Útiveran heillar mig mest

Íslandsmótið í golfi fór fram á Vestmannaeyjavelli í sumar. Í karlaflokki fór Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar með sigur úr býtum en hann fór hringina þrjá á 204 höggum eða 6 undir pari vallarins.
Kristján Þór hefur notið mikillar velgengni á golfferli sínum en hann vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil aðeins 17 ára gamall.

Kristján Þór fæddist í Reykjavík 11. janúar 1988. Foreldrar hans eru þau Hrafnhildur Kristín Kristjánsdóttir aðstoðarkona tannlæknis og Einar Páll Einarsson rafvirki og flugvéla- og flugmódelasmiður. Hrafnhildur Kristín lést árið 1995.
Kristján Þór á fjögur hálfsystkini, Erlend Jón f. 1971, Steingrím Óla f. 1973, Hrefnu Sigurlaugu f. 1975 og Rakel Dögg f. 1979.

Rosa frægur fótboltakarl
„Ég ólst upp bæði í Kópavogi og í Mosfellsbæ og á ekkert nema góðar minningar frá báðum þessum stöðum. Maður var ævintýragjarn sem krakki og oftar en ekki var maður kominn langt í burtu frá heimilinu og stundum þurfti að leggja í leit til að finna mig.
Ég var einnig mikið í Vestmannaeyjum á mínum æskuárum en móðir mín er ættuð þaðan, ég á frábærar minningar frá þeim tíma.
Mér er minnisstætt þegar ég fór á Shellmótið 1998, þá spilaði ég með HK og við urðum Shellmótsmeistarar. Það sem stóð upp úr á þessu móti var að pabbi tók alvöru myndatökuvél með sér og hann tók upp alla leikina hjá öllum liðunum hjá HK. Hann setti síðan allt mótið á vídeóspólu til að gefa strákunum, þetta vakti mikla lukku.
Skyldmenni mín úr Eyjum komu og fylgdust með öllum leikjum hjá mér og mér leið eins og ég væri orðinn rosa frægur fótboltakarl,“ segir Kristján og brosir.

Þetta var mjög erfiður tími
„Þegar ég var sjö ára þá missti ég móðir mína úr krabbameini, hún lést rétt fyrir jólin og ég man hvað þetta var erfiður tími. Ég eyddi jólunum með fjölskyldu mömmu í Vestmannaeyjum, það var gott að vera þar því þá gat ég komið við hjá mömmu í kirkjugarðinum.
Að missa móður svona ungur hefur haft mikil áhrif á líf mitt en það hefur gert mig að þeim manni sem ég er í dag. Ég hef fengið mikinn stuðning bæði frá föður- og móðurfjölskyldum mínum í gegnum tíðina. Þau hafa í raun umvafið mig alla tíð og fyrir það er ég þakklátur.
Pabbi á mikið hrós skilið fyrir það að standa sig vel í uppeldinu, það er ekkert einfalt að vera einstætt foreldri. Hann hafði hæfilegan aga á heimilinu og studdi mig á allan hátt í öllu því sem mig langaði til að gera, í tónlistarnáminu, íþróttunum sem og öðru.“

Þetta tók ansi mikið á
„Ég gekk í Smáraskóla í Kópavogi fyrstu tvö skólaárin mín en fór svo í 3. bekk í Varmárskóla. Það var pínu erfitt að koma svona nýr inn í bekkinn þótt maður þekkti nokkra krakka því ég var svo feiminn. Í 4. og 5. bekk lenti ég í því að mér var strítt, mér var strítt á því að eiga enga mömmu, það tók ansi mikið á.
Heilt yfir var samt mjög gott að vera í Varmárskóla og maður eignaðist marga vini. Eftir útskrift fór ég í Verzlunarskóla Íslands í tvö ár en færði mig svo yfir í Borgarholtsskóla. Með skólanum starfaði ég í Snæland vídeó, pizzustað, Kaffi Kidda Rót og Hvíta riddaranum. Ég kenndi líka á golfnámskeiði barna hjá Golfklúbbnum Kili.
Á sumrin á skólaárunum starfaði ég sem grassláttumaður á Hlíðavelli. Eftir vinnu var maður svo í golfi og í fótbolta út í eitt og skreið seint heim á kvöldin.“

Verkefnin eru mörg og misjöfn
Kristján Þór á tvö börn, Hrafnhildi Lilju f. 2013 og Ými Annel f. 2014. Kristján hefur starfað hjá Byggingafélaginu Bakka ehf. frá 2014, fyrst sem verkamaður en fór síðan í smíðanám og kláraði sveinsprófið. Í dag er hann útlærður húsasmiður. Hann segir starfið sitt afar skemmtilegt því verkefnin séu mörg og misjöfn hverju sinni.
„Við fjölskyldan erum núna öll komin í golfið svo það verður gaman að spila saman næsta sumar. Við förum líka reglulega í sund, hjólatúra, bíltúra, bíó og fleira tilfallandi.“

Hófum allir æfingar hjá klúbbnum
„Íþróttir í heild sinni eru mín helstu áhugamál og þá fyrst og fremst golf og fótbolti,“ segir Kristján aðspurður um áhugamálin. „Ég byrjaði í golfi sumarið 1998, fór þá á golfnámskeið með tveimur æskuvinum mínum, Davíð Gunnlaugssyni núverandi íþróttastjóra Golfklúbbs Mosfellsbæjar og Kára Erni Hinrikssyni heitnum en hann lést árið 2016.
Eftir námskeiðið hófum við allir æfingar hjá golfklúbbnum, Árni Jónsson var okkar fyrsti golfkennari, ansi hress karl sem við höfðum mjög gaman af.“

Fór til Bandaríkjanna í nám
Árið 2002 tók Ingi Rúnar Gíslason við sem aðalþjálfari afreksstarfsins í klúbbnum. Kristján Þór var fljótlega valinn í landsliðshópa og fór í margar æfinga- og keppnisferðir með landsliðinu næstu sjö árin.
Kristján vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil þegar hann var 17 ára en þá varð hann Íslandsmeistari í holukeppni í flokki 16-18 ára, hann vann þetta sama mót ári seinna.
Tvítugur að aldri vann hann Íslands­mótið í höggleik í karlaflokki eftir mikla dramatík á síðasta keppnisdeginum. Árið 2009 varð hann aftur Íslandsmeistari er hann vann holukeppni í karlaflokki og 2014 vann hann sama mót og varð einnig stigameistari mótaraðarinnar sama ár.
Kristján fór til Bandaríkjanna í nám á árunum 2010-2012 og þar tókst honum að vinna þrjú mót á bandarísku háskólamótaröðinni og eru það flestir sigrar á mótaröðinni enn þann dag í dag hjá íslenskum kylfingi.

Þrautseigja skilaði tveimur titlum
Kristján Þór hefur notið mikillar velgengni á golfvellinum á sínum ferli og nú síðasta sumar skilaði þolinmæðisvinna og þrautseigja honum tveimur titlum í viðbót. Hann varð Íslandsmeistari í höggleik og tveimur vikum síðar sigraði hann í Korpubikarnum sem var síðasta mótið á mótaröðinni og tryggði sér um leið stigameistaratitilinn.
En hvað er það sem heillar hann mest við golfíþróttina? „Klárlega náttúran og útiveran, félagsskapurinn og svo er jú auðvitað alltaf gaman að vinna titla,“ segir Kristján Þór brosandi er við kveðjumst.

Síðasta úthlutun úr Samfélagssjóði KKÞ

19 styrkir voru veittir úr Samfélagssjóði KKÞ þann 22. október.

