Stefndi á að koma Íslandi á kortið

Magne Kvam eigandi Icebike Adventures sameinaði þekkingu sína og fór að taka að sér hjólaleiðsögn um landið.

Icebike Adventures er lítið fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var árið 2006 og er fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem býður upp á margra daga fjallahjólaferðir á hálendinu. Stofnandinn, Magne Kvam hefur eytt síðustu 15 árum í að leita að og búa til hjólaleiðir um land allt.
Hann og hans starfsfólk hafa mikla ástríðu fyrir útivist og fjallahjólreiðum og leitast við að skapa einstök reiðhjólaævintýri fyrir viðskiptavini sína á fjarlægustu slóðum Íslands.

Magne Kvam er fæddur á Akureyri 13. júní 1975. Foreldrar hans eru þau Gígja Kjartansdóttir tónlistarkennari, organisti og stofnandi Urtasmiðjunnar og Roar Kvam tónlistarkennari og tónskáld. Magne á eina systur, Helgu Kvam f. 1972 sem starfar sem tónlistarkennari og tónskáld.

Rex var sannur vinur
„Ég er alinn upp á Svalbarðsströnd í Eyjafirði og það var frábært að alast þar upp, í sveitinni við fjörðinn. Maður var alltaf að bardúsa eitthvað, með veiðistöngina á reiðhjólinu eða smíðandi fleka úr vörubrettum. Á næsta bæ átti ég skyldfólk og hjá þeim var ég mikið á mínum æskuárum.
Ég átti hund sem hét Rex og hann fór með mér hvert sem ég fór og var sannur vinur. Hann varð síðan fyrir bíl og það var mjög vont fyrir ungan dreng.
Ég man vel eftir þeim degi þegar ég smíðaði mér boga og skaut ör í flugdreka drengs í sveitinni sem mér þótti ekki skemmtilegur með þeim afleiðingum að drekinn hrapaði til jarðar. Það var mikill víkingasigur sem ég er enn stoltur af,“ segir Magne og brosir.

Stundaði nám á alls kyns hljóðfæri
„Ég gekk í grunnskóla í sveitinni alveg upp í 6. bekk, þetta var lítill sveitarskóli sem var bara kósí og við vorum fjögur í mínum árgangi. Ég fór síðan í Glerárskóla á Akureyri og kynntist þar nýjum félögum og kláraði mína skólaskyldu þar. Á sumrin vann ég í unglingavinnunni, við garðslátt, girðingarvinnu og á trésmíðaverkstæði.
Á unglingsárunum ólst ég eiginlega upp í tónlistarskóla, stundaði þar nám á alls kyns hljóðfæri í klassísku tónlistarnámi. Hóp­íþróttir áttu ekki vel við mig og ekki mikið annað í boði þannig að ég hjólaði mikið sem barn og fann mig vel í því sporti.
Ég gekk líka í þungarokkshljómsveitir og brallaði ýmislegt mis gáfulegt.“

Sá risastórt tækifæri
Eftir skólaskyldu fór Magne að starfa sem handlangari á trésmíðaverkstæði en svo lá leið hans í Verkmanntaskólann á Akureyri á myndlista- og handiðnabraut. Hann var eini karlmaðurinn í allri deildinni, þar teiknaði hann, málaði og lærði einnig á vefstól.
„Eftir verkmenntaárin lá leið mín í 4 ára myndlistar- og hönnunarnám í Myndlistaskólanum á Akureyri og ég útskrifast þaðan árið 1997 sem grafískur hönnuður. Við tók 18 ár af auglýsingagerð og sjónvarpsframleiðslu hjá fyrirtækjum eins og OZ, Fíton, Jonsson & Le’macks, CAOZ, Pipar/TBWA og einnig tók ég að mér sjálfstætt starfandi verkefni tengd hreyfimyndagerð og sjónvarpsframleiðslu. Á sama tíma var ég einnig að kenna hönnun við Myndlistarskólann og byrjaði svo að fást við location & logistics vinnu þ.e. finna hentuga staði fyrir myndatökur og fleira.
Út frá ofangreindu þá fór að þróast hjá mér mikil della og áhugi fyrir ferðamennsku um landið. Sameinaði ég þá þekkingu mína við fjallahjóladelluna og fór að taka að mér leiðsögn reiðhjólamanna ásamt því að sinna ljósmyndatökuverkefnum. Á þessum tíma var fjallahjólasport nánast ekki til á Íslandi og ég sá risa tækifæri til þess að koma Íslandi á kortið sem áfangastað fjallahjólreiðamanna.“

Bæti við uppbygginguna árlega
„Ég stofnaði fjallahjólafyrirtækið, Icebike Adentures, og fór að byggja upp ferðaþjónustu sem gekk vel og óx ört, ég stefndi á að koma Íslandi á kortið. Í framhaldi sá ég þörfina á að byggja upp leiðakerfi og efla aðstöðu til fjallahjólreiða um land allt meðal annars búa til og viðhalda stígum.
Ég hef verið að byggja upp brautir í Skálafelli og Hlíðarfjalli þar sem skíðasvæðin halda uppi rekstri fyrir fjallahjólreiðar og ég bæti við þá uppbyggingu árlega. Ég hélt svo áfram og bauð sveitarfélögum upp á þjónustu í uppbyggingu á leiðum en maður fann fyrir mismiklum áhuga þeirra sem ráða. Sums staðar á pólitíkin langt í land hvað varðar skilning og þá sérstaklega fyrir yngstu kynslóðina því það hafa ekki öll börn áhuga á hópíþróttum.
Undanfarið höfum við verið að vinna fyrir Hveragerðisbæ og það hefur gengið mjög vel og þar eru komnar margar góðar leiðir í fallegu umhverfi.“

Fara á leynilegar slóðir
Eiginkona Magne er, Ásta Briem framkvæmdastjóri Icebike Adventures en hún kom inn í fyrirtækið með honum árið 2013. Þau eiga þrjú börn, Eldar f. 2004, Sölva f. 2014 og Heklu f. 2015.
Þau segja áhuga fólks á hjólreiðum hafi aukist mjög mikið og hafa verið að bjóða upp á námskeið fyrir byrjendur og eins lengra komna. Í ferðum sínum leggja þau mikið upp úr því að koma viðskiptavinum sínum á leynilegar slóðir hálendisins. Farið er yfir óbrúaðar ár með breyttum jeppum og sérsmíðuðum reiðhjólavögnum.

