Þegar neikvæðir halda sig jákvæða

Hjördís Bjartmars

Hjördís Bjartmars

Það virðast nánast viðtekin viðbrögð við gagnrýni hér á landi, að menn (og konur!) tala um að verið sé að tala hlutina niður. Og hefur verið áberandi í stjórnmálaumræðu landsins eins og kunnugt er.
Það eru þó nokkur öfugmæli að tala um stjórnmálaumræðu í því samhengi, því í þannig svari felst engin umræða heldur einungis tilraun til þöggunar.

Umræðan í Mosfellsbæ er þar engin undantekning. Fyrirspurnum þeirra sem vinna að bæjarmálum hér hefur margoft verið svarað með þessum hætti. Þegar bent er á að eitthvað megi betur fara t.d. varðandi störf bæjarstjórnar og stöðu umhverfis- eða skólamála, svo dæmi séu tekin, eru ekki veitt málefnaleg svör. Heldur er viðbáran sú, að ekki eigi að tala hlutina niður og menn verði að vera uppbyggilegir! Jákvæðir! Og bjartsýnir!

Það er gott að hafa jákvæðni að leiðarljósi og ekki skemmir að bera virðingu fyrir öðrum. Það felst þó hvorki jákvæðni eða virðing í að svara gagnrýni annarra með þessum hætti. Uppbyggileg gagnrýni annars vegar, og neikvæðni hins vegar, eru alls ekki sami hluturinn, eins og þessir einstaklingar virðast halda.

Málefnalegur ágreiningur er eðlilegur og ekkert við honum að segja. Menn geta rifist, blótað hver öðrum og stundum óvart viðhaft óheppilega orðanotkun. En það sem raunverulega skiptir máli er staða fólks í samfélaginu. Við hljótum að gera þá kröfu til þeirra sem kosnir eru til starfa fyrir bæjarfélagið eða þeirra sem vinna að skólamálum eða öðrum samfélagsmálum að þeir veiti greinargóð og heiðarleg svör, en reyni ekki að þagga umræðuna niður með því að segja viðmælandanum að hann sé bara leiðinlegur, neikvæður, fúll og þar með ekki svara verður.

Þannig viðbrögð skila sér beint aftur til föðurhúsanna. Jákvæðni eða virðing gagnvart viðmælanda sem fær þannig svar er nefnilega nákvæmlega engin.

Hjördís Bjartmars er læknisfræðilegur teiknari, kennari og formaður Íbúahreyfingarinnar