Laugardaginn 22. október fór fram þriðja og síðasta úthlutun styrkja úr Samfélagssjóði KKÞ.
Sjóðurinn var stofnaður eftir félagsslit Kaupfélags Kjalarnesþings og eftir þessa þriðju úthlutun verður sjóðurinn lagður niður. Sjóðurinn hefur alls úthlutað vel á sjöunda tug milljóna til hinna ýmsu samfélagsverkefna á fyrrum félagssvæði kaupfélagsins sem nær yfir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjósarhrepp.
Um síðustu helgi var úthlutað um 30 milljónum en styrkir eru veittir hópum, sjálfseignarstofnunum og frjálsum félagasamtökum. Aðilar sem starfa með einum eða öðrum hætti í anda æskulýðs- og menningarmála, góðgerðar- og líknarmála eða hafa með höndum aðra þá starfsemi er horfir til almannaheilla á fyrrum félagssvæði Kaupfélags Kjalarnesþings höfðu rétt til þess að senda inn umsókn.

Fjármunir aftur heim í hérað
Ég vil þakka félagsmönnum kaupfélagsins fyrir að taka þá skynsamlegu ákvörðun um mitt ár 2016 að slíta félaginu, selja eignir þess og láta þær peningalegu eignir sem eftir stæðu renna inn í sjálfseignarstofnunina, Samfélagssjóð KKÞ. Því án þessarar ákvörðunar værum við ekki hér að færa hluta fjármunanna aftur heim í hérað, aftur til grasrótarinnar,“ segir Stefán Ómar Jónsson formaður Samfélagssjóðsins.
Með honum í stjórn sjóðsins eru þau Birgir D Sveinsson, Steindór Hálfdánarson, Sigríður Halldórsdóttir og Svanlaug Aðalsteinsdóttir.


Kaupfélag Kjalarnesþings var stofnað um miðja síðustu öld og starfaði fyrstu árin að Fitjakoti á Kjalarnesi en lengst af, eða frá 1956, í Mosfellssveit.
Kaupfélagið sjálft hætti verslunarrekstri um 1997 og leigði verslunarhúsnæði sitt út eftir það meðal annars til Krónunnar og fleiri aðila. Félaginu var slitið í júlí árið 2016 og samfélagssjóðurinn stofnaður í lok árs 2017. 

Upplýsingar um fyrri styrkþega og úthlutun Samfélagssjóðsins má finna á www.kaupo.is.


19 styrkir voru afhentir laugardaginn 22. október. 

Alexander Kárason
1.500.000 kr.
Viðurkenning á starfinu Finndu neistann, ungmennastarfi í samvinnu við skóla- og félagsmálayfirvöld. Verkefni sem snýst um að hjálpa krökkum sem mörg eru týnd í skólakerfinu, félagslega eða af öðrum ástæðum.

Andrastaðir á Kjalarnesi – Heimili í sveit
2.000.000 kr.
Kaup á húsgögnum í hið nýja sambýli að Andrastöðum á Kjalarnesi. Heimili fyrir einstaklinga með tvígreiningar eða fjölgreiningar.

Afturelding
5.500.000 kr.
Viðurkenning á mikilvægi barna- og ungmennastarfs allra deilda UMFA.

Afturelding – Aðalstjórn UMFA
1.700.000 kr.
Kaup á skrifstofuhúsgögnum og tækjabúnaði í nýja aðstöðu aðalstjórnar að Varmá.

Ásgarður
2.000.000 kr.
Endurnýjun á tækjabúnaði í vinnustofum Ásgarðs, verndaðs vinnustaðar í Álafosskvos. Ásgarður veitir þroskahömluðum einstaklingum vinnu og þjónustu í einstöku umhverfi.

Búnaðarsamband Kjalarnesþings
1.500.000 kr.
Gerð kvikmyndar um sögu og þróun landbúnaðar á svæði félagsins allt frá Suðurnesjum að Hvalfjarðarbotni.

Félag aldraðra í Mosfellsbæ
1.500.000 kr.
Endurnýjun á fótaaðgerðarstól, sem staðsettur er í þjónustumiðstöð aldraðra að Hlaðhömrum 2, og annarra áhalda til gagns í starfsemi félagsins.

Karlar í skúrum
2.000.000 kr.
Stækkun á vélasal og efnisgeymslu að Skálahlíð 7A. Í Skúrnum eru skapaðar aðstæður fyrir karla þar sem heilsa og vellíðan þeirra er í fyrirrúmi og þar sem þeir geta haldið sér við líkamlega, andlega og félagslega.

Kraftlyftingafélag Mosfellsbæjar
1.500.000 kr.
Endurnýjun á æfinga- og keppnis­búnaði vegna kraftlyftinga.
Í félaginu er lögð áhersla á tvær íþróttagreinar, ólympískar lyftingar og kraftlyftingar. Í félaginu fer fram öflugt barna- og unglingastarf.

Kvenfélag Mosfellsbæjar
250.000 kr.
Framlag til menningar- og samfélagsverkefna.

Kvenfélag Kjósarhrepps
500.000 kr.
Framlag til menningar- og samfélagsverkefna og matar­menningarhátíðar í Kjós.

Kvennakórinn Stöllurnar
750.000 kr.
Viðurkenning á kórstarfi og framlagi til menningarmála. Leiðarljós kórsins er að auðga menningar- og tónlistarlíf í Mosfellsbæ og hefur kórinn í þessu sambandi tekið þátt í nokkrum leiksýningum með Leikfélagi Mosfellsbæjar.

Lionsklúbbur Mosfellsbæjar
250.000 kr.
Framlag til líknar- og samfélagsverkefna á starfssvæði klúbbsins.

Samhjálp – Hlaðgerðarkot
2.500.000 kr.
Endurnýjun á húsgögnum og innanstokksmunum í Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal. Hlaðgerðarkot er elsta starfandi meðferðarheimili landsins. Þar er unnið með einstaklinga sem eiga við fíknivanda að stríða.

Sigfús Tryggvi Blumenstein
250.000 kr.
Viðurkenning á störfum við söfnun og varðveislu stríðsminja.

Skátafélagið Mosverjar
1.000.000 kr.
Endurnýjun eldhúss í skátaheimilinu í Álafosskvos.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar
3.500.000 kr.
Endurnýjun á sexhjóli til nota á skógræktarsvæðum félagsins.

Soroptimistaklúbbur Mosfellssveitar
500.000 kr.
Átak í uppgræðslu og uppsetning á bekkjum í trjálundi klúbbsins í Mosfellsdal.

Vindáshlíð í Kjós
1.500.000 kr.
Endurnýjun á húsnæði og innanstokksmunum í sumarbúðunum að Vindáshlíð. KFUM og KFUK stendur fyrir faglegu barna- og æskulýðsstarfi en félagið starfrækir fimm sumarbúðir og þar á meðal Vindáshlíð.

 

Fjallað er um úthlutunina í nýjasta tölublaði Mosfellings sem má lesa hér.

 

 

 

 

Blakdeildin gefur 2.300 endurskinsmerki

Skólastjórar taka við gjöfinni.

Í síðustu viku voru afhent um 2.300 endurskinsmerki til leik- og grunnskóla Mosfellsbæjar. Þessi merki eru með Aftureldingarmerkinu á og eru gefin börnum í tveimur efstu árgöngum í leikskólum bæjarins og öllum grunnskólabörnum.
Blakdeild Aftureldingar hefur leitað til fyrirtækja í Mosfellsbæ og nágrenni til að styrkja þetta þarfa verkefni og er ákaflega þakklát þeim fyrirtækjum sem sáu sér fært að vera með í þessu þarfa verkefni.

