Endurbætur og endurinnrétting Kvíslarskóla

Skólasetning Kvíslarskóla fer fram mánudaginn 28. ágúst.

Miklar endurbætur við Kvíslarskóla hafa staðið yfir síðustu mánuði þar sem við rannsókn EFLU verkfræðistofu í vor kom í ljós að rakaskemmdir voru til staðar í gólfplötu fyrstu hæðar Kvíslarskóla.
Um var að ræða nýtt tjón og mikilvægt að bregðast strax hratt við af hálfu Mosfellsbæjar. Í byrjun apríl var hafist handa við hreinsun byggingarefna og unnið að mótvægisaðgerðum til að tryggja góða innivist svo unnt væri að nýta neðri hæð Kvíslarskóla út vorönnin 2022.
Að loknum frekari rannsóknum var tekin ákvörðun um að nýta sumarlokun skólans til að vinna að endurbótum og endurinnréttingu Kvíslarskóla.

Koma fyrir lausum kennslustofum
Framkvæmdir hafa gengið vel en þó reyndist nauðsynlegt að seinka skólasetningu um nokkra daga vegna þess að vinna við að koma fyrir lausum stofum reyndist tímafrekari en til stóð. Gert er ráð fyrir að stofurnar verði hver á fætur annarri tilbúnar til kennslu í fyrstu viku september og á sama tíma verði lokið við að innrétta anddyri og salernis­kjarna fyrstu hæðar Kvíslarskóla.
Meginhluti neðri hæðar skólans verður ekki í notkun fram að áramótum vegna endurinnréttingar hæðarinnar.

Umfangsmikið og krefjandi verkefni
Samkvæmt upplýsingum frá Kvíslarskóla verður foreldrum boðið á árgangafundi í vikunni 22.-25. ágúst. Á þeim fundum verður farið yfir skólastarfið í vetur í hverjum árgangi fyrir sig, fyrirkomulag kennslu í upphafi skólaárs auk þess sem veittar verða nánari upplýsingar um stöðu endurbóta og endurinnréttingar á húsnæði Kvíslarskóla.
„Það er ljóst að það óskar sér enginn að vera í þessari stöðu og þetta er umfangsmikið og krefjandi verkefni,“ segir Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs. „Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að útkoman verður mikið endurnýjað skólahúsnæði sem stenst nútímakröfur og við megum alls ekki missa sjónar á því.
Það er mikilvægt að tryggja það að skólasamfélagið allt sem og bæjarbúar séu vel upplýst um gang mála og allir átti sig á sínu hlutverki. Því öll höfum við hlutverk í að láta þetta ganga upp. Samstaðan er mikilvæg og skólasamfélagið getur treyst því að vandað verði til verka þannig að tryggt sé að nemendur og starfsfólk geti gengið til starfa í heilnæmu húsnæði,“ segir Halla Karen.