Stormsveitin gefur út plötu með frumsömdum lögum

Feðgarnir Arnór Sigurðarson og Sigurður Hansson.

Stormsveitin, sem er rokkkarlakór, er um þessar mundir að leggja lokahönd á plötu með lögum sem samin eru og útsett af Arnóri Sigurðarsyni og textar eftir stórskáldið Kristján Hreinsson.
„Formlega er kórinn orðin 10 ára. Við erum fjórraddaður lítill karlakór sem syngur hefðbundin karlakóralög sem og önnur lög við undirleik rokkhljómsveitar. En við höfum samt margoft komið fram órafmagnaðir,“ segir Sigurður Hansson forsprakki kórsins. Sonur hans Arnór hefur frá stofnun kórsins séð um tónlistarhliðina og útsetningu á lögum.

Platan kemur út á Spotify
„Frá upphafi hef ég verið tónlistarstjóri Stormsveitarinnar, hef séð um að útsetja fyrir hljómsveitina. Svo þróaðist þetta út í að ég varð kórstjórinn líka,“ segir Arnór.
„Ég fann það svo í Covid-ástandinu þar sem við vorum alltaf að byrja og hætta að við þurftum einhverja áskorun.
Það varð úr að ég samdi nokkur lög fyrir kórinn og fékk svo Kristján Hreinsson til að semja textana.
Platan er komin út á spotify en svo er hugmyndin að fara af stað með söfnun á Karolina Fund eftir áramót þar sem hægt verður að tryggja sér plötuna á vínil,“ segir Arnór sem samdi öll lögin á plötunni nema eitt en það lag er samið af föðurbróður hans, saxafónleikaranum Jens Hanssyni.

Útgáfu- og þrettánda­tónleikar í Hlégarði
Laugardaginn 7. janúar verða útgáfu- og þrettándatónleikar í Hlégarði hjá Stormsveitinni. „Það er hefð hjá okkur að vera með þrettándatónleika og í ár bætum við um betur og flytjum nýju plötuna í heild sinni fyrir hlé og svo eftir hlé tökum við þau lög sem okkur hefur fundist skemmtilegast að syngja þau 10 ár sem Stormsveitin hefur starfað.
Við erum með flotta hljómsveit með okkur, auk Arnórs verða Jens Hansson á saxann, Þórir Úlfarsson á hljómborð, Páll Sólmundur á gítar og Jakob Smári á bassa. Við lofum góðri skemmtun og miklu stuði.
Miðasala er hafin á Tix.is og eru miðarnir tilvalin jólagjöf,“ segir Siggi og vonast eftir góðri mætingu á tónleikana.

Hef alltaf horft bjartsýnn fram á veginn

Það er óhætt að segja að líf Þorbjörns Vals Jóhannssonar, eða Tobba eins og hann er ávallt kallaður, hafi tekið stóra u-beygju en hann hefur sl. sextán ár glímt við erfið veikindi. Árið 2007 fór hann í opinn brjóstholsskurð sem hefur haft miklar afleiðingar á líðan hans og haustið 2018 greindist hann með bráðahvítblæði.

Þorbjörn Valur er fæddur í Reykjavík 4. janúar 1969. Foreldrar hans eru Svanhildur Þorkelsdóttir fv. gjaldkeri Mosfellshrepps og fv. forstöðumaður félagsstarfs aldraðra í Mosfellsbæ og Jóhann Sæmundur Björnsson húsasmiður og fv. framkvæmdastjóri Lágafellssóknar en þau eru bæði látin.
Þorbjörn á tvö systkini, Þorkel Ásgeir f. 1963 flugmann og Ölfu Regínu f. 1966 kennara.

Hvatningarópin blésu mér byr í brjóst
„Fyrstu þrjú ár ævi minnar bjó fjölskyldan í Fossvoginum en við fluttum okkur síðan um set á framtíðarheimili okkar í Markholti í Mosfellssveit.
Æskuminningar mínar eru margar og góðar, ég gleymi aldrei þegar ég lærði að hjóla en þá var ég fjögurra ára. Alfa systir og vinir hennar voru að leika sér úti í götu og þau tóku að sér að kenna mér. Alfa hljóp með mér fyrstu ferðirnar en eftir nokkrar ferðir þá sleppti hún takinu. Hvatningarópin frá þeim blésu mér byr í brjósti og frá þessum tíma kunni ég að hjóla.
Fyrsta hrossið mitt eignaðist ég tíu ára gamall og ég hef verið í hestamennsku síðan enda mikil hefð fyrir henni hjá mínu fólki. Við systkinin vorum ung farin að sjá um okkar daga við gjafir í hesthúsinu sem við áttum með afa og móðurbróður okkar.“

Mikill fengur fyrir íbúa Mosfellssveitar
„Ég var í sterkum vinahóp og það var oft ansi mikið fjör hjá okkur krökkunum. Ég var eins og kallaðist þá, fjörugur drengur, prakkari og uppátækjasamur, fékk ótal göt á höfuðið eftir hrakfarir, kinnbeinsbrot og nefbrot, svona var þetta bara á þessum tíma,“ segir Tobbi og brosir.
Við æskuvinirnir, ég, Guðjón D. Haraldsson og Hallur Hilmarsson, vorum saman alla daga. Við fórum ungir að æfa íþróttir og tókum þátt í vígslu íþróttahússins sem var mikill fengur fyrir alla íbúa Mosfellssveitar. Íþróttir á borð við handbolta, fótbolta og frjálsar íþróttir voru æfðar þar reglulega. Ég spilaði handbolta með Aftureldingu í gegnum alla flokka upp í meistaraflokk.
Við félagarnir létum kennarana í Varmárskóla klárlega hafa fyrir hlutunum, vorum fjörugir piltar og síðar enn fjörugri unglingar. Ég var tíður gestur á kennarastofum skólanna, samtöl foreldranna um betri hegðun gleymdust þegar ég gekk út um dyrnar næsta dag. Ég fékk síðan að kenna á eigin brögðum þegar sonurinn hóf sína skólagöngu sem svipaði til pabba hans, ég verð að segja að ég hafði lúmskt gaman af þessu,“ segir Tobbi og hlær.

Hljómsveitin Djók
„Ég og Guðjón D. stofnuðum hljómsveitina Djók 1981. Ég spilaði á bassagítar og hann á trommur. Við höfðum báðir verið í skólahljómsveitinni og Birgir D. Sveinsson stjórnandi sveitarinnar leyfði okkur stundum að nota aðstöðu hennar til að æfa okkur. Fyrsta lagið sem við spiluðum var Jón spæjó, við þóttum töff að geta spilað og oft var kominn áheyrendahópur á gluggana.
Seinna bættust við sveitina Ólafur Hans, Finnbogi, Guðbjörg, Guðmundur og Jón Bjarni en það var mikið gæfuspor þegar sá síðastnefndi bættist í hópinn því síðar giftist ég systur hans, henni Emilíu minni. Hljómsveitin starfar enn í dag þótt löng hlé hafi verið tekin inn á milli. Guðjón, Guðmundur og Jón Bjarni halda uppi merkjum bandsins í dag ásamt mér.“

Útskrifaðist sem húsasmiður
Eftir gagnfræðaskólann fór Tobbi á samning í húsasmíði hjá móðurbróður sínum sem rak Trésmiðjuna K14. Þar störfuðu einnig afi hans og faðir svo það lá beinast við að skella sér í smíðina. Á sumrin starfaði Tobbi við malbikunarvinnu sem hann segir að hafi verið töff, mikil vinna og þar ríkti ekta strákahúmor.
„Eftir sveinspróf 1989 fór ég að starfa við smíðar en eftir áramótin 1990 var orðið lítið að gera svo ég fór að líta í kringum mig eftir öðru starfi. Ég sótti um hjá lögreglunni í Reykjavík og starfaði þar í rúm 30 ár bæði í fíkniefna- og kynferðisbrotadeild, ég lét af störfum árið 2021.
Þegar ég var lítill var ég oft spurður að því hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór og ég svaraði húsasmiður, hestamaður og lögga og þetta rættist allt saman,“ segir Tobbi og brosir.

