Tryggvi heldur hernámssýningu

Tryggvi Blumstein heldur sýningu í Kjarna, Þverholti 2. John Marston yfirmaður bandaríska landgönguliðsins við Brúarland í Mosfellssveit árið 1941.

Í tengslum við bæjarhátíðina ætlar Mosfellingurinn Tryggvi Blumenstein að halda sýningu á munum frá hernáminu á Íslandi og leggur sérstaka áherslu á hluti sem tengjast Mosfellsbæ.
„Þetta er hernámssýning, ég er safnari að upplagi og á orðið heilmikið safn af munum frá hernámsárunum á Íslandi, það eru margir sem gera sér ekki grein fyrir því hversu mikil umbrotsár þetta voru í íslenskri sögu,“ segir Tryggvi en sýningin verður á neðri hæð Kjarna, Þverholti 2, dagana 25.-28. ágúst og er aðgangur ókeypis.

Dreymir um að opna safn í Mosfellsbæ
Tryggvi, sem er einn ötulasti safnari gripa frá hernámsárunum á Íslandi, dreymir um að safnið hans verði að almenningssafni í framtíðinni þar sem þessum umrótatímum á Íslandi verði gerð góð skil.
„Þessi tími breytti samfélaginu okkar mikið, það má eiginlega segja að okkur hafið verið kippt úr moldarkofunum inn í nútímann. Draumur minn er að opna safn hér í Mosfellsbæ. Á sýningunni verður hægt að skoða hluta af þessum munum sem ég hef safnað, hægt verður að handleika ákveðna hluti og jafnvel taka myndir.
Ég held úti vefsíðunni fbi.is þar sem má finna ýmsar upplýsingar og ljósmyndir sem ég hef safnað saman,“ segir Tryggvi og vonast eftir að sjá sem flesta Mosfellinga.