Hugsaðu jákvætt, það er léttara!

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir

Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg líðan og gerir einstaklingnum kleift að lifa innihaldsríku lífi (skilgreining WHO). Þriðji áhersluþáttur verkefnisins Heilsueflandi samfélag er geðrækt, líðan og félagslíf. Fyrsta geðorðið hvetur okkur til þess að hugsa jákvætt. Það er auðvelt að festast í viðjum vanans og rannsóknir hafa sýnt fram á að það er algengara að neikvæðar hugsanir brjótist fram í amstri dagsins. Við þurfum að þjálfa heilann til að hugsa jákvætt.
Það að vera jákvæður er ekki aðeins að brosa, vera glaður og ánægður, heldur snýst það um að meta umhverfi sitt á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Þannig getum við betur haldið einbeitingu, metið aðstæður og tekið skynsamar ákvarðanir.

Neikvæðar hugsanir eins og ótti taka völdin þegar við mætum ljóni og hlaupum í burtu. Flestir hugsa aðeins um það eitt að forða sér og hlaupa en gleyma skynsemi og að meta aðstæður. Það sama á við þegar við hugsum neikvæðar hugsanir um okkur sjálf, við sjáum ekki lausnir fyrir áhyggjum og neikvæðni. Álag og stress margfaldast. Heilinn í raun lokar á umhverfi sitt og einbeitir sér að því neikvæða sem er t.d.: „Ég náði ekki að klára öll verkefnin í dag, ég fór ekki í heimsókn til mömmu eða…“
Á meðan náum við ekki að einbeita okkur að öðrum valkostum, þegar við erum glöð, jákvæð og ánægð. Við tökum oft ekki eftir því þegar við getum verið hamingjusöm, aðeins þegar við erum það ekki. Við verðum að staldra við í amstri dagsins og horfa í kringum okkur og læra að meta allt það sem er í kringum okkur. Ekki bara að vera að hugsa um morgundaginn, eða gærdaginn, hugsum um daginn í dag.
Temjum okkur að sjá það jákvæða, þegar neikvæðar hugsanir heltaka okkur. Í öllum tilfellum er hægt að sjá það jákvæða – við þurfum bara að þjálfa og rækta heilann til þess.
Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt?

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, 
fagstjori EFLU.

Heilsuhornið
Mosfellingur 28. janúar 2016

Tíðindalaust í bæjarstjórn?

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Á vettvangi bæjarstjórnar og nefnda bæjarfélagsins eru teknar ákvarðanir sem hafa bein áhrif á bæjarbúa. Á flestum nefndafundum eru rædd málefni sem á einn eða annan hátt skipta bæjarbúa máli í þeirra daglega lífi.
Á nefndafundum eru málin rædd og fulltrúar allra flokka sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn hafa rétt til að koma sínum skoðunum á framfæri. Í samræmi við sveitarstjórnarlög eru nefndafundir lokaðir fundir sem einungis kjörnir nefndamenn mega sitja. En í samræmi við lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar sem fyrst var samþykkt 2011 og endurskoðuð af bæjarráði árið 2015 hafa markviss skref verið tekin til að opna stjórnsýsluna og að gera hana gagnsærri.
Þannig eru nú birt með fundargerðum nefnda og bæjarráðs á vef bæjarins þau gögn sem fylgja málum, þ.e. ef þau eru ekki þess eðlis að persónuvernd hamli birtingu eða að hagsmunir bæjarins gætu skaðast af birtingu þeirra. Með birtingu fylgigagna er bæjarbúum gert auðveldara að fylgjast með hvernig ákvarðanir eru teknar og á hverju þær byggja. Ég vil hvetja bæjarbúa til að láta sig varða umræðuna á vettvangi bæjar­stjórnar. Það má gera með því að mæta á fundi hennar til að fylgjast með umræðunum því fundir bæjarstjórnar eru opnir fundir þar sem allir mega mæta og hlusta.
Þá hefur sú framför orðið að streymt er beint frá fundunum svo þeir sem hafa áhuga á vissum málum, en eiga ekki heiman­gengt, geta lagt við hlustir þegar þau eru rædd. Um árabil hafa fundirnir síðan verið teknir upp og gerðir aðgengilegir á vef bæjarins.
Mörg mál eru afgreidd í samkomulagi innan nefnda og bæjarstjórnar en auðvitað skerst í odda á stundum. Þá fer umræðan fram á fundi bæjarstjórnar og getur hvesst nokkuð á ræðustóli og bókanir lagðar fram á báða bóga. Þegar best lætur næst nokkuð víðtækt samkomulag um mál. Má þar nefna sem dæmi tillögu Samfylkingar um aðgerðir til að efla almennan leigumarkað í bænum. Sú tillaga hlaut gott brautargengi hjá öðrum stjórnmálaflokkum og nú hefur bæjarstjóra verið falið að undirrita samkomulag við framkvæmdaaðila um úthlutun lóðarinnar við Þverholt 27-29 undir leiguíbúðir, allt að 30 talsins.
Þá má nefna tillögu Samfylkingar um uppbyggingu Ungmennahúss sem bæjarráð vísaði með öllum greiddum atkvæðum til gagngerrar skoðunar og upplýsingaöflunar embættismanna bæjarkerfisins. Niðurstaða málsins er ekki ljós en samtalið varð a.m.k. til þess að tillögunni var ekki fleygt lóðbeint út af borðinu. Ekki fá öll mál okkar slíkan framgang enda má segja að það liggi í eðli þess að bæjarstjórn skiptist í meirihluta og minnihluta.
Dæmi um það er umræðan um uppbyggingu skólamannvirkja þar sem Samfylkingin taldi að kostir við byggingu skóla miðsvæðis hafi ekki fengið þá skoðun sem hugmyndin átti skilið. Þó við Samfylkingarfólk höfum orðið undir í þeirri umræðu þá þýðir það ekki að við tökum ekki fullan þátt og af heilindum í undirbúningi nýs skóla samkvæmt þeim ákvörðunum sem meirihlutinn hefur tekið. Það er okkar skylda að vinna úr hverri stöðu eins og hún er á hverjum tíma með hag bæjarbúa í huga.
Aðhald bæjarbúa er mikilvægt fyrir kjörna fulltrúa og með því að fylgjast með störfum bæjarstjórnar og koma ábendingum til bæjarfulltrúa stuðla kjósendur að betri og gegnsærri stjórnsýslu og vonandi heilladrjúgum ákvörðunum fyrir bæinn okkar.

Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi Samfylkingar

Hvað er varanleg förðun?

Fanney Dögg Ólafsdóttir

Fanney Dögg Ólafsdóttir

Varanleg förðun er byltingarkennd meðferð sem felst í innsetningu lita undir yfirborð húðar til þess að skerpa línur andlits, og undirstrika náttúrulega fegurð þína. Meðferðin hefur verið notuð af mörgum þekktustu módelum, leikurum og skemmtikröftum heims til að bæta útlit þeirra. Fagurfræðilegt gildi, tímasparnaður og minni peningaeyðsla er ástæða þess að varanleg förðun er kölluð „förðun framtíðarinnar“.
Ímyndaðu þér að horfa í spegilinn á hverjum degi og sjá fullkomnar augabrúnir, skarpa augnlínu og fallegar varir. Þú værir fersk og örugg með sjálfa þig og ávallt tilbúin að fara hvert sem er. Hægt er að ná öllu þessu fram og meira til með heimsþekktum vörum og tækjabúnaði frá Nouveau Contour. Nouveau Contour er eitt þekktasta og mest leiðandi fyrirtækið í heiminum í dag á þessu sviði og er ég mjög stolt af því að geta boðið upp á meðferðir og vörur því tengdu.
Varanleg förðun felur í sér ísetningu lita á augnlínu, augabrúnir og varir, og endist í u.þ.b. 1-3 ár. Litirnir frá Nouveau Contour eru 100% náttúrulegir. Þeir innihalda járnoxíð sem gerir það að verkum að mjög ólíklegt er að þeir valdi ofnæmi.
Margar konur eru með gisnar augnabrúnir og ljósa augna­umgjörð, og eru þreyttar á því að þurfa mjög ört að lita augnhár og augabrúnir. Aðrar konur hafa lítinn tíma til að mála sig, og svo eru enn aðrar sem hafa þurft að undirgangast lyfjameðferð vegna ýmissa heilsufarskvilla og hafa þess vegna misst augabrúnir og augnhár, og er varanleg förðun því frábær kostur. Ávinningurinn af varanlegri förðun er náttúrulegt, svipmeira útlit sem undirstrikar fegurð þína.
Allar nánari upplýsingar má nálgast á www.likamiogsal.is

Fanney Dögg Ólafsdóttir
master í varanlegri förðun frá Nouveau Contour

Traustur vinur getur gert kraftaverk

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Vinátta er ekki sjálfgefin en er okkur öllum mikilvæg. Hún getur verið með ýmsu móti en þegar við ræktum vinasambönd líður okkur vel innra með okkur auk þess sem við sköpum góðar minningar sem við búum að til framtíðar. Því skulum við hlúa að og rækta sambönd við góða vini.

Styrkur og hamingja
Við manneskjurnar erum í raun háðar hver annarri á svo margan hátt. Við erum í sífelldri leit að styrk og hamingju sem kemur vissulega innan frá en það eitt að eiga góða og sanna vináttu annarrar manneskju er mikil gæfa, gæfa sem gerir okkur hæfari í að verða besta útgáfan af sjálfum okkur. Gæfa sem hjálpar okkur að öðlast þá vissu að við séum elskuð með öllum okkar kostum og göllum, VIÐ séum nóg.

Góð samskipti
Uppbyggileg samskipti eru grundvöllur að góðri vináttu og í því tilliti þurfum við að tileinka okkur nokkur grundvallaratriði eins og umburðarlyndi, því ekkert okkar er eins og því ríður á að viðurkenna og skilja mikilvægi fjölbreytileikans og koma fram við alla af virðingu.
Við þurfum að taka tillit til annarra, virða og sýna mismunandi skoðunum og hátterni skilning auk þess að sýna samkennd og áhuga. Allt þetta krefst hugrekkis og þess að við gefum af okkur en slíkt gerir okkur að góðum vinum.

Jákvætt viðhorf
Viðhorf okkar geta skipt sköpum varðandi sanna vináttu, styrk og hamingju og því ættum við að temja okkur glaðværð, kærleika, hlýju og bjartsýni. Lærum að meta líðandi stund, verum meðvituð um að skapa góðar minningar fyrir okkur sjálf og þá sem eru í kringjum okkur og hugsum jákvætt, það er léttara.

„Ég get aðeins hvatt ykkur til að setja vináttuna ofar öllu öðru hér í heimi því ekkert er í jafn miklu samræmi við innsta eðli mannsins. Það er ekkert sem hefur meira gildi, hvort heldur vel gengur eða á móti blæs.“ (heimspekingurinn Cicero, 106-43 f.Kr.).

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Mosfellingar velji sér prest

kirkjugreinNú í byrjun árs liggur fyrir að auglýst verði staða prests við Mosfellsprestakall. Samkvæmt starfsreglum um val og veitingu prestsembætta velur valnefnd prest nema óskað sé eftir almennri kosningu í prestakallinu.
Það vill brenna við að þeir umsækjendur sem lengst hafa þjónað sem prestar fái auglýstar stöður, burt séð frá því hversu vel þeir þekkja til sóknarinnar eða hversu kraftmiklir og vel liðnir þeir eru.

Það ætti að skipta íbúa sóknarinnar máli að næsti prestur verði prestur sem flest sóknarbörn þekkja til og treysta og ættu því að fá tækifæri til að velja sér þann prest sjálf. Það er mögulegt með því að safna undirskriftum þriðjungs kosningabærra sóknarbarna um að fram fari almenn prestskosning.

Undirrituð eru þess fullviss að séra Arndís G. Bernhardsdóttir Linn sé vel til þess fallin að verða prestur í Mosfellsprestakalli. Hún hefur starfað við Lágafellsókn á annan áratug við góðan orðstír. Hún hefur verið meðhjálpari og kirkjuvörður í átta ár, stýrt foreldramorgnum, komið að fermingarfræðslu og leyst presta sóknarinnar af eftir að hún sjálf hlaut vígslu til Kvennakirkjunnar árið 2013. Arndís er borinn og barnfæddur Mosfellingur, hún er vel liðin innan sóknarinnar og hefur mætt sóknarbörnum af alúð, einlægni og virðingu alla tíð.

