Við þurfum að fá tækifæri

Þórir Gunnarsson myndlistarmaður, einnig þekktur sem Listapúkinn, er löngu orðin landsþekktur fyrir skemmtilegar og líflegar myndir sem hann málar. Hann er afkastamikill og byrjar alla morgna á því að mála, hverfur inn í verkið og dregur fram kjarna þeirra sem hann málar hverju sinni.
Þórir var útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar í Listasal Mosfellsbæjar árið 2021 en þessa dagana stendur yfir sýning í salnum á verkum Þóris sem spegla oftar en ekki fegurð hversdagsleikans.

Þórir er fæddur á Fæðingarheimilinu í Reykjavík 13. apríl 1978. Foreldrar hans eru þau Vilborg Þorgeirsdóttir og Gunnar Þórisson húsasmíðameistari. Þórir á einn bróður, Þormar Vigni f. 1973, en hann lést árið 2020.

Þetta var eins og lítið þorp
„Ég er Mosfellingur í húð og hár og er mjög stoltur af því að vera það. Ég bjó fyrstu níu ár ævi minnar í Mosfellssveit en svo hef ég búið í Mosfellsbæ eftir það. Hér er æðislegt að eiga heima, náttúran, góður félagsskapur og hér þekkja allir alla.
Arnartangi var mitt hverfi, þetta var eins og lítið þorp, það var svo mikið af krökkum. Við Davíð, Hrafn, Játvarður og Bjarni lékum okkur mikið saman, það voru alltaf leikir, allan liðlangan daginn,” segir Þórir og brosir er ég spyr hann út í æskuárin.
„Kassabíllinn minn sem afi Dói á Selfossi og Þormar bróðir minn smíðuðu kemur sterkt fram í æskuminningunum enda var hann mikið notaður, ekki síst af krökkunum í hverfinu.“

Leið vel í skólanum
„Ég gekk í Öskjuhlíðarskóla alla mína skólagöngu og þar leið mér vel, sérstaklega í myndlist hjá Elsu Guðmundsdóttur en annars voru allir kennararnir frábærir.
Í skólanum fékk ég hvatningu til að stunda íþróttir, ég byrjaði í sundi hjá Öspinni sem leiddi síðan yfir í frjálsar íþróttir. Ég keppti í mörg ár fyrir Öspina, bæði hér heima og erlendis á alþjóðamótum fatlaðra.
Ég færði mig yfir í Ármann til Stefáns Jóhannssonar þjálfara en þar kynntist ég Árna Georgssyni sem var formaður frjálsíþróttardeildar Ármanns á þessum tíma, einstaklega góður félagi og vinur. Hjá Ármanni var ég í nokkur ár en ég endaði frjálsíþróttaferil minn hjá Hlyni C. Guðmundssyni í Aftureldingu, en hlaup hef ég æft alla tíð og geri enn.“

Ekki mikið í boði til frekari náms
Eftir skólaskyldu var ekki mikið í boði fyrir Þóri til frekari náms en hann var þrjár annir í Iðnskólanum í Reykjavík hjá Fjölni Ásbjörnssyni. Eftir það fékk hann sumarvinnu hjá vélsmiðju Sveins í Flugumýri.
Í kringum aldamótin byrjaði Þórir að vinna á Reykjalundi í plastiðnaðarframleiðslunni en RP var leiðandi í umbúðaframleiðslu á vörum úr plasti um langt skeið, þar starfaði hann fram að hruni. Eftir það fékk hann starf á Múlalundi, Þóri líkaði mjög vel á báðum þessum stöðum.

Allt sniðið eftir mínum þörfum
„Myndlistin hefur alla tíð skipt mig miklu máli,“ segir Þórir og sýnir mér myndirnar sínar. „Ég hef alltaf haft þörf fyrir að mála og hef gert mikið af því í gegnum tíðina.
Ég mála aðallega með vatnslitum og er alltaf að sjá eitthvað í umhverfinu sem fangar athyglina. Stundum tek ég myndavélina mína með mér og þá er ég kominn með viðfangsefni þegar ég er kominn heim. Ég tek myndir af byggingum, dýrum og af mannlífinu, allt eftir því hvað hugurinn fangar hverju sinni.
Það var eins og hvalreki fyrir mig og kraftur er ég byrjaði á námskeiði í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Þar var ég á nokkrum námskeiðum, allt sniðið eftir mínum þörfum og í framhaldi stundaði ég nám við skólann í eitt ár.“

Telur sig eiga erindi í námið
Þórir hefur tvisvar sótt um nám í Listaháskóla Íslands en hefur ekki fengið inngöngu. Hann er sár og telur fötlun sína vera ástæðu þess að hann fái ekki inni. Þórir ætlar ekki að gefast upp og ætlar að sækja um í þriðja sinn.
Inntökuskilyrði í myndlistarnám við Listaháskólann miðast við að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi. Skólanum er þó heimilt að veita umsækjendum inngöngu hafi þeir þekkingu og reynslu sem telst fullnægjandi undirbúningur. Þórir er ekki með stúdentspróf en telur sig hafa bæði reynsluna og þekkinguna sem þurfi til námsins þar sem hann hefur starfað sem listamaður í áraraðir.

Berst fyrir réttindum fatlaðra
„Ég bjóst alveg við því að komast ekki inn í Listaháskólann, ég held að skólinn treysti sér ekki til að taka á móti okkur. Þetta er svo ósanngjarnt, það þarf að gera sérstaka námsbraut fyrir fatlaða svo við fáum líka tækifæri til framhaldsnáms. Samkvæmt lögum eigum við rétt á því með viðeigandi stuðningi.
Ég mun hvetja fleiri og fleiri fatlaða til að sækja um, við gefumst aldrei upp, það þarf að breyta þessu,“ segir Þórir alvarlegur á svip.

Sýning Listapúkans
Þórir hefur haldið fjölda sýninga síðastliðin tíu ár, hann er hugmyndaríkur og ötull í list sinni, verk hans eru litrík og spegla oftar en ekki fegurð hversdagsleikans. Hann er einnig þekktur fyrir fallegar portrettmyndir.
Síðastliðið ár hefur verið Þóri viðburða-og lærdómsríkt, hann var útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2021 í Listasal Mosfellsbæjar. Nú stendur yfir sýning í salnum á verkum hans sem ber nafnið Sýning Listapúkans og verður opin til 2. september. Þórir býður upp á litríka og fjörlega sýningu sem skipt er upp í fjóra þætti sem allir tengjast þó. Þetta eru dýramyndir, mannlýsingar og umhverfi, myndir frá Prag og nýjar myndir.

Hljóp fyrir Ljónshjarta
Þórir hefur frá unga aldri haft gaman af því að hlaupa, hann hljóp 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu 20. ágúst fyrir Ljónshjarta, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur misst maka og börn þeirra, en Þórir missti bróður sinn árið 2020.
„Það gefur mér mjög mikið að hlaupa, það er svo gott að hreyfa sig því þá líður mér svo vel á eftir. Ég hleyp oft bara einn en stundum hleyp ég með vinum mínum og það finnst mér gaman, félagsskapurinn er nefnilega alltaf góður,“ segir Þórir og brosir er við kveðjumst.

Útvarp Mosfellsbær endurvakið

Tanja Rasmussen og Ástrós Hind Rúnarsdóttir ætla að vera í loftinu Í túninu heima sem fram fer um helgina.

Í ágúst 1987 gerðist sá merki atburður að Mosfellshreppur steig sitt fyrsta skref inn í fullorðinsárin og varð að 27. bæjarfélagi landsins.
Þá voru íbúar orðnir tæplega 4.000 talsins (þar af 300 með áskrift að Stöð 2). Unnið var hörðum höndum að því að lýsa upp götur bæjarins, meistaraflokkslið Aftureldingar í fótbolta karla hafði nýverið sigrað Reynismenn í Sandgerði og strætisvagnaferðir voru í boði í og úr bænum á næstum því klukkutíma fresti alla virka daga.

Tekið á móti kveðjum og óskalögum
Mikil eftirvænting var fyrir þessum merka áfanga og var honum auðvitað fagnað með tilheyrandi húllumhæi; grillveislu í boði bæjarstjórnarinnar, lifandi tónlist og verðlaunaafhendingu fyrir fallega garða svo eitthvað sé nefnt.
Og svo var það hópur mosfellskra ungmenna sem tók sig saman og stofnaði Útvarp Mosfellsbæ, útvarpsstöð sem var í loftinu í 29 klukkustundir.
Meðal þess sem ungmennin buðu upp á var þáttur um kvikmyndatónlist, næturvakt þar sem tekið var við símtölum djammara víðs vegar um bæinn og hádegisþáttur sem var til þess gerður að hjálpa Mosfellingum að melta hádegismatinn sinn. Einnig var fjallað um íþróttalífið í bænum og tekið á móti kveðjum og óskalögum.

Tímabært að endurtaka leikinn
„Síðan eru liðin 35 ár og löngu orðið tímabært að endurtaka leikinn.“ Að þessu sinni eru það bókasafnsstarfsmennirnir og hlaðvarpskonurnar Ástrós Hind Rúnarsdóttir og Tanja Rasmussen sem standa á bak við útvarpið og ætla þær að vera með beina útsendingu af netinu milli 12:00 og 20:00 föstudag, laugardag og sunnudag.
Dagskráin verður fjölbreytt en þær ætla meðal annars að taka viðtöl við Mosfellinga úr ýmsum áttum, rifja upp gamla tíma og spila tónlist.
Þær hvetja alla bæjarbúa til að senda inn óskalög og kveðjur í gegnum netfangið utvarpmoso@gmail.com eða á instagram síðu útvarpsins, @utvarpmoso.

Hægt verður að hlusta á útsend­ing­arnar á www.utvarpmoso.net

Tryggvi heldur hernámssýningu

Tryggvi Blumstein heldur sýningu í Kjarna, Þverholti 2. John Marston yfirmaður bandaríska landgönguliðsins við Brúarland í Mosfellssveit árið 1941.