Það er dulúð yfir landinu okkar
„Aðaláhersla okkar er að kynna Ísland og fjallahjólreiðar fyrir bæði erlendum og innlendum ferðamönnum víða um land. Það sem við höfum hér á landi er auðnin og óbyggða hálendið okkar. Möguleikinn á að geta hjólað dag eftir dag án þess að rekast á annað fólk er eitt af því sem fólk sækist eftir.
Grófleikinn, tengingin við uppruna jarðarinnar og gríðarlega fjölbreytt landslag sem tekur endalausum breytingum gerir ferðalagið spennandi og krefjandi. Ísland sem fjallahjólaland er ekki fyrir alla en þeir sem skilja jarðfræðina og átta sig á töfrum landsins, þeir koma aftur og aftur.
Það er einhver dulúð yfir landinu okkar sem er spennandi og ógnandi á sama tíma,“ segir Magne að lokum er við kveðjumst.

Helgafellsskóli afhentur Mosfellsbæ

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Rósa Ingvarsdóttir skólastjóri og Bergþór Ásgeirsson frá Flotgólf ehf.

Helgafellsskóli var afhentur Mosfellsbæ við formlega athöfn í skólanum þann 7. september að viðstöddum bæjarfulltrúum, nefndarmönnum í fræðslunefnd, starfsmönnum fræðslu- og frístundasviðs og umhverfissviðs Mosfellsbæjar. Skólinn er afhentur á réttum tíma og undir kostnaðaráætlun.
Hönnun Helgafellsskóla var á höndum Yrki Arkitekta og VSB verkfræðistofu. Í ársbyrjun 2019 voru 1. og 4. áfangar skólans teknir í notkun og nú tveimur árum síðar eru 2.- 3. áfangar skólans tilbúnir. Í þeim hluta skólans verður 7.-10. bekkur auk sérgreinastofa skólans eins og raungreinastofur, listasmiðjur og gróðurhús svo nokkuð sé nefnt. Þá er í þessum áfanga vel búinn hátíðarsalur.

Innan kostnaðar- og tímaramma
Fyrirtækið Flotgólf vann að uppbyggingu 2.-3. áfanga og tókst þrátt fyrir utanaðkomandi tafir að halda verkinu á áætlun.
Undirbúningur að byggingu Helgafellsskóla hófst í ársbyrjun 2015 og 1. og 4. áfangar voru teknir í notkun í janúar 2019. „Stýrihópur verkefnisins hefur að mínu mati skilað einstaklega góðu verki,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Þá vil ég sérstaklega hrósa fyrirtækinu Flotgólf fyrir vandaða vinnu, góð og uppbyggileg samskipti á byggingartímanum og einstaka tillitssemi gangvart starfsemi þess hluta skólans sem starfaði á byggingartímanum.
Kostnaðarrammi 2. og 3. áfanga var áætlaður rúmir 2,3 milljarðar króna og er heildarkostnaður við byggingu þessa áfanga áætlaður um 98% af kostnaðarramma. Verkefnið í heild er því í senn innan kostnaðarramma og tímaramma.
Það er mikilvægt að ná slíkum árangri í opinberum rekstri og slík jákvæð frétt nær ekki alltaf eyrum allra. Ég vil því nota þetta tækifæri til að hrósa öllum þeim sem að verkefninu hafa komið enda getum við verið stolt af þessum glæsilega skóla.
Skólinn verður sannkallað hjarta Helgafellshverfis og bæði salir skólans og lóð verða þungamiðja menningar- og mannlífs í hverfinu í nánustu framtíð“ segir Haraldur.

Hinsegin klúbbur Bólsins hlýtur jafnréttisviðurkenninguna 2021

Una Hildardóttir formaður lýðræðis- og mannréttindanefndar, Katla Jónasdóttir umsjónarmaður Hinsegin klúbbsins og Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

Jafnréttisviðurkenningu Mosfellsbæjar 2021 hlýtur Hinsegin klúbbur Bólsins.
Hinsegin klúbbur félagsmiðstöðvarinnar Bólsins var stofnaður árið 2019 og er vettvangur þar sem öll geta verið þau sjálf og veita þátttakendum færi á að fræðast frekar um hinsegin málefni.
Hinsegin klúbburinn er fyrir alla krakka á aldrinum 13-18 ára en öll áhugasöm um hinsegin málefni eru velkomin og geta tekið þátt í þeim viðburðum sem haldnir eru hverju sinni. Starfsemi klúbbsins er kærkomin viðbót í flóru félagsstarfs í Mosfellsbæ en þar er meðal annars staðið fyrir fjölbreyttri fræðslu, m.a. kynfræðslu og hafa samtök eins og #Sjúkást og Eitt líf komið í heimsókn.
Loks vinnur hinsegin klúbbur Bólsins að því að brjóta niður staðalmyndir kynjanna og vinnur markvisst að framgangi jafnréttis og gegn kynbundnu ofbeldi, kynferðislegu ofbeldi og áreitni.
Með viðurkenningunni vill lýðræðis- og mannréttindanefnd Mosfellsbæjar fagna fjölbreytileikanum og viðurkenna þörfina fyrir öruggan vettvang fyrir hinsegin ungmenni. Mikilvægt er að tryggja að við öll sem búum í Mosfellsbæ njótum sömu mannréttinda óháð kyni, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar eða kyneinkenna.

Smelltu hér til að horfa á streymi frá deginum.

Draumur Listapúkans rætist

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Sólveig Franklínsdóttir formaður menningar- og nýsköpunarnefndar, Þórir Listapúki, Vilborg Þorgeirsdóttir móðir, Gunnar Þórisson faðir, Guðrún Von litla frænka Þóris.

Á sérstakri hátíðardagskrá í Listasal Mosfellsbæjar í lok ágúst var myndlistamaðurinn Þórir Gunnarsson, einnig þekktur sem Listapúkinn, útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2021.
Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar sér um val bæjarlistamanns ár hvert og veitti Sólveig Franklínsdóttir formaður nefndarinnar Þóri verðlaunagrip eftir listakonuna Ingu Elínu ásamt viðurkenningarfé sem fylgir nafnbótinni.

Þekktur fyrir litríkar portrettmyndir
Þórir Gunnarsson er fæddur árið 1978 og er Mosfellingur í húð og hár. Hann hefur starfað á Múlalundi, æft íþróttir og verið öflugur meðlimur stuðningsklúbbsins Rot­­höggsins.
Hann er ötull í list sinni, kappsamur og hugmyndaríkur. Myndir hans spegla oftar en ekki fegurð hversdagsleikans en einnig er hann þekktur fyrir litríkar portrettmyndir sínar af vinum og vandamönnum jafnt sem þjóðþekktum einstaklingum.
Þórir sýndi í Kaffihúsinu í Álafosskvos árin 2012, 2013, 2014 og 2015, á Blik á bæjarhátíðinni Í túninu heima árið 2018 og samsýningu á vegum Listar án landamæra í Gallerí Gróttu árið 2020.