Við hvetjum íbúa í Mosfellsprestakalli til að sameinast um val á presti fyrir okkur sjálf, presti fólksins, óbundin af þeim reglum sem gilda um val á opinberum embættismönnum. Því óskum við eftir að fram fari prestskosningar í prestakallinu og teljum séra Arndísi verðugan þjón kirkjunnar.

Bryndís Haraldsdóttir
Elísabet Jónsdóttir
Hilmar Bergmann
Karl Tómasson
Katrín Sigurðardóttir
Magnús Sigsteinsson
Úlfhildur Geirsdóttir

Um áramót

aramota

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar skrifar nýárskveðju.

Kæru Mosfellingar!
Um áramót er venja að líta yfir farinn veg, rifja upp og meta hvernig liðið ár hefur gengið og ekki síður velta fyrir sér hvað bíður okkar á nýju ári.

Í heildina litið má segja að árið 2015 hafi verið gott ár. Hagsæld hefur aukist, kjör batnað og uppgangur er í þjóðfélaginu um þessar mundir. Í Mosfellsbæ er þetta líka raunin en hér fer fram mikil uppbygging á íbúðahúsnæði, atvinnuhúsnæði, skólum og umferðarmannvirkjum. Kannanir síðustu ára hafa sýnt að íbúar í Mosfellsbæ eru ánægðir. Þar fléttast saman sú þjónusta sem sveitarfélagið er að veita og það góða samfélag sem íbúar þess skapa.

Miklar kjarabætur starfsmanna
Það má segja að árið 2015 hafi verið ár hinna stóru kjarasamninga. Á árinu tókst sögulegt samkomulag flestra stéttarfélaga, Samtaka atvinnulífsins, ríkisvaldsins og sveitarfélaga um ramma launahækkana næstu þrjú árin, sk. SALEK samkomulag. Samkomulagið felur í sér um 30% launahækkun á þessu tímabili sem er sögulega mjög há hækkun sérstaklega í ljósi lágrar verðbólgu. Launakostnaður er langstærsti útgjaldaliður sveitarfélaga og er launakostnaður Mosfellsbæjar að hækka um 17% milli áranna 2015 og 2016. Því miður eru tekjur ekki að hækka samsvarandi og því er rekstur sveitarfélagsins erfiður nú um stundir. Þetta sama á við um önnur sveitarfélög. Það er skoðun sveitarstjórnarmanna að skoða þurfi tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga upp á nýtt. Tillögur þess efnis munu vonandi fá jákvæða niðurstöðu á árinu 2016.

Nýr Helgafellsskóli í undirbúningi
Mikil uppbygging hefur verið í skólamálum á undanförnum árum samfara fjölgun í sveitarfélaginu. Mosfellsbær er vinsælt sveitarfélag og eftirsótt til búsetu, það sannar eftirspurn eftir húsnæði hér í bæ. Við Höfðaberg er á lokastigi uppbygging á skólahúsnæði fyrir rúmlega 200 börn en þar verður kennsla fyrir 5, 6 og 7 ára börn við góðan aðbúnað næstu árin. Vel hefur tekist til með þetta húsnæði sem hefur komið fram í ánægju meðal barna, foreldra og starfsfólks þó að auðvitað hafi framkvæmdir og rask þeim tengdum tekið á. Þetta hefur létt mjög á húsnæðismálum í Lágafellsskóla og má segja að þar sé komið á gott jafnvægi í húsnæðismálum. Undirbúningur á byggingu nýs skóla í Helgafellslandi er komin vel á veg. Þarfagreining er á lokastigi og fyrirhugað er útboð á hönnun á næstu vikum. Ráðgert er að fyrsti áfangi skólans verði tekinn í notkun haustið 2018 sem mun létta á skólasvæði Varmárskóla.

Uppbygging í Helgafelli, Leirvogstungu og í miðbæ
Nú um áramótin höfðu verið gefin út byggingarleyfi fyrir rúmlega 300 íbúðir í Helgafellshverfi en fullbyggt er gert ráð fyrir um 1000 íbúðum þar. Mikill gangur hefur einnig verið í Leirvogstunguhverfinu sem senn mun verða fullbyggt. Í miðbæ er auk þessa að hefjast mikil uppbygging. Mosfellingum fjölgar því þó nokkuð hratt um þessar mundir og styttist í tíu þúsundasta íbúann.

Atvinnuuppbygging í vændum
Eftirspurn eftir atvinnulóðum jókst mikið á síðasta ári. Þannig eru flestar lóðir við Desjamýri seldar en þar eru 10 lóðir þar sem gert er ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi. Nokkrar fyrirspurnir hafa verið um lóðir í Sunnukrika og miðbæ sem vonandi leiðir til atvinnuuppbyggingar þar. Einnig má nefna að tvö stór þróunarverkefni sem tengjast ferðaþjónustu hafa verið í undirbúningi á árinu. Þannig er nú í skipulagsferli uppbygging á víkingabæ við Selholt í Mosfellsdal og svo er í skoðun bygging tíu þúsund fermetra þrívíddar Íslandskorts á Leirvogstungumelum. Hvorutveggja verkefni sem munu draga að sér hundruð þúsunda ferðamanna ef þau verða að veruleika.

Mig langar til að benda á nokkur atriði í fjárhagsáætlun næsta árs sem bæði ungir og aldnir njóta góðs af. Þar er gert ráð fyrir óbreyttum leikskólagjöldum. Auk þess var samþykkt að koma á systkinatengingu á frístundaávísun sem niðurgreiðir enn frekar frístundir hjá barnmörgum fjölskyldum. Einnig var samþykkt að hækka niðurgreiðslur vegna dvalar í sjálfstætt reknum leikskólum og ákveðið var að auka afslátt af fasteignagjöldum til tekjulágra eldri borgara. Þetta eru allt kjarabætur til Mosfellinga sem er ánægjulegt.