Í tengslum við bæjarhátíðina ætlar Mosfellingurinn Tryggvi Blumenstein að halda sýningu á munum frá hernáminu á Íslandi og leggur sérstaka áherslu á hluti sem tengjast Mosfellsbæ.
„Þetta er hernámssýning, ég er safnari að upplagi og á orðið heilmikið safn af munum frá hernámsárunum á Íslandi, það eru margir sem gera sér ekki grein fyrir því hversu mikil umbrotsár þetta voru í íslenskri sögu,“ segir Tryggvi en sýningin verður á neðri hæð Kjarna, Þverholti 2, dagana 25.-28. ágúst og er aðgangur ókeypis.

Dreymir um að opna safn í Mosfellsbæ
Tryggvi, sem er einn ötulasti safnari gripa frá hernámsárunum á Íslandi, dreymir um að safnið hans verði að almenningssafni í framtíðinni þar sem þessum umrótatímum á Íslandi verði gerð góð skil.
„Þessi tími breytti samfélaginu okkar mikið, það má eiginlega segja að okkur hafið verið kippt úr moldarkofunum inn í nútímann. Draumur minn er að opna safn hér í Mosfellsbæ. Á sýningunni verður hægt að skoða hluta af þessum munum sem ég hef safnað, hægt verður að handleika ákveðna hluti og jafnvel taka myndir.
Ég held úti vefsíðunni fbi.is þar sem má finna ýmsar upplýsingar og ljósmyndir sem ég hef safnað saman,“ segir Tryggvi og vonast eftir að sjá sem flesta Mosfellinga.

Í túninu heima 2022 – DAGSKRÁ

Að vanda verður líf og fjör í Mosfellsbæ þegar bæjarhátíðin Í túninu heima fer fram helgina 26.-28. ágúst. Loks­ins geta Mos­fell­ing­ar kom­ið sam­an Í tún­inu heima eft­ir tveggja ára hlé vegna heims­far­ald­urs.
Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki taka virkan þátt í hátíðinni og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Um helgina verður boðið upp á þekkta dagskrárliði eins og Ullarpartí og markaðsstemningu í Álafosskvos, flugvéla- og fornvélasýningu á Tungubökkum, kjúklingafestival, Tindahlaup, stórtónleika á Miðbæjartorgi, götugrill og Pallaball. Frítt verður í Strætó allan laugardaginn fyrir Mosfellinga og gesti þannig að það er tilvalið að skilja bílinn eftir heima.

Smelltu hér til að skoða dagskrá bæjarhátíðarinnar (pdf)

 

ÞRIÐJUDAGUR 23. ÁGÚST

17:00-20:00 PERLAÐ MEÐ KRAFTI
Kraftur kemur í Hlégarð og perlar armbönd með Aftureldingu og Mosfellingum. Kraftur er stuðnings­félag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein. Skemmtileg stund fyrir alla fjölskylduna og tilvalið að láta gott af sér leiða.

18:00 PRJÓNASKREYTINGAR Í MIÐBÆNUM
Kvenfélag Mosfellsbæjar skreytir aspirnar við Háholt í miðbæ Mosfellsbæjar. Íbúar geta tekið þátt og komið með það sem þeir eru með á prjónunum.

 

MIÐVIKUDAGUR 24. ÁGÚST

14:00 SAMGÖNGUSTÍGUR VÍGÐUR
Samgöngustígur í gegnum Ævintýragarð frá Brúarlandi að Leirvogstunguhverfi verður vígður kl. 14. Stígurinn er tvöfaldur þar sem annars vegar eru hjólareinar hvor í sína áttina og hins vegar hefðbundinn göngustígur og er verkefnið hluti af samgöngusáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið.
Samgönguráðherra, forstjóri Vegagerðarinnar, bæjarstjórn Mosfellsbæjar og fleiri góðir gesti. Tindatríóið tekur nokkur lög.

19:30-22:00 UNGLINGABALL Í HLÉGARÐI
Upphitun fyrir bæjarhátíðina.
Ball fyrir unglinga fædda ‘06-’09.
Club Dub og Dj. XB mæta. 1.500 kr. inn.

 

FIMMTUDAGUR 25. ÁGÚST

ÍBÚAR SKREYTA HÚS OG GÖTUR Í HVERFISLITUM
GULUR Hlíðar, Höfðar, Tún og Mýrar
RAUÐUR Tangar, Holt og Miðbær
BLEIKUR Teigar, Krikar, Lönd, Ásar, Tungur og Mosfellsdalur
BLÁR Reykja- og Helgafellshverfi

9:00-21:00 NETTÓ ALLA HELGINA
Frábær tilboð á hamborgurum, pylsum og skrauti fyrir hátíðina.
Allir sem kaupa inn um helgina og nota Samkaupa-appið fara í pott og fá þrír heppnir viðskiptavinir 25.000 kr. inneign.
Opið alla daga frá 9-21.

14:00 GAMAN SAMAN GRILLPARTÝ Á HLAÐHÖMRUM
Eldri borgurum boðið að koma í heimsókn í félagsstarfið, Hlað­hömrum 2. Þar verður notið samveru, hlustað á tónlist og tekið lagið. Ýmislegt góðgæti í boði.

14:30-16:30 FATAMARKAÐUR BÓLSINS
Fatamarkaður félagsmiðstöðvarinnar Bólsins kl. 14:30-16:30 í Varmár Bóli.
Unglingar selja notuð föt. Opið fyrir alla Mosfellinga, komið og gerið góð kaup.

16:30 UPPSKERUHÁTÍÐ SUMARLESTURS Í BÓKASAFNINU
Frábærum árangri þátttakenda í lestrar­átaki safnsins yfir sumartímann verður fagnað með pompi og prakt. Bjarni Fritzson rithöfundur kemur í heimsókn og les upp úr bókum sínum. Húlladúllan mætir með alls konar sirkusdót og kennir öll helstu húllatrixin á torginu fyrir framan safnið. Aðgangur ókeypis og öll velkomin.

18:00-22:00 HERNÁMSSÝNING Í KJARNA
Á sýningunni verða munir og myndir frá hernámsárunum á Íslandi og einnig munir sem tengjast Mosfellsbæ sérstaklega. Safngripirnir eru í eigu Tryggva Blumenstein. Gengið er inn norðanmegin í Kjarna, Þverholti 2.

18:00-22:00 SUNDLAUGARKVÖLD Í LÁGAFELLSLAUG
Fjölskyldan skemmtir sér saman. Blaðrarinn tekur á móti börnum, Dj. Baldur heldur uppi stuðinu, Lalli töframaður, Daníel Sirkus, Sumartríóið StúfurZumba og Wipe Out-braut. Frítt inn fyrir alla.

19:00 SKÁLDAGANGA UPP MEÐ VARMÁ
Hvað eiga Íslandsbersi, Aðalheiður Hólm og hljómsveitin The Kinks sameiginlegt? Svarið er: Þau koma öll við sögu í skáldagöngu sem Bjarki Bjarnason rithöfundur leiðir. Lagt verður af stað frá Brúarlandi kl. 19 en skólinn á 100 ára afmæli um þessar mundir. Gengið er upp með Varmá að Reykjum. Sögustaðir verða tengdir við skáldskap, lesið upp úr bókum á vel völdum stöðum og sönghópurinn Stöllurnar tekur lagið.

19:00 FELLAHRINGURINN – FJALLAHJÓLAKEPPNI
Hjólakeppni um stíga umhverfis fellin í Mosfellsbæ. Keppnin hefst við íþróttahúsið að Varmá. Tvær vegalengdir í boði, 15 km og 30 km. Keppt er í almenningsflokki eða rafmagnshjólum. Boðið upp á súpu eftir keppni. Útdráttar­vinningar eru meðal annars fjallahjól frá Markinu. Sjá nánar á facebook (Fellahringurinn). Skráning á hri.is

20:00 BÍLAKLÚBBURINN KRÚSER VIÐ KJARNA
Bílaklúbburinn Krúser safnast saman á bílaplaninu við Kjarna. Tilvalið að kíkja á flottar drossíur og klassíska bíla frá liðinni tíð. Fjöldi glæsivagna á svæðinu ef veður leyfir og eru heimamenn sérstaklega hvattir til að mæta.

20:00 TÓNLEIKAR Í LÁGAFELLSKIRKJU
Hljómsveitin LÓN kemur fram og syngur hugljúf lög í kirkjunni. Meðlimir LÓNs kalla sig sveitapabba í útlegð í úthverfunum en þessir þjóðþekktu tónlistarmenn, Valdimar Guðmundsson, Ásgeir Aðalsteinsson og Ómar Guðjónsson, vildu spreyta sig á lítillátari hljóðheimi sem hæfir þeirri skilgreiningu. Frítt inn meðan húsrúm leyfir.

20:30-22:00 SUNDLAUGARPARTÝ Í LÁGAFELLSLAUG
Sundlaugarpartý í Lágafellslaug fyrir 8.-10. bekk kl: 20:30-22:00. Frítt inn.

20:30 LOKSINS EFTIRHERMUR Í HLÉGARÐI
Skemmtikrafturinn Sóli Hólm mætir í Hlégarð með sýninguna Loksins eftirhermur sem gekk fyrir fullu húsi í Bæjarbíói í vetur. Í sýningunni fer Sóli um víðan völl og bregður sér í líki þjóðþekktra Íslendinga eins og hann gerir best. Miðasala á Tix.is

21:00 HÁTÍÐARBINGÓ Á BARION
Bingó fullorðna fólksins á Barion með stórglæsilegum vinningum, m.a. flug til Tenerife. Hægt er að tryggja sér spjöld
í forsölu á www.barion.is/boka.

 

FÖSTUDAGUR 26. ÁGÚST

07:30–17:30 MOSFELLSBAKARÍ
Bakaríið í hátíðarskapi alla helgina og býður gestum og gangandi upp á ferskt brauð og frábæra stemningu. Bakkelsi í hverfalitunum og vöfflur til hátíðarbrigða. Opið til kl. 16 laugardag og sunnudag.

11:00-17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, nag­grísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 1.000 kr.­ (frítt fyrir 2 ára og yngri).

