Heilsuhátíðin Heimsljós haldin um helgina

Heilsuhátíðin Heimsljós verður haldin í Lágafellsskóla um helgina.
Hátíðin hefst á heilunarguðþjónustu föstudaginn 16. september kl. 20 í Lágafellskirkju sem sr. Arndís Bernhardsdóttir Linn leiðir.
Heimsljós eru góðgerðarsamtök og þeir sem standa að hátíðinni eru í sjálfboðastarfi og allir þeir sem leggja fram fræðslu eða meðferðir eru að gefa vinnu sína. „Allt þetta fólk á þakkir skyldar fyrir að gera þennan merkilega viðburð að veruleika. Megi þeir njóta heilsu og hamingju,“ segir Vigdís Steinþórsdóttir, skipuleggjandi Heimsljóss.
Í Lágafellsskóla er svo opið frá 11-17 á laugardeginum, sunnudag 11-18.30 endar þá á hinni stórmögnuðu hópheilun þar sem Dísa möntrumeistari syngur og spilar. Þar getur fólk þreifað á kærleikanum hafi það ekki prófað slíkt áður.

Fjölbreytt dagskrá alla helgina
Á hátíðinni koma saman sérfræðingar á mörgum sviðum heilsutengdra mála, fræða, kynna, selja, veita innsýn í hinar ýmsu meðferðir og svo verður hægt að setjast niður og slaka á í hugleiðsluherberginu undir leiðsögn, tali og tónum. Mikill fróðleikur flæðir fram á öllum þessum 12 fyrirlestrum sem boðið er uppá.
Fjölbreytt dagskrá sem hægt er að kynna sér á heimasíðunni heimsljos.is
Frábært tækifæri til að hittast og spjalla, njóta veitinga frá okkar heimamanni, Kristjáni Magg matreiðslumeistara, sem er með okkur í fyrsta skipti.
Allir hjartanlega velkomnir. Að sjálfsögðu er frítt í kirkjuna á föstudeginum. Í Lágafellsskóla er greitt við innganginn á laugardegi 1.500 kr og gildir það líka fyrir sunnudaginn.