Alltaf gaman að taka lagið
Tobbi kynntist Emilíu Björgu Jónsdóttur launafulltrúa árið 1992. Þau eiga tvö börn, Jóhann Gylfa f. 1999 og Auði Jóneyju f. 2004.
„Við höfum alla tíð notið þess að ferðast saman við Emilía, fyrst tvö, síðar með foreldrum okkar og svo með börnunum þegar þau komu til sögunnar. Emilía var framan af með mér í hestamennsku og svo höfum við alla tíð átt hunda og notið samvista með þeim í útiveru.
Ég byrjaði í Karlakór Kjalnesinga haustið 1996, var raddprófaður af Páli Helgasyni stjórnanda kórsins og var skipaður í 2. tenór. Þá kom sér vel að hafa verið í lúðrasveit og hafa lært að lesa nótur. Ég var í kórnum í tíu ár eða þar til ég söðlaði um og fór í Karlakór Reykjavíkur sem ég söng með í fimm ár. Það var frábært að syngja í báðum þessum kórum.“

Það fór að bera á miklum verkjum
„Haustið 2006 byrjaði ég að finna fyrir veikindum en faðir minn lést í ágúst sama ár. Ég áttaði mig ekki alveg á hvort veikindi mín stöfuðu af sorginni eða einhverju öðru. Á þessum tíma bjuggum við hjónin á Brautarholti á Kjalarnesi og einn daginn þegar ég var að keyra heim þá missti ég úr hjartaslag í tvígang og var við það að missa meðvitund en náði þó heim. Eftir þetta fór að bera á miklum verkjum frá brjóstholinu og upp í höfuðið.
Haustið 2007 kom í ljós eftir miklar rannsóknir að hóstarkirtill í miðmæti hafði stækkað mikið og lá utan í taugakrans sem liggur í brjóstholinu. Ég þurfti því að fara í opinn brjóstholsskurð til að hægt væri að taka þennan kirtil en talið var möguleiki á að um staðbundið illkynja æxli væri að ræða.
Síðar kom í ljós að þetta var góðkynja en hafði þessar miklu afleiðingar. Í stað þess að brjóstbeinið gréri á um þremur mánuðum þá fór ég lengri leiðina og það gréri á þremur árum með tilheyrandi verkjaveseni og álagi á taugakerfið sem varð mögulega þess valdandi að verkir fóru að dreifast um líkamann og ég átti í miklum vandræðum með gall- og brisgöng. Engin haldbær skýring var af hverju þetta tók svona langan tíma hjá mér að gróa og heilbrigðiskerfið átti í raun í vandræðum með mig.“

Átti góða tíma inn á milli
„Ég mætti stundum neikvæðri framkomu lækna á bráðamóttöku þar sem þeir vissu í raun ekki hvað átti að gera við mig en ég þurfti oft að leita þangað vegna mjög slæmra verkjakasta.
Oftast mætti ég þó góðvild lækna og það var frábær læknir sem annaðist mín mál á endanum. Ég átti góða tíma inn á milli og gat stundað mína vinnu, fjölskyldulíf og áhugamál en svona veikindi lita auðvitað allt og þetta hefur bitnað á börnunum. Við höfum þó átt góðar stundir og gerum enn.“

Leiður á þessu veikindabrasi
„Haustið 2018 fann ég fyrir því að ég var farinn að grennast, mæðast og göngutúrarnir urðu erfiðari, ég tengdi þetta allt við þáverandi verkjaveikindi.
Ég fékk verk í brjóstbak sem ég hafði ekki fundið fyrir áður sem var erfiður að eiga við því engin verkjalyf slógu á. Það kom svo á daginn að þetta tengdist æxli í miðmætinu sem þrýsti á taugar.
Einn daginn vaknaði ég mjög móður, átti erfitt með öndun og gat varla gengið um heimilið okkar. Ég samþykkti með semingi að fara á læknavaktina því ég var orðin mjög leiður á þessu veikindabrasi og taldi þetta öndunarvesen vera tilfallandi. Vakthafandi læknir sendi mig á bráðamóttökuna og má segja að ég hafi ekki farið út af spítalanum nema í örfáa daga fyrr en í mars 2019.“

Vissi strax hvað klukkan sló
„Þessi dagur er mér enn í fersku minni en ég fór í gegnum margar rannsóknir á bráðamóttökunni. Mjög góður læknir var á vakt og hann bað mig um að fylgja sér inn á skrifstofu og þá vissi ég strax hvað klukkan sló.
Í ljós kom að það höfðu þrjú æxli fundist, eitt í miðmætinu, eitt við miltað og það þriðja í fleiðrunni í brjóstholinu og orsakaði það æxli vökva í vinstra brjóstholi. Fimm dögum síðar var ákveðið að tappa vökvanum úr brjóstholinu því ég gat ekki lengur talað vegna öndunarþrengsla. Sex lítrum af vökva var tappað af sem hafði safnast upp og hjartað hafði m.a. færst til vegna þessa.
Við tóku rannsóknir til að finna út hvaða krabbamein ég væri með og eftir mergsýnatöku kom í ljós að um bráðahvítblæði var að ræða. Við tóku 4 háskammta lyfjameðferðir, 12 klst. meðferð í 3 daga og 4 klst. meðferð í tvo daga og hver lota í fjögur skipti. Þriðja skiptið hér heima en síðasta skiptið á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi ásamt tveimur heilgeislum. Í þessari lyfjameðferð var verið að drepa meinið í blóðinu og stofnfrumurnar mínar sem og æxlin þrjú en bráðahvítblæðið var líka utan mergs sem er sjaldgæft.
Ónæmiskerfið verður lamað við svona meðferð og sýkingarhætta mikil. Ég var í einangrun meira og minna allan þennan tíma, maski og handspritt var mér mjög kunnuglegt þegar Covid skall á. Ég fékk alltaf sýkingar milli meðferða sem gerði það að verkum að ég þurfti að liggja inni á spítala meira og minna.“

Blóðgjöf er góð gjöf
Fyrsta lyfjameðferðin var Tobba erfiðust, slímhúðin varð viðkvæm og hann fékk ofnæmi fyrir sýklalyfjunum, hann minnist þess tíma sem mjög erfiðs tíma.
„Ég man þegar lyfin fóru að streyma um æðarnar í fyrsta sinn, þetta var svo ótrúlegur raunveruleiki og það er erfitt að koma slíkum tilfinningum í orð. Ég mátti ekki borða neitt nema að það væri hundrað prósent soðið, ekkert hrámeti og ekki ávexti nema taka utan af þeim sjálfur, slík er áhættan af sýkingum.
Ég þurfti mikið blóð og blóðflögur þegar leið á meðferðina þar sem mergurinn varð latari og latari við að framleiða blóð eða hemoglóbin. Ég skora á alla að huga að blóðgjöf, engin veit hver þarf næst á blóði að halda, blóðgjöf er góð gjöf.“

Hugsaði til stofnfrumugjafans
„Á deildinni á Karólínska sjúkrahúsinu eru tuttugu eins manns herbergi, frábær aðstaða og ekkert áreiti og heimsóknir bannaðar nema nánustu aðstandendur. Hér heima er mest um tveggja manna herbergi utan einangrunarherbergjanna og mikill erill. Viðmót starfsfólks er samt eins í báðum löndum, allir mjög elskulegir og hjálpsamir.
Ég fór í geislameðferð þarna úti og gat haft hátalara með mér til að hlusta á tónlist. Fyrir algjöra tilviljun byrjaði þessi meðferð á laginu Það þarf fólk eins og þig fyrir fólk eins og mig. Þessi orð eru mjög táknræn og hverju orði sannari þegar ég hugsaði til stofnfrumugjafans sem er frá Bandaríkjunum.“