11:00-18:00 MYNDÓ OG SIGURBJÖRG
Opið fyrir gesti og gangandi í Þverholti 5.
Ljósmyndastofan Myndó og hannyrðabúðin Sigurbjörg hafa opið fyrir gesti og gangandi. Flott tilboð, léttar veitingar og lifandi tónlist.

12:00-20:00 ÚTVARP MOSFELLSBÆR
Útsendingar föstudag, laugardag og sunnudag kl. 12-20. Umsjón: Ástrós Hind Rúnarsdóttir og Tanja Rasmussen.
www.utvarpmoso.net

14:00-20:00 HERNÁMSSÝNING Í KJARNA
Á sýningunni verða munir og myndir frá hernámsárunum á Íslandi og einnig munir sem tengjast Mosfellsbæ sérstaklega. Safngripirnir eru í eigu Tryggva Blumenstein. Gengið er inn norðanmegin í Kjarna, Þverholti 2.

16:00-17:30 LISTAMANNASPJALL Í LISTASAL MOSFELLSBÆJAR
Listapúkinn Þórir Gunnarsson verður með listamannaspjall í Listasal Mosfellsbæjar í tengslum við sýningu sína, Sýning Listapúkans.

15:00-18:00 OPIÐ HÚS Í ÞJÓNUSTUSTÖÐINNI
Opið hús í Þjónustustöð Mosfellsbæjar að Völuteig 15. Margt að skoða. Boðið upp á grillaðar pylsur, kaffi og kleinur.

18:00-21:00 VELTIBÍLLINN Á MIÐBÆJARTORGINU
Veltibíllinn kemur í heimsókn á torgið þar sem Mosfellingum gefst kostur á því að finna hversu mikilvægt er að nota bílbelti.

19:30-23:00 KAFFIHÚS MOSVERJA
Skátafélagið Mosverjar verður með kaffihús í Skálanum í Álafosskvos.
Rjúkandi heitar vöfflur og kakó eða kaffi.

19:30-22:00 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi.

19:30-23:00 SÚPUVEISLA FRIÐRIKS V Í ÁLAFOSSKVOS
Matreiðslumeistarinn Friðrik V galdrar fram kraftmikla kjötsúpu. Allur ágóði fer til kaupa á eldhúsi í skátaheimili Mosverja.

20:00-23:00 VÍKINGATJÖLD VIÐ HLÉGARÐ
Víkingar í tjöldum við Hlégarð. Varningur til sölu og leikir. Kynnist tíðaranda vígamanna sem uppi voru á víkingaöld.

20:30 ÍBÚAR SAFNAST SAMAN Á MIÐBÆJARTORGI
GULIR, RAUÐIR, BLEIKIR og BLÁIR.
Allir hvattir til að mæta í lopapeysu.

20:45 SKRÚÐGÖNGUR LEGGJA AF STAÐ
Hestamannafélagið Hörður leiðir gönguna með vöskum fákum. Göngustjórar frá Leikfélagi Mosfellssveitar.

21:00-22:30 ULLARPARTÍ Í ÁLAFOSSKVOS
Brekkusöngur og skemmtidagskrá. Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar setur hátíðina. Benedikt búálfur og Dídí mannabarn skemmta. Tónlistarkonan Sigga Ózk tekur nokkur lög. Hilmar Gunn og Gústi Linn stýra brekkusöng. Björgunarsveitin Kyndill kveikir í blysum. Rauðakrosshópurinn sinnir gæslu ásamt Kyndli.

20:30 LOKSINS EFTIRHERMUR Í HLÉGARÐI
Skemmtikrafturinn Sóli Hólm mætir í Hlégarð með sýninguna Loksins eftirhermur sem gekk fyrir fullu húsi í Bæjarbíói í vetur. Í sýningunni fer Sóli um víðan völl og bregður sér í líki þjóðþekktra Íslendinga eins og hann gerir best. Miðasala á Tix.is

23:00-01:00 SVEITABALL Á BARION
Danshljómsveitin Blek og byttur leikur við hvern sinn fingur undir handleiðslu tónbóndans í Túnfæti, Þorkels Jóelssonar. Fimm manna hljómsveit og fjölbreytt efnisskrá. Dragið fram dansskóna – Frítt inn!

 

LAUGARDAGUR 27. ÁGÚST

• Frítt í Strætó í boði Mosfellsbæjar • Frítt í Varmárlaug • Frítt á Gljúfrastein

TÍVOLÍ VIÐ MIÐBÆJARTORG UM HELGINA
Aðgöngumiðar seldir á staðnum.

8:00-20:00 GOLFKLÚBBUR MOSFELSLBÆJAR
Tveir fyrir einn af vallargjaldi á golfvellinum í Bakkakoti í Mosfellsdal meðan á hátíðinni stendur.

9:00-17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos,
6. og 7. flokkur stráka og stelpna.

9:00-16:00 TINDAHLAUP MOSFELLSBÆJAR
Náttúruhlaup sem hefst við Íþróttamiðstöðina að Varmá. Ræst verður í þremur ráshópum, 5 og 7 tindar kl. 9:00, 1 tindur og 3 tindar kl. 11:00. Fjórar vegalengdir í boði, 7 tindar (38 km), 5 tindar (34 km), 3 tindar (19 km) og 1 tindur (12 km). Nánari upplýsingar á www.mos.is og www.hlaup.is. Tindahlaup Mosfellsbæjar er í boði Nettó.

10:00-17:00 FRÍTT Á GLJÚFRASTEIN
Gljúfrasteinn – hús skáldsins opnar dyrnar að safninu upp á gátt og verður frítt inn í tilefni bæjarhátíðar Mosfellsbæjar, Í túninu heima. Gljúfrasteinn var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið. Í nágrenni safnsins eru skemmtilegar gönguleiðir, meðal annars upp að Helgufossi.

10:00-15:00 MOSSKÓGAR Í MOSFELLSDAL
Útimarkaður: Grænmeti frá Mosskógum, silungur frá Heiðarbæ, rósir frá Dalsgarði og önnur íslensk hollusta á boðstólnum.

11:00-20:00 HERNÁMSSÝNING Í KJARNA
Á sýningunni verða munir og myndir frá hernámsárunum á Íslandi og einnig munir sem tengjast Mosfellsbæ sérstaklega. Safngripirnir eru í eigu Tryggva Blumenstein. Gengið er inn norðanmegin í Kjarna, Þverholti 2.

11:00-17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, kettlingar, grís, kálfur, hænur, kanínur, nag­grísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 1.000 kr.­ (frítt fyrir 2 ára og yngri).

11:00-17:00 MYNDÓ OG SIGURBJÖRG
Opið fyrir gesti og gangandi í Þverholti 5. Ljósmyndastofan Myndó og hannyrðabúðin Sigurbjörg hafa opið fyrir gesti og gangandi. Flott tilboð, léttar veitingar og lifandi tónlist.

11.00 LEIKHÓPURINN LOTTA VIÐ HLÉGARÐ
Söngvasyrpa með ævintýrapersónum úr leikhópnum Lottu. Stútfull syrpa af sprelli og fjöri fyrir allan aldur. Frítt á svæðið.

11:00-15:00 LEIKJAVAGN UMSK Á STEKKJARFLÖT
Leikjavagn UMSK fyrir káta krakka. Fótboltatennis, ringó, krolf, boccia, mega jenga, spike ball, frisbí, kubb, leikir, sprell, tónlist og margt fleira.

12:00-20:00 ÚTVARP MOSFELLSBÆR
Útsendingar föstudag, laugardag og sunnudag kl. 12-20. Umsjón: Ástrós Hind Rúnarsdóttir og Tanja Rasmussen.
www.utvarpmoso.net

12:00–17:00 KARLAR Í SKÚRUM MOSFELLSBÆ – HANDVERKSSÝNING
Opið hús að Skálahlíð 7A, Litlahlíð, á svæði Skálatúns. Margs konar verk til sýnis og karlar að störfum. Útskurður, tálgun, rennismíði, módelsmíði, fluguhnýtingar o.fl. Komið og fræðist um starfsemina. Kaffi og meðlæti.

12:00-16:00 SÚPUVEISLA FRIÐRIKS V Í ÁLAFOSSKVOS
Matreiðslumeistarinn Friðrik V galdrar fram kraftmikla kjötsúpu. Allur ágóði fer til kaupa á eldhúsi í skátaheimili Mosverja.

12:00-17:00 WINGS AND WHEELS – TUNGUBAKKAFLUGVÖLLUR FORNVÉLASÝNING
Gamlar flugvélar, dráttarvélar úr Mosfellsbæ, mótorhjól, fornbílar og flugsýning. Heitt á könnunni fyrir gesti og karamellukast fyrir káta krakka.

12:00 HÓPAKSTUR UM MOSFELLSBÆ
Ferguson-félagið stendur fyrir hópakstri dráttarvéla og fornbíla. Lagt er af stað frá Tungubakkaflugvelli og keyrður hringur um Mosfellsbæ.

12:00-15:00 OPIÐ HÚS HJÁ ÓLÖFU BJÖRGU Í ÁLAFOSSKVOS
Ólöf Björg Björnsdóttir myndlistarkona opnar heimili sitt og vinnustofu fyrir gestum í gömlu Álafossverksmiðjunni í Kvosinni á 3. hæð. Ólöf Björg er að vinna að einkasýningu sem verður opnuð í haust. Skemmtilegt spjalli og léttar veitingar.

12:00-18:00 KAFFIHÚS MOSVERJA
Skátafélagið Mosverjar verður með kaffihús í Skálanum í Álafosskvos. Rjúkandi heitar vöfflur og kakó eða kaffi. Blaðrarinn kíkir í heimsókn kl. 16 og skemmtir börnum.

12:00-16:00 ÚTIMARKAÐUR Í ÁLAFOSSKVOS
Markaðstjöld full af fjölbreyttum varningi og ýmsar uppákomur á sviði.
12:00 Skósveinar (Minions) á röltinu
13:00 Mosfellskórinn
14:00 Rokkbál
15:00 Drullusokkarnir
15:30 Red Line

13:00-15:00 KAJAKAR Á STEKKJARTJÖRN
Skátafélagið Mosverjar verður með kajaka á Stekkjarflöt. Krökkum velkomið að prófa.

