Úthlutað úr Klörusjóði

Styrkþegar frá Krikaskóla og Helgafellsskóla ásamt Kolbrúnu formanni fræðslunefndar.

Mánudaginn 9. maí voru afhentir styrkir úr Klörusjóði en markmið sjóðsins er að stuðla að nýsköpun og framþróun í skóla- og frístundastarfi í Mosfellsbæ.
Í ­sjóð­inn getur sótt starfsfólk skóla- og frí­stundastarfs og verkefnin geta verið samstarfsverkefni bæði innan og utan skóla. Í ár var áhersla lögð á umhverfisfræðslu og fengu Krikaskóli og Helgafellsskóli úthlutað til eftirfarandi verkefna.

Tími og rými til að kanna umhverfið
UM HVERFIÐ er verkefni sem ætlað er gefa börnunum í Krikaskóla tíma og rými til að kanna umhverfi sitt sérstaklega út frá sínum veruleika, skóla og búsetu hér í Mosfellsbæ. Markmið verkefnisins er að gefa börnunum færi á að að auka skilning sinn á umhverfinu og samspili þess við búsetu.
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna mun hafa sérstakt vægi í fyrirhuguðu umhverfis­verkefni. Verkefnið hefur öfluga tengingu við skólastarfið í Krikaskóla eins og það er sett fram í almennum hluta skólanámskrár Krikaskóla frá 2021.
Skólanámskrá Krikaskóla er nánari útfærsla skólans á Aðalnámskrám leik- og grunnskóla ásamt þeim lögum og reglum sem um íslenskt skólastarf gilda. Að sama skapi er verkefnið með tengingu við nýútgefna menntastefnu Mosfellsbæjar en vöxtur, fjölbreytni og samvinna eru þrjár grunnstoðir nýrrar menntastefnu Mosfellsbæjar.

Gönguskíði fyrir leikskólabörn
FJÖLBREYTT HREYFING OG ÚTIVIST er verkefni sem hugsað er fyrir leikskólabörn í Helgafellsskóla. Markmiðið er að börnin fái sem fjölbreyttasta hreyfingu og útivist, með því erum við að efla lýðheilsu og umhverfisvitund barnanna.
Með styrknum er ætlunin að fjárfesta í sex pörum af gönguskíðum til að auka hreyfifærni barna og útivistaráhuga. Gott svæði er til að stunda útiveru í nærumhverfi Helgafellsskóla og með hverri ferð út fyrir skólalóðina á sér stað ákveðin umhverfisfræðsla.
Verkefnið er langtímaverkefni sem væri í stöðugri þróun, það gefur augaleið að það myndi eiga sér stað yfir vetrartímann þegar aðstæður leyfa. Búnaðurinn væri eign skólans en vissulega opnað fyrir þann möguleika að lána hann til annarra skóla í sveitarfélaginu.