Enn í endurhæfingu
„Eftir stofnfrumuskipti eða mergskipti eins og stundum er sagt þurfa nýju stofnfrumurnar að taka líkamann í sátt. Það getur reynst erfitt og kallast það ástand hýsilsótt. Ef frumurnar samþykkja ekki líkamann þá geta þær ráðist á hann og ef slíkt ástand verður getur það leitt til þess að hýsillinn / líkaminn ráði ekki við ástandið og það leiðir til andláts. Ég er í dag með væga króníska hýsilsótt, er enn að ná mér eftir þessa miklu lyfjameðferð og öll lyfin, það reynir mikið á samspil lyfja og líkama. Mín endurhæfing er enn í gangi um fjórum árum eftir stofnfrumugjöfina.“

Þakklát fyrir stuðninginn
Vorið 2021 þurftu Tobbi og Emilía að fara aftur til Svíþjóðar. Nú til Lundar þar sem Tobbi þurfti að fara í sérstakt tæki sem geislar í honum blóðið vegna hýsilsóttarinnar, þar voru þau í þrjá mánuði.
„Ég hef átt erfitt með styrk í fótum eftir þetta allt saman og hef gengið með hækjur. Alfa systir leit við hjá okkur og sá mig með hækjurnar, eitthvað fannst henni hún þurfa að koma að því að auka styrk minn því hún fór í það að hefja söfnun meðal ættingja og vina fyrir rafmagnshjóli án minnar vitneskju. Söfnunin gekk svo vel að okkur hjónum voru færð tvö hjól sem við notum mikið í dag, fyrir þetta erum við óendanlega þakklát.
Margir hafa stutt við okkur fjölskylduna hvort sem það er í orði eða verki. UMFUS hópurinn studdi við okkur eftir söfnun á kótilettukvöldi og færum við öllum sem að því komu kærar þakkir fyrir.
Ég hef alltaf horft bjartsýnn fram á veginn, lifi í núinu því það hentar best í því ástandi sem ég er í núna. Mig langar að lokum að fá að óska öllum Mosfellingum gleðilegrar jólahátíðar og með þeim orðum kvöddumst við Tobbi.

Jólasaga – Hríðin

Karitas Jónsdóttir sigraði jólasögukeppni Helgafellsskóla.
Hér birtum við þessa fallegu sögu…

Agla mín, þú verður að drífa þig, við erum að verða of sein,“ hrópaði mamma frá anddyrinu, orðin frekar óróleg því hún gjörsamlega HATAÐI að vera sein. „Já, já, ég er að koma,“ öskraði ég til baka og tók símann minn úr hleðslu og setti ofan í tösku.
Við vorum að fara í jólamatarboð hjá afa og ömmu því það var 24. desember. Mamma er snillingur í því að vera stressuð, sérstaklega um jólin. Mömmu fannst svo rosalega góð hugmynd að eyða aðfangadagskvöldinu með ömmu, afa og Lísu frænku og Elvari kærasta hennar.
„Agla Rut Friðriksdóttir, viltu gjöra svo vel að koma niður og klæða þig í útiföt strax.“ Ég leit á klukkuna, sjitt! Klukkan var 12:35 og við ætluðum leggja af stað klukkan 12:00. Ég hljóp niður, klæddi mig í skóna, út í bíl og pabbi keyrði af stað.
„Jæja, eigum við ekki bara að reyna að vera glöð, ha?“ sagði mamma til þess að létta andrúmsloftið. Ég brosti pínu. Ég meina, það var 24. desember og örfáir klukkutímar í jól. Af hverju ætti maður að vera leiður á jólunum?
Ég vissi að þessi jól yrðu soldið öðruvísi en vanalega því að núna yrðu Lísa frænka og nýi kærasti hennar með okkur.
Amma og afi áttu heima á sveitabæ, það tók 2 tíma að keyra þangað og við ætluðum að gista eina nótt.
„Nei, blessuð elsku Agla mín, guð hvað þú ert orðin stór,“ sagði Lísa frænka þegar við komum til ömmu og afa og knúsaði mig eins fast og hún gat.

Þegar allir voru búnir að heilsast fóru mamma og Lísa að undirbúa jólamatinn, en það varð alveg hræðilegt og þurftum við að hlusta á þær rífast um allt milli himins og jarðar í eldhúsinu og meira að segja um hvort rauðkálið ætti að vera heitt eða kalt. Þær hættu ekki fyrr en amma hótaði að henda þeim út í svínastíuna.
Við settumst öll niður klukkan sex og fengum okkur að borða rosalega gott hangikjöt, óskuðum gleðilegra jóla og hlustuðum á jólatónlist. „Þetta hefði samt verið betra ef við hefðum bara keypt Ora baunir,“ byrjaði mamma en amma leyfði henni ekki að klára. „Við erum heppin að Lísa fór í búðina fyrir okkur yfir höfuð,“ sagði amma.
„Já, þú segir það Steinunn mín, þegar ég var ungur var bara farið einu sinni í mánuði í kaupstað til að draga björn í bú svo þá var bara að duga og drepast og mátti heldur betur naga sig í handakrikana ef eitthvað gleymdist,“ sagði afi og starði út í loftið eins og þvara.
Þegar allur maturinn var búinn fórum við að opna gjafirnar. Eftir það fórum við inn í stofu og horfðum á Grinch því hún er klassík.
Klukkan eitt voru allir á leið í rúmið nema ég, mamma og amma sem vorum að horfa á veðrið. „Á að vera stórhríð á morgun?“ spurði ég áhyggjufull. „Já, greinilega,“ sagði mamma og horfði út um gluggann. „Hvernig komumst við þá heim?“ spurði ég en ég vissi svarið nú þegar.

„Við ætlum að biðja fólk í Vestursveit að fara vinsamlegast ekki út úr húsi og við biðjumst afsökunar að hafa ekki tekið eftir þessu fyrr.“

„Jæja, þá er það bara þannig, þið eruð veðurteppt, en vonandi ekki lengi því við eigum bara mat fyrir tvo daga,“ sagði amma og horfði á okkur kvíðin á svip. Ég og mamma sátum orðlausar í sitt hvorum stólnum.
Dagana á eftir var veðrið svo brjálað að við komumst ekki heim. Þegar ég vaknaði um morguninn 27. desember voru allir vaknaðir og farnir að tala saman um matarvandamálið. En eftir nokkrar mínútur af blaðri þá var planið að pabbi yrði að fara út í hríðina og kaupa eitthvað sem myndi duga fyrir okkur í nokkra daga í viðbót.
Fimm tímum seinna var pabbi ekki ennþá komin heim. Við sátum öll orðlaus í stofunni, svöng, þreytt og hrædd um pabba. Rafmagnið var farið svo að það voru milljón kerti út um allt.

Allt í einu heyrðum við skarkala úr eldhúsinu. Við litum upp og Elvar fór að kíkja hvað gengi á. „Ég trúi aftur á jólasveinana,“ sagði hann þegar hann kom til baka og starði á okkur hin eins og hann tryði ekki sínum eigin augum. Við hlupum öll inn í eldhús og göptum.
Eldhúsborðið var troðið af alls konar mat og á einum Cheerios-pakkanum stóð:
„Frá Stekkjastauri. Ég heyrði í ykkur tala saman um matavanDræði svo að ég ákvað að gjefa ölllum bæjjúm hérna eitvað til að borða.“

Amma, mamma og Lísa fóru á hnén og byrjuðu að þakka guði fyrir þennan mat. „Þetta er blessun!“ sagði mamma og allir nema ég tóku undir. Ég stóð þarna eins og þvara og starði á miðann. En það var eitt á hreinu. Ég trúi á jólasveininn.