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru hvað varðar það sem gerst hefur í Mosfellsbæ á s.l. ári, en of langt mál væri að telja það allt upp. Samstarfið í bæjarstjórninni hefur gengið vel á árinu. Traust og gott meirihlutasamstarf er milli D- og V- lista í bæjarstjórninni. Framtíðin er björt í Mosfellsbæ og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir. Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf, samskipti, vináttu og stuðning á árinu 2015 og megi nýrunnið ár vera okkur gæfuríkt og gleðilegt.

Haraldur Sverrisson
Bæjarstjóri

Bílastæði á Hlaðhömrum

Guðlaugur Hjörleifsson

Guðlaugur Hjörleifsson

Það virðist gæta nokkurs misskilnings um bílastæði hjá sumum bifreiðastjórum sem koma á Hlaðhamra í tengslum við heimsóknir í EIRHAMRA.
Það háttar þannig til í flestum tilfellum, að við úthlutun byggingarlóða er lóðarhafa gert að útbúa bifreiðastæði á sinni lóð. Þannig er gjarnan 1 – 2 bílastæði á lóð einbýlishúsa, enn fleiri við íbúðablokkir o.s.frv. Því er það, að þegar Eirhamrar voru byggðir var gert ráð fyrir bílastæðum meðfram húsinu innan lóðarmarka. Þegar byggingu var lokið voru þessi bílastæði merkt íbúum Eirhamra sem hafa bíla á sínum vegum. Þessir bílar hafa fengið íbúamerki með númeri sinnar íbúðar, sem skal vera sýnilegt í framrúðu bifreiðar.

Nú er það svo að bæjaryfirvöld, og væntanlega FAMOS, hafa ákveðið að félagsstarf eldri borgara skuli að mestu vera í Eirhömrum. Vel getur farið um starfsemina í Eirhömrum, en það sama verður ekki sagt um almenn bílastæði í götunni. Því er það, að þegar margir koma í félagsstarf á bílum, er lagt í merkt íbúastæði sem eru „laus“ þá stundina. Þe­g­­ar íbúi kemur aftur heim er eins víst að öll íbúastæði sem voru „laus“ hafi verið tekin fyrir aðkomubíla.

Það virðist eins og aðkomumenn geri sér ekki grein fyrir því að þótt almenn stæði norðan við Hlaðhamra séu öll upptekin, þá eru einnig almenn bílastæði austan við Eirhamra, auk þess að mörg almenn bílastæði eru norðan við leikskólann Hlaðhamra.

Að leggja í merkt bílastæði verður að teljast í besta falli ókurteisi, svo ekki sé kveðið sterkar að orði. Það er eins og aðkomumenn geri sér ekki grein fyrir því að þótt íbúar séu ekki komnir að fótum fram, þá eru þeir oftar en ekki að bera með sér vörur eftir innkaupaferðir og eiga ekki auðvelt með að bera t.d. vörur langar leiðir.

Aðkomubílstjórar ættu að sjá sóma sinn í því að virða íbúastæðin sem eru á lóð Eirhamra, meðfram gangstígunum.

Guðlaugur Hjörleifsson, íbúi í Eirhömrum.

Greinin birtist í Mosfellingi 17. desember 2015

Förum varlega um hátíðarnar

Valdimar Leó Friðriksson

Valdimar Leó Friðriksson

Nú þegar hátíð ljóssins er gengin í garð er nauðsynlegt að fara varlega með kertaljós og skreytingar. Óaðgætni við matseld er mjög algeng orsök elds, auk þess ýmiss konar rafmagnstæki. Bitur reynsla margra sýnir að ekki er skynsamlegt að hafa þvottavélar, þurrkara og uppþvottavélar í gangi ef enginn er heima til að bregðast við, ef eldur kemur upp.

Spjaldtölvur og tæki sem algeng eru í svefnherbergjum á ekki að hafa í sambandi nema í öruggu, tregbrennanlegu umhverfi. Til dæmis alls ekki uppi í rúmi eins og dæmi eru um að gert hafi verið með afar slæmum afleiðingum.
Eldsvoði á heimili er skelfileg lífsreynsla sem enginn vill upplifa. Gerum því það sem í okkar valdi stendur til að draga úr hættu á að eldur komi upp og tryggjum að á heimilinu sé réttur búnaður. Nauðsynlegt er að hafa tvo eða fleiri reykskynjara, eldvarna­teppi og handslökkvitæki.
Og munum að fyrstu viðbrögð við eldsvoða eru alltaf að koma öllum heilum út og gera slökkviliði viðvart í gegnum neyðarnúmerið 112.

Gleðilega hátíð.

Valdimar Leó Friðriksson framkvæmdastjóri
Landssambands Slökkviliðs- og Sjúkraflutningamanna

Greinin birtist í Mosfellingi 17. desember 2015

Pistill frá formanni félags aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni

Harald S. Holsvik

Harald S. Holsvik

Kæru FaMos-félagar og aðrir Mosfellingar, nú líður senn að jólum og við leitumst við að undirbúa hátíðirnar hvert og eitt á okkar venjubundna hátt en eftir því sem aðstæður leyfa. Í huga okkar flestra eru jólin allra helgasta hátíð ársins. Við hlökkum til jólanna og þess boðskapar sem fylgir. Við viljum finna hið góða innra með okkur og leitum að kærleika, friði og ró.

Félagsstarfið á vegum FaMos hefur að mínu áliti verið blómlegt og framar björtustu vonum. Ég vil með þessum fátæklegu orðum mínum þakka innilega þau óeigingjörnu störf sem setja svip sinn á félagsstarfið. Við erum rík og skortir ekki velvilja þeirra ágætu félaga okkar sem leggja sig alla fram við að stjórna og stýra ýmsum vinnunefndum og hópum á vegum félagsins sem gefa félaginu okkar svo ríkulegt gildi. Samskipti og samvera ásamt baráttu gegn einsemd eru þau einkunnarorð og málefni sem styðja þarf við, þegar starfslok eru að nálgast og orðin staðreynd.

