Aðstaða fyrir alla Mosfellinga

Gunnar Ingi Björnsson

Gunnar Ingi Björnsson

Nú höfum við hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar tekið í notkun nýja aðstöðu við Hlíðavöll sem við höfum ákveðið að skíra Klett.
Um gríðarlega lyftistöng er að ræða fyrir GM sem mun skipta sköpum í rekstri og uppbyggingu klúbbsins til framtíðar.

Við hönnun hússins og lóðar höfum við horft til þess að gera sem flestum kleift að nýta húsið og aðstöðuna. Þó svo að húsið sé vissulega aðstaða kylfinga er það einnig aðstaða sem opin er öllum þeim sem hana vilja nýta. Tenging við stígakerfi Mosfellsbæjar mun þýða að allir sem vilja njóta útivistar á Blikastaðanesi og nágrenni geta nýtt þessa aðstöðu um leið.

Við munum í sumar koma fyrir hjólagrindum og búnaði til að setja loft í dekk og vatni. Þegar neðri hæð hússins verður tilbúin mun þar verða búningsaðstaða sem göngu-, hjóla- eða hlaupahópar geta nýtt sér. Göngu- og hlaupaleiðir út frá húsinu verða kortlagðar og merktar.

Til framtíðar viljum við hjá GM gjarnan sjá þessa aðstöðu einnig verða aðstöðu þeirra sem vilja njóta útivistar og samveru á besta stað í Mosfellsbænum. Okkar framtíðarsýn er að sjá aðstöðu GM í Bakkakoti, Mosfellsdal, fá sambærilegt hlutverk í Mosfellsdalnum. Með þeim hætti verður hægt að bjóða Mosfellingum og gestum að njóta þjónustu við í hvorum enda sveitarfélagsins.

Mosfellsbær er heilsueflandi samfélag. Lykilatriði í góðri heilsu er að stunda heilnæma hreyfingu og útivist. Það er jákvætt að íþróttaaðstaða eins og golfvellir geti verið nýttir til eflingar lýðheilsu og stuðlað að aukinni hreyfingu allra aldurshópa.

Barna- og unglingastarf Golfklúbbsins Kjalar, og nú Golfklúbbs Mosfellsbæjar, er stolt klúbbsins. Við hlökkum mikið til þess að nýta nýja aðstöðu til að efla það til muna enda hefur æfingaaðstaða ungra kylfinga verið afar döpur og staðið okkur fyrir þrifum. En við hlökkum einnig mjög til að bjóða alla Mosfellinga velkomna í heimsókn og sjá hvernig þessi nýja aðstaða getur eflt heilsueflandi samfélag Mosfellinga.

Gunnar Ingi Björnsson, framkvæmdastjóri
Golfklúbbs Mosfellsbæjar