, bæði sem þjálfari og sjálfboðaliði.

„Ég býð fram krafta mína í bæjarpóli­tíkinni í Mosfellsbæ og óska eftir stuðningi í 4. sætið. Ég hlakka til að takast á við spennandi verkefni í þágu bæjarbúa í þeirri miklu uppbyggingu sem fram undan er í sveitarfélaginu.“

Markmið morgundagsins

Ég er að vinna með öflugu teymi þessa dagana. Verkefninu sem við erum að vinna að núna miðar vel áfram og það er mjög líklegt að við komumst mun lengra með það en gert var ráð fyrir í upphafi þess. Ein af ástæðum þess er að markmiðin eru skýr. Bæði aðalmarkmiðið og sömuleiðis markmið hvers dags. Þegar vinnudagurinn er að klárast tökum við stuttan fund, förum yfir hvað við fórum langt með markmið þess dags og setjum okkur markmið fyrir morgundaginn miðað við stöðuna í dag. Tökum svo vinnurispu, klárum daginn og höldum brattir heim – sérstaklega þegar við höfum komist lengra með verkefnið en við áttum von á.

Þetta vinnulag hentar mér mjög vel. Og það er einfalt að yfirfæra það yfir á lífið sjálft. Þú setur þér markmið og vinnur að því alla daga. Gerir eitthvað sem færir þig nær markmiði þínu á hverjum degi, sama hversu stórt eða smátt það er. Tekur stöðuna í lok dags, ákveður hvað þú getur gert á morgun til að komast nær stóra markmiðinu og framkvæmir það svo.

Stóra markmiðið getur verið hvað sem er, en það þarf að vera eitthvað sem þér finnst spennandi og þannig að þér finnist á þeim tímapunkti sem þú setur þér markmiðið að það sé alls ekkert mjög líklegt að þú náir því. Þannig verður markmiðið spennandi og hvetjandi. Og með því að vinna að því á hverjum degi, færist þú nær.

Það að setja markmið fyrir morgundaginn heldur manni á tánum og í fókus. Allt verður skýrara og það er miklu skemmtilegra að vinna á þennan hátt heldur en að mæta bara í vinnuna og sinna fyrirliggjandi verkefnum. Sama hver vinnan og verkefnin eru.

Talandi um skemmtileg markmið. Hið árlega utanvegarþrautahlaup, KB þrautin, verður haldin laugardaginn 21. maí 2022. Þið lásuð það fyrst hér!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. desember 2021

Kolbrún býður sig fram í 1. sæti

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi, varaformaður bæjarráðs og formaður fræðslunefndar býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðis­flokksins. Hún hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 2014 og var áður fyrsti varabæjarfulltrúi 2010–2014. Auk þess hefur Kolbrún setið í stjórn skíðasvæðanna og situr nú fyrir hönd Mosfellsbæjar í stjórn Sorpu byggðasamlags. Kolbrún var formaður fjölskyldunefndar frá 2010–2016. Kolbrún er kennari og lýðheilsufræðingur að mennt og stundar nú nám í stjórnun menntastofnana við Háskóla Íslands.

„Ég hef búið í Mosfellsbæ með hléum í 45 ár og á þrjá syni. Mitt hjarta slær í Mosó og brenn ég fyrir þeim verkefnum sem ég tek að mér.
Ég hef mikla löngun til að vinna með góðu og jákvæðu fólki að málefnum Mosfellinga,“ segir Kolbrún.

Héraðsskjalasafnið fagnar 20 ára afmæli

Birna Sigurðardóttir héraðsskjalavörður og Sólveig Magnúsdóttir fyrsti héraðsskjalavörður Mosfellsbæjar við hluta af sýningu sem sett var upp í Kjarna í tilefni afmælis safnsins. Mynd/Magnús Guðmundsson

Blásið var til afmælisfagnaðar Héraðsskjalasafns Mosfellsbæjar í Kjarna hinn 22. október. Þess var minnst að Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar var stofnað hinn 24. október 2001 þegar Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður kom og veitti heimild til stofnunar þess.
Áður hafði Sögufélag Kjalarnesþings hvatt bæjarstjórn Mosfellsbæjar til að koma á legg héraðsskjalasafni. Af þessu tilefni voru fluttar ræður og saga safnsins rakin. Að loknu erindi Birnu Sigurðardóttur héraðsskjalavarðar og ávarpi Sólveigar Magnúsdóttur fyrsta héraðsskjalavarðarins sagði Bjarki Bjarnason forseti bæjarstjórnar frá því hvernig safnið hafi komið að miklum notum þegar ákveðið var að skrifa sögu Mosfellsbæjar, en hún kom út árið 2005.
Auk þess sem safnið varðveitir eldri og yngri skjöl bæjarfélagsins gegnir það mikilvægu hlutverki við söfnun og geymslu skjala frá félögum, fyrirtækjum og einstaklingum. Slíkar heimildir komu einnig að miklu gagni þegar aldarsaga Aftureldingar var skráð árið 2009.
Upplýsingaskilti sem sjá má víða í bæjarfélaginu eru prýdd ljósmyndum sem héraðsskjalasafnið átti þátt í að safna. Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður í Kópavogi flutti heillaóskir og tíundaði lýðræðislegt hlutverk safnsins. Hrefna Róbertsdóttir þjóðskjalavörður færði safninu bókargjöf. Kristbjörn Egilsson líffræðingur færði héraðsskjalasafninu frumheimildir um býlið Meltún sem hann notaði við samningu bókar um býlið og ábúendur þess, en hann var í sveit í Meltúni sem unglingur.
Þjóðfræðingarnir Ólafur Ingibergsson og Valgerður Óskarsdóttir unnu með Birnu Sigurðardóttur héraðsskjalaverði að uppsetningu á sýningu á torginu í Kjarna og í anddyri turnsins í Kjarna. Þar má sjá gamlar ljósmyndir og upplýsingar um mannvirki sem sett hafa svip á Mosfellssveitina síðustu áratugi. Héraðsskjalasafnið er til húsa í Kjarna.

KALEO styður við stelpurnar

Mosfellska hljómsveitin KALEO hefur komist að samkomulagi við Aftureldingu um að styðja myndarlega við meistaraflokk kvenna í knattspyrnu. Áður hefur hljómsveitin stutt við strákana með sögulegum samningi og nú bætist í hópinn. Gengið var frá samningi á fjölmennu styrktarkvöldi á dögunum sem fram fór í Félagsgarði í Kjós. Meðlimir KALEO voru þar heiðursgestir en hljómsveitin undirbýr nú tónleikaferðina Fight or Flight sem hefst strax í byrjun janúar á næsta ári.
KALEO-treyjur Aftureldingar hafa vakið verðskuldaða athygli að undanförnu og eru nú fáanlegar á www.afturelding.is.