Sækir um í Listaháskóla Íslands
„Þetta kom mér skemmtilega á óvart,“ segir Þórir Listapúki. „Ég varð mjög hissa og átti ekki von á þessu. Maður er bara kominn í heiðurshöllina með frábærum listamönnum sem hafa hlotið þennan titil í gegnum tíðina. Þetta er mikill heiður fyrir mig,“ segir Listapúkinn sem játar það að þetta hafi verið draumur hans í mörg ár að verða einhverntíma bæjarlistamaðurinn.
Það þekkja allir Listapúkann í Mosfellsbæ. Alltaf brosandi og alltaf glaður, það skiptir miklu máli.
Þórir segir Listapúkanafnið hafa fest við sig en það eigi stundum til að brjótast fram í honum smá púki. „Þetta er bara listamannanafnið mitt.“
Þórir hefur lokið námi frá Myndlistaskóla Reykjavíkur og segir stílinn sinn hafa þróast heilmikið að undanförnu. „Ég mála landslag, hús, fólk, dýr, strætó, ljósastaura, umferðarljós o.fl.“
Þórir hefur sótt um inngöngu í Listaháskóla Íslands en ekki fengið inngöngu enn. Hann er þó bjartsýnn á framhaldið og ætlar að sjálfsögðu að sækja um á næsta ári með bæjarlistanafnbótina uppi í erminni.

Hleypur heilt maraþon um helgina
Listapúkinn ætlar að notfæra sér nafnbótina til góðs og koma sér ennþá betur á framfæri auk þess sem fyrirhuguð er sýning í Listasal Mosfellsbæjar á nýju ári.
Listapúkinn undirbýr sig þessa dagana undir Reykjavíkurmaraþonið sem hann ætlar að hlaupa á laugardaginn, heilt mara­þon. Hægt er að heita á Þóri og styrkja barnaspítala Hringsins. „Það er gott málefni og það þarf að hjálpa börnum sem veikjast,“ segir bæjarlistapúkinn að lokum og minnir á að hægt er að fylgjast með honum á helstu samfélagsmiðlum.

Dauðafæri!

Það var frábært að fylgjast með því í síðustu viku þegar stelpurnar okkar í fótboltanum tryggðu sér sæti í efstu deild á ný. Stútfullur völlur og samfélagsmiðlar fylltust af stoltum og hrærðum Mosfellingum eftir leik. Þetta er eitt af því sem íþróttir ganga út á, að sameina og gleðja fólk, styrkja samfélagið.

Við Mosfellingar erum í dauðafæri núna að taka þetta á næsta stig. Við getum verið framsýn og stórhuga, séð fyrir okkur enn meiri velgengni í bæði kvenna- og karlaboltanum í stað þess að eiga ágætis lið sem samt aldrei berjast um titla. Breiðablik hefur ekki alltaf verið á þeim stað sem það er í dag. Stjarnan var lengi neðri deildar lið. Þróttur Vogum, sem vann sér sæti í næst efstu deild karla í ár, var í fimmtu efstu deild fyrir nokkrum árum.

Afturelding getur komist í fremstu röð í fótbolta á Íslandi EF félagið og bæjarfélagið Mosfellsbær taka stórhuga höndum saman. Það þarf að horfa til framtíðar í aðstöðumálum í stað þess að taka hænuskref. Við erum alltaf á eftir fólksfjölguninni, aðstaðan þolir ekki alla iðkendurna. Við erum alltaf að gera málamiðlanir varðandi æfingasvæði og æfingatíma. Það er staðreynd. Það má tala um það sem vel er gert og ég ber virðingu fyrir knattspyrnuhúsinu og nýju vallarklukkunni.

En ef við viljum lengra, ef við viljum ekki festast þar sem við erum núna – að vera með kvennalið sem er gott í næst efstu deild en í fallbaráttu í efstu deild og karlalið sem er nógu gott til að falla ekki í þriðju efstu deild, en ekki nógu gott til að komast í efstu deild, þá verðum við að spýta í lófana.

Fjárfestum í framtíðinni. Finnum leiðir til þess að búa til æfinga- og keppnissvæði framtíðarinnar og alvöru félagsaðstöðu sem hvetur iðkendur til að vera á Varmársvæðinu fyrir og eftir æfingar.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 16. september 2021

Hlaupa í minningu Þorsteins Atla

Ingólfur, lengst til vinstri, ásamt glæsilegum hópi sem ætlar að hlaupa á laugardaginn. 

Fótboltastelpurnar í 3. flokki Aftureldingar ætluðu að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Einstökum börnum.
Málefnið er þeim kært, þær hlaupa í minningu Þorsteins Atla Gústafssonar sem lést í júlí síðastliðnum en eldri bróðir hans, Ingólfur Orri, er þjálfari flokksins.

„Við ætlum að halda okkar striki og hlaupa hér í Mosó laugardaginn 18. september. Þetta er dásamlegur hópur að þjálfa. Þær eru fyrirmyndir innan sem utan vallar og við þjálfararnir erum gríðarlega stoltir af þeim.
Þetta hlaup er algerlega skipulagt og ákveðið af þeim. Þær eru að leggja mikið á sig að æfa svo þær geti hlaupið þetta,“ segir Ingólfur Orri. „Stelpurnar ætla að hlaupa einn hring eða 10 km en ég ætla að hlaupa fjóra hringi eða heilt maraþon sem eru 42 km. Við hvetjum alla til að koma og hlaupa með okkur þá vegalengd sem passar hverjum og einum.“

Hægt er að heita á hópinn „Minningarhlaup Þorsteins Atla“ á www.hlaupastyrkur.is.

Kaffi Kjós lokar eftir 23 ára rekstur

Kaffi Kjós, þjónustumiðstöð sem staðsett er í suðurhlíðum Meðalfells, verður nú lokað. Hjónin Hermann Ingólfsson og Birna Einarsdóttir á Hjalla hafa staðið vaktina í 23 ár. Nú hefur verið skellt í lás og er staðurinn til sölu. Árið 1998 fluttu þau hjónin lítið hús upp í Kjós og skírðu það Kaffi Kjós. Fljótlega var byrjað að selja kaffibolla og súkku­laðistykki og hefur starfsemin heldur betur eflst með árunum. Veitingasala og verslun hefur verið starfrækt á staðnum og áhersla lögð á heimilislegt umhverfi.

Þá hafa farið þar fram fjöldi viðburða sem bæði Kjósverjar, sumarbústaðaeigendur og aðrir gestir hafa notið í gegnum árin. Þá er tjaldsvæði á svæðinu auk hlöðu sem innréttuð hefur verið fyrir mannfögnuði í sveitinni. Kaffi Kjós er nú til sölu en ljóst er að mikill söknuður verður af þjónustulund þeirra hjóna Hermanns og Birnu eftir öll þessi ár.