Börn og unglingar beri merkin stolt
Vonast deildin til þess að börn og unglingar í bænum beri merkin stolt og sjáist þar af leiðandi betur í umferðinni og á bílastæðum bæjarins nú þegar dagurinn fer að styttast meira og meira.
Skólastjórar Krikaskóla og Varmárskóla, þær Þrúður Hjelm og Jóna Benediktsdóttir veittu merkjunum viðtöku fyrir sína skóla að Varmá. Skólastjórar hinna skólanna áttu því miður ekki heimangengt en fengu merkin afhent í skólana sína.

Tengsl og seigla

Ég hitti gamlan félaga í vikunni. Við höfum þekkst lengi. Ég man ekki alveg nákvæmlega hvernig við kynntumst, rámar í að það hafa verið í bekkjarpartýi í MS en þáverandi kærasta hans (og núverandi eiginkona – svo ég vitni í Leibba okkar gröfu) var með mér í ansi hreint skemmtilegum bekk. Þessi félagi er einn sá seiglaðasti sem ég þekki. Lætur ekkert koma sér úr jafnvægi og er ætíð trúr sínum hugmyndum og verkefnum.

Mér finnst þetta aðdáunarverður eiginleiki og ég hef fylgst með honum og einu af hans áhugaverðasta verkefni úr fjarlægð í mörg ár. Þetta verkefni og hugmyndafræðin á bak við það var langt á undan sinni samtíð og ég var svo heppinn að fá að taka þátt í því á sínum tíma að fá að vinna við það í nokkra mánuði. Hittingurinn í vikunni snérist einmitt um þetta verkefni og nú 30 árum eftir að ég kynntist því sé ég mikla möguleika á hvernig hægt er að nýta aðferðafræðina sem það snýst um í íþróttaheimum í dag.

Ég heyrði í öðrum góðum félaga í vikunni. Hann var að benda mér á áhugavert heilsueflandi framtak í bæjarfélagi á höfuðborgarsvæðinu og hvatti mig til að heyra í þeim af því mínar hugmyndir og þeirra færu svo vel saman.

Mér þykir ótrúlega vænt um þessa félaga mína og marga aðra sem ég hef kynnst í gegnum mitt ferðalag í gegnum lífið. Ef ég ætti að gefa yngstu kynslóðum þessa lands eitt ráð í dag væri það að koma vel fram við alla og hafa raunverulegan áhuga á því sem aðrir eru að fást við. Hlusta og fræðast um þeirra sýn á heiminn og þeirra viðfangsefni í lífinu. Það er bæði gefandi og áhugavert og er líklegt til þess að byggja upp góð tengsl sem endast út lífið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 27. október 2022

Ungt fólk hefur alltaf heillað mig

Örlygur Richter fyrrverandi skólastjóri var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu.

Örlygur Richter var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf á vettvangi félags- og skólamála við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 17. júní sl.
Örlygur hefur starfað lengi við stjórnunarstörf, hann segir að í upphafi hafi það verið áskorun en hann hafi alla tíð reynt að vera sá leiðtogi sem ekki skipar fyrir, heldur sá sem kann að hlusta.

Örlygur er fæddur á Holtsgötu 41 í Reykjavík 7. september 1944. Foreldrar hans eru Margrét Hjaltested Richter húsmóðir og Ulrigh Richter afgreiðslustjóri hjá Flugfélagi Íslands.
Örlygur á tvö systkini, Sigurð H. Richter­ ­náttúrufræðing f. 1943 og Mörtu Hildi Richter bókasafnsfræðing f. 1949.

Ræktaði páfagauka í risinu
„Ég er alinn upp í Hlíðunum í Reykjavík, þetta var frábært hverfi og mikið af strákum á mínum aldri og ég eignaðist marga vini. Á þessum árum var maður í fótbolta og í skátunum.
Pabbi hafði alltaf mikinn áhuga á dýrum og í risinu ræktaði hann m.a. páfagauka. En þar var líka fullt af öðrum dýrum allt frá gullhömstrum til hettumáfs. Þarna glímdi maður við að kenna páfagaukum að sitja á putta og öxl og gera alls kyns kúnstir, mér fannst þetta æðislegt,“ segir Örlygur og brosir.

Leynifélagið Hrói höttur
„Í Hlíðunum hófst félagsstarf mitt ef svo má segja þegar við Baldur Marinósson og Steindór Hálfdánarson vinir mínir stofnuðum á barnaskólaaldri leynifélagið „Hróa hött“ og við tók smíði á trésverðum, skjöldum og bogum. Því fylgdu svo fundahöld í geymslu uppi á lofti hjá Baldri. Á loftinu bjó líka amma Baldurs og hún kenndi mér að prjóna.
Ég virkaði víst dálítið ábyrgur og hafði gott lag á börnum, svo sumar mömmurnar í götunni báðu mig stundum um að passa, ég hafði gaman af því.“

Félagsstarfið á næstu grösum
„Ég byrjaði í Ísaksskóla, fór þaðan í æfingadeild Kennaraskólans og svo í Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Mér fannst skemmtilegt í skólanum og á enn góða vini frá þessum tíma.
Í gaggó var maður orðinn unglingur, gekk í svörtum gallabuxum með hvítum saum, bússum og vatteraðri mittisúlpu. Félagsstarfið var alltaf á næstu grösum og ég komst í ritstjórn skólablaðsins Blyssins þar sem ég var seigur að teikna.
Á sumrin með skólagöngunni vorum við fjölskyldan mikið uppi í sumarbústaðnum okkar við Reynisvatn, plöntuðum trjám og fórum í útreiðartúra.“

Langaði að starfa með unglingum
„Ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1964. Á árunum 1967-1971 starfaði ég í hálfu starfi sem framkvæmdastjóri Skátasambands Reykjavíkur. Næst kom stutt stans í Háskóla Íslands, nám í Kennaraskólanum þaðan sem ég útskrifaðist sem kennari 1968. Ég hafði nefnilega fundið út að mig langaði til að vinna með unglingum.
Utan þessa hafði ég mikinn áhuga á alls kyns myndlist og var svo heppinn að fá tilsögn hjá Halldóri Péturssyni teiknara og listmálara.
Á sumrin starfaði ég hjá Flugfélagi Íslands og það var virkilega gaman að kynnast þeim geira.“

Fannst þetta spennandi verkefni
Eftir útskrift úr Kennaraskólanum hóf Örlygur störf sem kennari við Álftamýraskóla þar sem hann starfaði í áratug. Við tók yfirkennarastaða í Ölduselsskóla og síðar skólastjórastaða í Fellaskóla 1985-2000. Frá árunum 2001-2014 starfaði Örlygur sem fjármálastjóri.
Í yfir 20 ár starfaði hann við skrautritun skjala o.þ.h. ásamt því að teikna grínmyndir af útskriftarnemum ýmissa skóla.
„Ég hef alltaf haft áhuga á fólki og ekki síður lífinu sjálfu. Ástæða þess að ég vildi starfa með unglingum í skóla var að mér fannst það spennandi verkefni. Að fá tækifæri til að kenna þeim á lífið í gegnum almenna kennslu og ekki síður í gegnum félagsstörf.
Ungt fólk er nefnilega svo hugmyndaríkt. Ef þú færð góða hugmynd þá er næst að kanna sjálfur hvort hægt sé að framkvæma hana. Nú ef hún gengur svo ekki upp, þá er bara að fá aðra góða hugmynd. Svo er líka gaman að rökræða við ungt fólk, það skilur svo vel rökrétta niðurstöðu.“

Að fara í stjórnunarstörf var áskorun
„Það sem stendur upp úr frá ferlinum er að ég hef borið gæfu til að eiga góða félaga, frábært samstarfsfólk og skemmtilega nemendur. Að fara í stjórnunarstörf var áskorun, ég hef alla tíð reynt að vera leiðtogi, ekki sá sem skipar fyrir, heldur sá sem kann að hlusta. Fá hópinn til að rökræða og finna með honum bestu lausnina og framkvæma hana.
Að fá fálkaorðuna fyrir störf á vettvangi félags- og skólamála bendir vonandi til þess að ég hafi gert eitthvert gagn,“ segir Örlygur og brosir.