13:00-18:00 VÍKINGATJÖLD VIÐ HLÉGARÐ
Víkingar í tjöldum við Hlégarð. Varningur til sölu og leikir. Kynnist tíðaranda vígamanna sem uppi voru á víkingaöld.

13:00-18:00 BÍLSKÚRSSALA Í LITLAKRIKA 43 og 60
Ýmislegt til sölu, glös, diskar, eldhúsdót og annar húsbúnaður.

13:00–17:00 SKOTTMARKAÐUR VIÐ KJARNA
Mosfellingum gefst kostur á að koma með alls kyns gull og gersemar úr skápum og bílskúrum og bjóða gestum og gangandi til sölu. Alvöru flóamarkaðsstemning. Einnig er handverksfólk velkomið. Áhugasamir eru beðnir að hafa samband við Herdísi, herdisheimisdottir@gmail.com.

13:00-16:00 OPIN VINNUSTOFA Í DESJAMÝRI 1
Ugla handverk með opið hús í Desjamýri 1 kl. 13-16. Handverk úr timbri, leðri, prjónavörur, skurðarbretti, tækifærisgjafir og fleira. Fjölbreytt úrval af gjafavöru.

13:30 BÆJARLEIKHÚSIÐ – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Leikfélag Mosfellssveitar og kvennakórinn Stöllur bjóða í garðpartý við Bæjarleikhúsið. Hljómsveit hússins leikur ásamt gestum. Boðið upp á kaffi og vöfflur.

14:00-16:00 KJÚKLINGAFESTIVAL
Stærstu kjúklinga- og matvælaframleiðendur landsins kynna afurðir sínar, selja og gefa smakk við íþróttamiðstöðina að Varmá. Matur og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Ýmis skemmtiatriði, Greipur Hjaltason með uppistand o.fl.

14:00-17:00 STEKKJARFLÖT
Frítt fyrir káta krakka í hoppukastala og auðvitað ærslabelg.

14:00-17:00 BÍLSKÚRSSÖLUR Í BRÖTTUHLÍÐ
Íbúar í Bröttuhlíð 25, 27, 42, 44 og ef til vill fleiri verða með bílskúrssölur. Eldhúsáhöld og tæki, fatnaður og skór, húsbúnaður, skrautmunir, myndir, jólaskraut, leikföng, húsgögn og fleira. Alls konar skemmtilegt að gramsa í.

15:00 ÁLMHOLT 10 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Þóra Einarsdóttir sópran og Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzosópran syngja aríur og dúetta. Davíð og Stefán mæta einnig ásamt Helga Má píanista.
Kaffisala til styrktar börnum sem
glíma við veikindi.

15:00 REYKJABYGGÐ 33 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Íris Hólm og Ingibjörg Hólm syngja við undirleik Davíðs Atla Jones sem leikur á bassa og Þóris Hólm sem leikur á slagverk.

15:00 KRÓKABYGGÐ 5 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Stórsöngvarinn Dagur Sigurðsson og hljómsveit verða með tónleika í garðinum. Öll velkomin í tónlistarveislu.

15:00-16:00 STEKKJARFLÖT – HESTAFJÖR
Teymt undir börnum á Stekkjarflötinni í boði Hestamenntar.

16:00 NJARÐARHOLT 10 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Garðtónleikar með hljómsveitinni Piparkorn. Djassskotin funk/popp hljómsveit úr Mosfellsbæ sem skipa Magnús Þór Sveinsson, Hjálmar Karl Guðnason, Emma Eyþórsdóttir, Gunnar Hinrik Hafsteinsson, Ragnar Már Jónsson, Þorsteinn Jónsson og Sigurrós Jóhannesdóttir.

16:30 KARMELLUKAST Á FLUGVELLINUM TUNGUBÖKKUM

17:00-21:00 GÖTUGRILL Í MOSFELLSBÆ
Íbúar í Mosfellsbæ halda götugrill í vel skreyttum götum bæjarins. Tríóið Kókos fer á milli staða og heimsækir heppna íbúa.

21:00-23:00 STÓRTÓNLEIKAR Á MIÐBÆJARTORGI
Skemmtun fyrir alla fjölskylduna þar sem Mosfellsbær býður upp á stórtónleika á Miðbæjartorginu. Fram koma: Piparkorn, Hr. Hnetusmjör, Páll Óskar og Stuðmenn. Kynnir verður Sóli Hólm.

23:00 FLUGELDASÝNING KYNDILS

23:00-01:00 TRÚBADOR Á BARION
Trúbadorinn og Mosfellingurinn Bjarni Ómar mætir með gítarinn og heldur uppi stuðinu á Barion. Frítt inn.

23:30-04:00 STÓRDANSLEIKUR MEÐ PÁLI ÓSKARI
Hinn eini sanni Páll Óskar mætir í íþróttahúsið að Varmá eftir þriggja ára hlé. Miðverð á Pallaball 3.500 kr. í forsölu og 4.500 kr. við inngang. Forsala fer fram í íþróttahúsinu að Varmá (18 ára aldurstakmark) á www.afturelding.is.

SUNNUDAGUR 28. ÁGÚST

8:00-20:00 GOLFKLÚBBUR MOSFELLSBÆJAR
Tveir fyrir einn af vallargjaldi á golfvellinum í Bakkakoti í Mosfellsdal meðan á hátíðinni stendur.

9:00-17:00 ÍÞRÓTTASVÆÐIÐ Á TUNGUBÖKKUM
Fótboltamót Aftureldingar og Weetos, 6. og 7. flokkur stráka og stelpna.

11:00-17:00 HÚSDÝRAGARÐURINN Á HRAÐASTÖÐUM Í MOSFELLSDAL
Geitur, kettlingar, grísir, kálfar, hænur, kanínur, nag­grísir og mörg önnur húsdýr. Aðgangur 1.000 kr.­ (frítt fyrir 2 ára og yngri).

11:00-20:00 HERNÁMSSÝNING Í KJARNA
Á sýningunni verða munir og myndir frá hernámsárunum á Íslandi og einnig munir sem tengjast Mosfellsbæ sérstaklega. Safngripirnir eru í eigu Tryggva Blumenstein. Gengið er inn norðanmegin í Kjarna, Þverholti 2.

12:00–17:00 KARLAR Í SKÚRUM MOSFELLSBÆ – HANDVERKSSÝNING
Opið hús að Skálahlíð 7A, Litlahlíð, á svæði Skálatúns. Margs konar verk til sýnis og karlar að störfum. Útskurður, tálgun, rennismíði, módelsmíði, fluguhnýtingar ofl. Komið og fræðist um starfsemina. Kaffi og meðlæti.

12:00-20:00 ÚTVARP MOSFELLSBÆR
Útsendingar föstudag, laugardag og sunnudag kl. 12-20. Umsjón: Ástrós Hind Rúnarsdóttir og Tanja Rasmussen.
www.utvarpmoso.net

13:00 BLIKAHÖFÐI 10 – MOSFELLINGAR BJÓÐA HEIM
Djasskrakkar úr Mosó ásamt gestum halda stofutónleika í Blikahöfða 10. Þau eru nýkomin frá Osló þar sem þau tóku þátt í Kids in jazz tónlistarhátíðinni.

13:00-18:00 BÍLSKÚRSSALA Í LITLAKRIKA 43
Ýmislegt til sölu, glös, diskar, eldhúsdót annar húsbúnaður

13:00 GLAPPAKAST Í ÆVINTÝRAGARÐINUM
Barnasýning í Ævintýragarðinum í Ullarnesbrekkum. Bílastæði við Varmá. Í sýningunni eru Daníel og Urður klaufar sem vinna saman til að gera eitthvað skemmtilegt til að sýna, fá hjálp frá krökkunum og koma sér stundum í klaufalegar aðstæður sem þau vitaekki alveg hverning eigi að bregðast við. Í sýningunni má sjá fimleika, jöggl og brjálaða skemmtun.

13:00-17:00 VÍKINGATJÖLD VIÐ HLÉGARÐ
Víkingar í tjöldum við Hlégarð. Varningur til sölu og leikir. Kynnist tíðaranda vígamanna sem uppi voru á víkingaöld.

14:00 HLÉGARÐUR – HÁTÍÐARDAGSKRÁ
• Umhverfis­nefnd veitir umhverfis­viðurkenningar Mosfellsbæjar 2022 og fallegasta tré ársins útnefnt.
• Mosfellsbær heiðrar starfsmenn sem eiga 25 ára starfsafmæli.
• Útnefning bæjarlistarmanns Mosfellsbæjar 2022.
• Söngkonan Stefanía Svavars kemur fram.
• Heitt á könnunni og öll velkomin.

14:00-16:00 OPIÐ HÚS Á SLÖKKVISTÖÐINNI
Slökkvistöðin við Skarhólabraut verður til sýnis fyrir hátíðargesti. Gestum býðst að skoða bíla, tæki og búnað slökkviliðsins í bílasal. Öll velkomin.

16:00 STOFUTÓNLEIKAR Á GLJÚFRASTEINI
Davíð Þór Jónsson, píanóleikari og tónskáld, verður við flygilinn á síðustu stofutónleikum Glúfrasteins þetta sumarið. Davíð Þór hefur frá unga aldri leikið með allflestum þekktari tónlistarmönnum landsins og komið fram á tónlistarhátíðum víða um heim. Davíð Þór var valinn bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2017. Aðgangseyrir er 3.500 kr. og miðasala fer fram í móttöku safnsins fyrir tónleika.

18:00 ÍHUGUNARKRISTNI OG KVÖLDMESSA Í MOSFELLSKIRKJU
18:00 Kyrrðarbæn, Bylgja Dís Gunnarsdóttir leiðir stundina í kirkjunni. 18:30 Biblíuleg íhugun, Sr. Henning Emil Magnússon leiðir. 18:45 Göngutúr. 19:30 Hressing.
20:00 Kvöldmessa. Lágstemmd stund í kirkjunni með mikla áherslu á íhugun, iðkun og söng. Þórður Sigurðsson, organisti, leiðir tónlistina. Sr. Henning Emil Magnússon þjónar.