Úr holu í höll

Helga Jónsdóttir er stolt af því að hafa tekið þátt í uppbyggingu Bókasafns Mosfellsbæjar í hátt í 40 ár.

Árið 1890 komu nítján Mosfellingar saman við hamarinn hjá Seljadalsá við Hafravatn. Þar stofnuðu þeir Lestrarfélag Lágafellssóknar. Í desember 1956 var Lestrarfélagið formlega lagt niður og í samræmi við ný lög var Héraðsbókasafn Kjósarsýslu stofnað.
Nafni safnsins var síðan breytt í Bókasafn Mosfellsbæjar 1997 og á 131 ári hefur safnið breyst úr litlu lestrarfélagi í öfluga menningarmiðstöð með fjölbreytta þjónustu, starfsemi og menningartengda viðburði af ýmsu tagi.
Helga Jónsdóttir hefur starfað lengi í Bókasafninu eða frá árinu 1983, og þar af 24 ár sem deildarstjóri, en lét af störfum í júlí sl. Hún segir samskipti við gesti í gegnum tíðina hafi verið einstaklega ánægjuleg og gefandi.

Helga fæddist á Sólvangi í Hafnarfirði 18. júní 1954. Foreldrar hennar eru þau Málfríður Bjarnadóttir húsfreyja og lyfjafræðingur og Jón Magnús Guðmundsson bóndi, oddviti og hreppstjóri, en hann lést árið 2009
Systkini Helgu eru þau Hilmar f. 1940, Sólveig Ólöf f. 1949, Guðmundur f. 1952, Bjarni Snæbjörn f. 1956, Eyjólfur f. 1960 og Jón Magnús f. 1962.

Ávallt mannmargt á Reykjum
„Ég er alin upp á Reykjum í Mosfellssveit. Í uppvexti mínum var ávallt mannmargt í heimili á Reykjum. Það voru foreldrarnir og amma Ingibjörg, við systkinin, sumardvalarfólk, innlent og erlent starfsfólk og oft unglingar sem dvöldu hjá okkur í lengri eða skemmri tíma. Það voru alltaf um 20 manns í mat og ég man til dæmis aldrei eftir því að á jólum værum bara við kjarnafjölskyldan.
Ég tók snemma þátt í starfi heima, sérstaklega eftir að fuglasláturhúsið var tekið í notkun 1962. Hitinn og gufan í sláturhúsinu áttu ekki við mig svo ég vann tvö sumur í kálgörðum Ásgeirs frænda míns og líkaði vel.“

Nesti snætt og lífsins notið
„Það voru krakkar í hverju húsi í Reykjahverfinu, margir þeirra frændfólk. Í minningunni vorum við mikið í útileikjum. Farið var upp í Reykjafjall í berjamó og labbitúra. Svo var tjaldað og buslað í Varmánni, nesti snætt og lífsins notið. Stundum var farið í útreiðartúra, það var ágætt, en hestamennskan náði ekki taki á mér.
Fundið var upp á ýmsu, eins og þegar við frænkurnar opnuðum sjoppu í Daddaskúr. Við seldum popp og Ópal í lausu ásamt fleiru, og fyrir krónu mátti setjast niður og skoða Andrés Önd. Viðskiptavinir gátu líka tekið út í reikning, allt var skilmerkilega skráð í gamla frumbók og í lok sumars var farið milli bæja að rukka inn“, segir Helga og brosir að minningunni.

Í sveit í Noregi
„Ég var í vorskóla í Brúarlandi 6 ára, og í 7 og 8 ára bekk hjá Klöru Klængsdóttur, þeirri ágætu konu. Ég fór síðan í 9 ára bekk í Varmárskóla og var þar út barnaskólann. Í nokkra áratugi höfum við bekkjarsysturnar haldið saumaklúbb og njótum þess að vera saman.
Eftir 12 ára bekk fór ég í Kvennaskólann og lauk þaðan landsprófi. Í landsprófi hófust kynni okkar Dunu vinkonu minnar og ég elti hana í Menntaskólann við Tjörnina, sem nú er MS. Lauk þaðan stúdentsprófi 1974. Félagslífið var með ágætum, ekki síst í skólakór MT.
Á unglingsárunum var ég í sveit í Noregi tvö sumur. Þessi tími er mér minnisstæður og var mér mjög mikilvægur.“

Fyrstu skrefin tekin að heiman
„Sumarið 1973 tókum við að okkur tvær, ég og Þóra vinkona mín, að veita forstöðu Farfuglaheimilinu í Reykjavík. Lítil íbúð fylgdi starfinu og þar með voru fyrstu skrefin tekin að heiman. Þetta var stutt frá skólanum og passaði afar vel fyrir okkur að öllu leyti.
Ég sagði skilið við farfuglana ári síðar, en Þóra er enn í bransanum.“

Hófu búskap í Svíþjóð
„Í byrjun árs 1975 var ég beðin um að taka að mér dönskukennslu allra bekkja í Gagnfræðaskólanum í Mosfellssveit meðan kennarinn var í fæðingarorlofi. Það er mér afar minnisstæð lífsreynsla og ég er þakklát fyrir hana. Þarna sannfærðist ég um að ég ætti ekkert erindi í kennarastarf.“
Helga kynntist Magnúsi Guðmundssyni, lífsförunaut sínum, í MT en þau voru saman í bekk. Magnús er sagnfræðingur og skjalfræðingur, starfar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Leið þeirra lá til Svíþjóðar haustið 1975 þar sem þau hófu búskap og stunduðu nám í fjögur ár. Eftir heimkomu hélt skólaganga Helgu áfram og hún lauk cand.mag. prófi í íslenskri málfræði 1983. Helga og Magnús eiga tvo syni, Jón Bjarna f. 1981 og Árna f. 1985. Barnabörnin eru tvö.“

Skemmtilegt starf
Helga hefur tekið að sér ýmis störf í gegnum tíðina, liðtæk á búinu og í garðyrkjunni, banka, ferðaskrifstofu, auk starfsins á Farfuglaheimilinu. Hún hefur einnig unnið við rannsóknir á máltöku barna og við handrita- og prófarkalestur.
„Snemma árs 1983 bauðst mér starf í Héraðsbókasafni Kjósarsýslu. Þá bjuggum við í nágrenninu svo það hentaði vel. Jón Sævar Baldvinsson var þá tekinn við safninu og hafði komið því haganlega fyrir í rými undir stiga í Gagnfræðaskólanum. Við störfuðum fjögur þarna. Þetta var skemmtilegt starf fannst mér, og gat alveg hugsað mér að halda því áfram.
Eftir að ég hóf störf í safninu nam ég bókasafnsfræði við HÍ.“

Þungamiðja menningar
„Safnið var svo fljótlega flutt í Markholt 2 og árið 1995 á 2. hæð í Kjarna. Þá var Marta Hildur Richter tekin við forstöðu safnsins fyrir nokkru. Við áttum farsælt samstarf í rúm 30 ár.
Aftur varð bylting í húsakosti og búnaði. Tölvuvæðing hafin og ýmsar nýjungar í gangi. Starfsemin blómstraði og varð fljótlega þungamiðja menningar í bæjarfélaginu.
Frá því í Gagnfræðaskólanum voru haldnar rithöfundakynningar sem þróuðust í það sem við í dag köllum bókmenntahlaðborð. Starfsfólki fjölgaði og viðburðalistinn lengdist, ekki síst í barnastarfi. Enn urðu þáttaskil þegar við fluttum safnið á torgið í Kjarna og aðstaðan breyttist til muna, ekki síst vegna Listasalar Mosfellsbæjar.”

