Hreyfing í vatni er góð þjálfun fyrir alla

Elísa Berglind Sigurjónsdóttir hefur kennt konum vatnsleikfimi í Lágafellslaug síðan haustið 2014 og hafa tímarnir notið mikilla vinsælda.
Til að byrja með var boðið upp að tíma tvisvar í viku en nú eru tímarnir orðnir fimm í viku hverri. Mosfellingur tók Elísu tali um starfið vítt og breytt.

„Leikfimin er mjög fjölbreytt og engir tveir tímar eins, segir Elísa. Notast er við ýmis hjálpartæki eins og núðlur, handlóð, ketilbjöllur, teygjurenninga og ýmislegt annað. Tónlist er mjög mikilvægur partur af tímunum hjá mér.
Það eru svokallaðir mjúkir morguntímar tvisvar í viku þar sem áhersla er lögð á mjúkar hreyfingar, léttar þolæfingar, styrktaræfingar, teygjur og yoga. Kvöldtímarnir sem eru þrisvar í viku eru aðeins kraftmeiri, þá erum við með stöðvaþjálfun, tabata, Aqua Zumba, þol- og styrktaræfingar svo eitthvað sé nefnt.”

Iðkendum fjölgar ört
„Þegar ég byrjaði renndi ég svolítið blint í sjóinn. Ég var að byrja í nýrri sundlaug í nýju bæjarfélagi og vissi ekkert hvernig þetta myndi fara eða þróast. Það var ekki nema ár síðan ég fékk réttindi til að kenna Zumba í vatni og það form líkamsræktar var ekki þekkt hér á landi. Tímarnir fóru frekar hægt af stað en á fyrsta námskeiðinu skráðu sig fimmtán konur.
Þetta var þó fljótt að spyrjast út og núna eru iðkendur í kringum sjötíu, þó ekki allir ofan í í einu. Ennþá hef ég einskorðað tímana við konur en dauðlangar að prófa að hafa tíma fyrir karla. Ég legg mikla áherslu á að hver og ein kona í lauginni mæti á sínum forsendum og geri nákvæmlega það sem hennar líkami ræður við á sínum hraða. Ég vil ekki að nein ofgeri sér.”

Zumba er góð spennulosun
„Þjálfun í vatni er stórkostlegt æfingaform sem hentar flest öllum, ekki bara eldra fólki og ófrískum konum. Ávinningur fyrir líkamann við þjálfun í vatni er mikill, álag á liðamót nánast ekkert og meiðsli eru nánast óþekkt í vatnsþjálfun. Í vatni getum við hreyft okkur á margan hátt sem við gætum annars ekki.
Hreyfing í vatni er ótrúlega góð fyrir stoðkerfi og liði, er nánast meiðslalaus, hefur mýkjandi áhrif á líkamann og losar um spennu. Þetta er aðeins brot af þeim góðu áhrifum sem þjálfun í vatni hefur á líkama okkar.”

Rósirnar
„Hópurinn, sem ég hef kallað Rósirnar, er einstakur og í gegnum árin höfum við haldið að minnsta kosti tvo viðburði á ári utan sundlaugarinnar. Stundum er farið létt út að borða eftir tíma og við höfum farið tvisvar sinnum saman til Spánar í slökunar- og hreyfiferð, við förum í þriðja skiptið núna í júní.”

Mosfellingur þakkar Elísu Berglindi spjallið og fylgja hér í lokin nokkrar umsagnir frá hennar ánægðu Rósum.

• Það er svo nærandi kærleikur í öllum þínum tímum yndislega Elísa Berglind

• Það er ekkert mál að falla strax inn í hópinn. Elísa Berglind heldur sérstaklega vel utan um okkur, jákvæð og hvetjandi, en allt á okkar forsendum þar sem engar tvær eru staddar á sama stað í getu.

• Hreyfing og æfingar í vatni er dásemd og hefur bjargað mér bæði líkamlega og andlega því hópurinn er svo dásamlega samheldinn

• Ég kom fyrst í Aqua Zumba til Elísu Berglindar 2015 og hef verið næstum óslitið síðan. Í fyrsta skipti sem ég finn heilsurækt sem ég fer í full af tilhlökkun og kem alltaf glaðari og hressari upp úr lauginni. Hef auk þess kynnst mörgum skemmtilegum konum í sundinu og Elísa Berglind er gefandi, faglegur og jákvæður leiðbeinandi sem leggur allt sitt í að tímarnir séu góðir og skemmtilegir.

• Mæli eindregið með. Tímarnir í Lágafells­laug hjá Elísu Berglindi eru mitt “happy place”, alltaf gaman, núvitund og gleði í eigin líkama. Finn mikinn mun á styrk og þoli auk þess sem það er einfaldlega gaman. Velvilji, samkennd og jákvæðni er einkennandi fyrir hópinn og hana Elísu Berglindi sem leiðir okkur áfram

• Ég er ný í hópnum og leið strax eins og heima hjá mér. Glaður og vinalegur hópur, kennarinn fyrsta flokks og tónlistin frábær. Góð og styrkjandi hreyfing í vatni og ekki síst mjög skemmtileg.

KYNNING