Með gleði inn í sumarið!
Þá er sumarið gengið í garð og um að gera að njóta þess til fullnustu með þeim sem okkur þykir vænst um.
Hreyfivika UMFÍ
Það er óhætt að segja að Mosfellsbær hafi verið á iði síðustu vikurnar og viljum við þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu ævintýri með okkur. Kettlebells, Lágafellssókn, Hestamannafélagið Hörður, World Class, Elding líkamsrækt, Afturelding, Golfklúbbur Mosfellsbæjar, Mosó skokk og Ferðafélag Íslands – bestu þakkir fyrir að opna allar dyr og/eða standa fyrir viðburðum sem gerðu okkur hinum kleift að prófa og njóta.
Við viljum sömuleiðis þakka ykkur öllum sem tókuð þátt, þið öll gerðuð þessa viku frábæra og lögðuð svo sannarlega ykkar lóð á vogarskálarnar til að efla eigin heilsu og skapa þá umgjörð sem hvetur aðra til gera slíkt hið sama – TAKK!
Gulrótin 2017
Það var hátíðleg stund þegar Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri, afhenti Svövu Ýr Baldvinsdóttur Gulrótina 2017 á Heilsudagsmálþinginu í FMOS í síðustu viku.
Þetta er í fyrsta skipti sem Gulrótin er veitt en hún er ný lýðheilsuviðurkenning sem ætlað er að hampa einstaklingi, hópi, fyrirtæki eða stofnun fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu íbúa Mosfellsbæjar. Heilsuvin og Mosfellsbær standa að baki viðurkenningunni sem felur í sér þakklæti fyrir frumkvæði og störf í anda lýðheilsu og á jafnframt að vera hvatning til allra á þessum vettvangi í bæjarfélaginu.
Svava Ýr er svo sannarlega vel að þessari viðurkenningu komin en hún hefur til áratuga unnið ötullega að lýðheilsu og heilsueflingu allra aldurshópa í Mosfellsbæ. Hún hefur virkjað marga í íþróttum, m.a. sem handboltaþjálfari og umsjónarmanneskja Morgunhananna, ásamt því að kenna, fræða og byggja upp stóra hópa með heilsueflingu að leiðarljósi. Svava Ýr er ekki hvað síst þekkt fyrir að starfrækja Íþróttaskóla barnanna hjá Aftureldingu en hún hefur rekið hann í heil 25 ár. Við óskum henni hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna!
Eins og sést þá hefur verið heilmikið um að vera í heilsubænum okkar nú á vordögum og við erum hvergi nærri hætt þótt skipulagðir viðburðir verði í lágmarki í sumar. Svo þið missið ekki af neinu þá hvetjum við ykkur eindregið til að fylgjast með á fésbókarsíðunni okkar „Heilsueflandi samfélag Mosfellsbæ“ en þar birtum við ýmislegt bæði skemmtilegt og praktískt til efla heilsu og auðga andann.
Förum með gleði inn í sumarið!
Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