Lét sér annt um samstarfið
„Frá 1990 var ég þátttakandi í norrænu vinabæjasamstarfi Mosfellsbæjar, fyrst sem fulltrúi Norræna félagsins í Mosfellsbæ en síðar urðu vinabæjasamskiptin hluti af starfi mínu hjá Mosfellsbæ. Pabbi var mikill áhugamaður um þessi samskipti og það skilaði sér.
Páll Guðjónsson var bæjarstjóri þegar ég hóf störf og lét sér annt um vinabæjasamstarfið. Hann átti stóran þátt í því að blása í það nýju lífi, og Mosfellsbær hefur frá upphafi sinnar þátttöku árið 1977 verið virkur aðili í þessu samstarfi.“

Safnið í góðum höndum
„Ég er stolt af því að hafa tekið þátt í uppbyggingu Bókasafns Mosfellsbæjar, sem mér finnst vera glæsileg menningarstofnun, allt frá því við vorum undir stiga í Gagnfræðaskólanum og fram til dagsins í dag. Úr holu í höll.
Starfið í Bókasafninu hefur verið afar fjölbreytt í gegnum tíðina og samskipti við gesti mjög ánægjuleg og gefandi. Safnið er í góðum höndum og verkefni mín hafa fengið nýja umsjón. Ég held áhyggjulaus með fjölda nýrra áskorana út í eilífðarfríið,“ segir Helga að lokum og brosir.

Seinni áfangi Helgafellsskóla vígður 31. ágúst

Þann 31. ágúst verður seinni áfangi Helgafellsskóla vígður.
Í skólanum er leikskóladeild, grunnskóladeild og frístundadeild. Félagsmiðstöð fyrir miðstig og unglingastig verða einnig í skólanum og Listaskóli Mosfellsbæjar sinnir tónlistarkennslu á yngstu stigunum í skólanum í sérhönnuðu húsnæði fyrir tónlist. Í þessum áfanga verður rými 5.-10. bekkja, sérgreinarými, stoðrými og salur.

Skólinn ætlaður fyrir um 700 börn
Fjöldi barna í skólanum hefur aukist jafnt og þétt frá því að kennsla hófst í skólanum árið 2018. Nú eru 117 börn í leikskóladeild og 300 í grunnskóladeild í átta árgöngum en á næstu tveimur árum munu svo tveir síðustu árgangar grunnskólans bætast við. Skólinn er áætlaður fyrir um 700 börn á leik- og grunnskólastigi.
Yrki arkitektar hönnuðu skólann sem er byggður í tveimur áföngum. Ístak hafði yfirumsjón með fyrri hluta byggingarinnar en Flotgólf annaðist þann seinni. Undirbúningur, hönnun og framkvæmdin hefur að mati Mosfellsbæjar tekist einkar vel og verið hönnuðum, verktökum og þeim starfsmönnum Mosfellsbæjar sem sinntu stjórnun og eftirliti til staks sóma.
Skólastarf í Mosfellsbæ hefur um margt verið í fararbroddi í skólaþróun hérlendis og Helgafellsskóli er þar engin undantekning. Í vetur hlaut skólinn styrk úr Sprotasjóði til að þróa kennslu á unglingastigi. Efsta hæð skólans er einstaklega falleg og hvetjandi umgjörð um áherslur skólans og styður vel við samþættingu námsgreina.

Verði hjarta Helgafellshverfisins
„Helgafellsskóli er dæmi um mjög vel heppnaða opinbera framkvæmd. Um er að ræða fallega, nútímalega skólabyggingu sem uppfyllir viðmið okkar um umgjörð skóla- og frístundastarfs barna. Áherslur í skólastarfinu eru meðal annars teymiskennsla og útikennsla.
Þá er skólinn jafnframt hannaður með það í huga að geta gegnt hlutverki menningarmiðstöðvar hverfisins og hefur að mínu mati alla burði til að verða sannkallað hjarta hverfisins innan skamms. Lykillinn að farsælu verkefni sem þessu er að undirbúningur, hönnun og framkvæmd öll hefur verið til fyrirmyndar og ráðgjöfum okkar, verktökum og þeim starfsmönnum Mosfellsbæjar sem að verkefninu hafa komið til staks sóma.
Það hefur verið mjög ánægjulegt, síðustu misserin, að sjá hvert rýmið á fætur öðru taka á sig mynd þar sem hugmyndir verða að veruleika. Í þessum nýjasta skóla okkar Mosfellinga er margt nýmæla eins og sérhönnuð árganga­svæði, sérstök rými til tónlistarkennslu, mögnuð hljóðvist sem styður einkar vel við samkennslu og gott vinnurými almennt séð,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Engin formleg dagskrá á vegum Mosfellsbæjar Í túninu heima

Eins og Mosfellingar vita væntanlega flestir verður engin formleg dagskrá á vegum Mosfellsbæjar í „Í túninu heima“, sem er árleg bæjarhátíð Mosfellinga, sem haldin er í ágúst, afmælismánuði bæjarins.
Hátíðin stendur venjulega í fjóra daga og lýkur með útnefningu bæjarlistamanns og afhendingu umhverfisviðurkenninga.
Undirbúningi hátíðarinnar í ár lauk í byrjun sumars en neyðarstjórn Mosfellsbæjar komst að þeirri niðurstöðu að í ljósi samkomutakmarkana verði ekki um formleg hátíðarhöld að ræða á vegum Mosfellsbæjar út um allan bæ eins og hefðbundið er.

Bæjarlistamaður útnefndur á sunnudag
Mosfellsbær hvatti hins vegar til þess í fréttatilkynningu að minni viðburðir sem rúmast innan samkomutakmarkana eigi sér stað dagana 26. til 29. ágúst á ábyrgð þeirra sem halda þá.
Tindahlaup Mosfellsbæjar, sem féll niður í fyrsta sinn í fyrra, verður hins vegar haldið laugardaginn 28. ágúst. Við framkvæmd hlaupsins verður gripið til þeirra ráðstafana sem gefist hafa vel við framkvæmd hlaupa þegar samkomutakmarkanir eru í gildi.
Loks verður bæjarlistamaður Mosfellsbæjar útnefndur og umhverfisviðurkenningar veittar sunnudaginn 29. ágúst.

