Uppbygging á Blikastöðum – áhersla lögð á fjölbreytta byggð

Horft yfir Blikastaðalandið af Úlfarsfelli.

Mosfellsbær og Blikastaðaland ehf. hafa undirritað samstarfssamning um uppbyggingu sjálfbærrar og mannvænnar byggðar í landi Blikastaða. 
Í tillögum hefur verið gengið út frá því að sett verði viðmið um að svæðisnýting á þróunarás Borgarlínu verði um 0,4. Til viðmiðunar er Helgafellshverfi þéttast í 0,65 og á Hlíðarenda í Reykjavík 1,4.
Blikastaðaland, sem er um 87 hektarar að stærð og er eitt stærsta óþróaða landið á höfuðborgarsvæðinu, er í eigu Blikastaðalands ehf., dótturfélags Arion banka. Áhersla verður lögð á þrenns konar þéttleika og karakter byggðarinnar undir yfirskriftunum bær, þorp og sveit. Þá er gert ráð fyrir tveimur grunnskólum, fjórum leikskólum og íþróttaðstöðu á svæðinu. 

Hverfið verður hannað frá grunni sem fjölbreytt og blönduð byggð þar sem fólk getur sinnt helstu erindum fótgangandi eða með almenningssamgöngum þar sem Borgarlínan verður í burðarhlutverki. Með því er stuðlað að betri nýtingu náttúrugæða, orku og innviða sem sýnir ábyrgð í umhverfismálum og tryggir lífsgæði komandi kynslóða.
Samráð við íbúa vegna vinnu við skipulag svæðisins er tryggt að lögum en samningurinn rammar inn þátttöku landeigandans í fjárfestingu í innviðum hverfisins.

Byggð á Blikastöðum lengi legið fyrir
„Það hefur lengi legið fyrir að það mun rísa byggð í landi Blikastaða,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Gildandi stefnumörkun um þéttleika á Blikastaða­landi má rekja til svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og breytinga á því skipulagi sem auglýst var á síðasta kjörtímabili og tók gildi á þessu kjörtímabili. Þar er um að ræða breytingu sem bar heitið „Samgöngu- og þróunarásar fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu – Borgarlína.“
Þar er kveðið á um þann þéttleika byggðar sem þarf að vera til að bera slíkt samgöngukerfi og það er ein af stoðunum þremur í samgöngusáttmála sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins sem undirritaður var 2019.
Á árinu 2020 kynntu eigendur Blika­staða­lands bæjarstjórn Mosfellsbæjar drög að forsögn fyrir rammaskipulag og þróunar­áætlun. Bæjarráð ákvað að skipa rýnihópa til að rýna framlögð gögn. Að þeirri vinnu lokinni héldu áfram kynningar og vinna rammaskipulags með skipulagsnefnd frá því síðasta haust. Framgangur málsins hefur birst meðal annars á vef bæjarins í fundargerðum skipu

Við Blikastaðabæinn má búast við þjónustu, verslun og afþreyingu.

lagsnefndar.“

Aðkoma íbúa að mótun skipulagsins
„Í forsögn að rammaskipulagi Blikastaða­lands er gert ráð fyrir að uppbygging og skipulag geti verið unnið í þremur til fimm áföngum. Þannig muni landeigendur vinna áfram náið með starfsfólki og kjörnum fulltrúum Mosfellsbæjar að frekari útfærslum.
Í skipulagsferli hafa íbúar jafnframt tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að. Við rýni svæðisins og undirbúning er leitast við að halda í helstu sérstöðu Mosfellsbæjar innan höfuðborgarinnar, þar sem græn byggð og lágreist yfirbragð einkennir bæinn. Í tillögum hefur verið gengið út frá því að sett verði viðmið um að svæðisnýting á þróunarás Borgarlínu verði um 0,4. Frekari útfærslur um ásýnd, gerð og gæði byggðar munu eiga sér stað við gerð deiliskipulags og fara í viðeigandi samráðsferli.“

Bær, þorp, sveit og Borgarlína
Í framsetningu hugmynda er lögð áhersla á þrenns konar þéttleika og karakter byggðarinnar undir yfirskriftunum bær, þorp og sveit. Bærinn verður byggð fjölbreyttra búsetukosta í fjölbýli næst fyrirhugaðri þjónustu og legu Borgarlínu. Þorpið lýsir sér sem smærri fjölbýliskostur í bland við sérbýli í par- og raðhúsum á völdum reitum. Sveitin er svo sá hluti hverfisins sem gengið er út frá að verði vestast á svæðinu og ætlaður sérbýli af fjölbreyttri stærð og gerð.“
Þá telur Haraldur mikilvægt að fram komi að: „Í þeim viðræðum sem hófust síðustu áramót um gerð uppbyggingarsamnings um Blikastaðalandið var því ekki verið að semja um þéttleika eða fjölda íbúða því þær forsendur lágu fyrir eftir umfjöllun í bæjarráði, bæjarstjórn og skipulagsnefnd.
Það er skýrt tekið fram í samningnum og allir fyrirvarar gerðir um að þessa skipulagsvinnu á eftir að vinna með aðkomu íbúa með lögbundnu samráði. Samráðið er líka lykilþáttur í að skapa vandað, umhverfisvænt og mannvænt bæjarumhverfi.
Samningurinn tryggir hins vegar þá fjármuni sem landeigandi skuldbindur sig til að láta af hendi til að standa undir þeim innviðum sem byggja þarf í hverfinu. Þar er um að ræða tvo grunnskóla, fjóra leikskóla og íþróttaaðstöðu.
Þetta var flókin samningagerð enda miklir hagsmunir undir en ég veit að út úr öllu þessu starfi kom mjög góður samningur fyrir Mosfellsbæ.“

Uppbyggingarsamningur án hliðstæðu
„Þetta er uppbyggingarsamningur án hliðstæðu í öllu tilliti. Verðmæti samningsins fyrir Mosfellsbæ er um 10 milljarðar króna sem skiptist annars vegar í 7 milljarða sem greiddir eru með peningum í tengslum við framvindu útgáfu byggingarleyfa og svo byggingu íþróttamannvirkja og hins vegar lóðaréttindi sem metin eru á 3 milljarða. Þetta eru upphæðir sem ekki hafa áður sést í samningum sem þessum.
Samningurinn tryggir farsæla uppbyggingu hér í Mosfellsbæ, uppbyggingu sem er til þess fallin að efla þjónustu og lífsgæði Mosfellinga og efla samfélag okkar á alla lund. Þá verður ekki framhjá því litið að uppbygging í landi Blikastaða verður lykilþáttur í að tryggja gott lóðaframboð á höfuðborgarsvæðinu sem mætir þeirri eftirspurn eftir húsnæði sem við höfum fundið svo vel,“ segir Haraldur.