Félagafjöldinn um síðustu áramót var um 400. En samkvæmt bestu vitund gætu allt að 1200-1300 menn og konur í Mosfellsbæ og nágrenni, átt aðild. Eftir áramótin má búast við tölvunámskeiðum til viðbótar, ef næg þátttaka fæst, svo dæmi sé tekið.
Inngönguskilyrði eru aðeins þau að vera 60 ára að aldri og eldri. Árgjald til félagsins er aðeins 2.500 kr. Kennitala félagsins er: 471102-2450 og Arion banki nr. 0315 -13-700127.
Tímabilið frá 60 ára til 65 ára, þegar sumir fá í hendur starfslokasamning, er fljótt að líða og einnig næstu tvö árin að 67 ára mörkunum, þegar enn fleiri axla pokann sinn og hverfa frá sínum fyrri störfum. Ef fólk vinnur hjá hinu opinbera eða sveitarfélögum, þá rennur lokastundin því miður upp við 70 ára aldursmörkin.

Að síðustu langar mig að geta þess að Öldungaráð Mosfellsbæjar hefur tekið til starfa og vonir eru bundnar við að það taki á málefnum aldraðra. Það er verulegur skortur á hjúkrunarrýmum í sveitarfélaginu og áætlun um þau málefni liggur ekki fyrir. Það eru okkur mikil vonbrigði að vita til þess að Framkvæmdasjóður aldraðra sem landsmenn greiða í er nú nýttur til að greiða niður rekstrarskuldir hjúkrunarheimila í stað þess að byggja ný.
Mig hefur lengi dreymt um að í framtíðinni getum við gert svipað og til sjós. Við þurfum að skipta þeim afla réttlátlega sem í bátinn er kominn. Hvers vegna þurfa þessar hámenntuðu stéttir að miða laun sín við samninga og greiðslur sem milljónaþjóðir geta greitt? Hvers vegna má ekki finna réttlát hlutföll um laun og réttlát hlutföll úr ríkissjóði gagnvart fjárfestingaráformum. Hvernig þjóðfélag viljum við?

Það leita á mann svona spurningar sem erfitt virðist að svara. En nú eru að koma jól. Hugsum um frið og kyrrð í tilefni jólanna.

Ég veit ekki hvort þú hefur,
huga þinn við það fest,
að fegursta gjöf sem þú gefur,
er gjöfin sem ekki sést.

Ástúð í andartaki,
augað sem glaðlega hlær,
hlýja í handartaki,
hjarta sem örara slær.

Úlfur Ragnarsson

Gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár.
Harald S. Holsvik

Greinin birtist í Mosfellingi 17. desember 2015

Litið yfir árið…

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Árið 2015 var sérstaklega tileinkað hreyfingu og útivist í bænum. Meðal helstu markmiða okkar var að auka áhuga og aðgengi að hreyfingu og auka nýtingu útivistarsvæða í Mosfellsbæ.

Heilsudagurinn 2015
Heilsudagurinn var haldinn í maí sl. þar sem var m.a. blásið til glæsilegs málþings í Framhaldsskólanum. Birgir Jakobsson, landlæknir, flutti ávarp og setti þingið, við heyrðum af mörgum flottum verkefnum í skólum bæjarins, fengum fróðlegt erindi um hreyfiseðilinn og síðan setti Magnús Scheving punktinn yfir i-ið og hreif alla viðstadda svo sannarlega með sér.

Heilsuefling í skólasamfélaginu
Skólarnir hafa verið duglegir að hvetja börn, foreldra og starfsfólk til þátttöku í þeim landsverkefnum sem eru í gangi hverju sinni og var upphafshátíð „Göngum í skólann“ einmitt í Lágafellsskóla sl. haust. Í ágúst var svo formlega stofnaður „Heilsueflandi skólahópur“ með aðkomu Skólaskrifstofunnar, Heilsuvinjar og fulltrúa allra skólastiga. Tilgangur þessa hóps er að stuðla að enn frekari heilsueflingu í skólasamfélaginu í gegnum samvinnu og upplýsingagjöf þvert á skóla og skólastig.

„Hreyfum okkur saman“
Í vor stóðu þekktir Mosfellingar fyrir spennandi viðburðum á útivistarsvæðum í bæjarfélaginu. Þar var m.a. hjólað, gengið og farið í Frisbígolf en tilgangurinn var sá að kynna útvistarsvæði bæjarins og hvaða möguleikum þau búa yfir.
Af sama meiði spratt upp verkefni sem snýst um að útbúa stutt kynningarmyndbönd nokkurra útivistarsvæða. Verkefnið er unnið í samvinnu við nemendur í Framhaldsskólanum sem virkja nemendur annarra skólastiga með sér í vinnunni á ýmsan hátt. Afrakstur þessa skemmtilega verkefnis mun líta dagsins ljós von bráðar.

Hreyfivikan „Move Week“
Við tókum að sjálfsögðu þátt í þessu verkefni eins og í fyrra og það er skemmst frá því að segja að dagskráin var stórglæsileg, mun fleiri stóðu fyrir viðburðum og þátttakan hefur aldrei verið betri. Við stefnum að sjálfsögðu enn hærra að ári.

Umhverfisvænir innkaupapokar
Í haust var fjölnota innkaupapokum dreift á hvert heimili í bænum sem gjöf frá Mosfellsbæ og Heilsuvin. Notkun hans á m.a. að stuðla að minni notkun plasts og hafa þar með jákvæð áhrif á náttúruna og heilsu manna og dýra.

Næstu verkefni
Það er ýmislegt spennandi fram undan. Fyrst skal nefna verkefnið „Væntumþykja í verki“ sem tekið verður upp á dvalarheimilinu og hvetur fjölskyldu og vini til að gera æfingar með eldri ástvinum sínum. Einnig mun vinna að ratleik í Mosfellsbæ halda áfram í samvinnu við Ferðafélag Íslands auk þess sem farið verður í samstarf við Einar Skúlason í tengslum við gönguleiða-appið „WAPP“.

Það er ljóst að það er heilmikið um að vera í heilsubænum Mosfellsbæ en án ykkar væri þetta verkefni ekki komið á þann stað sem það er í dag. Við þökkum ykkur fyrir frábært samstarf og velvilja á árinu og sendum ykkur hlýjar hátíðakveðjur með ósk um heilbrigði og gleði á nýju ári.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Greinin birtist í Mosfellingi 17. desember 2015

Margt er í boði Mosfellsbæ

Kolbrún Þorsteinsdóttir

Kolbrún Þorsteinsdóttir

Fátt er mikilvægara en að búa við góða heilsu og öryggi þegar efri árin færast yfir. Eldra fólk á að hafa tækifæri til þátttöku í samfélaginu í samræmi við óskir, þarfir og getu. Auðvelda á eldra fólki að ástunda heilbrigða lífshætti og hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu. Hægt er að koma í veg fyrir félagslega einangrun sem getur svo leitt til andlegrar og líkamlegrar hrörnunar. En hvað er í boði í okkar bæ?