Íbúar haldi í sínar hefðir
Íbúar Mosfellsbæjar og gestir þeirra eru í ljósi þessarar stöðu hvattir til þess að halda í þær fjölskyldu- og vinahefðir sem hafa skapast í gegnum tíðina.
„Túnið hefur á síðustu árum verið okkur Mosfellingum kær viðburður sem markar sumarlok og upphaf vetrartíðar. Vegna samkomutakmarkana stendur Mosfellsbær ekki fyrir formlegri dagskrá en ég vil hvetja alla íbúa og gesti þeirra að gera sér dagamun, skreyta hús og garða í hverfislitnum, ganga á fell eða um bæinn og eiga góða kvöldstund í sinni sumarkúlu.
Við munum útnefna bæjarlistamann ársins og veita umhverfisviðurkenningar þó með breyttu sniði í lágstemmdri athöfn þar sem fulltrúar umhverfisnefndar og menningar- og nýsköpunarnefndar veita verðlaun og viðurkenningar,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Hátíðardagskrá á Barion alla helgina

Barion heldur sínu striki þrátt fyrir aflýsta bæjarhátíð og blæs til mikillar veislu um helgina á hverfisstaðnum.
Dagskráin hefst á fimmtudagskvöldið þegar „hátíðar-bingó“ verður spilað en bingókvöldin á Barion eru löngu orðin landsþekkt enda til mikils að vinna. Á föstudagskvöldið er það CCR-bandið sem heiðrar hina mögnuðu sveit Creedence Clearwater Revival. Bandið er skipað Huldumönnunum og fyrrum Gildrufélögunum Birgi Haraldssyni og Sigurgeiri Sigmundssyni ásamt Bigga Nielsen, Inga B. Óskars og Jóhanni Ingva.
Á laugardagskvöldið er það sjálfur Herbert Guðmundsson sem mun trylla lýðinn. Hann hefur verið afkastamikill í íslensku tónlistarlífi frá árinu 1970.
Á sunnudagskvöldið eru það svo stelpurnar í Ylju sem loka helginni með ljúfum tónum. Það eru þær Guðný Gígja Skjaldardóttir og Bjartey Sveinsdóttir sem skipa dúettinn sem kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2008. Ljúfir tónar í lok hátíðarhelgar á Barion.

Skráning fyrirfram á viðburði
Ljóst er að færri komast að en vilja, enda glæsileg dagskrá undir ströngum skilyrðum. Að sjálfsögðu er farið eftir öllum þeim takmörkunum sem eru í gildi og vel hugað að sóttvörnum.
Gestir geta tryggt sér sæti fyrirfram á Barion.is og auðveldar það líka við skráningu gesta á viðburðina samkvæmt reglum yfirvalda.
Þá var nýlega tekið í notkun útisvæði á bak við Barion í Þverholtinu sem hefur komið sér vel í sumar og áfram meðan sólin lætur sjá sig.

Palli hjólar

Ég fór í fjallahjólaferð með gömlum vinum úr #110 um þar síðustu helgi. Þetta var frábær ferð, en það sem gladdi mig mest var að upplifa einn af félögunum, köllum hann Palla, slá í gegn á hjólinu. Palli æfði fótbolta eins og við hinir, en hætti snemma. Hann var ekki í öðrum íþróttum og hefur aldrei verið mikið fyrir að mæta reglulega á æfingar. Hann var orðinn frekar þungur á sér fyrir nokkrum árum og var ekki sáttur við það.

Tók hann þá ákvörðun að byrja að hjóla í vinnuna og fékk það fína ráð frá atvinnuhjólaranum í hópnum okkar að gera þetta að daglegri venju. Ekki velja bara sólardaga og daga þar sem er meðvindur í réttar áttir á hjólastígunum. Palli gerði þetta, hann er búinn að hjóla í vinnuna alla daga í dágóðan tíma, sama hvernig viðrar. Þetta er viðráðanleg vegalengd, en það er ekki aðalatriðið, heldur það að hann hjólar þessa leið alla daga. Stundum velur hann lengri leið þegar hann hjólar heim, fer eftir aðstæðum og skapi.

Palli er ekki að æfa fyrir járnkall eða landvætti. Hann er ekki að keppa við neinn. Hann einfaldlega fann leið til þess að koma daglegri hreyfingu inn í lífið. Hreyfingu sem kemur honum í betra form og lætur honum líða betur. Þetta hefur áhrif á svo margt. Veiðiferðir, fjallgöngur, útileikir við krakkana og svo auðvitað hjólaferðir með félögunum verða bæði auðveldari og skemmtilegri þegar úthaldið er gott.

Við getum lært margt af Palla. Til dæmis hvað það gefur mikið að hreyfa sig daglega og tengja hreyfinguna við daglega athöfn (vinnan í hans tilviki). Sömuleiðis að það er ekki nauðsynleg að eiga árskort í líkamsrækt til þess að koma sér í form. Það er aldrei of seint að byrja, allt sem til þarf er að taka ákvörðun og standa við hana.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 26. ágúst 2021

Snemma byrjuð á ævistarfinu

Áslaug Kirstín Ásgeirsdóttir kennari og lesblinduráðgjafi hefur starfað við kennslu hátt í 30 ár.

Kennsla er starf sem krefst mikillar seiglu og sveigjanleika, þolgæðis og samstarfs við marga ólíka nemendur. Kennarinn þarf ósjaldan að beita ýmsum brögðum við að kveikja áhuga nemenda og getur því þurft að vera í senn, leiðbeinandi, fræðari, félagi og fyrirmynd.
Áslaug Kirstín Ásgeirsdóttir er reynslumikil kona sem hefur unnið við kennslu í öllum aldurshópum en hin síðari ár hefur hún unnið við sérkennslu ásamt því að hjálpa lesblindum einstaklingum.

Áslaug er fædd í Reykjavik 13. febrúar 1952. Foreldrar hennar eru þau Kirstín Lára Sigurbjörnsdóttir húsmóðir og handavinnukennari og Ásgeir Ó. Einarsson dýralæknir í Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Systkini Áslaugar eru þau Guðrún Lára f. 1940, Einar Þorsteinn f. 1942, d. 2015, Sigrún Valgerður f. 1944 og Þórdís f. 1948.