Höfum gaman af að ferðast
Eiginkona Örlygs er Helga Richter fv. aðstoðarskólastjóri og fv. bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ. Börn þeirra eru Aðalsteinn f. 1974 og Rannveig f. 1978.
„Við hjónin höfum haft mjög gaman af því að ferðast, við leigðum stundum bíl í Kaupmannahöfn og ókum suður alla Evrópu og sváfum í tjaldi eða gistum á hótelum.
Í seinni tíð höfum við verið að fara í golfferðir og loks tóku Kanarí og Tenerife við, líklega ræður aldurinn þar nokkru.
Við skjótumst líka með börnunum okkar og fjölskyldum þeirra í ferðir erlendis.“

Hef sinnt alls kyns félagsstarfi
„Félagsstörf hafa alltaf átt stóran part í mínu lífi, konan mín segir gjarnan að ég sé félagsmálafíkill,“ segir Örlygur og hlær. Ég hef verið í alls kyns félagsstarfi, m.a Oddfellowreglunni, Rótarýhreyfingunni, Skarphéðingafélaginu og Skátahreyfingunni.
Á skátaskemmtunum í gamla daga lærði ég ýmislegt m.a um leikstjórn og að stjórna stórum skemmtunum sem kom sér vel við að efla félagslíf nemenda í grunnskólum og eins í félögum sem ég hef komið nálægt.“

Settu upp á annan tug revía
„Í Karlakórnum Stefni urðu líka til á sínum tíma tvær hljómsveitir af praktískum ástæðum. Þessar hljómsveitir spiluðu á skemmtunum hjá kórnum og víða á suðvesturhorni landsins. Þetta var skemmtilegur tími, þarna spiluðu með mér Grímur Grímsson, Hans Þór Jensson, Kristján Finnsson, Páll Helgason og fleiri.
Þegar þurfti að afla peninga vegna utanferða kórsins þá fórum við kórfélagarnir í það að halda skemmtikvöld. Þar gat ég orðið að örlitlu liði með uppsetningu skemmtiatriða og stjórnun skemmtana ásamt mörgum frábærum félögum.
Kórinn setti upp á annan tug revía og skemmtikvöld með balli á eftir. Þessar skemmtanir voru vel sóttar og við skemmtum okkur jafn vel og gestirnir,“ segir Örlygur og glottir að síðustu.

Bæjarblað í tvo áratugi

Bæjarblaðið Mosfellingur var stofnað haustið 2002 og fagnar því um þessar mundir 20 ára afmæli. Blaðið kemur út á þriggja vikna fresti og er dreift frítt í öll hús í Mosfellsbæ.
Mosfellingur er frítt, frjálst og óháð bæjarblað sem flytur jákvæðar og skemmtilegar fréttir af því helsta sem gerist í Mosfellsbæ.
Stofnandi blaðsins er Karl Tómasson og stýrði hann blaðinu fyrstu þrjú árin. Frá árinu 2005 hefur blaðið verið í umsjá Hilmars Gunnarssonar sem ritstýrt hefur blaðinu í 17 ár.

Skemmtilegast að fá viðbrögð
„Blaðið hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum tíðina og ávallt vegið þungt í menningarlífi og allri umræðu í sveitarfélaginu,“ segir Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings. Blaðið leysti fljótt af hólmi þau pólitísku blöð sem gefin voru út, hvert í sínu horni.
„Skemmtilegast hefur verið að fá viðbrögð bæjarbúa sem virðast njóta þess að fá fréttir úr heimabyggð beint í æð. Gallup gerði könnun á lestri blaðsins fyrir skömmu og kom þar bersýnilega í ljós sá áhugi sem Mosfellingar hafa á nærsamfélaginu en 90% bæjarbúa lesa blaðið. Það er virkilega ánægjulegt að sjá það svart á hvítu.“

Rekstur sem grundvallast af auglýsingatekjum
„Ég vil nota tækifærið og þakka því góða fólki sem hefur tekið þátt í þessari vegferð með okkur og þeim fyrirtækjum sem auglýsa í blaðinu og gera það að verkum að hægt er að halda úti bæjarblaði í Mosfellsbæ.
Mosfellingur er rekinn eingöngu af auglýsingatekjum. Karl Tómasson á þakkir skildar fyrir sinn drifkraft í blaðaútgáfu og fyrir að treysta mér fyrir framhaldinu.
Á síðustu árum höfum við auk prentmiðilsins haldið úti öflugu upplýsingaflæði til bæjarbúa í gegnum Facebook, Instagram og heimasíðu blaðsins. Það nýjasta er svo Mosfellingur í beinni, sem hóf göngu sína á Instagram fyrir kosningar. Samfélagsmiðlar koma og fara en prentað eintak Mosfellings viljum við halda í sem allra lengst.“

Gleðst yfir þessum tímamótum
„Eftir nokkurra ára stúss í blaðamennsku með heiðursmönnunum, Gylfa Guðjónssyni og Helga Sigurðssyni og síðar á hinum pólitíska vettvangi sem ritstjóri Sveitunga, sem var málgagn vinstri manna, ákvað ég að stofna mitt eigið blað, Mosfelling,“ segir Karl Tómasson.
„Lína mín var fljót að finna nafn á blaðið og kom með margar góðar hugmyndir að föstum liðum í blaðinu sem ég gleðst mikið yfir að eru sumir enn á sínum stað, 20 árum síðar. Ég gleðst innilega yfir þessum tímamótum og óska Hilmari Gunnarssyni og aðstandendum öllum til hamingju.“

Blað allra Mosfellinga
„Þegar ég stofnaði Mosfelling var alltaf ljóst að blaðið ætti að vera allra Mosfellinga, óháð öllum pólitískum flokkadráttum. Það gekk upp og er blaðið sannarlega allra.
Þegar ég tók svo slaginn á hinum pólitíska vettvangi í Mosfellsbæ gerði ég mér grein fyrir að á sama tíma gat ég ekki verið eigandi og ritstjóri slíks málgagns.
Minn helsti aðstoðarmaður og vinur kom strax upp í hugann sem arftaki minn og ég var alltaf viss um að betri mann gæti ég ekki fengið. Hilmar minn, nokkur persónuleg orð til þín kæri vinur. Þú ert engum líkur, fagmaður fram í fingurgóma, alltaf boðinn og búinn og gerir allt svo vel. Til hamingju með besta og flottasta bæjarblað á landinu,“ segir Karl Tómasson.

Smass hefur opnað í Háholti

Mosfellingurinn Magnús Jökull á Smass í Háholti.

Þann 23. september var opnaður nýr Smass hamborgarastaður í Háholti í Mosfellsbæ.
Þetta er fjórði staðurinn sem við opnum á tæpum tveimur árum. „Við erum nokkrir félagar úr Vesturbænum sem opnuðum fyrsta staðinn fyrir tæpum tveimur árum.
Við höfum fengið frábærar viðtökur og þar sem yfirkokkurinn okkar, hann Magnús Jökull, er Mosfellingur lá beinast við að opna næsta stað í Mosó,“ segir Guðmundur Óskar, einn af eigendum Smass.