Endurbætur og endurinnrétting Kvíslarskóla

Skólasetning Kvíslarskóla fer fram mánudaginn 28. ágúst.

Miklar endurbætur við Kvíslarskóla hafa staðið yfir síðustu mánuði þar sem við rannsókn EFLU verkfræðistofu í vor kom í ljós að rakaskemmdir voru til staðar í gólfplötu fyrstu hæðar Kvíslarskóla.
Um var að ræða nýtt tjón og mikilvægt að bregðast strax hratt við af hálfu Mosfellsbæjar. Í byrjun apríl var hafist handa við hreinsun byggingarefna og unnið að mótvægisaðgerðum til að tryggja góða innivist svo unnt væri að nýta neðri hæð Kvíslarskóla út vorönnin 2022.
Að loknum frekari rannsóknum var tekin ákvörðun um að nýta sumarlokun skólans til að vinna að endurbótum og endurinnréttingu Kvíslarskóla.

Koma fyrir lausum kennslustofum
Framkvæmdir hafa gengið vel en þó reyndist nauðsynlegt að seinka skólasetningu um nokkra daga vegna þess að vinna við að koma fyrir lausum stofum reyndist tímafrekari en til stóð. Gert er ráð fyrir að stofurnar verði hver á fætur annarri tilbúnar til kennslu í fyrstu viku september og á sama tíma verði lokið við að innrétta anddyri og salernis­kjarna fyrstu hæðar Kvíslarskóla.
Meginhluti neðri hæðar skólans verður ekki í notkun fram að áramótum vegna endurinnréttingar hæðarinnar.

Umfangsmikið og krefjandi verkefni
Samkvæmt upplýsingum frá Kvíslarskóla verður foreldrum boðið á árgangafundi í vikunni 22.-25. ágúst. Á þeim fundum verður farið yfir skólastarfið í vetur í hverjum árgangi fyrir sig, fyrirkomulag kennslu í upphafi skólaárs auk þess sem veittar verða nánari upplýsingar um stöðu endurbóta og endurinnréttingar á húsnæði Kvíslarskóla.
„Það er ljóst að það óskar sér enginn að vera í þessari stöðu og þetta er umfangsmikið og krefjandi verkefni,“ segir Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs. „Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að útkoman verður mikið endurnýjað skólahúsnæði sem stenst nútímakröfur og við megum alls ekki missa sjónar á því.
Það er mikilvægt að tryggja það að skólasamfélagið allt sem og bæjarbúar séu vel upplýst um gang mála og allir átti sig á sínu hlutverki. Því öll höfum við hlutverk í að láta þetta ganga upp. Samstaðan er mikilvæg og skólasamfélagið getur treyst því að vandað verði til verka þannig að tryggt sé að nemendur og starfsfólk geti gengið til starfa í heilnæmu húsnæði,“ segir Halla Karen.

Síðsumarhreyfing

Ég er bæði frí-maður og rútínu-maður. Finnst gott að breyta til, ferðast, fara á nýja staði, upplifa nýja hluti og gera aðra hluti en venjulega. En mér finnst yfirleitt mjög gott að koma til baka úr fríi og stíga aftur inn í rútínu. En ekki endilega sömu rútínu og síðast.

Mér til mikillar lukku fann ég róðrarvél í æfingasalnum okkar þegar við komum heim úr sumarfríinu. Forláta gripur sem vinir okkar eiga. Þau voru að flytja og fundu ekki góðan stað fyrir róðrarvélina þannig að hún er komin í pössun til okkar. Ég ákvað að bæta róðri inn í morgunrútínuna og tek þægilega lotu á græjunni góðu þrjá morgna í viku. Ég vona að að hún verði sem lengst í pössun hjá okkur.

Ég er líka byrjaður að æfa reglulega hjá sjálfum mér. Eða hjá æfingaklúbbnum okkar Völu öllu heldur. Ég ákvað að breyta til hjá mér í haust, hætta að þjálfa aðra og einbeita mér að öðrum verkefnum. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun, en ég sakna æfingahópsins og fólksins, og ákvað því að byrja að mæta sjálfur á æfingar til þess að hitta þau reglulega. Er búinn að mæta vel síðustu tvær vikur og ætla að halda áfram að gera það. Mér finnst þetta virkilega gott, að vera æfingafélagi í stað þess að vera þjálfari.
Fyrir utan róðurinn og æfingarnar reglulegu er ég með á vikuprógramminu eina fellagöngu. Fellin okkar eru bara best.

En lífið er ekki bara hreyfing. Gatan okkar þjófstartaði og hélt götugrill um síðustu helgi. Það er ótrúlega gaman að hitta nágrannana í afslöppuðum aðstæðum þar sem enginn er að flýta sér. Við erum mjög heppin með nágranna, gatan okkar er stútfull af skemmtilegu fólki sem gaman er að spjalla við og kynnast betur. Golfmót götunnar kom til umræðu, ég bíð spenntur eftir því!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. ágúst 2022

Regína Ásvalsdóttir verður næsti bæjarstjóri

Regína Ásvaldsdóttir verðandi bæjarstjóri Mosfellsbæjar og Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs undirrita samninga. 

Ákveð­ið hef­ur ver­ið að Regína Ás­valds­dótt­ir gegni starfi bæj­ar­stjóra í Mos­fells­bæ kjör­tíma­bil­ið 2022-2026.

Regína hef­ur ára­langa far­sæla reynslu af stjórn­un og rekstri á vett­vangi sveit­ar­fé­laga. Hún er sviðs­stjóri vel­ferð­ar­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar og hef­ur gegnt því starfi síð­ast­lið­in fimm ár. Áður gegndi hún stöðu bæj­ar­stjóra Akra­nes­kaup­stað­ar árin 2013-2017. Þá hef­ur hún starf­að sem fram­kvæmda­stjóri Festu, fé­lags um sam­fé­lags­lega ábyrgð fyr­ir­tækja, ver­ið skrif­stofu­stjóri á skrif­stofu borg­ar­stjóra og sviðs­stjóri þjón­ustu- og rekstr­ar­sviðs Reykja­vík­ur­borg­ar.

Regína er með meist­ara­próf í hag­fræði frá Há­skól­an­um í Aber­deen, diplóma í op­in­berri stjórn­sýslu og cand. mag. í fé­lags­ráð­gjöf frá Há­skól­an­um í Osló. Á ferli sín­um hef­ur Regína átt sæti í fjöl­mörg­um stjórn­um og starfs­hóp­um, nú síð­ast starfs­hópi sem skil­aði til­lög­um um hús­næð­is­mál til þjóð­hags­ráðs í maí síð­ast­liðn­um. Regína hef­ur mark­tæka reynslu af stefnu­mót­un og breyt­inga­stjórn­un og hef­ur leitt vinnu við stefnu­mót­un á sviði vel­ferð­ar­mála og at­vinnu­mála. Vel­ferð­ar­svið hef­ur enn­frem­ur ver­ið leið­andi svið hjá Reykja­vík­ur­borg þeg­ar kem­ur að sta­f­rænni þró­un og áherslu á þjón­ust­u­stjórn­un.

Áætl­að er að Regína hefji störf í byrj­un sept­em­ber en ráðn­ing­ar­samn­ing­ur­inn tek­ur form­lega gildi þeg­ar hann hef­ur ver­ið stað­fest­ur af bæj­ar­ráði fimmtu­dag­inn 14. júlí og birt­ur op­in­ber­lega í kjöl­far­ið.

Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs:
„Við erum lán­söm hér í Mos­fells­bæ að ganga til sam­starfs við svona reynslu­mik­inn stjórn­anda eins og Regína er. Framund­an eru stór verk­efni, með­al ann­ars í upp­bygg­ingu og áfram­hald­andi fjölg­un íbúa og stefnu­mót­un til fram­tíð­ar. Þessi verk­efni fela í sér fjöl­breytt­ar áskor­an­ir og því mik­il­vægt að við fáum til liðs við okk­ur ein­stak­ling með mikla og far­sæla reynslu, stór­an skammt af al­mennri skyn­semi, þjón­ustu­lund og brenn­andi áhuga á mál­efn­um sveit­ar­fé­lags­ins. Við bjóð­um Regínu vel­komna í Mos­fells­bæ og hlökk­um til sam­starfs­ins.“

Regína Ásvalsdóttir, verðandi bæjarstjóri:
„Ég þakka kær­lega fyr­ir það traust í minn garð sem mér er sýnt með ráðn­ing­unni. Mos­fells­bær er gott og fjöl­skyldu­vænt sam­fé­lag í örum vexti og hér eru mörg tæki­færi þeg­ar til fram­tíð­ar er lit­ið. Ég hlakka til að starfa með öfl­ug­um bæj­ar­full­trú­um og góðu starfs­fólki Mos­fells­bæj­ar að þeim mik­il­vægu verk­efn­um sem eru framund­an.“

Umsækjendur um stöðu bæjarstjóra

Eft­ir­far­andi að­il­ar sóttu um stöðu bæj­ar­stjóra í Mos­fells­bæ. Alls sóttu 30 að­il­ar um stöð­una en 5 drógu um­sókn­ir sín­ar til baka.