Þjónustan í Eirhömrum
Þjónustuklasi fyrir eldri borgara er í Eirhömrum við Hlaðhamra 2. Á Eirhömrum eru 53 öryggisíbúðir sem Eir hjúkrunarheimili rekur og nýuppgerð þjónustumiðstöð sem hýsir félagsstarf, mötuneyti, hárgreiðslustofu, auk þess sem fóta­aðgerðafræðingur er þar til húsa og Félag aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni.
Hjúkrunarheimilið Hamrar tók til starfa í október árið 2013 og þar búa 30 einstaklingar. Í húsinu er einnig dagdvöl, hlutverk hennar er að bjóða einstaklingum sem þurfa eftirlit og umsjá félagslegan stuðning, tómstundaiðju og aðstoð við athafnir dagslegs lífs.

Heimaþjónusta
Markmið heimaþjónustu er að efla fólk til sjálfsbjargar og gera því kleift að búa í heimahúsi sem lengst. Þjónustan er veitt þeim sem þarfnast hennar vegna skertrar færni, fjölskylduaðstæðna, veikinda eða fötlunar. Starfsmaður fjölskyldusviðs heimsækir umsækjanda og metur þörf fyrir þjónustu. Starfsmenn Eirhamra veita þjónustuna og miðast hún við heimilishald, s.s. þrif á gólfum, baðherbergi, skipti á rúmum og fleira. Hægt er að sækja um heimahjúkrun hjá heilsugæslu Mosfellsumdæmis sem veitir m.a. aðstoð við böðun og lyfjagjöf. Þeir sem ekki geta annast matseld sjálfir geta fengið heimsendan mat frá Eirhömrum.

Önnur þjónusta
Akstursþjónusta er ætluð 67 ára og eldri sem búa í heimahúsi, hafa ekki aðgang að eigin farartæki og eru ófærir um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar. Strætó b.s sér um aksturinn. Þjónustutími akstursþjónustunnar miðast við þjónustutíma almenningsvagna Strætó b.s. Hægt er að panta ferð með tveggja tíma fyrirvara. Ef ferð á að hefjast fyrir klukkan 9:30 að morgni þarf pöntun að hafa borist fyrir kl. 20:30 kvöldið áður.
Heimsóknarþjónusta frá Rauða krossinum og Lágafellskirkju. Hlutverk heimsóknarvinar er fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju. Einsemd er alvarlegt vandamál í íslensku samfélagi. Aðstæður fólks geta orðið til þess að það missir samband við aðra og einangrast. Heimsóknavinir leitast við að rjúfa slíka einangrun.

Félagsstarf eldri borgara – góður félagsskapur og holl hreyfing
Félag aldraðra í Mosfellsbæ og nágrenni, FaMos, er fyrir alla 60 ára og eldri. Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna eldri borgara ásamt því að sinna tómstunda-, fræðslu-, og menningarmálum. Einnig er unnið að því að skapa öldruðum félagslegt og efnahagslegt öryggi. Frítt er í leikfimi fyrir eldri borgara á Eirhömrum. Frekari upplýsingar veitir Elva Björg Pálsdóttir, forstöðumaður félagsstarfs aldraðra á Eirhömrum. FaMos stendur einnig fyrir fjölbreyttu íþróttastarfi eins og t.d. sundleikfimi í Lágafellslaug og Boccia í íþróttahúsinu að Varmá.

Hvar er sótt um þjónustuna?
Allar upplýsingar eru veittar í þjónustuveri Mosfellsbæjar í síma 5256700. Einnig er hægt að sækja um heimaþjónustu í gegnum íbúagátt á vefnum mos.is. Ráðgjöf við eldra fólk og aðstandendur þeirra veita Vibeke Þ. Þorbjörnsdóttir, deildarstjóri búsetu- og þjónustudeildar og Kristbjörg Hjaltadóttir ráðgjafarþroskaþjálfi.

Að horfa fram veginn
Mikilvægt er að fólk sitji ekki með hendur í skauti þegar það hættir atvinnuþátttöku. Með léttri lund og hollum lífsstíl er sennilegt að við getum aukið lífsorku okkar eða haldið henni við lengur en ella. Þess vegna er aldrei of seint að horfa fram á veginn, hversu gömul sem við erum. Þar sem við sníðum okkur stakk eftir vexti með jákvæðu hugarfari.

Fyrir hönd Öldungaráðs Mosfellsbæjar,
Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Greinin birtist í Mosfellingi 3. desember 2015

Setjum markið hátt!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Eflaust kannast eflaust einhver ykkar við hann Siglufjarðar-Geira sem Jónas Árnason orti um hér um árið. Hann lenti í ýmsu eins og gerist en lét ekkert buga sig og viðhafði alltaf þau orð að lífið væri lotterí og hann tæki þátt í því.
Þessi orð minna okkur á að við erum okkar gæfu smiðir og viðhorf okkar til hlutanna skiptir máli og þó við berum vissulega ábyrgð á sjálfum okkur þá hefur umhverfi okkar og það samfélag sem við lifum í mikil áhrif á þær ákvarðanir sem við tökum í lífinu. Það er nákvæmlega af þessari ástæðu sem Mosfellsbær tók þá ákvörðun árið 2012 að verða Heilsueflandi samfélag.

Þúsund þakkir
Við viljum endilega nota tækifærið til að þakka öllum þeim fjölmörgu sem lögðu sitt af mörkum til okkar glæsilegu Hreyfiviku (e. Move Week) í september sl. Í ár voru fjölmargir skemmtilegir viðburðir í boði og þátttakan alveg til fyrirmyndar. Einnig viljum við þakka sérstaklega Ferðafélagi Íslands, Fjallakofanum, Eldingu, Reykjabúinu, Kettlebells Iceland og Mosfellsbæ fyrir glæsilega vinninga í Fellaverkefninu okkar sem er svo sannarlega komið til að vera.