Sérstakt bragð af Smass borgurum
„Okkur fannst vanta þennan stíl af hamborgurum á íslenskan markað, smass hamborgarastíllinn er í raun elsta leiðin til að gera hamborgara og hefur verið mjög vinsæl að undanförnu, sérstaklega í Bandaríkjunum. Þú tekur tvær kúlur í staðinn fyrir eitt buff og þrýstir þeim fast á sjóðheita pönnu til að brúna kjötið og fá þetta góða bragð. Við bjóðum upp á nokkar týpur af borgurum og hefðbundið meðlæti, það er líka hægt að fá hjá okkur bæði vegan og ketó útgáfur af hamborgurum,“ segir Guðmundur og er himinlifandi yfir móttökunum hjá Mosfellingum á fyrstu dögunum.

Alvöru hamborgarar
„Fljótlega eftir opnun á fyrsta staðnum okkar þá gekk Magnús til liðs við okkur sem yfirkokkur en hann er lærður matreiðslumeistari. Það er hann sem masterar uppskriftirnar og ferlana í framleiðslunni hjá okkur og sér um að allt fari rétt fram. Hann var búinn að tala lengi um að það vantaði alvöruhamborgara í Mosó,“ segir Guðmundur að lokum og hlær.
Staðurinn er opinn alla daga kl. 10:30-20:00 og mun á næstunni líka bjóða upp á netpantanir og heimsendingu.

Í þá gömlu góðu… Nemendur Varmárskóla 1964-1965

Nemendur Varmárskóla skólaárið 1964-1965.

Ljósmyndin sem hér fylgir var birt í Mosfellingi 16. desember 2010 og fylgdu þá væntingar um að reynt yrði að nafnsetja hana. Hér er gerð tilraun til þess. Dagbækur skólans komu að góðu gagni. Þó tókst ekki að tengja nöfn og mynd allra nemenda. Undirritaður naut dyggrar aðstoðar Helgu Jónsdóttur frá Reykjum o.fl. við verkefnið, sem var bráðskemmtilegt og vakti góðar minningar frá fyrstu árum skólastarfs í Varmárskóla.

Athugasemdir og ábendingar eru vel þegnar.
Umsjón Birgir D. Sveinsson (birgird@simnet.is)

Nemendur Varmárskóla skólaárið 1964-1965.
Mynd: Ragnar Lárusson. Vinnsla: Birna Mjöll
Talið er efst frá vinstri:
1. Bjarni Snæbjörn Jónsson, Reykjum
2. Hróbjartur Óskarsson, Hlíðartúni
3. Magnús Benediktsson, Mosfelli
4. Níels Hermannsson, Helgastöðum
5. Birgir Pedersen, Ásulundi
6. Stefán Ómar Jónsson, Steinum
7. Ólafur Þór Ólafsson, Hlíðartúni
8. Birgir Aðalsteinsson, Korpúlfsstöðum
9. Jón Jóhannsson, Dalsgarði
10. Georg Magnússson, Vinjum
11. Björn Heimir Sigurbjörnsson, Reykjahlíð
12. Halldór Vignir Frímannsson, Blómsturvöllum
13. Svafar Gestsson, Úlfarsá
14. Guðmundur Bjarnason, Mosfelli
15. Einar Þórir Magnússon, Reykjabraut
16. Pétur Haukur Ólafsson, Ökrum
17. Kjartan Þórðarson, Dælustöð
18. Sigurður Andrésson, Álafossi/Sandgerði
19. Sturlaugur Tómasson, Markholti 4
20. Guðmundur Jónsson, Suður-Reykjum
21. Óli Þór Ólafsson?, Hlíðartúni
22. Hafsteinn Jónsson, Reykjadal
23. X
24. Sveinn Val Sigvaldason, Skólabraut 3
25. Valgeir Guðmundsson, Markholti 2
26. Þorsteinn Pétursson, Dallandi
27. Páll Magnússon, Hvarfi
28. Guðjón Þorbjörnsson, Korpúlfsstöðum
29. Laust Krüger Ottsen, Álafossi
30. Ríkharður Pétursson, Dallandi
31. Aðalsteinn Aðalsteinsson, Korpúlfsstöðum
32. Jón Gunnar Benediktsson, Bjargarstöðum
33. Þorkell Jóelsson, Reykjahlíð
34. Thor Thors, Lágafelli
35. Þórður Hauksson, Reykjalundi
36. Bjarki Bjarnason, Mosfelli
37. Ómar Örnfjörð Magnússon, Selholti
38. Bjarni Ásgeir Jónsson, Suður-Reykjum
39. Erling Pedersen, Ásulundi
40. X
41. Guðmundur H. Guðmundsson, Þormóðsdal
42. Unnur Jónsdóttir, Helgafelli
43. Ragnheiður Ragnarsdóttir, Reykjavöllum
44. Helga Jörundardóttir, Litlalandi
45. Bryndís Einarsdóttir, Reykjadal
46. Ásdís Frímannsdóttir, Blómsturvöllum
47. Guðný Margrét Ólafsdóttir, Hamrafelli
48. Guðlaug Sigurðardóttir, Reykjadal
49. Sigríður Jóhannsdóttir, Dalsgarði
50. Sigrún Þórarinsdóttir, Markholti 4
51. Guðrún Önfjörð Magnúsdóttir, Selholti
52. Kristín Gylfadóttir, Eyrarhvammi
53. Jóna María Eiríksdóttir, Reykjalundi
54. Guðný Björg Þorgeirsdóttir, Varmadal
55. Hrafnhildur Hreinsson, Markholti 6
56. Þóranna Halldórsdóttir, Ösp
57. Sigurjón Ásbjörnsson, Álafossi
58. Bjarki Jónsson, Árvangi
59. Árni Guðnason, Álafossi
60. Jens Indriðason, Víðigerði
61. Gunnlaugur Jón Hreinsson, Laugabóli
62. Jón Sveinbjörn Haraldsson, Markholti
63. X
64. Diðrik Ásgeirsson, Suður-Reykjum
65. Guðni Þór Guðmundsson, Þormóðsdal
66. Pétur Thors, Lágafelli
67. X
68. Rósa Árnadóttir?, Árbakka
69. Rósa Ragnarsdóttir, Reykjavöllum
70. Úlfhildur Guðmundsdóttir, Dælustöð
71. Vigdís Sveinsdóttir?, Bjargi
72. Sigríður Sveinsdóttir, Bjargi
73. Helga Jónsdóttir, Suður-Reykjum?
74. Dóróthea Lárus-/Lorensdóttir, Hlíðartúni
75. Hlíf Hreiðarsdóttir, Hlíðartúni
76. Kristín Óskarsdóttir, Hlíðartúni
77. Hanna Erlendsdóttir, Hömrum
78. Margrét Þóra Baldursdóttir, Þórsmörk
79. Sjöfn Benjamínsdóttir?, Álafossi
80. X
81. Áslaug Höskuldsdóttir, Dælustöð
82. Þorsteinn Kristinsson, Melstað
83. Ólöf Helga Þór?, Blómvangi
84. Guðrún Indriðadóttir, Víðigerði
85. Hafdís Hreiðarsdóttir, Fjallabaki?
86. Þóra Gylfadóttir, Eyrarhvammi
87. Svanhildur Árnadóttir, Litlu-Blómvöllum
88. Anna Guðrún (Systa) Guðnad., Álafossi
89. X
90. Herdís Hermannsdóttir?, Helgastöðum
91. Arndís Jóhannsdóttir?, Dalsgarði
92. Sigurlaug Óskarsdóttir, Garði 93. X
94. Hulda Sveinsdóttir, Reykjahlíð
95. Svanhvít Hreinsdóttir, Laugabóli
96. Elsa Hákonardóttir, Mosfellsdal
97. Ingunn Egilsdóttir?, Hlíðartúni
98. Ástríður Jóhannsdóttir, Lyngási
99. Sigríður Pétursdóttir (Síta)?, Markholti nr.?
100. X
101. Jóhanna Hermannsdóttir, Helgastöðum
102. María Titia Ásgeirsdóttir, Suður-Reykjum
103. Anna B. Gísladóttir, Reykjahlíð
104. Ingvar Hreinsson, Markholti 6
105. Marteinn Stefánsson, Litlagerði
106. Lorens Lárusson, Hlíðartúni
107. X
108. Andrés Thors, Lágafelli
109. Pétur Heimir Guðmundsson Garði
110. X, 111. X, 112. X
113. Allan, 1954 114. Lárus Halldórsson, Ösp
115. Ágúst Tómasson?, Eik
116. X
117. X
118. Ármann Óskar Gunnarsson, Stekkjargili
119. Sigurbjartur Ág. Guðmundsson, Lyngási
120. Guðmundur Þórðarson, Reykjaborg
121. Helgi Ásgeirsson, Reykjum
122. X
123. Þórarinn Sveinsson, Láguhlíð
124. Kristján Ingi Jónsson, Reykjum
125. Steinar Jónsson, Steinum
126. Magnús Tumi Magnússon, Hvarfi
127. Kristinn Hannesson, Hlíðartúni
128. Valdimar Stefánsson (Bóbó), Litlagerði
129. X
130. Torfi Axelsson, Ekru
131. X
132. Smári Baldursson, Þórsmörk
133. Hafdís Hannesdóttir, Lágafelli
134. Unnur Pétursdóttir, Markholti 12
135. Regína Úlfarsdóttir, Rein
136. X
137. Anna Guðmundsdóttir, Reykjalundi
138. María Guðmundsdóttir, Þormóðsdal