Daginn eftir vorum við aðallega að spila og skoða hvað við fengum í jólagjöf. Veðrið var ennþá brjálað og allt í einu voru mamma, Lísa og amma orðnar ógeðslega kristnar og báðu fyrir öllu mögulegu, Elvar trúði aftur á jólasveininn og afi virtist vera orðinn ennþá meira gamaldags en vanalega.
Aftur var eldhúsborðið troðið af mat nema í þetta sinn var það Giljagaur. Mamma, Lísa og amma sögðu að þetta hefði verið blessun meðan ég, Elvar og afi sögðum að þetta hefði verið heppni. Pabbi var ennþá ekki sjáanlegur svo mamma var búin að hringja á björgunarsveitina til að láta leita að honum.
Næsta dag birtist aftur matur inni í eldhúsi sem var frá Stúfi. Þetta var ekki alveg eins mikill matur og hina dagana en hann skrifaði bara að það væri út af því að hann væri ekki alveg eins stór og hinir jólasveinarnir.

„Hvað er komið í mömmu þína?“ spurði kunnugleg rödd. Mér brá rosalega en sá síðan að pabbi stóð í dyragættinni hjá eldhúsinu og brosti til mín. Ég stökk upp og knúsaði hann svo fast. Mamma, Lísa, Elvar, amma og afi komu fljótlega og við knúsuðumst öll. „Óh, elsku guð takk fyrir!!” hrópaði mamma mín og knúsaði mig og pabba fastar.
„Þú þarft ekkert að þakka guði fyrir þetta,“ sagði pabbi minn. „Ég er búinn að vera hérna síðasta tvo og hálfan daginn,“ hélt hann áfram.
„HA?” hrópuðum við öll á meðan pabbi sprakk úr hlátri.
„Já, sjáiði til, þegar ég lagði af stað út þá sá ég ekkert og var örugglega í kringum klukkutíma bara að grafa mig í átt að bílnum, síðan átti ég eftir að grafa hann upp af því að hann var allur undir snjó. Þegar ég loksins fann hann og var kominn inn þá tók ég eftir því að þetta var ekki minn bíll, heldur afa. Þegar ég leit í aftursætið þá sá ég þar 6 troðfulla innkaupapoka af mat,“ sagði pabbi og við öll horfðum á afa.
„Hva? Ha, já alveg rétt, mér fannst þetta nú heldur klént og leist ekkert á þessa kaupstaðarferð sem þið mæðgur fóruð þarna fyrir jólin. Ég get sagt ykkur það að hann Sigfinnur gamli á Skítalæk fór ekki nema þrisvar á ári í kaupstaðarferð, en þá átti hann heldur ekkert eftir í búrinu nema hrútspunga vikum saman.“
„Já, já, já, við náum því afi, haltu áfram pabbi,“ sagði ég óþolimóð.
„Ég reyndi að klöngrast aftur út úr bílnum og inn með pokana en það endaði á að taka langan tíma. Þegar ég var næstum því kominn að dyrunum þá ákvað ég að hrekkja ykkur aðeins og gróf mig niður í kjallara með matinn. Ég sendi ykkur svo matargjafir frá jólasveinunum úr kjallaranum. Þetta var frekar fyndið en ég varð eiginlega líka pínu smeykur um hvað hefði komið yfir fólkið hérna svo ég ákvað að hætta þessu og koma til ykkar úr kjallaranum,“ sagði pabbi brosandi og beið eftir einhverjum viðbrögðum. Eftir svona mínútu af þögn sprungum við úr hlátri.

Næsta dag fórum við aftur heim. Hríðin var hætt, snjórinn hafði skolast í burtu um nóttina svo það var bara rosaleg hálka, eiginlega allt var orðið eins og það var. Það eina sem var eftir var að kveðja.
Amma og afi stóðu í dyragættinni og töluðu við mömmu og pabba.
„Nei, já, ég man eftir, þegar ég sé þennan bíl,“ sagði afi og benti á skærrauða bílinn sinn.
„Ég man eftir að hafa farið í kaupstaðarferð á þessum bíl. Já, kaupstaðarferðir, já sko, þegar ég var ungur.“

 

Hver er Mosfellingur ársins 2022?

mosfellingurársinshomepage

Val á Mosfellingi ársins 2022 stendur nú yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Öllum er frjálst að senda inn tilnefningar í gegnum heimasíðu blaðsins www.mosfellingur.is. Þetta er í 18. sinn sem valið fer fram á vegum bæjarblaðsins Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins. Áður hafa þessi hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla­ Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir, Guðni Valur Guðnason, Jón Kalman Stefánsson, Óskar Vídalín Kristjánsson, Hilmar Elísson, Sigmar Vilhjálmsson og Elva Björg Pálsdóttir. 

Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði ársins 2023, fimmtudaginn 12. janúar.

Takk fyrir heilsuhreystið

Inntakið í þessum pistil er fengið að láni hjá vini mínum Halla Nels sem í miðjum snjómokstri fékk góða ábendingu frá eldri manni um að hann ætti að vera þakklátur fyrir að hafa heilsu til að moka svona mikið og af svona miklum krafti. Halli hætti að vorkenna sjálfum sér og bölva því að þurfa að standa í þessu veseni enn og aftur og snjómoksturinn varð allur léttari eftir spjallið við þann gamla.

Það er akkúrat á svona stundum, þegar veðurguðirnir minna hressilega á sig, sem við sem erum heilsuhraust eigum að nota orku okkar í að gera gagn. Fyrir okkur sjálf og aðra. Við getum lagst í tuð og vorkennt okkur fyrir að veðrið á eyjunni okkar hér lengst norður í Atlantshafi dirfist að trufla dagskrána okkar í lok árs. Við getum líka tekið Halla okkur til fyrirmyndar. Nýtt okkur það að við höfum heilsu til að gera gagn og verið þakklát fyrir það.

Þessu tengt, við sem höfum heilsu til að æfa okkur og styrkja dags daglega eigum að gera það. Punktur. Ef ekki til þess að líða betur á líkama og sál, þá til þess að geta gert gagn þegar samfélagið þarf á okkur að halda. Þetta tvennt finnst mér vera megintilgangur þess að æfa reglulega, að líða betur og geta gert gagn. Geta hjálpað sjálfum sér og öðrum. Líkamsrækt á ekki að snúast um speglafegurð og fituprósentu, ekki það að það sé neitt að því að líta út eins og fegursti karlmaður Mosfellsbæjar frá upphafi, Baldvin Jón Hallgrímsson, en hann getur svo sem lítið að því gert, blessaður.

Setjum okkur heilsuhreystismarkmið fyrir næsta ár. Sama hvar við erum í dag, það er alltaf hægt að spyrna sér upp á við. Verum eins klár í desemberlægðirnar á næsta ári og við mögulega getum. Æfum!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 22. desember 2022

Skógarfólk og veiðimenn finna ýmislegt við sitt hæfi

Hrefna Hrólfsdóttir stendur vaktina í Kjarna.

Hjónin Hrefna Hrólfsdóttir og Viðar Örn Hauksson hafa rekið verslunina Vorverk í Kjarnanum, Þverholti 2 undanfarin þrjú ár.
Verslunin hefur vaxið og dafnað á þessum tíma og flutti í stærra og betra húsnæði á árinu.

Keðjusagir og köflóttar skyrtur
Fatnaður og skór fyrir útivistina og þægilegur hversdagsfatnaður er áberandi í versluninni og litavalið á brúna og græna rófinu vekur athygli margra.
„Skógarfólk, veiðimenn og köflóttir karlar og konur finna hjá okkur ýmislegt sniðið að þeirra smekk og þörfum,” segir Hrefna en tekur fram að ljósar herraskyrtur fyrir jólin séu líka málið þessa dagana.
„Stór hluti af okkar starfsemi felst annars í að þjónusta skógargeirann með sérhæfðan búnað en einnig sumarbústaða- og garðeigendur með ýmis tæki og tól. Hér er þess vegna ekki ólíklegt að mæta manni í hurðinni með nýjan slátturóbót eða keðjusög í höndunum og gúmmískó, buxur og fallega köflótta skyrtu í poka.”