  • Árni Jóns­son – For­stöðu­mað­ur
  • Gísli Hall­dór Hall­dórs­son – Fyrrv. bæj­ar­stjóri
  • Glúm­ur Bald­vins­son – Leið­sögu­mað­ur
  • Gunn­ar Hinrik Haf­steins­son – Meist­ara­nemi
  • Gunn­laug­ur Sig­hvats­son – Ráð­gjafi
  • Gylfi Þór Þor­steins­son – Að­gerða­stjóri
  • Helga Ing­ólfs­dótt­ir – Bæj­ar­full­trúi
  • Ingólf­ur Guð­munds­son – For­stjóri
  • Jón Eggert Guð­munds­son – Kerf­is­stjóri
  • Jóna Guð­rún Krist­ins­dótt­ir – Verk­efna­stjóri
  • Karl Ótt­ar Pét­urs­son – Lög­mað­ur
  • Krist­inn Óð­ins­son – Fjár­mála­stjóri
  • Kristján Sturlu­son – Sveitarstjóri
  • Kristján Þór Magnús­son – Fyrrv. sveit­ar­stjóri
  • Lína Björg Tryggva­dótt­ir – Skrif­stofu­stjóri
  • Matt­hild­ur Ásmund­ar­dótt­ir – Fyrrv. sveit­ar­stjóri
  • Ólaf­ur Dan Snorra­son – Rekstr­ar- og starfs­manna­stjóri
  • Ósk­ar Örn Ág­ústs­son – Fjár­mála­stjóri
  • Regína Ás­valds­dótt­ir – Sviðs­stjóri
  • Sig­urð­ur Erl­ings­son – Stjórn­ar­formað­ur
  • Sig­urð­ur Ragn­ars­son – Fram­kvæmda­stjóri
  • Sig­ur­jón Nói Rík­harðs­son – Nemi
  • Þor­steinn Þor­steins­son – Deild­ar­stjóri
  • Þór­dís Sif Sig­urð­ar­dótt­ir – Lög­fræð­ing­ur
  • Þór­dís Sveins­dótt­ir – Lána­stjóri

Leitin að hæsta tré bæjarins

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og bæjarblaðið Mosfellingur leita nú að hæsta trénu í Mosfellsbæ.
Síðastliðin 20 ár hefur verið mikill trjávöxtur á landinu og er staðfest að innan innan þessa sveitarfélags er að finna tré sem komin eru yfir 20 metra.
„Við viljum endilega sjá hvort við eigum ekki tré sem er farið að nálgast 25 metra eða jafnvel 30 metra sem samsvarar hæsta mælda tré á Íslandi en það er sitkagrenitré sem gróðursett var á Kirkjubæjarklaustri árið 1949,“ segir Björn Traustason formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar.
Gætum við jafnvel átt hæsta tré á Íslandi hér í Mosfellsbæ?

Bæjarbúar taki þátt við leitina
Til að finna hæsta tréð eru bæjarbúar beðnir um að senda Skógræktarfélaginu tilnefningar í sumar. Takið myndir af trjám sem þið teljið líklega kandídata og er mikilvægt að einhver standi við tréð þannig að hægt sé að meta út frá ljósmyndinni hversu hátt það er.
Það getur auðvitað verið erfitt að taka mynd í þéttum skógarlundi en þið gerið ykkar besta. Mikilvægt er að tilgreina staðsetningu á trénu og gaman væri að fá upplýsingar um trjátegund, hvenær það var gróðursett, af hverjum og af hvaða tilefni.
Hæstu 10 trén verða metin og í kjölfarið mæld með nákvæmum hætti af skógmælingafólki frá Skógræktinni. Sett verður upp merki við hæsta tréð og sagt frá verðlaunatrénu í Mosfellingi.

Myndir og upplýsingar um tré er hægt að senda á netfangið skogmos@skogmos.is til 10. ágúst.

Skólar eru skemmtilegir staðir

Hlín Magnúsdóttir Njarðvík hefur starfað mjög lengi með börnum, í dag stýrir hún stoðþjónustu þar sem hún leggur mikla áherslu á fjölbreytt og áhugahvetjandi námsefni ásamt því að flétta daglegt líf inn í nám barnanna að mestu leyti.
Hlín heldur einnig úti námssamfélaginu Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka en þar deilir hún bæði hugmyndum og námsefni sem hún hannar sjálf til annarra kennara og foreldra.

Hlín Magnúsdóttir Njarðvík er fædd í Reykjavík 17. apríl 1986. Foreldrar hennar eru Stefanía Anna Árnadóttir leikskólastarfsmaður og Magnús Steinn Loftsson leikari.
Hlín á fjögur systkini, Ingibjörgu f. 1980, Árna Dag f. 1989, Ástu f. 1994 og Katrínu f. 1994.

Kósý kvöldin standa upp úr
„Ég ólst upp í Vesturbænum í Reykjavík og það var alveg dásamlegt að alast þar upp. Stutt í skólann, stutt í vinina og hverfissjoppan stóð alltaf fyrir sínu, það var alltaf líf og fjör. Mínar dýrmætustu æskuminningar eru augnablikin þar sem ég var að leika við systkini mín á hverfisrólónum, leigja vídeóspólu með pabba og borða sveittan hamborgara frá Hróa Hetti með mömmu.
Systkinahópurinn er stór svo það var alltaf líf og fjör á heimilinu, foreldrar okkar lögðu alltaf mikið upp úr kósýkvöldum og hjá okkur var alltaf mikil tilhlökkun. Þetta er til dæmis eitt af því sem ég hef tekið með mér í uppeldi barnanna minna,“ segir Hlín og brosir.

Gaman að gleyma sér í gleðinni
„Ég gekk í Melaskóla og Hagaskóla og hef alltaf haft gaman af því að vera í skóla. Það er nefnilega alltaf gaman að læra eitthvað nýtt og það er kannski ástæðan fyrir því að ég endaði í skóla á fullorðinsárum, skólar eru skemmtilegir staðir.
Á skólaárunum var maður alltaf að bralla eitthvað sniðugt með vinunum, hvort sem það var að stofna hljómsveit og rappa á Gauki á Stöng fyrir framan öll átrúnaðargoðin á þeim tíma eða að fara saman á tónleika. Vinahópurinn hefur haldið sambandi í gegnum öll þessi blessuðu ár og það er alltaf jafn gaman að gleyma sér í gleðinni með þeim.
Ég fór síðan í Menntaskólann við Hamrahlíð á félagsfræðibraut þar sem ég féll fyrir sálfræðinni, þar tók ég eins marga sálfræði­áfanga og ég gat og naut þess í botn.“

Dýrmæt augnablik í hinu daglega lífi
Hlín er gift Gunnari Lár Gunnarssyni framkvæmdastjóra og eiganda viðburðafyrirtækisins Manhattan Events. Þau eiga þrjú börn, Hlyn Lár f. 2010, Anítu Björk f. 2014 og Jökul Lár f. 2019.
„Við fjölskyldan erum mjög samrýmd og ótrúlega heimakær, við erum með kósý­kvöld í hverri viku, horfum saman á bíómyndir og förum í heita pottinn. Við höfum líka gaman af að ferðast og sjá nýja staði saman.
Annars eru það dýrmætu augnablikin í hinu daglega lífi sem gefa okkur mest, spjallið eftir skóladaginn, hláturinn við matarborðið, kvöldröltið og svo spjallið sem á sér stað akkúrat þegar þau eru að fara að sofa.“

Áherslurnar eru mismunandi
Síðustu ár hefur Hlín starfað í skólum, fyrst sem kennari á Stuðlum í eitt ár og svo sérkennari í Norðlingaskóla í fimm ár. Núna starfar hún sem deildarstjóri stoðþjónustu í leik- og grunnskólanum Helgafellsskóla og er að klára sitt annað ár í því starfi.
Hún er með meistaragráðu í uppeldis-og menntunarfræðum ásamt BA-gráðu í sálfræði og diplomagráðu í kennslufræðum, málþroska og læsi.
„Starfið mitt felst aðallega í því að þróa og styðja við alla stoðþjónustu í skólanum í samvinnu við starfsfólkið. Þetta er stuðningskerfi við almenna kennslu en áherslurnar eru mismunandi og fara eftir þörfum einstaklingsins. Ég er svo heppin að vera með virkilega flott fólk í mínu stoðteymi, sérkennara, iðjuþjálfa, námsráðgjafa og þroskaþjálfa, allir með það að leiðarljósi að leyfa styrkleikum og áhugasviði barnanna að njóta sín.
Dagarnir í vinnunni er misjafnir en allir snúast þeir um nemendur og hvernig hægt er að aðlaga skólastarfið að þeirra þörfum.“

Verkefnamiðað nám
Hlín sinnir fjölbreyttum verkefnum daglega, finnur námsefni við hæfi með aðstoð sérkennara, sinnir foreldrasamskiptum, leitar til annarra fagaðila t.d sálfræðings eða talmeinafræðings til að fá ráðgjöf, skimar fyrir lestrarvanda og heldur utan um aðrar skimanir, fundarhöld ásamt því að spjalla við börnin sjálf.
„Í Helgafellsskóla vinnum við mikið með verkefnamiðað nám, við reynum að flétta daglegt líf inn í nám barnanna að sem mestu leyti. Fókusinn minn er alltaf hvaða verkfæri þurfa börnin að hafa til þess að geta tekist á við áskoranir og hvernig við getum gert námið forvitnilegt og áhugavert, til þess að vita það þá er langbest að spjalla við börnin. Við stjórnendur leggjum líka mikið upp úr því að þau geti alltaf komið til okkar ef þeim liggur eitthvað á hjarta.“

Vinnum að sama markmiði
„Stoðþjónustan er samvinna milli skóla, foreldra og nemenda m.a. á þann hátt að skólinn þekkir bekkjarnámskrána og hæfniviðmiðin ásamt því að þekkja fjölbreytt úrræði, foreldrar geta stutt við námið heima og nemandinn nýtir sína styrkleika og áhugasvið til að læra nýja þekkingu.
Ég hef alltaf haft það sem markmið bæði sem foreldri og starfsmaður í skóla að hafa samskiptin milli heimilis og skóla sem best, að þau einkennist af trausti, virðingu og samvinnu. Að barnið finni að það eigi bandamenn á báðum stöðum og verið sé að vinna að sama markmiðinu, að barninu líði vel og það fái tækifæri til að blómstra í lífinu.“

Fjölbreyttar kennsluaðferðir
„Ég er líka með „smá“ aukavinnu, en ég held úti litlu námssamfélagi sem ég kalla Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka. Ég deili námsefni, hugmyndum og ráðgjöf á samfélagsmiðlum og hef haldið fyrirlestra, allt í nafni Fjölbreyttrar kennslu.
Það er alveg dásamlegt að vinna þessa vinnu svona á kantinum, það gefur mér mikið að búa til námsefni á kvöldin þegar börnin mín eru sofnuð.
Mitt helsta áhugamál er nám og kennsla, ég ver miklum tíma í að kynna mér hvort tveggja, hvort sem það er að lesa greinar, skoða námsefni eða kynna mér hvað aðrir skólar eru að gera, bæði hér heima og erlendis. Ég sæki mikið ráðstefnur og námskeið og svo hef ég ansi gaman af því að mennta mig sjálf,“ segir Hlín og brosir.