 

60 ára afmælishátíð Varmárskóla

Jóna Benediktsdóttir tekur við gjöf frá foreldrafélagi skólans. 

Haldið var upp á 60 ára starfsafmæli Varmárskóla fimmtudaginn 29. september. Dagskrá var á sal þar sem farið var stuttlega yfir skólasöguna, samfélagsbreytingar og breytt viðfangsefni skólastarfs framtíðarinnar.
„Skólar þurfa nú að búa börn undir samfélag sem enginn veit hvernig verður og þá þarf að leggja áherslu á að nemendur geti þroskað með sér seiglu, ábyrgð og samfélagsvitund ásamt sjálfsþekkingu og færni í að takast á við verkefni líðandi stundar,“ segir Jóna Benediktsdóttir skólastjóri.
Skólinn fékk góðar gjafir í afmælisgjöf, laserskera og forritanleg vélmenni sem munu hjálpa nemendum að undirbúa sig fyrir samfélagið sem bíður þeirra. Fjöldi nemenda, foreldra og annarra gesta heimsótti skólann í tilefni dagsins, spjallaði um skólastarfið og skoðaði verkefni nemenda.

Haustið

Október er kominn. Það þýðir að haustið er formlega komið. September er ekki haustmánuður eins og allir ættu nú að vita. September er síðsumarmánuður og sömuleiðis mikill afmælismánuður, en margir góðir eiga afmæli í september, eðlilega kannski, „julehyggen“ er þarna níu mánuðum áður.

Haustið er tíminn til að kafa ofan í sálina. Næra hugann, lesa góðar bækur – ég er sjálfur að lesa sjálfsævisögu Bruce Springsteen þessa dagana, hún fer virkilega vel af stað, bók sem ég hlakka til að lesa fyrir svefninn – og hlusta á góðar plötur, heilar plötur, ekki bara lag og lag. Ég er einmitt að hlusta á plöturnar hans Bruce frænda míns samhliða því að lesa bókina hans. Mjög áhugaverð tvenna – ég passa mig á því að fara ekki fram úr sjálfum mér, hlusta bara á þær plötur sem ég er búinn að lesa um.

Bruce er magnaður karakter. Hann fékk ekkert upp í hendurnar og þurfti að leggja mikið á sig til að ná frama í tónlistinni. Hann var nægjusamur, auðmjúkur og duglegur. Gafst aldrei upp og lét engan segja sér að hann væri ekki nógu góður til þess að geta lifað af tónlistinni. Eitt sumarið bjó hann á strönd í Jersey með brimbrettatöffurum. Sveif um öldurnar á daginn, æfði sig á gítarinn seinni partinn og spilaði á hinum og þessum stöðum á kvöldin. Svaf svo undir berum himni ásamt hinum brettagaurunum á nóttunni.

Það færir mér hugarró að lesa um Bruce og að hlusta á tónlistina hans samhliða. Hjálpar mér að flæða inn í haustið og gera mig kláran í að tækla lægðirnar sem eru fram undan. Ég er meiri vor og sumar maður, en hef samt lúmskt gaman af haustinu og vetrinum. Það er ákveðin upphafsorka sem fylgir þessu tímabili sem er fram undan. Orka sem fylgir okkur inn í veturinn. Njótum haustsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. október 2022

 

 

Söfnuðu fyrir fjórum útivistarhjólastólum

Systurnar Áslaug Arna og Nína Kristín prófuðu fyrsta stólinn og starfsfólk Reykjadals og Golfklúbbs Mosfellsbæjar fylgdist spennt með. Afhendingin fór fram í Reykjadal í blíðskaparveðri í september.

Palli Líndal við afhendinguna í Reykjadal. 

Reykjadalur fékk á dögunum afhenta fjóra nýja útivistarhjólastóla sem safnað var fyrir á góðgerðargolfmótinu Palla Open sem Golfklúbbur Mosfellsbæjar og Palli Líndal stóðu fyrir.
Mótið gekk vonum framan og var eitt það fjölmennasta sem haldið var á suðvesturhorninu í sumar. Alls söfnuðust 2,5 milljónir króna í tengslum við mótið sem hefur verið varið í kaup á útivistarhjólastólunum.

Stærsta opna mót sumarsins
Mótið var nú haldið í annað sinn á Hlíðavelli en Golfklúbbur Mosfellsbæjar lánar aðstöðuna og sér um umgjörð mótsins án nokkurrar þóknunar.
„Þetta er stærsta opna mótið sem við höldum í dag, rétt rúmlega 200 þátttakendur þannig að það er mikið líf og fjör á vellinum og því mikið sem þarf að huga að. Starfsmenn klúbbsins sem og sjálfboðaliðar sinna þeim störfum með mikilli prýði,“ segir Ágúst Jensson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar.

Frá hugmynd að veruleika
„Hugmyndir mínar og golfklúbbsins fara mjög vel saman, við viljum styrkja okkar nærumhverfi í Mosfellsbæ í samstarfi við félagsmenn klúbbsins,“ segir Páll Líndal. Við viljum sýna samfélagslega ábyrgð í verkum okkar og hugmyndum. Ég er mjög stoltur í hjarta mínu yfir þessu verkefni og ég er stoltur af því að vera félagsmaður í Golfklúbb Mosfellsbæjar.
Ekkert svona verkefni getur orðið að veruleika nema með aðstoð og styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Ég vil þakka öllum þessum aðilum fyrir þeirra framlag og styrki,“ segir Palli.

Vil láta gott af mér leiða

Eva Rún Þorgeirsdóttir rithöfundur og verkefnastjóri nýtur þess að kenna og skapa.