Eiga orðið hóp tryggra viðskiptavina
„Við getum ekki annað en verið ánægð með viðtökurnar sem verslunin hefur fengið. Það koma hér ný andlit inn á hverjum degi, þar á meðal Mosfellingar sem eru ánægðir að geta verslað í heimabyggð.
En viðskiptavinahópurinn er fjölbreyttur og kemur af öllu höfuðborgarsvæðinu, landinu og miðunum. Það sem skiptir mestu er að fólk kemur aftur og við eigum orðið stóran hóp tryggra viðskiptavina sem vílar ekki fyrir sér að skreppa í Mosó.”
Vefverslunin alltaf opin
Verslunin í Kjarna er opin alla virka daga kl.10-18 og 11-16 á laugardögum. Jafnframt er hægt að skoða vöruúrvalið í vefverslun vorverk.is sem auðvitað er opin allan sólarhringinn.

Forréttindi að starfa með eldri borgurum

Markmið félagsstarfs eldri borgara í Mosfellsbæ er að fyrirbyggja félagslega einangrun aldraðra og finna hæfileikum, reynslu og þekkingu þátttakanda farveg. Ferðalög, handmennt, hreyfing, kórstarf, listsköpun og spilamennska eru dæmi um starfsemina.
Forstöðumaður félagsstarfsins er Elva Björg Pálsdóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur, hún segir að í félagsstarfinu sé ávallt stefnt að því að auka fjölbreytni bæði í námskeiðshaldi og hópstarfi þannig að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Elva Björg er fædd á Þingeyri við Dýrafjörð 7. mars 1975. Foreldrar hennar eru Jóhanna Ström húsmóðir og Páll Björnsson skipstjóri. Elva á þrjú systkini, Jónínu f. 1966, Viktor f. 1968 og Birnu f. 1980.

Heppin að eiga góðar minningar
„Ég er alin upp á Þingeyri við fallegasta fjörð landsins, Dýrafjörð. Það eru mikil forréttindi að hafa fengið að alast upp úti á landi, mikið frjálsræði og allir pössuðu vel hver upp á annan.
Á þessum árum bjuggu um 500 manns í þorpinu en það hefur verið talsverð fólksfækkun síðan þá. Snjóavetur voru miklir og við fórum ekki mikið á milli byggðarlaga en nú er búið að byggja bæði brýr og göng svo allt er þetta orðið auðveldara.
Ég er svo heppin að eiga bara góðar æskuminningar, ég á góða fjölskyldu og vini. Ég gat oft verið stríðin og var dugleg við að vera leiðinleg við yngstu systur mína sem fór oft í fýlu út í mig og fór þá út á kletta sem voru við húsið okkar og tók með sér ferðatösku og allt. Þetta fannst mér alltaf afar fyndið en það skal taka fram að við erum bestu vinkonur í dag,“ segir Elva og brosir.

Góður tími á Núpi
„Ég gekk í grunnskólann á Þingeyri, þar lék maður við krakka á öllum aldri því árgangarnir voru misstórir. Það voru um 100 krakkar í skólanum og í mínum bekk vorum við fimm.
Þegar ég var fimmtán ára þá urðum við að fara í heimavistarskólann á Núpi til að klára 10. bekkinn en skólinn er staðsettur hinum megin í firðinum. Það er auðvitað skrítið til þess að hugsa að hafa farið svona ung að heiman en mér fannst það aldrei neitt tiltökumál, það var ekkert annað í boði. Þarna var auðvitað margt brallað misgáfulegt eins og að fara í kökuslag í matsalnum eða vatnsslag á heimavistinni og eftir á að hyggja var þetta ekki gáfuleg iðja. Frá Núpi á ég mínar bestu æskuminningar, ég kynntist yndislegum krökkum og kennurum alls staðar að á landinu. Þar kynntist ég einnig eiginmanni mínum honum Finnboga og við höfum verið saman allar götur síðan.
Á sumrin vann ég í sjoppunni í Kaupfélaginu en ég starfaði einnig í saltfiskverkun og á sjúkrahúsinu á Patreksfirði.“

Ætlaði að verða gullsmiður
Ég spyr Elvu hvað hún hafi farið að gera eftir útskrift úr gagnfræðaskóla? „Ég flutti suður og fór í Iðnskólann í Reykjavík og hóf nám í grunndeild málmiðna því ég ætlaði í gullsmíði. Ég hætti svo í því og kláraði tanntækninám við Fjölbrautaskólann í Ármúla en varð svo stúdent af hönnunarbraut frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Leið mín lá síðan í Háskóla Íslands þaðan sem ég kláraði tómstunda- og félagsmálafræði og nú er ég hálfnuð í námi í öldrunarfræðum við sama skóla.“

Þetta var okkur þungbær reynsla
Eiginmaður Elvu Bjargar heitir Finnbogi Helgi Snæbjörnsson ættaður frá Patreksfirði. Hann er menntaður vélfræðingur og starfar sem vélstjóri á frystitogara. Þau eiga fjóra syni, Alexander Almar f. 1995, Ágúst f. 2001 l. 2001, Aron Atla f. 2002 og Alvar Auðun f. 2007.
„Ég var komin tæpa sjö mánuði á leið þegar ég þurfti að fæða son okkar en hann fæddist andvana, við skírðum hann Ágúst. Þetta var okkur hjónum erfið og þungbær reynsla en saman komumst við í gegnum þetta ásamt góðri aðstoð fjölskyldu og vina þó að þetta auðvitað grói aldrei. Við eigum einn engil á himninum sem passar okkur fjölskylduna vel og hefur kennt okkur hversu dýrmætt lífið er.
Við erum mjög samrýmd fjölskyldan og okkur finnst afar gaman að ferðast bæði innanlands sem utan og við sækjum mikið í heimahagana vestur á firði. Við erum líka dugleg að fara í göngutúra með hundana okkar og skoða hér nokkur fell í leiðinni.
Ég hef svo nýtt tímann vel í alls kyns handavinnu, mér finnst t.d ótrúlega gaman að renna leir og skapa í keramiki. Þess á milli skrepp ég á kaffihús höfuðborgarsvæðisins með systur minni og les gjarnan blöðin í leiðinni.“

Hjá okkur er gleði alla daga
Elva Björg hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina, afgreitt í sjoppu, verið verslunarstjóri, tanntæknir, dagmamma í Mosfellsbæ og var um tíma aðstoðarmaður iðjuþjálfa á Reykjalundi. Hún hóf störf sem leiðbeinandi í handavinnu í félagsstarfi aldraðra í Mosfellsbæ árið 2010 en tók svo við sem forstöðumaður árið 2013.
„Það eru sannkölluð forréttindi að vinna með eldri borgurum og ég nýt hvers dags,“ segir Elva brosandi. „Hér er ávallt stefnt að því að auka fjölbreytni bæði í námskeiðshaldi og hópstarfi þannig að sem flestir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.
Mitt starf er að vera fólkinu innan handar enda er ég fyrst og fremst að vinna fyrir þau. Þau eiga jafnan frumkvæði að því sem þau vilja gera og í sameiningu setjum við upp skemmtilega dagskrá og hjá okkur er gleði alla daga.
Við erum með góða aðstöðu á Eirhömrum en starfsemi okkar nær einnig út fyrir húsakynnin. Hreyfing er það langvinsælasta hjá okkur í dag enda kynslóðirnar að breytast, fjölbreytnin að aukast og kröfurnar í takt við tímann.“

Mosfellingur ársins 2021
Val á Mosfellingi ársins fer fram ár hvert þar sem lesendum Mosfellings gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Útnefningin er síðan kunngjörð í fyrsta tölublaði hvers árs.
Elva Björg var valin Mosfellingur ársins 2021 og var mjög snortin yfir þeim tíðindum enda átti hún alls ekki von á þeim. „Ég var fyrst og fremst mjög þakklát og tileinkaði öllum eldri borgurum í Mosfellsbæ þessa tilnefningu. Ég get sagt þér að það er ekki sjálfgefið að starfa við það sem gefur manni svona mikið í lífinu,“ segir Elva Björg brosandi er við kveðjumst.

