Íþróttaskóli barnanna í 30 ár

Íþróttaskóli barnanna hefur verið starfræktur síðan 1992. Svava Ýr Baldvinsdóttir hefur stjórnað skólanum frá upphafi og er því að ljúka sínu 30 starfsári.
Íþróttaskólinn hefur verið mjög vinsæll í gegnum árin og fjöldi barna, á aldrinum 3ja til 5 ára, hefur fengið sína fyrstu kynningu af íþróttum í Íþróttaskólanum.
Mikil almenn ánægja hefur verið með þetta merka starf Svövu Ýrar allt frá upphafi.
Mosfellingur tók Svövu Ýr tali, gefum henni orðið.

„Í Íþróttaskólanum er lögð áhersla á fjölbreytta hreyfingu, þar sem áhersla er lögð á að efla þroska barnanna með fjölbreyttu og markvissu hreyfinámi. Tekið er mið af þroska barnanna þar sem verið er að efla hreyfiþroska, vitsmunaþroska og félagsþroska, svo eitthvað sé nefnt. Markvist er unnið að því að efla m.a. þor barnanna, styrk, fín- og grófhreyfingar, fimi, jafnvægi og taka tillit til náungans.“

Umfram allt að það sé gaman
„Markmiðunum er náð í gegnum leik. Mjög mikilvægt er að börnin finni þörf fyrir að hreyfa sig og hafi umfram allt gaman af. Foreldrar taka virkan þátt í tímunum enda er það eitt af lykilmarkmiðum skólans, að börn og foreldrar leiki sér saman og eigi fallega gæðastund í vinalegu umhverfi. Kærkominn samverutími í annars hröðu samfélagi nútímans.”

Fjölbreytt æfingaval
„Mjög mikilvægt er að börnunum líði vel í íþróttasalnum og reynum við að hafa andann léttan og skemmtilegan þar sem notast er við fjölbreytt æfingaval. Rannsóknir hafa sýnt fram á að góð grunnþjálfun, þar sem áhersla er lögð á alhliða líkams- og hreyfiþroska og jákvætt umhverfi, hefur mjög mikla og jákvæða þýðingu fyrir einstaklinginn þegar fram í sækir.
Íþróttaskólinn leggur metnað sinn í að kynna flestar þær íþróttagreinar sem Afturelding býður upp á. Þau kynnast boltagreinum, spaðagreinum, fimleikum, hreyfingu með tónlist og margt margt fleira. Það má því búast við að líkur aukist á að barnið velji sér hreyfingu við hæfi hjá einni eða fleiri deildum félagsins.“

Börnin eru vel undirbúin þegar kemur að skólaíþróttum
„Í Íþróttaskólanum kynnast börn og foreldrar húsnæði íþróttamiðstöðvarinnar og síðast en ekki síst reglum og aga í íþróttasalnum og klefum. Börnin eru því vel undirbúin þegar kemur að skólaíþróttum,“ segir Svava Ýr að lokum.
Rétt er að benda á að síðasti tími þessa námskeiðs er laugardaginn 9. apríl en nýtt 5 tíma námskeið hefst laugardaginn 23. apríl. Börn fædd 2019-2016 eru velkomin á það námskeið. Skólinn er á laugardagsmorgnum og hver aldurshópur er 55 mínútur í sal.
Allar upplýsingar birtast á Fésbókarsíðu Íþróttaskólans. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netfangið ithrottaskólinn@gmail.com.

KYNNING