Uppáhaldsstaður Evu Rúnar Þorgeirsdóttur á hennar yngri árum var skólabókasafnið í Langholtsskóla. Þar gat hún gleymt sér í ró og næði í ævintýraveröld bókanna.
Draumur hennar um að skrifa kviknaði þegar hún var átta ára, hún byrjaði á því að skrifa dagbækur og ljóð sem síðar urðu að sögum. Síðastliðin ár hefur hún starfað við fjölbreytt verkefni en ástríða hennar liggur fyrst og fremst í því að búa til vandaðar bækur og sjónvarpsefni fyrir börn.

Eva Rún Þorgeirsdóttir er fædd í Reykjavík 7. nóvember 1978. Foreldrar hennar eru Ásta Eyjólfsdóttir fyrrv. bankastarfsmaður og Þorgeir Ástvaldsson útvarps- og tónlistarmaður. Systkini Evu Rúnar eru þau, Kristjana Helga f. 1971, Kolbeinn Þór f. 1983 og Eygló Ásta f. 1989.

Spiluðu stórt hlutverk í minni æsku
„Ég er alin upp í Langholtshverfinu við Laugardalinn og fannst skemmtilegt að alast upp þar en ég var einnig mikið hjá afa mínum og ömmu í Mosfellssveit og mér fannst líka yndislegt að vera þar, í nálægð við náttúruna.
Ömmur mínar og afar spiluðu stórt hlutverk í minni æsku og ég var heppin að geta varið miklum tíma með þeim.”

Góðar minningar frá Ítalíu
„Ég, bróðir minn og frændi vorum bestu vinir og lékum okkur mikið saman. Við fengum frelsi og traust til að leika okkur með allt sem við vildum. Við fórum í fjöruferðir og söfnuðum fullt af spennandi hlutum. Við settum síðan upp sýningar í garðinum hjá afa og ömmu sem við kölluðum, sædýrasafnið. Þetta eru ómetanlegar minningar alveg hreint,” segir Eva og brosir.
„Ég á einnig margar góðar minningar frá Ítalíu en þangað fórum við fjölskyldan á hverju sumri.”

Leið eins og ég hafði hitt rokkstjörnu
„Ég gekk í Langholtsskóla og mér fannst gaman í skólanum. Íslenska var í uppáhaldi og ég lagði mikinn metnað í að lesa, læra ljóð, skrifa sögur og teikna myndir. Það hefur líklega verið ávísun á það sem ég ætlaði að starfa við í framtíðinni svona án þess að ég gerði mér grein fyrir því.
Skólabókasafnið var uppáhaldsstaðurinn minn og ég lifði mig mikið inn í þær bækur sem ég las. Gömul bekkjarsystir minnti mig nýlega á það að ég hafi alltaf verið að segja henni frá persónum í bókum, sem henni fannst misspennandi,” segir Eva Rún og hlær.
„Ég man eftir því þegar Vilborg Dagbjartsdóttir rithöfundur kom í heimsókn á safnið og las upp úr bók sinni. Ég var átta ára og varð algjörlega heilluð af henni, mér leið eins og ég hafði hitt rokkstjörnu.”

Námið hafði mikil áhrif á mig
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla lá leið mín í Menntaskólann við Hamrahlíð. Eftir góð ár þar ákvað ég að mig langaði að verða blaðamaður og tróð mér inn sem lausablaðamaður á tímarit, þar með hófst minn starfsferill í fjölmiðlum. Stuttu síðar fór ég að skrifa fyrir fleiri tímarit og síðar fékk ég vinnu á Stöð 2, á fréttastofu og við innlenda dagskrárgerð.
Ég naut þess mjög að starfa í fjölmiðlum en ákvað að gera hlé og fara í nám. Fór til London til að læra markaðsfræði og síðan lá leiðin til Árósa í Danmörku. Þar fór ég í nám í skapandi leiðtogafræði sem er verkefnastjórnun með áherslu á hnattræna hugsun og mannleg samskipti. Ég hafði mjög gaman af þessu námi og það hafði mikil áhrif á mig.”

Prófað flestar sundlaugar landsins
Eiginmaður Evu Rúnar er, Snæbjörn Sigurðsson rakari ávallt kallaður Stjúri, börn þeirra eru Ríkharður f. 1999, Sara f. 2007, Tinna f. 2009 og Sindri f. 2014.
„Ferðalög hérlendis og erlendis eru helstu áhugamál okkar fjölskyldunnar, við njótum þess að ferðast og skoða nýja staði. Við höfum einnig gaman af því að fara í sund og höfum líklega prófað flestar sundlaugar landsins.”

Að fylgja flæði lífsins
„Ég hef brallað ýmislegt, er mikið á ferðinni og finnst gaman að fá að vinna með ólíku fólki. Mér finnst skemmtilegast að vera í skapandi vinnu og þrífst á fjölbreytileika.
Eftir námið fékk ég skemmtilegt starf hjá Reykjavíkurborg þar sem ég sá um að halda utan um hina ýmsu viðburði.
Árið 2009 skipti ég um gír og fór í jógakennaranám, langaði að fara í þetta nám því ég hafði iðkað jóga lengi. Mér bauðst starf við að kenna jóga og ákvað að fylgja flæði lífsins og taka því starfi, allir vildu rækta sinn innri mann eftir hrunið. Fljótlega lærði ég svo að kenna börnum jóga og allt í einu var ég farin að kenna barnajógatíma. Í sjö ár var mitt aðalstarf að vera jógakennari og meðfram því byrjaði ég að skrifa bækur.”

Stúfur fer í sumarfrí
Fyrsta bók Evu kom út 2011 og heitir Auður og gamla tréð sem er ævintýra- og kennslubók í jóga fyrir krakka. Síðar gerði hún hugleiðslubókina Ró.
Árið 2015 kom út fyrsta bókin í spennusagnaflokknum, Lukka og hugmyndavélin en undanfarið hefur Eva Rún verið að skrifa bækur um jólasveininn Stúf. Nýjasta bókin heitir, Stúfur fer í sumarfrí, og byggir bókin meðal annars á upplifun Evu á Ítalíu þegar hún var barn.

Stolt af Eddu verðlaununum
Eva starfaði hjá RÚV í þrjú ár sem framleiðandi, handritshöfundur og leikstjóri. Hún hélt utan um framleiðslu á Stundinni okkar, skrifaði handrit að smá seríum bæði fræðslu og leikið efni, og bæði framleiddi og leikstýrði upptökum þar sem krakkar voru í aðalhlutverki.
„Þetta var frábær tími á KrakkaRúv með yndislegu samstarfsfólki. Við unnum Edduna 2021 fyrir besta barna- og menningarþáttinn og ég er mjög stolt af því.
Ég hef líka verið að skrifa hljóðbækur fyrir Storytel sem er skemmtilegt söguform. Ég skrifaði, Sögur fyrir svefninn, sem eru rólegar sögur fyrir krakka til að hlusta á. Ég fékk Íslensku hljóðbókarverðlaunin 2022 í flokki barna- og ungmennabóka fyrir þessa bók.”

