Útvarp Mosfellsbær endurvakið

Tanja Rasmussen og Ástrós Hind Rúnarsdóttir ætla að vera í loftinu Í túninu heima sem fram fer um helgina.

Í ágúst 1987 gerðist sá merki atburður að Mosfellshreppur steig sitt fyrsta skref inn í fullorðinsárin og varð að 27. bæjarfélagi landsins.
Þá voru íbúar orðnir tæplega 4.000 talsins (þar af 300 með áskrift að Stöð 2). Unnið var hörðum höndum að því að lýsa upp götur bæjarins, meistaraflokkslið Aftureldingar í fótbolta karla hafði nýverið sigrað Reynismenn í Sandgerði og strætisvagnaferðir voru í boði í og úr bænum á næstum því klukkutíma fresti alla virka daga.

Tekið á móti kveðjum og óskalögum
Mikil eftirvænting var fyrir þessum merka áfanga og var honum auðvitað fagnað með tilheyrandi húllumhæi; grillveislu í boði bæjarstjórnarinnar, lifandi tónlist og verðlaunaafhendingu fyrir fallega garða svo eitthvað sé nefnt.
Og svo var það hópur mosfellskra ungmenna sem tók sig saman og stofnaði Útvarp Mosfellsbæ, útvarpsstöð sem var í loftinu í 29 klukkustundir.
Meðal þess sem ungmennin buðu upp á var þáttur um kvikmyndatónlist, næturvakt þar sem tekið var við símtölum djammara víðs vegar um bæinn og hádegisþáttur sem var til þess gerður að hjálpa Mosfellingum að melta hádegismatinn sinn. Einnig var fjallað um íþróttalífið í bænum og tekið á móti kveðjum og óskalögum.

Tímabært að endurtaka leikinn
„Síðan eru liðin 35 ár og löngu orðið tímabært að endurtaka leikinn.“ Að þessu sinni eru það bókasafnsstarfsmennirnir og hlaðvarpskonurnar Ástrós Hind Rúnarsdóttir og Tanja Rasmussen sem standa á bak við útvarpið og ætla þær að vera með beina útsendingu af netinu milli 12:00 og 20:00 föstudag, laugardag og sunnudag.
Dagskráin verður fjölbreytt en þær ætla meðal annars að taka viðtöl við Mosfellinga úr ýmsum áttum, rifja upp gamla tíma og spila tónlist.
Þær hvetja alla bæjarbúa til að senda inn óskalög og kveðjur í gegnum netfangið utvarpmoso@gmail.com eða á instagram síðu útvarpsins, @utvarpmoso.

Hægt verður að hlusta á útsend­ing­arnar á www.utvarpmoso.net