Vil láta gott af mér leiða

Eva Rún Þorgeirsdóttir rithöfundur og verkefnastjóri nýtur þess að kenna og skapa.

Uppáhaldsstaður Evu Rúnar Þorgeirsdóttur á hennar yngri árum var skólabókasafnið í Langholtsskóla. Þar gat hún gleymt sér í ró og næði í ævintýraveröld bókanna.
Draumur hennar um að skrifa kviknaði þegar hún var átta ára, hún byrjaði á því að skrifa dagbækur og ljóð sem síðar urðu að sögum. Síðastliðin ár hefur hún starfað við fjölbreytt verkefni en ástríða hennar liggur fyrst og fremst í því að búa til vandaðar bækur og sjónvarpsefni fyrir börn.

Eva Rún Þorgeirsdóttir er fædd í Reykjavík 7. nóvember 1978. Foreldrar hennar eru Ásta Eyjólfsdóttir fyrrv. bankastarfsmaður og Þorgeir Ástvaldsson útvarps- og tónlistarmaður. Systkini Evu Rúnar eru þau, Kristjana Helga f. 1971, Kolbeinn Þór f. 1983 og Eygló Ásta f. 1989.

Spiluðu stórt hlutverk í minni æsku
„Ég er alin upp í Langholtshverfinu við Laugardalinn og fannst skemmtilegt að alast upp þar en ég var einnig mikið hjá afa mínum og ömmu í Mosfellssveit og mér fannst líka yndislegt að vera þar, í nálægð við náttúruna.
Ömmur mínar og afar spiluðu stórt hlutverk í minni æsku og ég var heppin að geta varið miklum tíma með þeim.”

Góðar minningar frá Ítalíu
„Ég, bróðir minn og frændi vorum bestu vinir og lékum okkur mikið saman. Við fengum frelsi og traust til að leika okkur með allt sem við vildum. Við fórum í fjöruferðir og söfnuðum fullt af spennandi hlutum. Við settum síðan upp sýningar í garðinum hjá afa og ömmu sem við kölluðum, sædýrasafnið. Þetta eru ómetanlegar minningar alveg hreint,” segir Eva og brosir.
„Ég á einnig margar góðar minningar frá Ítalíu en þangað fórum við fjölskyldan á hverju sumri.”

Leið eins og ég hafði hitt rokkstjörnu
„Ég gekk í Langholtsskóla og mér fannst gaman í skólanum. Íslenska var í uppáhaldi og ég lagði mikinn metnað í að lesa, læra ljóð, skrifa sögur og teikna myndir. Það hefur líklega verið ávísun á það sem ég ætlaði að starfa við í framtíðinni svona án þess að ég gerði mér grein fyrir því.
Skólabókasafnið var uppáhaldsstaðurinn minn og ég lifði mig mikið inn í þær bækur sem ég las. Gömul bekkjarsystir minnti mig nýlega á það að ég hafi alltaf verið að segja henni frá persónum í bókum, sem henni fannst misspennandi,” segir Eva Rún og hlær.
„Ég man eftir því þegar Vilborg Dagbjartsdóttir rithöfundur kom í heimsókn á safnið og las upp úr bók sinni. Ég var átta ára og varð algjörlega heilluð af henni, mér leið eins og ég hafði hitt rokkstjörnu.”

Námið hafði mikil áhrif á mig
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla lá leið mín í Menntaskólann við Hamrahlíð. Eftir góð ár þar ákvað ég að mig langaði að verða blaðamaður og tróð mér inn sem lausablaðamaður á tímarit, þar með hófst minn starfsferill í fjölmiðlum. Stuttu síðar fór ég að skrifa fyrir fleiri tímarit og síðar fékk ég vinnu á Stöð 2, á fréttastofu og við innlenda dagskrárgerð.
Ég naut þess mjög að starfa í fjölmiðlum en ákvað að gera hlé og fara í nám. Fór til London til að læra markaðsfræði og síðan lá leiðin til Árósa í Danmörku. Þar fór ég í nám í skapandi leiðtogafræði sem er verkefnastjórnun með áherslu á hnattræna hugsun og mannleg samskipti. Ég hafði mjög gaman af þessu námi og það hafði mikil áhrif á mig.”

