Neytendur, frjálslyndi og kerfið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

Það hefur löngum legið ljóst fyrir að það er ekki alltaf vinsælt að stokka upp í stöðnuðum kerfum. Ekki vegna þess að almenningur vilji ekki sjá fram á eðlilegar breytingar heldur fer kerfið sjálft og sterkir hagsmunaðilar því tengdir upp á afturlappirnar.
Neytendur hafa ekki verið sjálfsögð breyta hjá hugmyndasmiðum núverandi landbúnaðarkerfis. Árum saman hefur varðstaða verið uppi um óbreytt landbúnaðarkerfi. Samt koma sömu viðfangsefnin endurtekið upp líkt og í sauðfjárrækt. Bændur standa enn og aftur hjálparlausir frammi fyrir því að afurðarstöðvarnar lækka verðin til þeirra og verðlækkun til neytenda er ekki í myndinni. Samt má ekki hrófla við kerfinu né taka raunverulega á vandanum.
Lausnir gömlu flokkana felast í kyrrstöðu um kerfið. Og að venju borga neytendur og skattgreiðendur brúsann. Það sem verra er, lausnirnar gagnast bændum lítið til lengri tíma litið.
Kröfur um umfangsmikil birgðakaup og útflutningsskyldu sem heldur uppi verði til íslenskra neytenda hafa endurtekið verið settar fram af þingmönnnum Framsóknar, VG og Sjálfstæðisflokks í stað þess að ráðast að rót vandans. Það er óskiljanlegt og óverjanlegt fyrir neytendur.
Svipuð staða er uppi þegar litið er til mjólkurframleiðslunnar en hún er undanþegin samkeppnislögum. Eins og búið var að kynna í sumar á vef ráðuneytisins átti að afnema á þessu þingi undanþágu Mjólkursamsölunnar enda þarf að útskýra það sérstaklega af hverju sérlög eigi að gilda um fyrirtækið en ekki almenn lög. Lítil og meðalstór fyrirtæki í mjólkuriðnaði eiga einnig erfitt með að festa sig í sessi í þessu umhverfi með tilheyrandi tjóni fyrir neytendur. Mótspyrnan var hins vegar mikil frá sérhagsmunaaðilum og gömlu flokkunum. Nú eru breyttar aðstæður og kosningar fram undan. Mikilvægt er að frjálslynd sjónarmið eigi sér áfram talsmenn á þingi sem þora, þrátt fyrir mikla tregðu, að hreyfa við úreltum kerfum. Eðlilegar umbætur í takti við nútímann eru nauðsynlegar en þær koma ekki af sjálfu sér, hvað þá að kerfið sjálft hafi frumkvæði að þeim. Því þarf að breyta.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og þingmaður Viðreisnar.