Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen

Ólöf Kristín Sívertsen

Bjartar sumarnætur eru dásamlegar og um að gera að njóta þeirra til fullnustu enda forréttindi að fá að upplifa slíkt.
Margir tengja þennan tíma, þegar sólin er hvað hæst á lofti, við langþráð sumarfrí þar sem við fáum tækifæri til að einbeita okkur að því að njóta og gera það sem okkur finnst skemmtilegast.

Samvera og vellíðan
Lífsmynstur margra breytist á þessum árstíma og flest okkar fá tækifæri til að njóta enn meiri tíma með fjölskyldum okkar og vinum. Njótum þess að vera saman, heimsækja fólkið okkar, tala saman, velta upp hugmyndum, skiptast á skoðunum, gefa af okkur, prófa eitthvað nýtt, spila, leika okkur og hlæja dátt. Gerum alla þessa litlu sjálfsögðu hluti sem eru í raun félagslegur fjársjóður hverrar manneskju.

Njótum náttúrunnar á hreyfingu
Sumarið er ekki hvað síst tíminn til að njóta hinnar dásamlegu fegurðar náttúrunnar og þar hefur heilsubærinn Mosfellsbær svo sannarlega upp á margt að bjóða. Nýtum okkar dásamlegu sundlaugar og hvernig væri síðan að gera gönguáætlun með fjölskyldunni?
Við fjölskyldan erum t.d. búin að ganga á Úlfarsfellið og Mosfell oftar en einu sinni í ár og stefnum á fleiri. Svo eru einnig spennandi göngu- og hjólaleiðir á láglendinu, t.d. meðfram ströndinni, í kringum Álafosskvos, í Reykjalundar­skógi, meðfram Varmánni og svo mætti lengi telja.
Þess utan er líka gaman að nýta þá frábæru aðstöðu sem er t.d. í boði á Stekkjarflöt, í Hamrahlíðarskóginum og Ævintýragarðinum til að bregða á leik og endurvekja barnið í sjálfum sér. Þarna er hægt að ná skemmtilegu markmiði í hverri ferð þar sem náttúran og félagsskapurinn spila að sjálfsögðu stærsta hlutverkið. Hugmyndirnar og möguleikar á útfærslum eru endalausir, hvern langar t.d. ekki í útivistarbingó?

Fjölbreyttur matur – vöndum valið
Munum eftir grænmetinu og ávöxtunum, leggjum upp með hollt nesti, verum dugleg að grilla fisk og gerum í raun hvaðeina sem okkur langar til. Það er enginn alheilagur í þessum efnum en verum samt meðvituð um að gæða hráefni skiptir sköpum og er „gott fyrir kroppinn“ eins og ég segi gjarnan við drengina mína.

Við sem stýrum Heilsueflandi samfélagi þökkum ykkur öllum fyrir frábæra samvinnu í vetur enda er samvinna og jákvætt viðhorf lykill að árangri þegar kemur að uppbyggingu heilsueflandi og -hvetjandi umhverfis hér í Mosfellsbæ.
Við vonum að þið eigið dásamlegt sumar og hlökkum svo sannarlega til að halda vegferðinni áfram í haust í samvinnu við ykkur frábæru Mosfellingar. Njótum sumarsins saman!

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og
verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