„Setjum markið hátt” – viðburður í kvöld
Landsmenn allir hafa fylgst með afrekum Vilborgar Örnu Gissurardóttur pólfara. Hún hefur gengið yfir Grænlandsjökul, farið í siglingarleiðangra og gengið einsömul á Suðurpólinn. Kjörorð Vilborgar er: „Ef þú þráir eitthvað nógu heitt þá finnurðu leiðina, annars finnurðu bara afsökunina“. Í kvöld gefst öllum kostur á því að mæta í Framhaldsskólann í Mosfellsbæ og hlusta á Vilborgu segja okkur frá því hvað drífi hana áfram í að eltast við drauma sína og hvað þurfi til þess að ná árangri.

Aðalfundur heilsuklasans Heilsuvinjar verður einnig á dagskrá þar sem fram fara hefðbundin aðalfundarstörf ásamt umræðum um forystuverkefni klasans í tengslum við Heilsueflandi samfélag. Viðburðurinn hefst kl. 20:00, aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir!

Hvert stefnum við?
Verkefnið Heilsueflandi samfélag er stórt og viðamikið og margt sem þarf að gera. Það er ekki átaksverkefni heldur er horft á allar hliðar heilsu, þ.e. líkamlega, andlega og félagslega heilsu og vellíðan, með það fyrir augum að stuðla að jákvæðu viðhorfi og nýjum venjum til framtíðar. Til þess að slíkt sé hægt þurfa allir að leggjast á eitt, bæði við íbúarnir og bæjarfélagið sjálft. Ef við rýnum til gagns og vinnum þétt saman með hagsmuni og bætt lífsgæði heildarinnar að leiðarljósi þá eru okkur allir vegir færir.

Við hvetjum ykkur sem fyrr til að taka þátt í þessu frábæra verkefni og setja markið hátt!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ.

Greinin birtist í Mosfellingi 12. nóvember 2015

Hvað viltu?

Vala Mörk

Vala Mörk

Að taka ákvörðun um að byrja á verki og takast á við það er skemmtilegt. Að ljúka verkefni vel fylgir mikil vellíðan. Það skiptir ekki öllu hvort verkefnið hafi verið stórt eða lítið.
Allt frá því að negla upp myndina sem er búin að liggja á gluggakistunni síðustu fjórar vikur eða brjóta saman þvottahrúguna sem hylur sófann. Það getur líka verið stórt verkefni eins og að mála húsið eða klára viðbygginguna sem virtist ætla að verða endalaus. Svona verk krefjast sýnilegrar orku og við sjáum árangurinn skýrt.
Góða tilfinningin sem fylgir því að virða fyrir sér útkomuna, leyfa sér að njóta tilfinningarinnar og hrósa sjálfum sér fyrir vel unnið verk. Jafnvel þótt það sé bara myndin sem komst loks upp á vegg.
Huglægu verkefnin eru snúnari. Þau eru ekki eins sýnileg. Allar ákvarðanir sem við tökum ættu að vera tengdar vitundinni um hvert við viljum stefna. Þegar við gleymum (eða frestum því) að hugsa um hvað við viljum og hvað okkur langar í lífinu, verður erfitt að taka stórar ákvarðanir og enn erfiðara að taka réttar ákvarðanir fyrir okkur sjálf.
Ef við vitum ekki hvað við viljum erum við líklegri til að fresta því að taka ákvarðanir hvort sem þær tengjast vinnunni, flutningum, bílnum, börnunum, hreyfingunni og bara því sem hvílir á huganum.
Ákvarðanirnar ættu að vera í takti við hvað við viljum og hjálpa okkur þá að stefna að því. Láta drauma rætast. Með því að gefa okkur tíma til að skoða langanir okkar og skoða möguleikana sem við höfum eða getum búið til, erum við að taka ákvörðun um að fresta ekki draumnum okkar heldur láta hann rætast.
Gefðu þér tíma og hugsaðu eitt ár fram í tímann. Hér eru tvö verkefni: Skrifaðu niður stóran draum og gerðu eitthvað í dag til þess að færa þig nær honum.
Vala Mörk, iðjuþjálfi.

Heilsuhornið
Mosfellingur 22. október 2015

Það þarf heilan bæ til að búa til fótboltabörn

Guðbjörg Fanndal

Guðbjörg Fanndal

Af barna- og unglingastarfi knattspyrnudeildar Aftureldingar

Íslenska fótboltaævintýrið er í algleymingi og nær hámarki þegar flautað verður til leiks á EM í Frakklandi næsta sumar. Á sama tíma geta Mosfellingar glaðst yfir farsælu barna- og unglingastarfi Knattspyrnudeildar þar sem iðkendum hefur fjölgað um þriðjung og hlutfall stúlkna aukist.
Mikið hefur verið fjallað um árangur íslenska landsliðsins og á hverju hann byggi. Nefnt hefur verið að undirstaðan liggi í góðu barna- og unglingastarfi. Bætt aðstaða með tilkomu gervigrasvalla og knattspyrnuhalla er einnig talin hafa skipt sköpum. Framlag þjálfara, foreldra og velunnara sem hafa lagt á sig mikið og óeigingjarnt starf er ómetanlegt. Þjálfarar hafa lagt metnað sinn í að sækja menntun og eru meðvitaðir um mikilvægi sitt sem leiðbeinendur og fyrirmyndir. Þátttaka foreldra hefur aukist jafnt og þétt og sjálfboðaliðar sjá um að móta umgjörð sem allt starfið byggir á. Allt eru þetta mikilvægir þættir og án þeirra rúllaði boltinn tæplega.