Ég held ótrauð áfram
„Ég tel mig vera í einstakri stöðu þar sem ég fæ tækifæri til að ná bæði til foreldra og fagfólks með fróðleik og námsefni bæði í gegnum starf mitt og í gegnum Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka.
Ég held ótrauð áfram að leggja mitt af mörkum svo að brúin milli heimilis og skóla sé stutt, stöðug og sterk.“

Skipað í nefndir og ráð

Nýr meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar hefur tekið til starfa og fór fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar fram 1. júní.
Þessa dagana er verið að auglýsa eftir bæjarstjóra en leitað er að metnaðarfullum og drífandi einstaklingi með farsæla reynslu af stjórnun og rekstri.
Á fyrsta fundi var Anna Sigríður Guðnadóttir kjörin forseti bæjarstjórnar til eins árs, 1. varaforseti Lovísa Jónsdóttir (C), 2. varaforseti Aldís Stefánsdóttir (B). 

Kosið var í nefndir og ráð á vegum bæjarins og skipast þannig:

Bæjarráð
Halla Karen Kristjánsdóttir (B) formaður
Lovísa Jónsdóttir (C) varaformaður
Anna Sigríður Guðnadóttir (S)
Ásgeir Sveinsson (D)
Jana Katrín Knútsdóttir (D)

Áheyrnarfulltrúi: Dagný Kristinsdóttir (L).
Varamenn: Aldís Stefánsdóttir (B), Valdimar Birgisson (C), Ólafur Ingi Óskarsson (S), Rúnar Bragi Guðlaugsson (D) og Helga Jóhannesdóttir (D).
Varaáheyrnarfulltrúi: Guðmundur Hreinsson (L).

Fjölskyldunefnd
Ólafur Ingi Óskarsson (S) formaður
Sigríður Dóra Sigtryggsdóttir (B) varaformaður
Halla Karen Kristjánsdóttir (B)
Jana Katrín Knútsdóttir (D)
Hilmar Stefánsson (D)

Áheyrnarfulltrúar: Ölvir Karlsson (C) og Dagný Kristinsdóttir (L).
Varamenn: Anna Sigríður Guðnadóttir (S), Bjarni Ingimarsson (B), Örvar Jóhannsson (B), Rúnar Bragi Guðlaugsson (D), Alfa Regína Jóhannsdóttir (D). 
Varaáheyrnarfulltrúar: Lovísa Jónsdóttir (C) og Olga Stefánsdóttir (L).

Fræðslunefnd
Aldís Stefánsdóttir (B) formaður
Sævar Birgisson (B) varaformaður
Elín Árnadóttir (S)
Elín María Jónsdóttir (D)
Hjörtur Örn Arnarson (D)

Áheyrnarfulltrúar: Elín Anna Gísladóttir (C) og Dagný Kristinsdóttir (L). 
Varamenn: Ólöf Sivertsen (B), Hilmar Tómas Guðmundsson (B), Elín Eiríksdóttir (S), Arna Björk Hagalínsdóttir (D) og Jana Katrín Knútsdóttir (D).
Varaáheyrnarfulltrúar: Valdimar Birgisson (C) og Olga Stefánsdóttir (L).

Íþrótta- og tómstundanefnd
Erla Edvardsdóttir (B) formaður
Leifur Ingi Eysteinsson (B) varaformaður
Atlas Hendrik Ósk Dagbjarts (C)
Rúnar Bragi Guðlaugsson (D)
Arna Björk Hagalínsdóttir (D)

Áheyrnarfulltrúar: Sunna Arnardóttir (S) og Katarzyna Krystyna Krolikowska (L).
Varamenn: Þorbjörg Sólbjartsdóttir (B), Grétar Strange (B), Kjartan Jóhannes Hauksson (C), Ásgeir Sveinsson (D) og Hilmar Stefánsson (D).
Varaáheyrnarfulltrúar: Margrét Gróa Björnsdóttir (S) og Lárus Arnar Sölvason (L).

Lýðræðis- og mannréttindanefnd
Sævar Birgisson (B) formaður
Aldís Stefánsdóttir (B) varaformaður
Rúnar Már Jónatansson (C)
Brynja Hlíf Hjaltadóttir (D)
Gunnar Pétur Haraldsson (D)

Áheyrnarfulltrúar: Ólafur Ingi Óskarsson (S) og Kristín Nanna Vilhelmsdóttir (L). 
Varamenn: Rúnar Þór Guðbrandsson (B), Hrafnhildur Gísladóttir (B), Guðrún Þórarinsdóttir (C), Davíð Örn Guðnason (D) og Helga Möller (D).
Varaáheyrnarfulltrúar: Anna Sigríður Guðnadóttir (S) og Kristján Erling Jónsson (L).

Menningar- og nýsköpunarnefnd
Hrafnhildur Gísladóttir (B) formaður
Hilmar Tómas Guðmundsson (B) varaformaður
Jakob Smári Magnússon (S)
Helga Möller (D)
Franklin Ernir Kristjánsson (D)

Áheyrnarfulltrúar: Guðrún Þórarinsdóttir (C) og Kristján Erling Jónsson (L). 
Varamenn: Leifur Ingi Eysteinsson (B), Þorbjörg Sólbjartsdóttir (B), Þórarinn Snorri Sigurgeirsson (S), Helga Jóhannesdóttir (D) og Davíð Ólafsson (D).
Varaáheyrnarfulltrúar: Elín Anna Gísladóttir (C) og Kristín Nanna Vilhelmsdóttir (L).

Skipulagsnefnd
Valdimar Birgisson (C) formaður
Aldís Stefánsdóttir (B) varaformaður
Ómar Ingþórsson (S)
Ásgeir Sveinsson (D)
Helga Jóhannesdóttir (D)

Áheyrnarfulltrúi: Stefán Ómar Jónsson (L).
Varamenn: Lovísa Jósndóttir (C) og Rúnar Þór Guðbrandsson (B).
Varaáheyrnarfulltrúi: Haukur Örn Harðarson (L).

Umhverfisnefnd
Örvar Jóhannsson (B) formaður
Þorbjörg Sólbjartsdóttir (B) varaformaður
Jón Örn Jónsson (C)
Ragnar Bjarni Zoega Hreiðarsson (D)
Þóra Björg Ingimundardóttir (D)

Áheyrnarfulltrúar: Ómar Ingþórsson (S) og Michele Rebora (L).
Varamenn: Hörður Hafberg Gunnlaugsson (B), Rúnar Þór Guðbrandsson (B), Ölvir Karlsson (C), Jana Katrín Knútsdóttir (D) og Ari Hermann Oddsson (D).
Varaáheyrnarfulltrúar: Anna Sigríður Guðnadóttir (S) og Lárus Arnar Sölvason (L).

 

Fastefli og BL kaupa athafnasvæði við Tungumela

Íris Ansnes framkvæmdastjóri hjá BL og Óli Valur Steindórsson framkvæmdastjóri Fasteflis undirrita. Fyrir aftan: Jón Þór Gunnarsson og Erna Gísladóttir eigendur BL og Ellert Jón Björnsson fjármálastjóri Fasteflis.

Á dögunum hittust forsvarsmenn Fasteflis og BL á Barion Mosó og undirrituðu samstarfssamning um kaup og þróun á rúmlega 38 hektara landsvæði við Tungumela í Mosfellsbæ. Svæðið er ætlað fyrir fjölbreytta athafnastarfsemi.
Aðspurður sagði Mosfellingurinn Óli Valur Steindórsson framkvæmdastjóri Fasteflis um verkefnið: „Á mýmörgum fundum sjálfboðaliða Aftureldingar var og er mikð rætt um þörfina að fjölga styrktaraðilum en góður fjöldi vel rekinna fyrirtækja er grundvöllur þess.
Það hafa verið viss vonbrigði með fyrsta hluta uppbyggingar Tungumela hversu fá fyrirtæki hafa lagt leið sína þangað en mikill hluti svæðisins hefur verið nýttur undir byggingu á geymslum. Það er því kærkomið tækifæri sem okkur hefur nú fallið í skaut, að leiða og þróa uppbyggingu á þessu svæði og taka þátt í að auðga flóru fyrirtækja í bæjarfélaginu en það er vonandi að við fáum góðan stuðning og samstarf frá bæjaryfirvöldum við það,“ segir Óli Valur.

Spennandi framtíðarstaðsetning fyrir BL
Íris Ansnes framkvæmdastjóri hjá BL bætti jafnframt við að Tungumelar væri spennandi svæði til framtíðar fyrir BL en félagið væri að skoða mögulega framtíðarstaðsetningu fyrir starfsstöðvar félagsins. „Að því sögðu býður verkefnið sem slíkt upp á gríðarmikla möguleika fyrir fyrirtæki sem eru að huga að og þurfa að færa sína starfsemi úr Reykjavík í náinni framtíð og eru Tungumelar góður kostur ef vel er á málum haldið,“ segir Íris Ansnes.
Áhugavert verður að fylgjast með þessu verkefni.


Fastefli er móðurfélag Upprisu og Hlöllabáta (Barion).
BL er rótgróið bílaumboð sem varð til við sameiningu Ingvars Helgasonar og B&L árið 2011.

Breytingar

Það er hollt að breyta, hætta að gera eitthvað sem maður hefur gert lengi og gera eitthvað annað í staðinn. Það er ekki auðvelt að hætta, sérstaklega ekki einhverju sem maður hefur haft ánægju af lengi, en mín skoðun og reynsla er að það sé betra að hætta á meðan það er enn gaman. Ég er í hætta-ferli núna, er að hætta með ýmislegt sem ég hef gert eða tekið þátt í lengi. Af hverju er ég að hætta? Af því að mig langar að gera aðra hluti og til þess að geta gert þá vel, þarf ég að hafa góðan tíma og mikla orku.

Ég er samt ekki að loka dyrum eða skella hurðum á eftir mér. Mér finnst best að hætta þannig að ég eigi möguleika á að taka aftur upp þráðinn seinna. Kannski miklu seinna, kannski aldrei, en ég vil halda endurkomumöguleikum opnum, maður veit aldrei hvernig lífið þróast.

