Bætt lífskjör almennings og kosningar

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Það er óhætt að segja að okkur vegni vel hér á landi þegar litið er til efnahags og lífskjara almennings.
Skuldastaða íslenska ríkisins hefur batnað hratt og hefur ekki verið lægri frá hruni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að skuldirnar lækki enn meira enda er það besta leiðin til að geta ráðstafað auknu fé í velferðarmála, heilbrigðismál og samgöngumál.
Atvinnuleysi er hér mjög lágt og verðbólgan hefur haldist lág þrátt fyrir mikinn hagvöxt síðustu ára. Eða eins og seðlabankastjóri sagði í sumar „líklega hefur staða efnahagsmála aldrei verið betri í Íslandssögunni“. En þrátt fyrir það horfum við fram á enn aðrar kosningarnar. Ótrúlegt að okkur gangi ekki að halda meiri stjórnmálalegum stöðuleika, sérstaklega þegar horft er til þess sögulega árangurs sem náðst hefur í efnahagsmálum.
Auðvitað er það þannig að góð staða efnahagsmála þýðir ekki endilega aukna hamingju og lífsgæði almennings. En staðan hér er nú samt þannig að við erum með hamingjusömustu þjóðum og hér er jöfnuður hvað mestur.
Við Sjálfstæðismenn göngum keikir til kosninga og leggjum á borðið fyrir kjósendur grunnstefnu flokksins. Frelsi til orðs og athafna, allir eiga að hafa tækifæri til að láta drauma sína rætast.
Allir eiga að hafa jöfn tækifæri til menntunar og jafnan aðgang að heilbrigðiskerfinu. Við treystum best hinum vinnandi manni fyrir tekjum sínum og stefnum ávallt að því að halda skattaálögum í lágmarki.
Þrátt fyrir að mikið sé lagt á kjósendur að ganga til kosninga nú þegar aðeins er liðið ár frá síðustu alþingiskosningum vil ég þó leggja áherslu á að almenningur missi ekki trúna á stjórnmálunum.
Lýðræðið er ekki fullkomið en þó besti kosturinn. Kosningar eru hluti af lýðræðinu og því er það ekki bara æskilegt heldur skylda almennings að taka sér tíma til að kynna sér málefni framboðanna, mynda sér afstöðu og mæta á kjörstað 28. október næstkomandi.
Fyrir ári síðan gaf ég kost á mér til þingsetu og stóð í þeirri meiningu að það gerði ég til næstu fjögurra ára. Ég átti ekki von á kosningum ári seinna en það er staðan í dag. Ég er tilbúin að halda áfram að vinna með Sjálfstæðisflokknum að því að tryggja hér áframhaldandi lífsgæði almennings og mun því aftur bjóða fram krafta mína í komandi kosningum.

Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins