Heilsuefling og kosningar

Tveir dagar í kosningar. Það skiptir máli hverjir stjórna. Heilsuefling er mér ofarlega í huga þegar ég velti því mér hvaða framboð á að fá kross í kjörklefanum. Ég er búinn að skoða nokkuð vel hvað framboðin segja um heilsueflingu okkar bæjarbúa og hvað þau hafa í hyggju að gera á því sviði. Það sem mér finnst skipta máli er að fólk viti hvað það er að tala um og að það sé trúverðugt að loforð og góðar fyrirætlanir muni verði að veruleika. Íþróttir hafa mikið forvarnargildi, félagslega, andlega og líkamlega. Því betri aðstaða sem íþróttafélögin okkar búa við, því fleiri eru líklegir til þess að æfa reglulega. Peningar sem eru settir í íþróttaaðstöðu skila sér margfalt til baka inn í samfélagið – það er staðreynd.

En heilsuefling snýst ekki bara um skipulagðar íþróttir. Heilsuefling snýst líka um vellíðan barna og unglinga og þar skipta skólarnir mjög miklu máli. Því betur sem krökkum, unglingum og starfsmönnum líður í skólanum, því betur líður okkur öllum. Margfeldisáhrifin eru mikil. Vellíðan og metnaður fara vel saman, það er gaman að gera vel, finna að maður er að ná betri tökum á lífinu og því sem maður fæst við.

Heilsuefling snýst líka um eldri borgara. Við viljum halda eldra fólki eins hraustu og hressu eins lengi og við getum. Bæði vegna þess að þau eiga það skilið eftir allt sem þau hafa gert fyrir komandi kynslóðir og vegna þess að það skilar sér margfalt til baka inn í samfélagið. Því fyrr sem fólkið okkar missir heilsu og getu til að sjá um sig sjálft, því dýrara fyrir samfélagið allt. Umönnum kostar sitt.

Forvarnir og skýr framtíðarsýn á sviði heilsu og vellíðunar er það sem ég legg mesta áherslu í kjörklefanum. Trúverðugleiki er lykilatriði. Innan­tóm loforð gera lítið fyrir mig. Heilsueflandi kosninga­kveðjur!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. maí 2022