Eilíflega þakklát fyrir fjölskylduna
„Ég er Vesturbæingur, uppalin í Ási við Sólvallagötu. Húsið var á tveimur hæðum með risi og kjallara, stór garður og skemmtilegt og líflegt heimilislíf enda vorum við mörg í heimili, foreldrarnir, afi og við systkinin.
Ég er yngst og er eilíflega þakklát fyrir fjölskyldu mína, áhrifin sem ég varð fyrir af samverunni og uppeldi með þeim öllum. Það var farið í kirkju á sunnudögum, mamma með matinn tilbúin, pabbi að undirbúa næsta útkall, afi að sinna ritstörfum inn á kontór og ég lá einhvers staðar með bók og las.“

Snemma byrjuð á ævistarfinu
„Ég á margar skemmtilegar minningar frá æsku. Til dæmis safnaði ég og Þórdís systir saman krökkum úr nágrenninu í skólaleik, m.a. Diddú og Ásdísi systur hennar, settum þau við borð og vorum kennarar, svo það má segja að ég hafi verið snemma byrjuð á ævistarfinu,“ segir Áslaug og brosir.
„Ég man líka eftir viðburðaríkum ferðum með pabba í læknisheimsóknir hingað og þangað, m.a. til bændanna sem voru með bú sín inn í miðri Reykjavík og Kópavogi.“

Hápunkturinn hin árlega brunaæfing
„Ég gekk í Vesturbæjarskóla, Melaskóla og Hagaskóla. Guðrún Lára systir mín kenndi mér að lesa 6 ára og ég hóf skólanám 7 ára. Allir skólarnir höfðu sinn sjarma og ég á bara góðar minningar frá skólaárunum. Í gamla Vesturbæjarskólanum var hápunkturinn hin árlega brunaæfing, að fá að bruna niður rennibrautina af annarri hæð.
Krakkar byrjuðu snemma að vinna í den, ég vann mörg sumur á Hótel Eddu á Eiðum en Guðrún Lára systir var hótelstjóri og síðar mamma. Ég starfaði líka sem ritari á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund og sótti svo um flugfreyjuna. Fyrr og síðar var ég ritari, m.a hjá Ungmennafélagi Íslands, Krabbameinsfélaginu og á Kvennadeild Landspítalans.“

Mikil gerjun í gangi
„Leið mín lá síðan í Menntaskólann í Reykjavík og Kennaraháskóla Íslands. Árin frá Hagaskóla og í MR voru mikil mótunarár, tónlistin var í mikilli uppsveiflu og það komu út nýjar plötur vikulega sem heillaði okkur upp úr öllu valdi.
Við settum spurningarmerki við gamla tímann, vildum breytingar. Rauðsokkur og jafnrétti. Það var mikil gerjun í gangi því við upplifðum svo miklar breytingar í gamla samfélaginu. Eftir útskrift úr Kennaraháskólanum 1975 kenndi ég á Akureyri.“

Sofnuðum í sveit en vöknuðum í bæ
„Ég hitti Halldór Á. Bjarnason í Vestur­bæjarlauginni árið 1979, það var uppáhaldsstaðurinn minn og hann veiddi mig þar,“ segir Áslaug og skellihlær.
„Við eignuðumst þrjú börn, Odd Örn f. 1980, Kirstínu Láru, f. 1983 og Önnu Dúnu f. 1991, barnabörnin eru fjögur.
Við Halldór bjuggum fyrst við Norðlingabraut, og eftir að tvö elstu börnin fæddust fluttum við til Sviss og Hollands og þar var ég heimavinnandi með tvö börn, á hjóli, þetta voru yndisleg ár.
Við vorum alla tíð með hesta og tókum mið af þeim og börnunum þegar við fundum framtíðarheimilið í Leirutanga í Mosfellssveit árið 1987. Við fjölskyldan sofnuðum í sveit en vöknuðum í bæ, ég var hálf spæld yfir því en hér hefur verið gott að búa. Tvær systra minna búa hér líka, við vorum allar þrjár í Leirutanga þegar börnin okkar voru að alast upp, bróðir okkar bjó svo í Álafosskvosinni og sú elsta út á landi.
Við Halldór slitum samvistum 2005, hann lést 2011 en vinátta okkar hélst alla tíð. Eftir að við fluttum í Mosfellsbæ hef ég kennt í Gagnfræðaskólanum, Varmárskóla, Lágafellsskóla og nú í Helgafellsskóla. Ég hef unnið við kennslu í öllum aldurshópum, símenntunarkennslu hjá Mími, elstu deild í Reykjakoti og hin síðari ár í sérkennslu á ýmsum aldursstigum.“

Mér rann það alltaf til rifja
„Áhugamál mín eru ansi mörg, sum bíða í skúffu, önnur eru uppi á borðinu. Það helsta er náttúra Íslands, umhverfismál, íslensk tunga, lestrarvandi, hreyfing í formi útiveru, garðyrkja, hestamennska, myndlist og fegurðin í hinu smáa.
Ég bætti við mig listgreinakennslufræðum um aldamótin og svo kom vinkona mín, Hildur Einarsdóttir og maður hennar, Örn Kjærnested, því til leiðar, að Davis aðferðin yrði kennd á Íslandi en það var árið 2003.
Ég var heppin að vera með í þeim hópi því allt frá því ég hóf kennslu, fann ég svo til þess, að engin þjálfun kom með mér frá Kennaraháskóla Íslands, sem bjó mig undir að hjálpa lesblindum eða hæglæsum börnum. Mér rann það alltaf til rifja að vera bjargarlaus gagnvart lesblindum, því greip ég þetta tækifæri fegins hendi.“

Lesblinda er ekki einfalt viðfangsefni
Áslaug lærði Davis aðferðina með vinkonu sinni, Sigurborgu Svölu Guðmundsdóttur kennara. Þær voru heppnar að læra þetta hér á landi og fengu erlenda leiðbeinendur til sín í eitt ár. Þær opnuðum skrifstofu, ásamt öðrum, og störfuðu við þetta í rúmlega 10 ár.
„Lesblinda er ekki einfalt viðfangsefni, hún er ekki eins hjá neinum og lesblint fólk þarf að leggja mun meira á sig en aðrir. Aðaleinkenni lesblindra er að sjá í myndum og sá hæfileiki að verða skynvilltur og ringlast við það að rýna í þessi tákn á blaðinu. En á móti byggja lesblindir upp þrautseigju í námi sem aðrir hafa kannski ekki myndað. Lestur er mikilvægur, og grundvallaratriði er að greina lesblinduna snemma hjá börnum og koma til móts við þau.
Það er ekki langt síðan að litið var niður á lesblinda, en nú vitum við að lesblinda er náðargáfa og margt hæfileikafólk, á víðu sviði, í þeirra hópi.“

Á eftir að sjá á eftir starfinu mínu
„Ég hef unnið með stórum hópi frábærra einstaklinga á öllum aldri, allt frá 7 ára og sá elsti var 65 ára og er ég ævinlega mjög þakklát og auðmjúk gagnvart þessu fólki, því það, auk allra nemenda minna um ævina, eru mínir kennarar á móti. Þau hafa kennt mér gríðarlega margt. Ef þau lesa þetta, þakka ég þeim eilíflega fyrir.
Nú nálgast sjötugsafmælið mitt og ég á eftir að sjá á eftir starfinu mínu, enda enn í fullu fjöri og í gríðarlega frjóum og skemmtilegum hópi samstarfsfólks í Helgafellsskóla.
Ég sé sjálfa mig fyrir mér í ýmis konar ævintýrum eftir starfslok eins og kennslu og stuðningi við nemendur og verð sjálfsagt kennarinn sem auglýsir: „Tek að mér heimakennslu og prófarkalestur,“ er það ekki bara?“ segir Áslaug og hlær.