Prófað flestar sundlaugar landsins
Eiginmaður Evu Rúnar er, Snæbjörn Sigurðsson rakari ávallt kallaður Stjúri, börn þeirra eru Ríkharður f. 1999, Sara f. 2007, Tinna f. 2009 og Sindri f. 2014.
„Ferðalög hérlendis og erlendis eru helstu áhugamál okkar fjölskyldunnar, við njótum þess að ferðast og skoða nýja staði. Við höfum einnig gaman af því að fara í sund og höfum líklega prófað flestar sundlaugar landsins.”

Að fylgja flæði lífsins
„Ég hef brallað ýmislegt, er mikið á ferðinni og finnst gaman að fá að vinna með ólíku fólki. Mér finnst skemmtilegast að vera í skapandi vinnu og þrífst á fjölbreytileika.
Eftir námið fékk ég skemmtilegt starf hjá Reykjavíkurborg þar sem ég sá um að halda utan um hina ýmsu viðburði.
Árið 2009 skipti ég um gír og fór í jógakennaranám, langaði að fara í þetta nám því ég hafði iðkað jóga lengi. Mér bauðst starf við að kenna jóga og ákvað að fylgja flæði lífsins og taka því starfi, allir vildu rækta sinn innri mann eftir hrunið. Fljótlega lærði ég svo að kenna börnum jóga og allt í einu var ég farin að kenna barnajógatíma. Í sjö ár var mitt aðalstarf að vera jógakennari og meðfram því byrjaði ég að skrifa bækur.”

Stúfur fer í sumarfrí
Fyrsta bók Evu kom út 2011 og heitir Auður og gamla tréð sem er ævintýra- og kennslubók í jóga fyrir krakka. Síðar gerði hún hugleiðslubókina Ró.
Árið 2015 kom út fyrsta bókin í spennusagnaflokknum, Lukka og hugmyndavélin en undanfarið hefur Eva Rún verið að skrifa bækur um jólasveininn Stúf. Nýjasta bókin heitir, Stúfur fer í sumarfrí, og byggir bókin meðal annars á upplifun Evu á Ítalíu þegar hún var barn.

Stolt af Eddu verðlaununum
Eva starfaði hjá RÚV í þrjú ár sem framleiðandi, handritshöfundur og leikstjóri. Hún hélt utan um framleiðslu á Stundinni okkar, skrifaði handrit að smá seríum bæði fræðslu og leikið efni, og bæði framleiddi og leikstýrði upptökum þar sem krakkar voru í aðalhlutverki.
„Þetta var frábær tími á KrakkaRúv með yndislegu samstarfsfólki. Við unnum Edduna 2021 fyrir besta barna- og menningarþáttinn og ég er mjög stolt af því.
Ég hef líka verið að skrifa hljóðbækur fyrir Storytel sem er skemmtilegt söguform. Ég skrifaði, Sögur fyrir svefninn, sem eru rólegar sögur fyrir krakka til að hlusta á. Ég fékk Íslensku hljóðbókarverðlaunin 2022 í flokki barna- og ungmennabóka fyrir þessa bók.”

Spennandi tímar fram undan
„Nú starfa ég nær eingöngu við ritstörf en ég kenni einnig krökkum að skrifa sögur. Það gefur mér mikið að sjá krakka á námskeiðum hjá mér blómstra og fá sjálfstraust við að koma hugmyndum sínum á framfæri. Mig langar að láta gott af mér leiða með skrifum mínum og kennslu. Efla áhuga á bókum og lestri og líka efla kraftinn og hugmyndasköpun hjá krökkum.
Fram undan eru spennandi tímar, ég er að gefa út nýja bók í haust og eins er ég að skrifa nýja hljóðbók fyrir Storytel. Ég er svo að fara af stað með sögusmiðju-klúbb, ásamt samstarfskonu minni Blævi Guðmundsdóttur, í Borgarbókasafni Reykjavíkur. Þangað geta krakkar komið sem hafa áhuga á því að búa til sögur, bæði skrifa og teikna.
Fleiri spennandi verkefni eru í gangi enda aldrei skortur á hugmyndum í kollinum á mér segir,” Eva Rún brosandi er við kveðjumst.