Hefur þú tíma aflögu?

Ásgerður Inga Stefánsdóttir

Ásgerður Inga Stefánsdóttir

Vilt þú taka þátt í skemmtilegu sjálfboðastarfi á vegum Rauða krossins?
Hér í Mosfellsbæ er starfrækt ein af 42 deildum Rauða krossins á Íslandi. Við sinnum mörgum verkefnum í nærsamfélaginu og hefur deildin virkan hóp sjálfboðaliða sem koma að ýmsu hjálparstarfi. Allir ættu að finna eitthvað sem vekur áhuga þar sem verkefnin eru bæði fjölbreytt og gefandi. Í starfi okkar er bæði að finna fasta liði sem og verkefni sem unnin eru eftir þörfum.

Heimanámsaðstoðin verður áfram á bókasafni Mosfellsbæjar á þriðjudögum milli klukkan 14 og 16 í vetur en þar gefst börnum í 1.-10. bekk tækifæri á að fá aðstoð með heimanám. Þar eru allir velkomnir og sér í lagi þeir sem eiga við námsörðugleika að stríða, hafa íslensku sem annað tungumál eða vilja félagsskap við heimalærdóminn.
Á miðvikudögum klukkan 13-16 hittast sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag þar sem prjónuð eru, hekluð og saumuð föt fyrir hjálparstarf innan- og utanlands. Útbúnir eru fatapakkar fyrir 0-12 ára börn í Hvíta Rússlandi. Þar eru kaldir og langir vetur og mikil þörf fyrir hlýjan og góðan fatnað. Í Þverholti er heitt á könnunni og góður félagsskapur.
Viltu skipta, barnafataskiptimarkaður fyrir 12 ára og yngri, er opinn í Rauðakrosshúsinu á miðvikudögum milli 13-16. Markaðurinn er ávallt opinn meðan starfsemi er í húsinu. Þarna gefst foreldrum og forráðamönnum tækifæri á að koma með föt sem eru orðin of lítil og skipta þeim í stærri. Þetta er bæði fjárhagslega hagkvæmt og náttúruvænt.
Heimsóknavinir er félagslegt verkefni þar sem sjálfboðaliðar heimsækja fólk í nærsamfélaginu. Það er vinanna að ákveða hvað felst í heimsóknunum en það getur verið spjall, gönguferðir, ökuferðir, upplestur, handavinna og þannig mætti lengi telja. Helsta hlutverk heimsóknavina er þó fyrst og fremst að veita félagsskap, nærveru og hlýju.
Gönguvinir hittast fyrir utan Rauðakrosshúsið á mánudögum og fimmtudögum klukkan 16:15 og fara í létta gönguferð í góðum félagsskap.

Fjöldahjálparstöðvar eru opnaðar þegar á þarf að halda og sjá sjálfboðaliðar okkar um það ásamt liðsstyrk úr öðrum deildum. Þetta er mikilvægur þáttur í neyðaraðstoð þegar á þarf að halda. Þar er þolendum séð fyrir helstu grunnþörfum eins og mat, fatnaði og umfram allt húsaskjóli. Ýmis þjónusta kemur einnig inn í þessa neyðaraðstoð eins og skyndihjálp, sálrænn stuðningur, sálgæsla, ráðgjöf og upplýsingagjöf.
Rauði kross Íslands heldur fjölmörg námskeið fyrir sjálfboðaliða sína ár hvert og hefur verið boðið upp á ýmis námskeið og fyrirlestra hjá deildinni okkar í Mosfellsbæ, sem dæmi má þar nefna skyndihjálparnámskeið, Börn og umhverfi og sálrænn stuðningur.

Deildin hefur sinnt málefnum hælisleitenda sem staddir eru í Arnarholti og áður einnig í Víðinesi. Þar höfum við reynt að gera dvöl þeirra þægilegri með því að sinna félagslegum þörfum þeirra. Það hefur verið gert með því að bjóða upp á samveru við hin ýmsu tækifæri, halda enskunámskeið og útvega reiðhjól til afnota. Fram undan er svo áframhaldandi þróun á þessu verkefni og alltaf vantar sjálfboðaliða og nýjar hugmyndir.
Ef þú vilt slást í hópinn og láta gott af þér leiða, tökum við hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ vel á móti þér í Þverholti 7 en einnig er hægt að skrá sig á heimasíðu Rauða krossins: www.raudikrossinn.is. Nánari upplýsingar í síma 564 6035.

Ásgerður Inga Stefánsdóttir sjálfboðaliði
Rauða krossins og kennari í Varmárskóla