Mosfellingum þykir vænt um Blik – Fengið frábærar viðtökur

Gulli, Grétar og Gústi hafa tekið við Blik Bistro í golfskálanum við Hlíðavöll.

Blik Bistro hefur nú opnað aftur eftir vel heppnaðar breytingar.
Nýir rekstraraðilar, þeir Ágúst Reynisson, Guðlaugur Frímannsson og Grétar Matthíasson, eða GGG veitingar, hafa tekið við staðnum og eru í skýjunum yfir frábærum móttökum eftir fyrstu dagana.
„Við opnuðum þann 1. desember eftir smá breytingar á staðnum. Við einblíndum á það að gera staðinn hlýlegri, hönnuðum nýtt barsvæði og fengum lýsingarhönnuð til að betrumbæta lýsinguna,“ segir Ágúst og tekur fram hversu mikið þeir félagar finna hvað Mosfellingum þykir vænt um Blik.

Fjölbreyttur matseðill
Þeir félagar hafa mikla reynslu úr veitingageiranum og hafa unnið lengi saman, þeir eru með skýra sýn á hvernig þeir vilja haga rekstri staðarins.
„Við erum með fjölbreyttan matseðil þar allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og á mjög samkeppnishæfu verði. Núna í desember bjóðum við upp á þriggja rétta jólaplatta með ýmsum réttum, plattarnir hafa hlotið alveg gríðarlegar góðar viðtökur. Við reynum að halda í „Blik-þemað“ sem Mosfellingar þekkja, léttur veitingastaður, kaffihúsafílingur yfir daginn og kokteilar á kvöldin,“ segir Guðlaugur.

Jólaglögg á aðventunni
Grétar sem er framkvæmda- og rekstrarstjóri segir að mikill metnaður ríki hjá þeim og margar hugmyndir í gangi.
„Við ætlum til dæmis að bjóða upp á jólaglögg á aðventunni, við viljum fá fólkið sem er að ganga hér um Blikastaðanesið inn í kaffi eða kakó og köku, við viljum að fólk geti komið hingað að horfa á íþróttaviðburði, á happy hour eða bara til að fá sér að borða.
Við munum líka hlusta á þörfina og reyna að verða við þeim óskum sem viðskiptavinirnir koma með. Þess má líka geta að við erum með flottan vínseðil og frábæran kokteilaseðil,“ segir Grétar sem er Íslandsmeistari barþjóna.
Þeir félagar bjóða Mosfellinga og nærsveitunga sérstaklega velkomna til að njóta staðarins í einstöku umhverfi og frábæru útsýni.

Gefa út bók um hersetuna í Mosfellssveit og á Kjalarnesi

Bandarískir hermenn gera við hitaveitulögn Helgafellsspítala við rætur Helgafells. Lögnin stóð á stöplum og var einangruð með sér­sniðn­um vikursteini sem bundinn var með vírneti.

Út er komin, á vegum Sögufélags Kjalarnesþings, bókin Hersetan í Mosfellssveit og á Kjalarnesi 1940-1944 eftir Friðþór Eydal.
Friðþór hefur ritað fleiri bækur um hernámsárin á Íslandi og þekkir mjög vel til aðbúnaðar hermanna á þessum tíma.
Mosfellssveit og Kjalarnes voru vettvangur mikilla umsvifa erlends herliðs á árum síðari heimsstyrjaldar. Herlið hafði með höndum strandvarnir og skyldi reiðubúið til sóknar gegn óvinaliði sem freistaði landgöngu á Vestur- eða Suðurlandi.
Víða um svæðið voru reistar búðir með fjölda bogaskála sem á ensku nefndust „barracks“ en landsmenn kölluðu bragga. Fáeinir braggar eru enn í notkun í Mosfellssveit og víða í sveitinni má sjá minjar um hersetuna.
Í bókinni er litið inn í vistarverur hermanna og aðbúnaði þeirra lýst; enn fremur eru verkstæði, spítalar og birgðageymslur skoðaðar. Einnig er komið inn á samskipti Íslendinga og hermanna. Í bókinni er dregin upp skýr mynd af umsvifum hersetunnar þegar um 10.000 hermenn höfðu aðsetur í Mosfellssveit.
Bókina prýða liðlega 170 ljósmyndir og nákvæm kort af herskálasvæðum. Margar ljósmyndanna hafa aldrei komið fyrir almenningssjónir.
Bókin varpar skýru ljósi á byggðir hermanna og skipulag varna landsins á þessum tíma. Bygging herskála hafði nokkur áhrif á skipulag Mosfellssveitar, ekki síst á Reykjalundarsvæðinu.
Bókin verður til sölu í Bónus og í Héraðsskjalasafninu.

HM og öflug liðsheild?

Þegar þetta er skrifað er ljóst að Argentína, Holland, England og Frakkland eru komin í 8-liða úrslit á HM. Ég er mikið að vinna í liðsheildarverkefnum þessa dagana, með vinnustöðum sem vilja efla fólkið sitt og fá það til að vinna enn betur saman undir stjórn hvetjandi leiðtoga.

HM kemur á allra besta tíma fyrir mig. Hver dagur á HM er krydd í liðsheildarvinnuna. Belgarnir eru eitt dæmi, rifrildi milli leikmanna í fjölmiðlum er ekki lýsandi fyrir öfluga liðsheild, enda eru þeir farnir heim með skottið milli lappanna, blessaðir. Portúgalir eiga möguleika á að komast í 8-liða úrslit með sigri á Sviss. Þeir eru taldir talsvert líklegri til sigurs, en leynivopn Sviss er hinn stórkostlegi portúgalski íþróttamaður Ronaldo – sem fyrir utan að vera mikill íþróttamaður er lítill liðsheildarmaður sem hugsar fyrst um sig og síðan um liðið. Og það á eftir að koma liði hans um koll, hvort sem það verður á móti Sviss eða í 8-liða úrslitunum. Mbappe, hins vegar, annar frábær íþróttamaður, virðist vera að njóta sín í botn með sterkri liðsheild Frakkana. Hann er einn af liðinu og spilar fyrir það, ekki sjálfan sig.

Vinnustaðir geta lært mikið af öflugum íþróttaliðum þegar kemur að því að byggja upp og viðhalda öflugri liðsheild. Íþróttalið geta sömuleiðis lært af góðum vinnustöðum þau gildi og aðferðir sem gefast best í daglegum samskiptum og samvinnu. Traust er alltaf lykilatriði. Grunnurinn sem allt annað byggir á. Ef ekki ríkir traust, er ómögulegt að byggja upp sterkt teymi og ná árangri saman. Og meira en það, skortur á trausti leiðir til vanlíðunar og óöryggis. Okkur líður best og gengur best í umhverfi þar sem allir treysta öllum. Þetta gildir um öll teymi. P.s. þakkir til þín góða kona á bílaplaninu fyrir utan JAKO á Krókhálsinum. Orðin þín hlýjuðu og eru mér hvatning.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 8. desember 2022

Huppa hefur opnað í Mosó

Kolfinna Rut verslunarstjóri Huppu í Mosfellsbæ. 