Met slegið í íbúakosningu

Minigolfvöllur í Ævintýragarðinn verður dýrasta framkvæmdin.

Enn eitt þátttökumetið var slegið af íbúum Mosfellsbæjar í íbúakosningum sem stóðu yfir frá 31. maí til 6. júní en 20,5% Mosfellinga 15 ára og eldri tóku þátt og er þar um Íslandsmet að ræða.
Þrátt fyrir mikla íbúafjölgun síðustu fjögur ár hefur kosningaþátttakan aukist hlutfallslega í hvert skipti í íbúakosningunni en verkefninu var fyrst hleypt af stokkunum 2017. Um er að ræða mestu þátttöku í sambærilegum kosningum á Íslandi og samkvæmt þjónustuaðila kosningakerfisins er líklega um heimsmet að ræða í kosningum sem þessum.
• 20,5% íbúa á kjörskrá tóku þátt í íbúakosningunni.
• Þátttakan er í senn Íslandsmet og væntanlega heimsmet.
• Kjörsókn 2019 var 19,1% sem þá var jafnframt metþátttaka.

Körfuboltavellir við tvo skóla
Baðaðstaða verður byggð við Hafravatn, jólagarður á Hlégarðstúni, grillskýli rís við Stekkjarflöt og minigolfvöllur verður settur upp í Ævintýragarðinum samkvæmt niðurstöðum íbúakosningarinnar.
Íbúar völdu jafnframt að settir yrðu upp körfuboltavellir við bæði Varmárskóla og Lágafellsskóla auk merkingar hlaupa- og gönguleiða, fjallstoppa og fjallahjólastíga sem er í góðu samræmi við áherslur í Heilsueflandi samfélagi með nálægð við fell og dali.

Höfum skoðun á samfélaginu
„Ég vil þakka íbúum Mosfellsbæjar fyrir frábæra þátttöku og góðan stuðning við það mikilvæga lýðræðisverkefni sem Okkar Mosó er,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri. „Þátttaka íbúa leiðir að mínu mati vel fram hvað við Mosfellingar búum yfir miklum félagsauði og staðfestir að það er mjög gott að búa í Mosó.
Við höfum skoðun á samfélaginu, tökum þátt í samfélagslegum verkefnum og látum okkur umhverfið og hvert annað varða. Við sem störfum fyrir Mosfellinga fundum það líka í þeim aðstæðum sem ríkt hafa í samfélaginu, frá fyrstu bylgju Covid, að við stöndum saman í erfiðum aðstæðum.“


Níu hugmyndir kosnar

1 Merktar hlaupa- og gönguleiðir frá Lágafellslaug. Merkingar á leiðum og kort útbúið. (1 m.)

2 Grillskáli úr timbri við Stekkjarflöt. (2 m.)

3 Níu holu minigolfvöllur í Ævintýragarðinum í Ullarnesbrekkum, opinn almenningi. (10 m.)

4 Jólaskreyttur garður á Hlégarðstúni þar sem fólk gerir sér ferð til að eiga góðar stundir. (4 m.)

5 Baðaðstaða við norðurenda Hafravatns. Bílastæði, einföld búningsaðstaða, sturtuaðstaða og pallur í flæðarmálinu. (6 m.)

6 Fullbúinn körfuboltavöllur með mottuundirlagi og körfum við Varmárskóla í stað núverandi vallar. (4,5 m.)

7 Stikaðar fjallahjólaleiðir í Mosfelli og Úlfarsfelli. Leiðirnar verða merktar og útbúið kort af leiðum. (1 m.)

8 Fullbúinn körfuboltavöllur með mottuundirlagi og körfum við Lágafellsskóla. (4,5 m.)

9 Klára að merkja bæjarfellin Bæjarfell, Lala, Lyklafell og Þverfell. (2 m.)

 

Við förum í fríið

Ljósin á ströndu skína skær
skipið það færist nær og nær
og þessi sjóferð endi fær.
Ég búinn er að puða og púla
pokann að hífa og dekkin spúla.

Við erum búin að standa okkur vel í kóvidinu, Íslendingar. Höfum haft þolinmóða, mannlega og öfluga leiðtoga sem hafa stýrt okkur í gegnum þessa sjóferð, ég held við getum öll verið sammála um það. Nú erum við að detta í langþráð frí. Sumarfrí. Maður skynjar mikla tilhlökkun í mörgum, eðlilega. Ég er sjálfur spenntur fyrir því að fara í frí og ætla að njóta þess með mínu fólki. Ég ætla að leggja sérstaka áherslu á að njóta þess smáa og einfalda sem fríið mun bjóða upp á, er ekki með stór markmið sem ég ætla að ná í fríinu. Þetta er samt ekki einfalt, það er svo margt sem maður vill gera, upplifa og framkvæma. Markmið sem maður vill ná. En ég er alltaf að skilja betur að það er ferðalagið sjálft sem skiptir mestu máli, ekki áfangastaðurinn eða lokatakmarkið.

Við vorum með litla frænku í pössun um helgina. Við fórum tvö saman í tímalausan göngutúr meðfram Varmánni, fylgdumst með fiðrildum, bjuggum til lúpínublómvönd, skoðuðum Álafoss og prófuðum ýmsa leikvelli sem urðu á vegi okkar. Áfangastaðurinn var Varm­árvöllur þar sem lið fólksins, Hvíti riddarinn, átti leik, en við pældum ekkert í honum á leiðinni, heldur nutum við augnabliksins, ferðalagsins sjálfs. Og ferðalagið varð miklu betri upplifun en leikurinn sjálfur. Hann má gleymast fljótt.

Ég ætla að hafa þetta í huga í sumar þegar við förum að ferðast um landið. Að njóta þess að vera á ferðinni, taka eftir hlutum í kringum mig, stoppa ef við sjáum eitthvað sem við viljum skoða betur og spá í. Ekki bara tæta frá A til B ómeðvitaður um allt sem ferðalagið býður upp á.
Njótum ferðalagsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 24. júní 2021