Spennandi tímar fram undan
„Nú starfa ég nær eingöngu við ritstörf en ég kenni einnig krökkum að skrifa sögur. Það gefur mér mikið að sjá krakka á námskeiðum hjá mér blómstra og fá sjálfstraust við að koma hugmyndum sínum á framfæri. Mig langar að láta gott af mér leiða með skrifum mínum og kennslu. Efla áhuga á bókum og lestri og líka efla kraftinn og hugmyndasköpun hjá krökkum.
Fram undan eru spennandi tímar, ég er að gefa út nýja bók í haust og eins er ég að skrifa nýja hljóðbók fyrir Storytel. Ég er svo að fara af stað með sögusmiðju-klúbb, ásamt samstarfskonu minni Blævi Guðmundsdóttur, í Borgarbókasafni Reykjavíkur. Þangað geta krakkar komið sem hafa áhuga á því að búa til sögur, bæði skrifa og teikna.
Fleiri spennandi verkefni eru í gangi enda aldrei skortur á hugmyndum í kollinum á mér segir,” Eva Rún brosandi er við kveðjumst.

Súpuveisla Friðriks V til styrktar Mosverja

Ásta, Jón Júlíus, Haukur, Dagga, Eiríkur, Friðrik og Siggi þegar skátunum var færður styrkurinn.

Matreiðslumeistarinn Friðrik V galdraði fram kraftmikla kjötsúpu í Álafosskvosinni á bæjarhátíðinni Í túninu heima.
Ákveðið var að styrkja Mosverja til kaups á nýju eldhúsi í skátaheimilið í Álafosskvosinni.
Hugmyndin kom upp hjá Friðriki V og hjónunum Jóni Júlíusi og Ástu í Álafosskvosinni. „Við höfum verið viðloðandi fiskidaginn mikla frá upphafi en hann hefur nú fallið niður frá því heimsfaraldurinn skall á. Okkur fannst því tilvalið að gera eitthvað skemmtilegt í Mosó og styrkja gott málefni,“ segir Friðrik. „Það kom því upp þessi hugmynd að hjálpa skátunum að safna sér fyrir eldhúsi enda vel við hæfi að elda kjötsúpu til þess í Kvosinni.
Viðtökurnar voru framar björtustu vonum og stemmingin var æðisleg þessa hátíðarhelgi. Veðrið lék einnig við okkur og úr varð frábær nýjung hér á þessum fallega stað.“

Skorar á fyrirtæki að leggja lið
Dagbjört Brynjarsdóttir skátaforingi tekur í sama streng og er himinlifandi með uppátækið. „Við hófum söfnunina með tónleikaröð í vor og með þessari frábæru viðbót erum við komin upp í einn þriðja af eldhúsi,“ segir Dagga en skátarnir fengu alla innkomu sölunnar sem endaði í 724.500 kr.
Friðrik, sem sjálfur er að norðan, fékk styrki frá Norðlenska fyrir kjötinu og hjónin Jón Júlíus og Ásta sköffuðu það sem upp á vantaði eftir að fyrsti skammtur seldist upp á föstudeginum. Allt grænmeti fékkst svo á kostakjörum úr heimabyggð.
Friðrik vill að lokum skora á fyrirtæki í Mosfellsbæ að leggja Mosverjum lið með því að klára eldhúsið í skátaheimilinu.
Það er greinilegt eftir þessa vel heppnuðu súpuveislu að Friðrik og hans fólk hefur ekki sagt sitt síðasta og dreymir um að koma upp matarmarkaði í Álafosskvosinni enda bjóði svæðið upp á mörg tækifæri.

Heilsuhátíðin Heimsljós haldin um helgina

Heilsuhátíðin Heimsljós verður haldin í Lágafellsskóla um helgina.
Hátíðin hefst á heilunarguðþjónustu föstudaginn 16. september kl. 20 í Lágafellskirkju sem sr. Arndís Bernhardsdóttir Linn leiðir.
Heimsljós eru góðgerðarsamtök og þeir sem standa að hátíðinni eru í sjálfboðastarfi og allir þeir sem leggja fram fræðslu eða meðferðir eru að gefa vinnu sína. „Allt þetta fólk á þakkir skyldar fyrir að gera þennan merkilega viðburð að veruleika. Megi þeir njóta heilsu og hamingju,“ segir Vigdís Steinþórsdóttir, skipuleggjandi Heimsljóss.
Í Lágafellsskóla er svo opið frá 11-17 á laugardeginum, sunnudag 11-18.30 endar þá á hinni stórmögnuðu hópheilun þar sem Dísa möntrumeistari syngur og spilar. Þar getur fólk þreifað á kærleikanum hafi það ekki prófað slíkt áður.

Fjölbreytt dagskrá alla helgina
Á hátíðinni koma saman sérfræðingar á mörgum sviðum heilsutengdra mála, fræða, kynna, selja, veita innsýn í hinar ýmsu meðferðir og svo verður hægt að setjast niður og slaka á í hugleiðsluherberginu undir leiðsögn, tali og tónum. Mikill fróðleikur flæðir fram á öllum þessum 12 fyrirlestrum sem boðið er uppá.
Fjölbreytt dagskrá sem hægt er að kynna sér á heimasíðunni heimsljos.is
Frábært tækifæri til að hittast og spjalla, njóta veitinga frá okkar heimamanni, Kristjáni Magg matreiðslumeistara, sem er með okkur í fyrsta skipti.
Allir hjartanlega velkomnir. Að sjálfsögðu er frítt í kirkjuna á föstudeginum. Í Lágafellsskóla er greitt við innganginn á laugardegi 1.500 kr og gildir það líka fyrir sunnudaginn.

Bæjarlistamenn Mosfellsbæjar 2022

Eva Björg, Sigrún og Agnes Wild stofnuðu leikhópinn Miðnætti.

Bæjarlistamaður Mosfellsbæjar var útnefndur við hátíðlega athöfn á bæjarhátíðinni Í túninu heima.
Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar sér um val bæjarlistamanns ár hvert og veitti Hrafnhildur Gísladóttir formaður nefndarinnar þeim Agnesi Wild, Sigrúnu og Evu Björgu verðlaunagrip eftir listakonuna Ingu Elínu ásamt viðurkenningarfé sem fylgir nafnbótinni.

Áhersla á tengingu við Mosfellsbæ
Leik­hóp­inn Miðnætti stofn­uðu þær Agnes Wild leik­kona og leik­stjóri, Sigrún Harð­ar­dótt­ir tón­list­ar­kona og Eva Björg Harð­ar­dótt­ir leik­mynda- og bún­inga­hönn­uð­ur.
All­ar ólust þær upp í Mos­fells­bæ og hafa ver­ið at­kvæða­mikl­ar í mos­fellsku menn­ing­ar­lífi í gegn­um tíð­ina. Stofn­með­lim­ir hóps­ins eiga grunn í Leik­fé­lagi Mos­fells­sveit­ar, skóla­hljóm­sveit­inni, tón­list­ar­skól­an­um og skóla­kór­un­um. Í list­rænu starfi legg­ur hóp­ur­inn áherslu á teng­ingu við Mos­fells­bæ.

Áhersla á vandað menningarefni
Leik­hóp­ur­inn hef­ur ein­beitt sér að sviðslist­um fyr­ir börn og var til­nefnd­ur til Grímu­verð­laun­anna 2017 í flokk­un­um „Barna­sýn­ing árs­ins“ og „Dans og sviðs­hreyf­ing­ar árs­ins“ fyr­ir sýn­ing­una Á eig­in fót­um. Leið­ar­ljós í starf­semi hóps­ins er áhersla á vand­að menn­ing­ar­efni fyr­ir börn og ung­menni.
Álfa­börn­in Þorri og Þura eru með­al sköp­un­ar­verka hóps­ins en einnig má nefna brúðu­sýn­ing­una Geim-mér-ei í Þjóð­leik­hús­inu og Tjald­ið í Borg­ar­leik­hús­inu. Báð­ar þess­ar sýn­ing­ar eru ætl­að­ar yngstu leik­hús­gest­un­um.