Á dögunum opnaði í Háholti 13 í Mosfellsbæ níunda ísbúð Huppu, en fyrsta útibú Huppu opnaði á Selfossi árið 2013.
„Við höfum lengi fundið fyrir eftirspurn eftir að opna Huppu í Mosfellsbæ. Þegar okkur bauðst svo þetta frábæra húsnæði þá slógum við til. Við erum að fá alveg ótrúlega góðar móttökur frá Mosfellingum og erum alsæl og þakklát fyrir það. Það er gaman að segja frá því að opnunardagurinn var sá stærsti frá upphafi Huppu,“ segir Telma Finnsdóttir, einn eiganda Ísbúðarinnar Huppu.

Níunda Huppubúðin
Ísbúðin Huppa er fjölskyldufyrirtæki sem hefur vaxið og dafnað frá opnun fyrstu Huppubúðarinnar. „Þegar við opnuðum fyrstu búðina þá ákváðum við að nefna hana eftir Huppu, frábærri mjólkurkú á bóndabæ ömmu og afa í fjölskyldu okkar. Við opnuðum svo fljótlega útibú í Álfheimunum í Reykjavík, ævintýrið hélt áfram og nú er svo komið að Huppa er á níu stöðum. Þar streymir einstakur Huppísinn kaldur og góður alveg eins og hann gerði í fyrstu Ísbúð Huppu á Selfossi.“

Frábært starfsfólk
„Við erum einstaklega heppin með mannauðinn hjá okkur. Þegar við auglýstum eftir starfsfólki voru viðbrögðin frábær, við héldum opinn viðtalsdag núna í október og það komu um 70 manns. Við erum komin með frábæran hóp af fólki sem við hlökkum til að vinna með og hlakkar jafnframt til að þjónusta Mosfellinga.
Takk Mosó fyrir viðtökurnar, Huppa er glöð að vera komin,“ segir Telma að lokum en opnunartími Huppu er kl. 14-22 alla virka daga og 12-23 um helgar.

Söngurinn mun alltaf fylgja mér

 

Diskódrottninguna Helgu Möller þarf vart að kynna enda löngu orðin ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar. Ferill hennar hefur til þessa verið afar fjölbreyttur og lög hennar hafa átt miklum vinsældum að fagna.
Helga er hvað þekktust fyrir að syngja með dúettinum Þú og Ég ásamt Jóhanni Helgasyni en einnig fyrir að taka þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir Íslands hönd árið 1986 í Bergen í Noregi en þar söng Icy tríóið lagið Gleðibankinn eins og frægt er orðið.

Helga fæddist í Reykjavík 12. maí 1957. Foreldrar hennar eru þau Elísabet Á. Möller fv. framkvæmdastjóri Geðverndar og Jóhann Georg Möller fv. skrifstofustjóri hjá Johnson og Kaaber en þau eru bæði látin.
Helga á einn bróður, Árna Möller f. 1952.

Sá Surtsey byrja að gjósa
„Ég er alin upp á Sporðagrunni í Laugardalnum og það var yndislegt að alast þar upp. Dalurinn er nefnilega eitt stórt útivistarsvæði, hestar í haga, sundlaugin í göngufæri og alltaf eitthvað um að vera á fótboltavellinum. Á mínum uppvaxtarárum var mikið leikið úti við og það var farið í ýmsa leiki eins og yfir, fallin spýta, teygjó og snú snú.
Árið 1963 fórum við fjölskyldan í siglingu með Gullfossi til Kaupmannahafnar og Glasgow. Á heimleiðinni sigldum við fram hjá Vestmannaeyjum þar sem móðir mín er uppalin og við urðum vitni að því þegar Surtsey byrjaði að gjósa, þetta var stórkostleg sjón.“

Kom fram með kassagítarinn
„Ég gekk í Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla og var í kór hjá Þóri Baldurssyni þegar ég var lítil, ég fékk að syngja einsöng með kórnum sem mér fannst mjög gaman. Ég kom síðar fram með kassagítarinn minn á skólaskemmtun og söng lög Janis Ian, Carol King og Joni Mitchell svo einhverjar séu nefndar. Það má eiginlega segja að ég hafi byrjað að syngja áður en ég gat talað, mamma sagði mér að ég hefði verið vön að syngja mig í svefn,“ segir Helga og hlær.
„Ég kláraði stúdentinn frá Verzlunarskóla Íslands og þar átti ég skemmtileg ár. Ég tók þátt í tónlistar-og leiklistarlífinu og var formaður nemendamótsnefndar í eitt ár. Á síðasta árinu mínu í menntaskóla var ég söngkona hljómsveitarinnar Celsíus.
Ég hef verið mjög ánægð með alla þá skóla sem ég hef gengið í, svo ég tali nú ekki um kennarana.“

Söng í flugfreyjubúningi
Það hefur löngum verið draumur ungra stúlkna að verða flugfreyjur og þar var Helga engin undantekning. Hún skellti sér á námskeið og fór í sitt fyrsta flug sumarið 1977.
Helga starfaði hjá Icelandair í 32 ár og var mest í áætlunarfluginu, bæði innanlands sem utan. Hún lét af störfum árið 2020 og hefur komist að því að það er líf eftir flugbransann og segist bíða spennt eftir því sem lífið hafi upp á að bjóða.
Ég spyr Helgu hvað standi upp úr á starfsferlinum? „Skemmtilegasta ferðin sem ég fór í var þegar ég fór sem kynnir til Norðurlandanna til að kynna Halifax í Kanada sem þá var að byrja. Við vorum viku í þessari ferð og sýningarnar voru haldnar að kvöldi til og þar voru flutt tónlistaratriði frá Nova Scotia. Þegar líða tók á ferðina þá veiktist einn söngvarinn, ég tjáði hljómsveitarmeðlimunum að ég væri söngkona og kynni orðið prógrammið og ég gæti mögulega hlaupið í skarðið sem ég og gerði. Þetta vakti mikla athygli, sérstaklega þar sem ég söng í flugfreyjubúningnum,“ segir Helga og brosir.

Þetta var töluvert átak
Eftir að Helga hætti að fljúga fór hún í nám við Háskólann á Bifröst sem nefnist Máttur kvenna, og útskrifaðist þaðan vorið 2021.
„Ég var að læra um stofnun og rekstur fyrirtækja því ég er að undirbúa mig vel til að geta látið drauma mína rætast, t.d ef mig langar til þess að stofna fyrirtæki,“ segir Helga.
„Það var töluvert átak fyrir mig að setjast aftur á skólabekk eftir svona langan tíma og fjarvinnan var mikil en allt hafðist þetta nú og þetta var skemmtilegt nám.“
Ég spyr Helgu hvort hún ætli að opna söngskóla í Mosó? „Mér finnst gott að hugsa til þess að geta farið út í sjálfstæðan rekstur og geta ráðið tíma mínum sjálf en það er jafnframt mikil binding en ætli ég svari þessu ekki með því að segja, það er bara aldrei að vita.“

Heilsuferðir til Póllands
Helga á þrjú börn, Maggý Helgu f. 1979, Gunnar f. 1987 og Elísabetu f. 1993 og þrjú barnabörn.
Helga nýtur þess að vera með fjölskyldu og vinum en hún er einnig dugleg að ferðast, fara á tónleika, spila golf, prjóna og lesa góðar bækur. Hún hefur einnig gaman af sjálfsrækt og er til dæmis búin að fara í margar Detox ferðir sem Jónína Benediktsdóttir bauð upp á. Nú er Helga sjálf að fara að leiða hópa í heilsuferðir til Póllands ásamt tveimur samstarfsfélögum og fyrsta ferðin verður farin í janúar 2023.

