Sigurbjörg opnar í Þverholti 5

Sigurbjörg segir allar leiðir liggja til Mosó.

Nýverið opnaði í Þverholti 5 verslunin Sigurbjörg, þar er að finna mikið úrval af gæðagarni og öðrum hannyrðavörum.
„Ég er gift 4 barna móðir, viðskiptafræðingur og sjúkraliði, með brennandi áhuga á hannyrðum sem á aldrei of mikið af garni,“ segir Sigurbjörg Kristmundsdóttir eigandi verslunarinnar.
„Ég flutti í Mosfellsbæinn þegar ég áttaði mig á því að „allar leiðir liggja til Mosó“ og eins og alþjóð veit eru Mosfellingar eitt alfærasta hannyrðafólkið, því þótti mér tilvalið að útfæra áhugamálið mitt og opna búð sem heitir því frumlega nafni Sigurbjörg. Mig langaði að opna hannyrðabúð þar sem hægt væri að fá gæðavörur á góðu verði.“

Vöruvalið að þörfum viðskiptavinarins
„Ég er auðvitað nýbúin að opna og er að aðlaga vöruúrvalið að þörfum og áhuga viðskiptavina minna og mun leggja mikla áherslu á að úrvalið sé gott og tek ég vel öllum ábendingum.
Ég legg mikið upp úr góðri upplifun og að þjónustan sé góð, ég vil að þarfir viðskiptavina minna séu í fyrirrúmi og hef fengið gríðarlega góðar viðtökur við litlu búðinni minni.
Ég er líka nýbúin að setja í loftið vefverslunina Sigurbjörg.net og vona að hún eigi eftir að nýtast hannyrðafólki um land allt.“

Mikið úrval af gæðagarni
Við erum með þónokkuð úrval af garni, til dæmis nokkrar tegundir frá Drops, lopa frá Ístex og úrval af handlituðu garni til dæmis frá Dóttir Dyeworks. En eins og ég segi vil ég hlusta á hvað viðskiptavinurinn vill og miða vöruvalið við það,“ segir Sigurbjörg og býður alla Mosfellinga sérstaklega velkomna.
Verslunin er opin alla daga nema sunnudaga kl. 13-18 en vefverslunin er opin allan sólarhringinn.