Um leið og það er erfitt að hætta, fylgir því mikil tilhlökkun að búa sér til rými til að takast á við nýja hluti og verkefni.

Fyrir mér er heimurinn stór og lítill á sama tíma. Það er allt hægt, ef maður trúir og virkilega vill. Og það er gaman að horfa fram á veg og reyna við hluti sem virðast óraunhæfir og ómögulegir. Ég hlustaði á dögunum á viðtal við Guðmund Guðmundsson, landsliðsþjálfara karlalandsliðsins okkar í handbolta. Mér fannst bæði áhugavert og hvetjandi að heyra hann tala um verkefnin sem hann sem hefur tekið að sér í gegnum tíðina og hvernig hann hefur brugðist við þeim tilboðum sem hann hefur fengið. Áskoranir og erfið verkefni voru hæst á hans óskalista, hvort sem það var að koma Aftureldingu upp í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins eða að gera Dani að Ólympíumeisturum í fyrsta sinn. Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 23. júní 2022

Mikil og lífleg starfsemi í Bólinu

Félagsmiðstöðin Ból er búin að vera með starfsemi í þremur félagsmiðstöðvum í vetur enda er Mosfellsbær ört stækkandi bæjarfélag og mikill ávinningur að gera sem best fyrir unga fólkið okkar.
Mosfellingur tók Guðrúnu Helgadóttur forstöðukonu Bólsins tali, gefum henni orðið.

Metþátttaka í alla viðburði
„Þrátt fyrir að fyrri hluti vetrar hafi aðeins verið undir áhrifum frá Covid þá náum við að ljúka þessum skólavetri með magnaðri dagskrá og metþátttöku á alla okkar viðburði.
Það er ekki séns að fara yfir allt það sem er búið að vera í gangi en þrír stærstu viðburðirnir voru núna í lok apríl og maí og það má hrósa unga fólkinu okkar fyrir að vera almennt til fyrirmyndar í öllu því sem þau gera og hér kemur smá upptalning á því sem við m.a. gerðum.“

Samfestingurinn Hann var haldinn dagana 29.–30 apríl. Hann samanstendur af balli þar sem 4.500 unglingar koma saman og skemmta sér og svo er söngkeppni seinni daginn.
Í söngkeppninni keppa unglingar af öllu landinu. Í ár var Samfestingurinn haldinn á Ásvöllum í Hafnarfirði og við fórum með tvær fullar rútur af frábærum unglingum á þennan geggjaða viðburð.
Sundpartý Í samstarfi við starfsmenn Lágafellslaugar var Félagsmiðstöðin Ból með sundpartý fyrir 5.–7. bekk og svo annað daginn eftir fyrir 8.–10. bekk. Þar vorum við með mismunandi skemmtun víðsvegar um laugina eins og t.d. zumba í útilauginni og wipe-out braut í innilauginni.
Tvö hundruð og sextíu börn og unglingar mættu og skemmtu sér saman. Það náðist upp svo mikil stemning að aðrir sundgestir voru farnir að taka þátt. Að loknu partýi fengu svo allir ís.

Rave ball Loksins náðum við að halda aftur ball í Hlégarði, sem var langþráð. Við ákváðum að fara bara „all in“ og leigðum flottan ljósabúnað, fengum góða skemmtikrafta en best var sennilega að unglingarnir fengu tækifæri til að vera DJ í byrjun og keyra ballið í gang.
Tæplega 300 unglingar mættu á ballið og dönsuðu í 150 mínútur samfleytt. Það var alveg magnað að vera þarna og upplifa stemninguna. Margir voru búin að undirbúa sig dagana fyrir ballið því það var hægt að koma til okkar í Bólið og mála með neonlitum á hvíta boli. Þetta gerði það að verkum að það náðist upp stemning strax tveim dögum fyrir ball.

Pop-up félagsmiðstöð í sumar
Því miður er víst komið að því að Bólið fari formlega í sumarfrí. Við erum samt ekki alveg til í sleppa unglingunum okkar þannig að við ætlum að vera með pop-up félagsmiðstöð í sumar í samstarfi við Vinnuskóla Mosfellsbæjar.
Við munum auglýsa á Instagram hvað er á dagskrá og hvar og hvenær við munum hittast. Við ætlum að nýta okkur útivistarsvæðin í Mosfellsbæ. Þannig að ég mæli með að foreldrar fylgi okkur líka á Insta @Bolid270 þannig að þetta fari ekki fram hjá neinum.
Einnig verða fimm námskeið í boði fyrir yngri hópinn okkar. Námskeiðin eru eftir hádegi og hvert námskeið stendur yfir í fjóra daga. Skráning á námskeiðin er í gegnum Sportabler en allar upplýsingar eru á bolid.is.

Opið alla daga
„Opnunartíminn hjá okkur yfir veturinn er alla virka daga frá 9–16 og svo er opið öll virk kvöld, mismunandi kvöld eftir félagsmiðstöðvum, þannig að unglingarnir hafa alltaf samastað. Bólið býður einnig upp á starfsemi fyrir 10-12 ára en allar upplýsingar um starfið er að finna á heimasíðu Bólsins bolid.is.
Í Bólinu starfa 17 starfsmenn sem allir eru frábærir á sínu sviði. Það er mjög lítil starfsmannavelta þannig að börnin og unglingarnir þekkja vel mitt fólk sem er alveg ómetanlegt því þá myndast þetta traust sem er svo mikilvægt í félagsmiðstöðvarstarfi.
Í lokin þá mæli ég með að allir reyni að vera besta útgáfan af sjálfum sér. Ef við komum fram við hvert annað af virðingu, óháð aldri, þá verður sumarið algjör snilld. Svo ef eitthvað er, þá geta unglingarnir alltaf sent á okkur skilaboð á Insta eða leitað til Bólstarfsmanna sem eru í Vinnuskólanum,“ sagði Guðrún að lokum.

KYNNING

Flipp flopp í skapandi skólastarfi

Sævaldur Bjarnason kennari í Kvíslarskóla.

Flipp flopp í skapandi skólastarfi er heiti á nýju þróunarverkefni sem hefur verið unnið að í Kvíslarskóla í vetur.
Sævaldur Bjarnason, kennari í Kvíslarskóla, kom með hugmyndina að verkefninu og vann í að koma því á laggirnar ásamt hópi kennara í skólanum. Flipp flopp dagar hafa verið mánaðarlega næstum allt skólaárið við frábærar undirtektir nemenda og kennara.

Hvernig varð hugmyndin að Flipp flopp til?
Hún varð fyrst til eftir að það kom gagnrýni frá Menntamálastofnun að kennsluhættir væru heldur einhæfir í skólanum. Stjórnendur skólans sáu tækifæri í þessu og þegar ákveðið var að skipta skólanum upp í tvo skóla ákváðu þeir að láta á þetta reyna, prófa verkefnið og sjá hversu langt við kæmumst með að breyta kennsluháttum og reyna að búa til fleiri verkefni sem nemendur tengdu meira við með fjölbreyttara námsmati. Þá tók ég við boltanum og úr varð þessi hugmynd.
Húsnæði skólans býður ekki upp á mikla möguleika á teymiskennslu en okkur langaði til að prófa okkur áfram með okkar útgáfu af því. Þegar skólinn fór frá því að vera Varmárskóli – eldri deild yfir í Kvíslarskóla þá ákváðum við að nýta tækifærið og endurskoða kennsluna og skólabraginn og gera tilraun með að gera endurbætur til að efla nýjan unglingaskóla í bænum.
Kennararnir tóku vel í þessar pælingar og höfðu mikinn áhuga á að færa sig frá hefðbundinni bókarkennslu yfir í nútímalegri kennsluhætti með fjölbreyttum verkefnum og verkefnaskilum. Aðalnámskrá var nýtt í öll verkefnin og lykilhæfni grunnskólanna. Hvert Flipp flopp þurfti þannig að hafa markmið sem tengdist lykilhæfni grunnskólanna.

Hvaðan kemur nafnið Flipp flopp?
Við vildum hvorki kalla þetta þemadaga né verkefnadaga. Það er náttúrulega fullt af svipuðum verkefnum í gangi í öðrum skólum eins og sprellifix, uglur og smiðjur. Við erum með teymi utan um þetta nokkrir kennarar. Við veltum upp hugmyndum í kringum þetta, okkur fannst þetta frekar flippað allt saman að fara af stað með eitthvað svona og einhvernvegin varð þetta nafn til Flipp flopp.

Hversu oft eru Flipp flopp dagar í skólanum?
Tveir Flipp flopp dagar eru haldnir mánaðarlega og snúa að vinnulagi þar sem nokkrar námsgreinar eru samþættar að hverju sinni. Áhersla er lögð á nýstárleg vinnubrögð af hálfu nemenda og kennara auk samspils upplýsingatækni og kennslufræðilegra hugmynda í námi, hugmynda á borð við verkefnamiðað nám, þemanám, þrautalausnanám, hönnunarmiðað nám og samvinnunám.

Hvernig hafa nemendur og kennarar tekið dögunum?
Flestum nemendum hefur þótt þetta mjög skemmtilegt, það er svo gaman að brjóta aðeins upp hversdagsleikann og hafa kennsluna öðruvísi. Við leggjum mikla áherslu á hópefli, reynum að þétta hópinn og gera eitthvað saman. Að mínu mati er miklu betri og skemmtilegri stemmning í skólanum síðan við byrjuðum með þetta.
Kennararnir hafa almennt verið mjög jákvæðir en þetta krefst þess að maður þarf að undirbúa sig öðruvísi en fyrir venjulega kennslu og oftast í öðrum fögum en maður ert vanur að kenna.

Myndiru vilja breyta einhverju á næsta ári?
Nei, bara fínpússa verkefnin og lagfæra þessa hnökra sem við urðum vör við. Sum verkefnin litu kannski vel út á blaði en heppnuðust svo ekki nóg vel í framkvæmd.
Við erum því bara spennt að takast á við nýtt skólaár með alls konar Flipp flopp dögum og að gera enn betur en í fyrra.