Þetta var ótrúleg upplifun
Helga á langan söngferil að baki og lög hennar hafa átt miklum vinsældum að fagna, svo ekki sé minnst á jólalögin. Við Helga rennum yfir ferilinn og ég spyr hana hvað standi upp úr? „Ætli það sé ekki þegar ég fór með þeim Eiríki Haukssyni og Pálma Gunnarssyni með Gleðibankann í Eurovision. Keppnin var haldin í Bergen í Noregi og við lentum í 16. sæti. Þetta var ótrúleg upplifun alveg hreint enda fyrsta lagið sem keppti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir Íslands hönd.“

Alltaf til í að prófa eitthvað nýtt
„Ég hef verið að kenna söng í Söng­skóla Maríu Bjarkar sem mér finnst mjög skemmtilegt. Kenni nemendum 16 ára og eldri en áður kenndi ég aðallega krökkum. Auk þess að kenna söng þá er ég að koma fram sem söngkona. Ég syng á tónleikum, í brúðkaupum, við útfarir og í afmælisveislum og oft hef ég verið fengin sem leyni­atriði. Söngurinn mun alltaf fylgja mér,“ segir Helga og brosir sínu fallega brosi.
„Ég hef líka verið að taka að mér fararstjórn í ferðum erlendis og svo tek ég að mér ýmis önnur verkefni, er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt.“
Ég spyr Helgu að lokum hvað sé fram undan? „Ég er að fara að koma fram á tónleikum Jóns Ólafssonar, Af fingrum fram, í Salnum í Kópavogi núna 24. nóvember.Þetta er svona bæði spjall og söngur og Elísabet Ormslev dóttir mín verður gestasöngvari. Jólahlaðborðin taka svo við og ég kem til með að syngja mest á Bryggjunni í Grindavík þetta árið. Þegar aðventan er gengin í garð, þá fyrst kemst maður í hátíðarskap,“ segir Helga og brosir.

 

Fjórir Mosfellingar í landsliðinu

Jason Daði, Róbert Orri, Ísak Snær og Bjarki Steinn.

Fjórir leikmenn, sem uppaldir eru hjá Aftureldingu, komu við sögu í tveimur vináttuleikjum A-landsliðsins Íslands í knattspyrnu á dögunum.
Fyrri leikurinn fór fram þann 6. nóvember þar sem Ísland tapaði 1-0 fyrir Saudi-Arabíu, síðari leikurinn var 10. nóvember við Suður-Kóreu en sá leikur tapaðist líka með einu marki.

Fyrstu skrefin á stóra sviðinu
Leikmennirnir, sem allir gengu í Lágafellsskóla, eru Jason Daði Svanþórsson, Róbert Orri Þorkelsson, Ísak Snær Þorvaldsson og Bjarki Steinn Bjarkason. Allir voru þeir að stíga sín fyrstu skref fyrir A-landsliðið nema Jason Daði.
Þessir efnilegu knattspyrnumenn eiga framtíðina fyrir sér en þess má geta að þeir Ísak Snær og Jason Daði eru nýkrýndir Íslandsmeistarar með Breiðabliki ásamt markmanninum Antoni Ara Einarssyni sem einnig var tilnefndur í landsliðshópinn en gaf ekki kost á sér að þessu sinni.

Atvinnumenn framtíðarinnar
Ísak Snær samdi nýverið við norska stórliðið Rosenborg, Róbert Orri leikur með Montreal í Kanada og Bjarki Steinn hefur verið í atvinnumennsku hjá ítalska liðinu Venezia síðastliðin tvö ár. Jason Daði er leikmaður Breiðabliks í Bestu deildinni og vitað er af áhuga erlendra liða á þessum efnilega leikmanni.

Fótbolti eða baksund?

Er fótboltinn að éta allar aðrar íþróttir? Eru of margir að æfa fótbolta og of fáir að æfa sund? Þetta eru góðar pælingar sem eiga rétt á sér og var kastað út í kosmósið af góðum Mosfellingi í síðustu viku. Ég hef sjálfur áhuga á mörgum íþróttum og hef prófað ýmsar. Byrjaði að æfa fótbolta, svo bættist körfuboltinn við og þessar íþróttir héldu mér uppteknum lengi vel. Ég hef prófað að æfa hokkí (á grasi), sjálfsvarnaríþróttir, klifur og alls konar líkamsrækt með misjöfnum árangri. Náði sem dæmi aldrei hokkíinu almennilega þrátt fyrir þokkalegustu viðleitni.

Mín skoðun varðandi vangavelturnar um að vinsældir fótboltans séu á kostnað annara íþróttagreina, er sú að krakkar og flestir fullorðnir sækja í að æfa það sem þeim finnst skemmtilegt. Flóknarara er það ekki. Og það er mikilvægara í þeirra huga að taka reglulega þátt í skemmtilegri hreyfingu í góðum félagsskap með jafningjum sínum en að verða Íslandsmeistari í íþrótt sem þau hafa ekki gaman af því að æfa.

Fótbolti er í dag vinsælasta íþróttagreinin hjá fjölgreinafélaginu Aftureldingu samkvæmt iðkendatölum félagsins fyrir árið 2021 en fimleikadeildin er ekki langt undan og virðist ef eitthvað er vaxa hraðar en fótboltinn. Aðrar greinar eins og t.d. körfubolti eru í hröðum vexti, sem er frábært. Það er jákvætt fyrir heilsueflandi bæjarfélag eins og Mosfellsbæ hversu margir vilja æfa íþróttir hjá aðal íþróttafélagi bæjarins. Það fjölgar líka í sunddeildinni, en fækkar milli ára í frjálsum íþróttum, karate og í hjóladeild Aftureldingar.

Það eru forréttindi að geta valið á milli ellefu skipulagðra íþróttagreina eins og krakkar í Mosfellsbæ geta í dag. Fyrir mér skiptir ekki máli hvaða íþróttagreinar krakkar vilja æfa, aðalmálið er að þau finni það sem þeim finnst skemmtilegast og að þau mæti reglulega. Það styrkir þau og eflir, líkamlega, andlega og félagslega.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 17. október 2022

Flottustu hrútarnir í sveitinni

Bergþóra á Kiðafelli með hreppaskjöldinn. Hafþór, Helgi og Jóhannes halda í hrútana.

Hrútasýning Sauðfjárræktarfélagsins í Kjós fór fram mánudaginn 17. október. Í félaginu eru sauðfjárbændur í Kjós, á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ og kepptu þeir sín á milli um hver ætti besta hrútinn. Keppt var í nokkrum flokkum og fengu bændur stiguð og ómmæld lömb og veturgamla hrúta.
Sýningin fór fram á Kiðafelli og voru veitt verðlaun fyrir góðan árangur í sauðfjárrækt í fjórum flokkum. Sauðfjárdómarar frá RML sáu um mælingar og dóma á gimbrum og hrútum.
Með sigur af hólmi fór hrúturinn Gjafar frá Kiðafelli í eigu hjónanna Sigurbjörns Hjaltasonar og Bergþóru Andrésdóttur. Hreppaskjöldurinn eftirsótti verður því á Kiðafelli næsta árið.

Mislitir lambhrútar

Kollóttir hvítir lambhrútar
1. Lamb nr. 65 frá Kiðafelli. 88 stig
2. Lamb nr. 391 frá Kiðafelli. 87 stig
3. Lamb nr. 64 Kiðafelli. 85,5 stig

Mislitir lambhrútar
1. Lamb nr. 14 frá Miðdal, svartur og hyrndur. 88,5 stig
2. Lamb nr. 6 frá Miðdal, móflekkóttur og sívalhyrndur. 85,5 stig
3. Lamb nr. 268 frá Kiðafelli, svartflekkóttur og kollóttur. 86,5 stig

Hyrndir hvítir lambhrútar
1. Lamb nr. 25 frá Miðdal. 90 stig
2. Lamb nr. 15 frá Miðdal. 86,5 stig
3. Lamb nr. 136 frá Kiðafelli. 87,5 stig

Veturgamlir hrútar
1. 21-002 Gjafar frá Kiðafelli, grár og hyrndur. 90 stig
2. 21-004 Hallmundur frá Kiðafelli, hvítur og kollóttur. 87 stig
3. 21-011 Ylur frá Miðdal, hvítur og hyrndur. 88,5 stig