Við höfum átt því láni að fagna að búa yfir góðum þjálfarahópi. Lögð hefur verið áhersla á að gefa ungum þjálfurum tækifæri og hafa þeir þroskast og eflst með hverju viðfangsefni. Foreldrar hafa stutt vel við starfið eins og Liverpoolskólinn og Intersportmótið sanna. Hvorutveggja eru stórir viðburðir sem vekja athygli og laða að æ fleiri gesti. Því ber að fagna en nú er svo komið að umfang þeirra er orðið slíkt að nauðsynlegt er að staldra við og huga að framtíð þeirra.
Það er staðreynd að vinnan við þessa stóru viðburði sem og öll umsjón með barna- og unglingastarfinu hefur hvílt á of fáum herðum. Sömu aðilarnir draga vagninn of

Sigurður Rúnar Magnússon

Sigurður Rúnar Magnússon

lengi og þreytast. Slíkt endar með að þeir stíga til hliðar og nýir aðilar taka við stjórninni. Þannig er hætt við að reynsla og þekking tapist og mikil vinna felst í því að geta ekki fylgt í fótspor forvera sinna.
Við undirrituð höfum setið saman í stjórn barna- og unglingaráðs frá því í mars 2013 og erum stolt af framlagi okkar til starfsins en meðvituð um að margt er ógert og annað má betur fara. Mikilvægt er í starfi sem þessu að fá sem flesta að verki til að dreifa álagi og byggja upp þekkingu og reynslu. Það er einlæg ósk okkar að fleiri taki virkan þátt í starfinu til að þekking og reynsla glatist síður og vinna við frekari uppbyggingu dreifist á fleiri hendur.
Aðstaða til knattspyrnuiðkunar í Mosfellsbæ gæti verið betri. Aðeins allra yngstu iðkendur fá innitíma á veturna en aðrir verða að æfa úti óháð veðri. Úthlutun á innitímum er mikil vonbrigði þar sem stærsta deild félagsins fær ekki úthlutað tímum í samræmi við umfang og eðli starfsins. Það hefur komið niður á starfinu hjá yngri flokkunum og miðstigi hjá stúlkum.
Núverandi aðstaða er of lítil og viðhald er í lágmarki. Iðkendur eru orðnir rúmlega 400 og gera má ráð fyrir að þeim fjölgi um a.m.k. 100 á næstu tveimur árum. Núverandi aðstaða á Varmá rúmar ekki þann fjölda og stækkun er óhjákvæmileg. Gervigrasvellirnir eru börn síns tíma og brýnt að fá þá endurnýjaða. Nýtanlegur hluti Tungubakka minnkar á hverju ári vegna viðhaldsleysis og þeim fækkar sem vilja nota grasið í núverandi ásigkomulagi. Þannig er mikilvægt að huga að uppbyggingu og endurnýjun æfingasvæða deildarinnar ásamt endurbótum í vallarhúsum.

Knattspyrnudeildin er stærsta deild Aftureldingar með um þriðjung af barna- og unglingastarfi félagsins. Okkur þykir framlag félagsins til starfsins ekki nægilegt. Yfirumsjón, samhæfing og stuðningur mætti vera meiri. Öll vinna við skráningar og innheimtu æfingagjalda hvílir á deildum og sjálfboðaliðum þeirra en ekki á skrifstofu félagsins. Engin íþróttafulltrúi er starfandi hjá félaginu sem hefur í för með sér að verkefni sem þeir sinna alla jafna lenda hjá deildunum

Við höfum hér rakið helstu atriði er lúta að barna- og unglingastarfi Knattspyrnudeildar. Margt hefur áunnist og er það vel en viðfangsefnin eru mörg og aðkallandi. Það er okkar sannfæring að við getum leyst þau í sameiningu enda þarf heilan bæ til að búa til fótboltabörn. Takist okkur það er framtíð knattspyrnunnar í Mosfellsbæ björt.

Guðbjörg Fanndal Torfadóttir er móðir tveggja barna sem stunda íþróttir hjá Aftureldingu. Hún hefur setið í stjórn barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar frá 2012 og verið formaður ráðsins frá 2013.
Sigurður Rúnar Magnússon er faðir tveggja barna sem stunda íþróttir hjá Aftureldingu. Hann hefur setið í stjórn barna- og unglingaráðs knattspyrnudeildar sem gjaldkeri frá 2013. Hann er einnig gjaldkeri karatedeildar frá 2014.

Greinin birtist í Mosfellingi 22. október 2015

Gervigrasvöllurinn að Varmá veturinn 2015 – 2016

Sigurður Guðmundsson

Sigurður Guðmundsson

Nú þegar vetraræfingar á gervigrasvellinum eru farnar af stað á fullum krafti er rétt að benda á nokkur atriði sem koma til umræðu á hverjum vetri. Völlurinn er keyrður með hámarks kyndingu yfir vetrartímann eða með eins háu hitastigi og völlurinn þolir, hitakerfið undir vellinum ræður með því móti við að hita völlinn og bræða snjó að ákveðnu marki. Við viss skilyrði er mögulegt að skafa snjó af vellinum sem hitalagnirnar ráða ekki við og er það gert um leið og aðstæður og veður leyfir. Komi sú staða upp, stefnum við að ljúka því áður en æfingar hefjast um miðjan daginn. Þessar aðstæður skapast stundum þegar snjóar mjög mikið og hitastig er rétt ofan við frostmark.
Völlurinn er ekki mokaður þegar skafrenningur er og holklaki myndast í miklu frosti. Þá er besta leiðin að æfa á vellinum og troða þannig niður frosnu skánina/klakann, þá molnar/brotnar hann niður og hitalagnir vallarins bræða hann.
Ekki verður hjá því komist að æfingar og leikir munu falla niður einhverja daga í vetur vegna veðurs, jafnt hér eins og á öðrum gervigrasvöllum. Munum við reyna okkar besta til að halda vellinum opnum eins og aðstæður leyfa.

Síðasta vetur kom á daginn að völlurinn að Varmá var mun oftar æfinga- og leikfær en vellirnir sem næstir okkur eru í Grafarvogi og Grafarholti.

Hanna Símonardóttir

Hanna Símonardóttir

Fundað hefur verið með yfirþjálfara knattspyrnudeildar til að undirbúa þjálfara undir að hafa hjá sér plan B ef æfingar falla niður á vellinum í vetur, vegna snjóa eða veðurs, svo hægt sé að taka á móti iðkendum á æfingatímum og finna þeim verkefni. Við vonum að sjálfsögðu að þeir dagar verði færri en nokkru sinni fyrr.

Með fótboltakveðju,
Sigurður Guðmundsson, íþróttafulltrúi.
Hanna Símonardóttir, vallarstjóri.

Greinin birtist í Mosfellingi 22. október 2015